Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1714/2023

Nr. 1714/2023 29. desember 2023

SKIPULAGSSKRÁ
fyrir Glætuna.

1. gr.

Heiti.

Sjálfseignarstofnunin heitir Glætan og starfar samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá nr. 19/1988. Stofnunin stundar ekki atvinnurekstur.

 

2. gr.

Heimilisfang.

Heimilisfang stofnunarinnar er í Reykjavík.

 

3. gr.

Markmið.

Markmið stofnunarinnar er að vernda og styrkja tjáningarfrelsi á Íslandi, einkum með því að hvetja til og styrkja fréttaflutning og miðlun upplýsinga, skoðana og hugmynda í gegnum fjölmiðla. Áherslur stofnunarinnar eru að styðja við samfélagslega mikilvæga blaðamennsku, sem hefur að markmiði að upplýsa, veita aðhald og setja í samhengi mál sem varða almenning eða samfélagið í heild.

Einungis skal ráðstafa fjármunum stofnunarinnar í þágu ofangreindra markmiða, með styrkjum til einstakra verkefna; rannsókna, útgáfu og framleiðslu frétta í rúmum skilningi. Þess skal gætt að þau verkefni sem stofnunin styrkir séu unnin í samræmi við góða blaðamennskuhætti og siðareglur Blaðamannafélags Íslands.

Stjórn stofnunarinnar tekur á móti umsóknum um styrki. Stjórn stofnunarinnar tekur ákvörðun um það hvaða aðilar hljóta styrki í samræmi við markmið stofnunarinnar. Stjórnarmanni skal óheimilt að taka þátt í afgreiðslu styrkumsóknar eigi hann sjálfur hagsmuni af úthlutun. Sé starfrækt úthlutunar­nefnd, sbr. 2. mgr. 8. gr. skipulagsskrár þessarar, skal stjórn stofnunarinnar taka mið af tilnefningu úthlutunarnefndar, en tilnefning úthlutunarnefndar er þó ekki bindandi. Fyrsta úthlutun fer ekki fram fyrr en hrein eign stofnunarinnar nemur kr. 50.000.000 og skal sú fjárhæð vera óskerðan­leg.

 

4. gr.

Stofnandi.

Stofnandi sjálfseignarstofnunarinnar er:

Blaðamannafélag Íslands, kt. 690372-0109.

 

5. gr.

Stofnfé.

Stofnfé stofnunarinnar er kr. 1.480.000, sem er lagt fram af stofnanda skv. 4. gr. Stofnfé er óskerðan­legt. Stofnuninni er heimilt að taka við framlögum sem henni berast.

Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum og öðrum þeim verð­mætum er hún kann að eignast síðar. Stofnendur hafa engin sérréttindi í stofnuninni.

 

6. gr.

Stjórn.

Stjórn stofnunarinnar skal skipuð fimm mönnum. Hver stjórnarmaður skal kjörinn til tveggja ára. Stjórn Blaðamannafélags Íslands skal tilnefna þrjá stjórnarmenn sem allir skulu hafa reynslu af eða þekkingu á blaðamennsku. Tveir stjórnarmenn skulu kosnir af fráfarandi stjórn og við val þeirra skal einfaldur meirihluti ráða. Ávallt skal einn hinna tilnefndu stjórnarmanna hafa reynslu og þekk­ingu af fjármálum. Fyrsta stjórn stofnunarinnar skal kjörin á stofnfundi af stofnanda skv. 4. gr.

Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum formanns, ritara, gjaldkera og meðstjórnenda. Stjórnin stýrir öllum málefnum stofnunarinnar og kemur fram út á við fyrir hönd hennar. Stjórnin skal sjá til þess að skipulag og starfsemi hennar sé jafnan í réttu og góðu horfi. Undirskriftir meirihluta stjórnar skuld­binda stofnunina. Stjórn stofnunarinnar getur veitt prókúruumboð fyrir stofnunina.

Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Mikilvæga ákvörðun, svo sem um úthlutun styrkja, má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið, sé þess nokkur kostur. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Halda skal fundargerðabók um það sem gerist á stjórnarfundum.

 

7. gr.

Fundarboðun.

Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda. Hver stjórnarmaður getur krafist stjórnarfundar. Sama rétt á framkvæmdastjóri, sé hann ráðinn. Stjórninni er heimilt að setja sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa hennar.

 

8. gr.

Aðrar stjórnareiningar.

Stjórn stofnunarinnar er heimilt að ráða framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóri á rétt til setu á stjórnarfundum enda þótt hann sé ekki stjórnarmaður, en fer þó ekki með atkvæðisrétt. Fram­kvæmda­stjóra ber að veita stjórnarmönnum og endurskoðendum allar upplýsingar um rekstur stofnunarinnar sem þeir óska eftir og veita ber samkvæmt lögum.

Stjórn er heimilt að skipa úthlutunarnefnd sem er stjórn til ráðgjafar um úthlutun styrkja. Þá skal stjórn setja stofnuninni úthlutunarreglur sem samræmast skulu markmiðum stofnunarinnar sam­kvæmt 3. gr.

 

9. gr.

Endurskoðendur.

Stjórn stofnunarinnar skal velja einn eða fleiri löggilta endurskoðendur/skoðunarmenn til að endur­skoða reikninga stofnunarinnar fyrir hvert starfsár. Endurskoðendur má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna.

 

10. gr.

Reikningsárið.

Starfsár og reikningsár stofnunarinnar skal vera almanaksárið. Stjórnin skal hafa lokið gerð árs­reiknings og lagt hann fyrir endurskoðendur eigi síðar en 30. júní ár hvert. Fyrsta reiknings­tímabil stofnunarinnar er frá stofnun og til næstu áramóta.

 

11. gr.

Breyting skipulagsskrár, sameining og niðurlagning.

Til að breyta skipulagsskrá þessari, sameina stofnunina annarri sjálfseignarstofnun eða leggja hana niður, þarf samþykki allra stjórnarmanna stofnunarinnar. Slíkt skal svo borið skriflega undir embætti sýslumannsins á Norðurlandi vestra. Komi til niðurlagningar stofnunarinnar skal hreinni eign hennar varið til markmiðanna sem greint er frá í 3. gr. eða skyldra markmiða.

 

12. gr.

Staðfesting sýslumanns.

Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Norðurlandi vestra á skipulagsskrá þessari.

 

Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa sam­kvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988.

 

F.h. sýslumannsins á Norðurlandi vestra, 29. desember 2023,

 

Björn Hrafnkelsson.

Auður Steingrímsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 19. janúar 2024