Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 83/2015

Nr. 83/2015 10. júlí 2015

LÖG
um framkvæmd samnings um klasasprengjur.

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

1. gr.

Bann við klasasprengjum.

    Enginn má nota, þróa, framleiða, verða sér úti um með öðrum hætti, safna birgðum af, varðveita eða flytja klasasprengjur þannig að það stríði gegn ákvæðum samnings um klasasprengjur frá 30. maí 2008.

2. gr.

Viðurlög.

    Brot gegn lögum þessum og reglum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Nú er brotið ítrekað eða stórfellt og getur refsing þá orðið fangelsi allt að fjórum árum.
    Hafi brot verið framið af stórfelldu gáleysi varðar það sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum.
    Þegar brot er framið í starfsemi lögaðila og í þágu hans má gera honum sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðilans. Hafi fyrirsvarsmaður eða starfsmaður gerst sekur um brot má samhliða ákvörðun um refsingu þeirra gera lögaðilanum sekt ef brotið var í þágu hans.
    Gera má upptæka hluti, samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga, sem hafa verið notaðir við brot, hafa orðið til við brot eða með öðrum hætti tengjast framningu brots. Þá má gera upptækan ávinning af broti eða fjárhæð sem svarar til hans í heild eða að hluta.
    Tilraun eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð samkvæmt almennum hegningarlögum.

3. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi taka til íslenskra ríkisborgara og útlendinga samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um refsilögsögu en gera að auki íslenskum ríkisborgurum refsiábyrgð fyrir verknað sem þeir fremja erlendis þrátt fyrir að verknaðurinn sé ekki refsiverður samkvæmt lögum þess ríkis þar sem brotið var framið.
    Lögin gilda gagnvart lögaðilum sem eru skráðir eða stofnaðir samkvæmt íslenskum lögum, hvar sem þeir starfa eða eru staðsettir. Nú er lögaðili skráður eða stofnaður erlendis og taka þá lögin til starfsemi hans að því leyti sem hún fer fram innan íslenskrar lögsögu.
    Lög þessi gilda ekki um jarðsprengjur.

4. gr.

Nánari reglur.

    Ríkisstjórninni er heimilt að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um klasasprengjur frá 30. maí 2008 sem prentaður er sem fylgiskjal með lögum þessum.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

5. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Gjört á Bessastöðum, 10. júlí 2015.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Gunnar Bragi Sveinsson.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


A deild - Útgáfud.: 22. júlí 2015