Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 93/2019

Nr. 93/2019 1. júlí 2019

LÖG
um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum um matvæli og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru (innflutningur búfjárafurða).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

I. KAFLI

Breyting á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim,
nr. 25/1993, með síðari breytingum.

1. gr.

    Á eftir orðinu „landinu“ í c-lið 1. gr. laganna kemur: eða sem fluttar eru til landsins.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 10. gr. laganna:

  1. Orðin „hráar og lítt saltaðar sláturafurðir, bæði unnar og óunnar, hrá egg“ í a-lið falla brott.
  2. Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: hráar og lítt saltaðar sláturafurðir, bæði unnar og óunnar, hrá egg, ógerilsneydda mjólk og mjólkurafurðir sem eru upprunnar í ríkjum sem ekki eru samningsaðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða í Sviss, á Græn­landi eða í Færeyjum.
        Ráðherra er heimilt með reglugerð að fela Matvælastofnun að leyfa innflutning á þessum vörum og setja þau skilyrði sem nauðsynleg eru til að tryggja að búfé stafi ekki hætta af slíkum inn­flutningi.

3. gr.

    Við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

    Ráðherra er heimilt að fyrirskipa hverjar þær ráðstafanir sem kveðið er á um í 8. gr. til að hefta útbreiðslu sýklalyfjaónæmra bakteríustofna. Ráðherra er jafnframt heimilt að setja reglugerð í þessu skyni.

4. gr.

    Á eftir 29. gr. a laganna kemur ný grein, 29. gr. b, svohljóðandi:

    Ráðherra er heimilt að vísa til erlendrar frumútgáfu reglugerða við innleiðingu reglugerða Evrópu­sambandsins sem teknar eru upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með einfald­aðri málsmeðferð. Birta skal erlendu frumútgáfuna í C-deild Stjórnartíðinda.

II. KAFLI

Breyting á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum.

5. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnframt skal tryggja að Ísland verði í fararbroddi í aðgerðum til að koma í veg fyrir útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería með matvælum og koma í veg fyrir að nýir smitsjúkdómar og ákveðnar tegundir sýklalyfjaónæmra baktería berist til landsins.

6. gr.

    Við 8. gr. a laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

    Óheimilt er að dreifa ómeðhöndluðum sláturafurðum alifugla á markaði nema sýnt sé fram á gagnvart opinberum eftirlitsaðilum að staðfest hafi verið með sýnatöku á eldistíma eða við slátrun að ekki hafi greinst kampýlóbakter í fuglunum. Nánar skal skilgreina í reglugerð hvað felst í með­höndlun í skilningi ákvæðisins. Stjórnandi matvælafyrirtækis, sbr. 8. gr. b, skal leggja fram vott­orð um niðurstöðu sýnatöku þess efnis að ekki hafi greinst kampýlóbakter í fuglunum á eldis­tímanum eða við slátrun eða sönnur fyrir viðeigandi meðferð sláturafurðanna sem leiðir til þess að magn kampýlóbakters minnki verulega eða hverfi. Ráðherra skal kveða nánar á um skilyrði sam­kvæmt ákvæði þessu í reglugerð.

    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um ráðstafanir í frumframleiðslu og dreifingu mat­væla í því skyni að hefta útbreiðslu sýklalyfjaónæmra bakteríustofna.

7. gr.

    Við 22. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

    Að fenginni tillögu Matvælastofnunar er ráðherra heimilt að fela stofnuninni að annast fram­kvæmd sýnatöku hjá matvælafyrirtækjum, sbr. 4. gr.

8. gr.

    Í stað 1. málsl. 1. mgr. 27. gr. a laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Mat­væla­stofnun er heimil skyndiskoðun og sýnataka til rannsókna á búfjár- og sjávarafurðum sem fluttar eru til Íslands frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Henni er jafnframt heimilt að annast eftir­lit þegar rökstuddur grunur er um að matvæli séu heilsuspillandi eða óhæf til neyslu eða geti valdið dýrasjúkdómum.

9. gr.

    Á undan 31. gr. laganna kemur ný grein, 30. gr. f, svohljóðandi:

    Opinberir eftirlitsaðilar geta lagt stjórnvaldssektir á matvælafyrirtæki sem brýtur gegn 6. mgr. 8. gr. a og reglugerðum og reglum sem settar eru á grundvelli laga þessara.

    Við ákvörðun stjórnvaldssekta skal tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t. eftirfarandi:

  1. alvarleika brots,
  2. hugsanlegra skaðlegra áhrifa brots á neytendur,
  3. hvað brotið hefur staðið yfir lengi,
  4. ávinnings matvælafyrirtækis af brotinu,
  5. stærðar og veltu matvælafyrirtækis,
  6. fyrri brota og hvort um ítrekað brot er að ræða.

    Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á matvælafyrirtæki, sbr. 4. gr., geta numið frá 25 þús. kr. til 25 millj. kr. Við ákvörðun sektarfjárhæðar skal líta til þess hvort um sé að ræða brot af ásetningi eða gáleysi. Ákvörðun um stjórnvaldssekt samkvæmt þessari grein er aðfararhæf og skulu sektirnar renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Sé stjórnvaldssekt ekki greidd innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga. Um ákvörðun og útreikning dráttar­vaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu. Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lög­brot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

10. gr.

    Við 31. gr. a laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

    Ráðherra er heimilt að vísa til erlendrar frumútgáfu reglugerða við innleiðingu reglugerða Evrópu­sambandsins sem teknar eru upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ein­fald­aðri málsmeðferð. Birta skal erlendu frumútgáfuna í C-deild Stjórnartíðinda.

III. KAFLI

Breyting á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru,
nr. 22/1994, með síðari breytingum.

11. gr.

    Við 7. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

    Ráðherra er heimilt að vísa til erlendrar frumútgáfu reglugerða við innleiðingu reglugerða Evrópu­sambandsins sem teknar eru upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ein­faldaðri málsmeðferð. Birta skal erlendu frumútgáfuna í C-deild Stjórnartíðinda.

    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um ráðstafanir í framleiðslu og dreifingu fóðurs í því skyni að hefta útbreiðslu sýklalyfjaónæmra bakteríustofna.

12. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020 nema 4., 10. og 11. gr. sem öðlast þegar gildi.

Gjört á Bessastöðum, 1. júlí 2019.

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Kristján Þór Júlíusson.


A deild - Útgáfud.: 15. júlí 2019