1. gr. Auglýsing þessi gildir um innflutning á tilteknu fersku og frosnu grænmeti sem er upprunnið í Taílandi. 2. gr. Auglýsingunni er ætlað að tryggja að örverumenguð matvæli sem talin eru upp í 3. gr. séu ekki til dreifingar hér á landi. 3. gr. Óheimilt er að flytja til landsins eftirtalið grænmeti, ferskt eða frosið: Kryddjurtir sem falla undir tollflokka nr. 0709.9009, 0710.8009, 1211.9001, 1211.9002 og 1211.9009. Baunir sem falla undir tollflokk nr. 0708. Lauf, svo sem bananalauf og bambuslauf sem fellur undir tollflokka nr. 1401.1000 og 1401.9000. Rætur sem falla undir tollflokka nr. 0706.9009, 1211.9001 og 1212.9009. Asparagus sem fellur undir tollflokk nr. 0709.2000 og 0710.8009. Þrátt fyrir ofangreint skal innflutningur heimill ef innflytjandi framvísar vottorði frá faggiltri rannsóknastofu til Matvælastofnunar um að varan innihaldi ekki Salmonella og örveruástand hennar sé að öðru leyti ásættanlegt. 4. gr. Ef matvæli sem talin eru upp í 3. gr. eru á markaði hér á landi við gildistöku auglýsingarinnar er eftirlitsaðila heimilt að gera kröfu um að innflytjandi vörunnar leggi fram rannsóknavottorð frá faggiltri rannsóknastofu um að hún innihaldi ekki Salmonella og að örveruástand hennar sé að öðru leyti ásættanlegt. Geti innflytjandi ekki lagt fram slíkt vottorð skulu matvælin tekin af markaði. 5. gr. Matvælastofnun fer með eftirlit með því að farið sé að ákvæðum þessarar auglýsingar. 6. gr. Um valdsvið, þvingunarúrræði og viðurlög fer samkvæmt ákvæðum laga um matvæli nr. 93/1995, með síðari breytingum. 7. gr. Auglýsing þessi er sett með stoð í 28. og 29. gr., sbr. 18. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum. Auglýsingin öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi auglýsing, nr. 593/2008 um tímabundna takmörkun á innflutningi á tilteknu fersku og frosnu grænmeti sem er upprunnið í Taílandi. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 28. október 2009. F. h. r. Sigurgeir Þorgeirsson. Baldur P. Erlingsson. |