Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 61/2023

Nr. 61/2023 21. júní 2023

LÖG
um breytingu á lögum á sviði íþrótta- og æskulýðsstarfs (hlutverk samskiptaráðgjafa, öflun upplýsinga o.fl.).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

I. KAFLI

Breyting á lögum um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, nr. 45/2019.

1. gr.

    Á eftir 2. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi, og breytist röð annarra töluliða samkvæmt því: Afla upplýsinga vegna mála einstaklinga sem til hans leita þar sem greint er frá að viðkomandi hafi orðið fyrir atvikum eða misgerðum í tengslum við starfsemi sem fellur undir gildissvið laga þessara og að greiða leið slíkra mála, svo sem með útgáfu ráðgefandi álita til viðeigandi aðila.

 

2. gr.

    Við 6. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

    Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs er heimil vinnsla persónuupplýsinga sem nauðsyn­leg er til að hann geti sinnt hlutverki sínu á grundvelli laga þessara. Heimild þessi tekur til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga og annarra upplýsinga viðkvæms eðlis, þ.m.t. heilsufars­upplýsinga og upplýsinga um félagslegar aðstæður einstaklinga, svo og upplýsinga um refsiverða háttsemi og ætlaða refsiverða háttsemi.

    Að því marki sem nauðsynlegt er fyrir framkvæmd laga þessara er samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs heimilt að miðla upplýsingum til þeirra aðila sem falla undir gildissvið laganna. Heimild þessi tekur til miðlunar viðkvæmra persónuupplýsinga og annarra upplýsinga viðkvæms eðlis, þ.m.t. heilsufarsupplýsinga og upplýsinga um félagslegar aðstæður einstaklinga, svo og upp­lýsinga um refsiverða háttsemi og ætlaða refsiverða háttsemi.

 

3. gr.

    Við 1. mgr. 7. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs er bundinn þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga.

 

4. gr.

    Við 1. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í reglugerðinni skal jafnframt fjallað um fræðslu um vinnslu og miðlun persónuupplýsinga.

 

II. KAFLI

Breyting á íþróttalögum, nr. 64/1998.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:

  1. Á eftir orðunum „XXII. kafla“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 211. eða 218. gr.
  2. 2. mgr. orðast svo:
        Stjórnendur þeirra aðila sem falla undir lög þessi og sinna íþróttastarfi barna og ung­menna undir 18 ára aldri eiga rétt til upplýsinga úr sakaskrá um það hvort tiltekinn umsækjandi um starf á þeirra vegum hefur hlotið dóm vegna brota sem 1. mgr. tekur til, að fengnu samþykki hans. Á þetta einnig við um upplýsingar um þá sem falin er umsjón með börnum og ungmennum undir 18 ára aldri á grundvelli sjálfboðaliðastarfs.

 

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

Gjört á Bessastöðum, 21. júní 2023.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Ásmundur Daðason.


A deild - Útgáfud.: 6. júlí 2023