Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1366/2019

Nr. 1366/2019 20. desember 2019

SAMÞYKKT
um meðhöndlun úrgangs í Grímsnes- og Grafningshreppi.

1. gr.

Gildissvið.

Samþykkt þessi gildir um meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. hirðu, söfnun og förgun úrgangs, í Gríms­nes‑ og Grafningshreppi.

Um meðhöndlun úrgangs í Grímsnes- og Grafningshreppi fer samkvæmt þessari samþykkt, lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglu­gerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs og öðrum reglugerðum settum með stoð í framan­­greindum lögum.

2. gr.

Markmið.

Markmið samþykktarinnar er:

  1. að lágmarka það úrgangsmagn sem fer til förgunar með því að auka endurvinnslu og endur­nýtingu úrgangs,
  2. að lágmarka kostnað samfélagsins við meðhöndlun úrgangs,
  3. að kostnaður vegna úrgangs greiðist af þeim sem úrganginum veldur.

3. gr.

Skilgreiningar.

Aðkomustaður: Svæði sem söfnunartæki á auðvelt með að komast að til að athafna sig við söfnun úrgangs úr ílátum viðkomandi íbúðarhúsnæðis. Sé aðgengi eða heimreið að íbúðarhúsi ekki aksturs­hæf færist aðkomustaður söfnunartækis í samræmi við það.

Annar úrgangur: Annar úrgangur en sá sem flokkast sem heimilisúrgangur eða rekstrar­úrgangur.

Blátunna: Ílát, með bláu loki, undir endurvinnanlegan heimilisúrgang, annan en garðaúrgang og timbur. Sveitarfélagið auglýsir sérstaklega hvaða úrgang má setja í blátunnu.

Brúntunna: Ílát, með brúnu loki, undir lífrænan heimilisúrgang. Sveitarfélagið auglýsir sérstak­lega hvaða úrgang má setja í brúntunnu.

Grátunna: Ílát, með gráu loki, undir annan heimilisúrgang en þann sem flokkast í blátunnu, brún­tunnu eða græntunnu, þó ekki garðaúrgang, timbur eða spilliefni.

Grunneining: Samsetning fjögurra íláta: blátunnu, brúntunnu, grátunnu og græntunnu.

Græntunna: Ílát, með grænu loki, undir endurvinnanlegan heimilisúrgang, annan en garða­úrgang og timbur. Sveitarfélagið auglýsir sérstaklega hvaða úrgang má setja í græntunnu.

Heimilisúrgangur: Úrgangur frá heimilum, t.d. matarleifar, pappír, pappi, plast, garðaúrgangur, gler, timbur, málmar og sams konar leifar frá rekstraraðilum o.þ.h.

Húsráðandi: Eigandi eða umráðandi viðkomandi fasteignar.

Ílát: Móttökuílát undir úrgang. Ílát til heimilisnota eru í stærðunum 120 l, 240 l, 660 l og 1.100 l. Önnur ílát eru opnir eða lokaðir gámar í stærðum frá 2 m³ upp í 36 m³.

Meðhöndlun úrgangs: Söfnun, geymsla, böggun, flokkun, flutningur, endurnotkun, endur­nýting, pökkun og förgun úrgangs, þ.m.t. eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunarstöðum eftir að þeim hefur verið lokað.

Rekstraraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á viðkomandi atvinnurekstri.

Rekstrarúrgangur: Úrgangur frá framleiðslu, þjónustu, verslun og öðrum rekstri, annar en heimilis­úrgangur.

Spilliefni: Úrgangur sem inniheldur efni sem haft geta mengandi eða óæskileg áhrif á umhverfið hvort sem þau eru óblönduð eða hluti af öðrum efnum, vörum eða umbúðum sem komist hafa í snertingu við spilliefni og skráð eru á lista í reglugerð um úrgang, sbr. 43. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

Söfnunarleið: Vegur sem söfnunartæki ekur til þess að safna úrgangi.

Söfnunarstöð (gámastöð): Staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi frá almenningi og/eða smærri fyrirtækjum. Þaðan fer hann til endurnotkunar, endurnýtingar eða er fluttur til móttöku­stöðvar.

Söfnunartæki: Ökutæki sem notað er til söfnunar úrgangs úr ílátum.

Þjónustuaðili: Einstaklingur eða lögaðili, annar en þjónustuverktaki, sem hefur starfsleyfi til söfn­unar og meðhöndlunar úrgangs.

Þjónustuverktaki: Einstaklingur eða lögaðili sem sveitarstjórn hefur falið framkvæmd á til­teknum þáttum meðhöndlunar úrgangs.

4. gr.

Fyrirkomulag sorphirðu.

Meðhöndlun úrgangs fer fram undir yfirstjórn sveitarstjórnar og er háð eftirliti heilbrigðis­nefndar Suðurlands eða Umhverfisstofnunar eftir því sem við á í samræmi við 4. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Söfnun úrgangs frá íbúðarhúsnæði fer fram í samræmi við útgefið sorphirðu­dagatal, en söfnun frá frístundahúsnæði og atvinnuhúsnæði fer fram að höfðu sam­ráði við eig­endur, umráðamenn eða hagsmuna­samtök.

Sveitarstjórn er heimilt að fela öðrum framkvæmd með tilteknum þáttum meðhöndlunar úrgangs. Viðkomandi skal hafa starfsleyfi heilbrigðisnefndar eða Umhverfisstofnunar eftir því sem við á.

5. gr.

Skyldur íbúa, húsráðenda, rekstraraðila og landeigenda.

Íbúum, húsráðendum, rekstraraðilum og landeigendum í sveitarfélaginu ber að fara eftir þeim reglum sem sveitarfélagið setur um meðhöndlun úrgangs. Úrgang sem samþykktin nær til má einungis meðhöndla í samræmi við gildandi lög, reglugerðir og kröfur sveitarfélagsins.

Sérhverjum húsráðanda í sveitarfélaginu, hvort sem um er að ræða húsráðanda íbúðar-, frí­stunda- eða atvinnuhúsnæðis, er skylt að endurnota eða flokka og endurnýta úrgang eins og kostur er, hvort sem slíkum úrgangi er safnað við húsnæði skv. 6.-8. gr. eða skilað til söfnunarstöðvar skv. 10. gr.

Setja skal allan úrgang sem safnað er við húsnæði í viðeigandi ílát, sbr. 6.-8. gr. Að öðrum kosti er þjónustuverktaka og þjónustuaðila heimilt að skilja hann eftir.

Flokkaður úrgangur skal meðhöndlaður þannig að hann blandist ekki öðrum úrgangsflokkum. Flokkaðan úrgang skal geyma og meðhöndla þannig að gæði hans við væntanlega endurnýtingu skerðist sem minnst.

Úrgang sem getur fokið skal geyma þannig að hann fjúki ekki.

Meðhöndlun úrgangs má ekki valda lyktaróþægindum, draga til sín meindýr eða skapa hrein­lætis­vandamál.

Óheimilt er að skilja eftir eða geyma rusl, garðaúrgang eða annan úrgang á víðavangi, götum, gang­­stígum, við sorpgáma eða á opnum svæðum í sveitarfélaginu. Sama á við um númerslausar bifreiðar, vélar, báta og önnur tæki.

Glerbrotum og öðrum oddhvössum hlutum, sem hætta er á að skaði þá sem meðhöndla úrgang eða sorpílát, skal pakkað inn eða gengið frá þeim á annan tryggilegan hátt.

6. gr.

Söfnun úrgangs frá íbúðarhúsnæði.

Öll íbúðarhús í sveitarfélaginu skulu búin grunneiningu íláta sem sveitarfélagið leggur til. Stærð grunneiningar er 240 l blátunna, 240 l brúntunna, 240 l grátunna og 240 l græntunna. Í þessi ílát má aðeins setja heimilisúrgang, en þó ekki garðaúrgang og timbur. Óheimilt er að setja spilliefni í ílátin.

Sé fyrirséð að ílátin yfirfyllist getur húsráðandi óskað eftir stærri eða fleiri ílátum. Einnig getur hann farið með umframmagn heimilisúrgangs á söfnunarstöð sveitarfélagsins, sbr. 10. gr. Staðsetn­ing íláta má að hámarki vera 20 m frá aðkomustað söfnunartækis við íbúðarhúsnæði. Húsráðandi skal gæta þess að ílát séu hrein, vel við haldið og að ekki sé hætta á að þau fjúki. Festingar íláta mega ekki hamla losun þeirra. Gott aðgengi skal vera að ílátunum og skal húsráðandi moka snjó frá þeim ef þörf krefur vegna söfnunar.

Garðaúrgangi, timbri, spilliefnum og öðrum úrgangi frá íbúðarhúsnæði skal skila til söfnunar­stöðvar sveitarfélagsins, sbr. 10. gr. Einnig má semja við þjónustuverktaka um ílát og þjónustu fyrir slíkan úrgang.

7. gr.

Söfnun úrgangs frá frístundahúsnæði.

Húsráðanda frístundahúss er ekki skylt að hafa grunneiningu íláta en getur óskað eftir því að sveitarfélagið leggi hana til á kostnað húsráðanda. Samkomulag um slíka grunneiningu skal gert milli húsráðanda frístundahúsnæðis og þjónustuverktaka. Stærð grunneiningar er 240 l blátunna, 240 l brúntunna, 240 l grátunna og 240 l græntunna. Húsráðendum frístundahúsa er skylt að flokka úrgang í samræmi við ákvæði 2. mgr. 5. gr. og er heimilt að sameinast um ílát. Í þessi ílát má aðeins setja heimilisúrgang, en þó ekki garðaúrgang eða timbur. Óheimilt er að setja spilliefni í ílátin. Sé fyrirséð að ílátin yfirfyllist getur húsráðandi óskað eftir stærri eða fleiri ílátum. Einnig getur hann farið með umframmagn heimilisúrgangs á söfnunarstöð sveitarfélagsins, sbr. 10. gr. Húsráðandi frístundahúss sem ekki hefur grunneiningu íláta skal skila heimilisúrgangi til söfn­unar­stöðvar sveitar­félagsins, sbr. 10. gr.

Staðsetning íláta má að hámarki vera 200 m frá söfnunarleið söfnunartækis. Aðgengi að ílátum skal henta söfnunartækjum og skal húsráðandi gæta þess að ílát séu hrein, vel við haldið og að ekki sé hætta á að þau fjúki. Festingar íláta mega ekki hamla losun þeirra. Gott aðgengi skal vera að ílátunum og skal húsráðandi moka snjó frá þeim ef þörf krefur vegna söfnunar.

Garðaúrgangi, timbri, spilliefnum og öðrum úrgangi frá frístundahúsnæði skal skila til söfnunar­stöðvar sveitarfélagsins, sbr. 10. gr. Einnig má semja við þjónustuverktaka um ílát og þjónustu fyrir slíkan úrgang.

8. gr.

Söfnun úrgangs frá atvinnuhúsnæði.

Rekstraraðila er ekki skylt að hafa grunneiningu íláta en getur óskað eftir því að sveitarfélagið leggi hana til á kostnað rekstraraðila. Samkomulag um slíka grunneiningu skal gert milli rekstraraðila annars vegar og þjónustuverktaka eða þjónustuaðila hins vegar. Stærð grunneiningar er 240 l blátunna, 240 l brúntunna, 240 l grátunna og 240 l græntunna. Rekstraraðila er skylt að flokka úrgang í samræmi við ákvæði 2. mgr. 5. gr. Í ílátin má aðeins setja heimilisúrgang, en þó ekki garðaúrgang eða timbur. Óheimilt er að setja spilliefni í ílátin. Sé fyrirséð að ílátin yfirfyllist getur rekstraraðili óskað eftir stærri eða fleiri ílátum. Einnig getur hann farið með umframmagn heimilis­úrgangs á söfnunarstöð sveitar­félagsins, sbr. 10. gr. Rekstraraðili sem ekki hefur grunneiningu íláta skal skila heimilisúrgangi til söfn­unarstöðvar sveitarfélagsins, sbr. 10. gr.

Staðsetning íláta má að hámarki vera 200 m frá söfnunarleið söfnunartækis. Aðgengi að ílátum skal henta söfnunartækjum og skal rekstraraðili gæta þess að ílát séu hrein, vel við haldið og að ekki sé hætta á að þau fjúki. Festingar íláta mega ekki hamla losun þeirra. Gott aðgengi skal vera að ílát­unum og moka skal snjó frá þeim ef þörf krefur vegna söfnunar.

Rekstrarúrgangi, garðaúrgangi, timbri, spilliefnum og öðrum úrgangi frá atvinnustarfsemi skal skila til söfnunarstöðvar sveitarfélagsins skv. 10. gr. eða móttökustöðvar. Einnig má semja við þjón­ustuverktaka eða þjónustuaðila um ílát og þjónustu fyrir slíkan úrgang.

9. gr.

Þjónustuaðilar.

Sveitarstjórn gerir sérstaka samþykkt um samskipti þjónustuaðila og sveitarfélagsins sem fjallar um verklag og tilhögun valkvæðrar þjónustu.

10. gr.

Móttaka úrgangs á söfnunarstöð.

Tekið er á móti úrgangi sem fellur til í sveitarfélaginu á söfnunarstöð. Úrgangur sem skilað er til söfnunarstöðvar skal flokkaður samkvæmt flokkunarreglum sveitarfélagsins. Spilliefni, svo sem úrgangsolía og úrgangsvökvar, skulu aðskilin frá öðrum úrgangsflokkum og uppfylla skilyrði reglu­gerðar nr. 806/1999 um spilliefni.

Í gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs, sbr. 11. gr., eru nánar tilgreindir þeir úrgangsflokkar sem tekið er á móti og það gjald sem tekið er fyrir móttöku og meðhöndlun hvers flokks um sig. Slík gjöld skulu innheimt við móttöku annarra úrgangsflokka en almenns heimilisúrgangs sem safnað er af sveitarfélaginu eða þjónustuverktaka. Heimilt er að undanþiggja gjaldskyldu minni háttar magn tiltekins heimilisúrgangs sem komið er með til söfnunarstöðvar. Ávallt skal tekið gjald fyrir allan rekstrar­úrgang.

Söfnunarstöð er mönnuð og hefur ákveðinn auglýstan afgreiðslutíma.

11. gr.

Gjaldtaka.

Sveitarstjórn innheimtir gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs í samræmi við 1. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Þá er sveitarstjórn heimilt skv. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 að innheimta gjald fyrir tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna, svo sem þróun nýrrar tækni við meðhöndlun úrgangs, rannsóknir, fræðslu og kynningarmál.

Gjöldin skulu ákvörðuð og innheimt samkvæmt gjaldskrá sem sett er skv. 4. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, sbr. einnig 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og meng­unarvarnir.

Gjöld í hverjum flokki skulu vera sem næst meðalraunkostnaði við þá þjónustu sem veitt er, en þó aldrei hærri en sem nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs, veitta þjónustu, framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.

Gjöld skulu lögð á hverja fasteign, frístundahús og rekstraraðila sem nýtur þjónustu samkvæmt þessari samþykkt. Heimilt er að miða gjöld við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila sam­kvæmt mati sveitarfélagsins eða samkomulagi við viðkomandi.

Sveitarfélagið skal láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda og skal í gjaldskránni vísað til þessarar samþykktar.

12. gr.

Kvartanir og kærur.

Kvörtunum vegna meðhöndlunar úrgangs skal komið á framfæri við skrifstofu Grímsnes- og Grafn­ings­hrepps eða Heilbrigðiseftirlit Suðurlands. Stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grund­velli þessarar samþykktar eru kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í sam­ræmi við 1. mgr. 67. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

13. gr.

Viðurlög.

Með brot á samþykkt þessari skal farið samkvæmt ákvæðum 67. og 68. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 68. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

14. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Samþykkt þessi er sett samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, sbr. ákvæði 59. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 36/2010 um meðhöndlun úrgangs í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 20. desember 2019.

F. h. r.

Steinunn Elna Eyjólfsdóttir.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 10. janúar 2020