Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 9/2019

Nr. 9/2019 19. febrúar 2019

LÖG
um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum (flutningur fjármuna, VRA-vottun).

HANDHAFAR VALDS FORSETA ÍSLANDS
   samkvæmt 8. gr. stjórnarskrárinnar
forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar,
gjöra kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og vér staðfest þau með samþykki voru:

1. gr.

    2. mgr. 27. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Á eftir 27. gr. laganna kemur ný grein, 27. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Upplýsingagjöf um flutning fjármuna.

    Innflytjendum, útflytjendum og eftir atvikum tollmiðlurum, ferðamönnum og farmönnum er skylt að gera tollstjóra sérstaklega grein fyrir fjármunum, í reiðufé eða handhafabréfum, þ.m.t. ferða­tékkum, sem fluttir eru til landsins frá útlöndum og frá landinu til útlanda að fjárhæð sem nemur 10.000 evrum eða meira, miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.

    Upplýsingarnar skal veita á því formi sem tollstjóri ákveður.

    Upplýsingaskylda innflytjenda, útflytjenda og tollmiðlara nær til sendinga sem berast til landsins frá útlöndum og sendinga frá landinu til útlanda.

    Upplýsingaskyldan nær til fjármuna sem ferðamenn og farmenn hafa meðferðis til landsins frá útlöndum eða frá landinu til útlanda.

3. gr.

    1. tölul. 2. mgr. 145. gr. a laganna orðast svo: umsækjandi, stjórnendur, stjórnarmenn, starfs­menn sem bera ábyrgð á tollamálum umsækjanda eða umboðsmenn hans hafi ekki á síðustu þremur árum áður en umsókn er lögð fram gerst sekir um alvarleg eða ítrekuð eftirfarandi brot gegn ákvæðum laga eða stjórnvaldsfyrirmæla, hvort sem málinu hefur verið lokið með sakfelli fyrir dómi, annarri ákvörðun um sekt, beitingu stjórnsýsluviðurlaga eða á grundvelli sáttar:

  1. brot gegn ákvæðum laga þessara,
  2. brot gegn ákvæðum annarra laga sem tollstjóra ber að framfylgja,
  3. brot gegn ákvæðum skattalaga,
  4. önnur brot sem hafa verið framin í atvinnustarfsemi umsækjanda og eru til þess fallin að efast megi um að hann ræki hlutverk sitt í alþjóðlegri keðju aðfanga á eðlilegan hátt.

4. gr.

    2. tölul. 1. mgr. 145. gr. b laganna orðast svo: Þegar rökstuddur grunur leikur á að viðurkenndur rekstraraðili, stjórnendur, stjórnarmenn, starfsmenn sem bera ábyrgð á tollamálum umsækjanda eða umboðsmenn hans hafi framið brot sem fellur undir ákvæði 1. tölul. 2. mgr. 145. gr. a og líklegt þykir að mati tollstjóra að viðkomandi muni verða sóttur til sakar eða hafin sé rannsókn og meiri líkur en minni þyki til þess að hann verði beittur stjórnsýsluviðurlögum.

5. gr.

    1. tölul. 1. mgr. 145. gr. c laganna orðast svo: Þegar viðurkenndur rekstraraðili, stjórnendur, stjórnarmenn, starfsmenn sem bera ábyrgð á tollamálum umsækjanda eða umboðsmenn hans hafa gerst sekir um brot sem fellur undir ákvæði 1. tölul. 2. mgr. 145. gr. a.

6. gr.

    Á eftir 145. gr. e laganna kemur ný grein, 145. gr. f, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Vinnsla upplýsinga.

    Til að unnt verði að sannreyna að viðurkenndur rekstraraðili eða umsækjandi um VRA-vottun uppfylli skilyrði 145. gr. a, 145. gr. b og 145. gr. c er tollstjóra heimilt að afla og vinna upplýsingar frá opinberum aðilum, innlendum sem erlendum, um hvort stjórnendur, stjórnarmenn, starfsmenn eða umboðsmenn hafi gerst sekir um brot skv. 1. tölul. 2. mgr. 145. gr. a eða hafi verið ákærðir eða sæti rannsókn skv. 2. tölul. 1. mgr. 145. gr. b. Opinberum aðilum, þar á meðal dómstólum, sýslu­mönnum, lögreglu, handhöfum ákæruvalds, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og stjórn­sýslu­stofnunum sem hafa heimildir til að beita stjórnsýsluviðurlögum, er skylt að veita toll­stjóra upplýsingarnar. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skylduna til þess að veita aðgang að upplýsingum. Áður en upplýsingaöflunin fer fram skal tollstjóri tilkynna viðkomandi stjórn­endum, stjórnarmönnum, starfsmönnum eða umboðsmönnum um hana og vekja jafnframt athygli þeirra á upplýsingaskyldu skv. 2. mgr.

    Leiði upplýsingar sem tollstjóri hefur undir höndum í ljós að umsækjandi um VRA-vottun eða viðurkenndur rekstraraðili uppfyllir ekki skilyrði VRA-vottunar eða tilefni þykir til afturköllunar vottunarinnar er tollstjóra skylt að upplýsa viðkomandi um nánar tilgreindar ástæður þess. Þar á meðal ber tollstjóra að tilkynna umsækjanda um VRA-vottun eða viðurkenndum rekstraraðila um að stjórnendur, stjórnarmenn, starfsmenn sem bera ábyrgð á tollamálum umsækjanda eða umboðs­­menn hafi gerst sekir um brot skv. 1. tölul. 2. mgr. 145. gr. a nema ákvæði laga um með­ferð saka­­mála eða annarra laga þar sem kveðið er á um rannsókn og málsmeðferð vegna brota skv. 1. tölul. 2. mgr. 145. gr. a standi því beinlínis í vegi.

    Listi með heitum og kennitölum viðurkenndra rekstraraðila skal vera öllum aðgengilegur á vef­svæði tollstjóra. Tollstjóri skal við fyrsta tækifæri gera aðilum gagnkvæmra viðurkenn­ingar­samninga grein fyrir veitingu og afturköllun VRA-vottunar.

7. gr.

    1. mgr. 162. gr. laganna orðast svo:

    Flytji innflytjandi, útflytjandi, tollmiðlari, ferðamaður eða farmaður fjármuni skv. 27. gr. a til landsins frá útlöndum eða frá landinu til útlanda er handhöfum tollgæsluvalds heimilt að leggja hald á fjármunina ef grunur leikur á að þeir verði notaðir við framkvæmd brots gegn refsiákvæðum almennra hegningarlaga.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 172. gr. laganna:

  1. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
        Innflytjandi, útflytjandi, tollmiðlari, ferðamaður eða farmaður sem af ásetningi eða stórkost­legu gáleysi lætur hjá líða að gera grein fyrir fjármunaflutningum skv. 27. gr. a, ellegar veitir rangar eða villandi upplýsingar um slíka flutninga, skal sæta sektum.
  2. Í stað orðanna „1. eða 3. mgr.“ í 4. mgr. kemur: 1., 3. eða 4. mgr.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

    Ákvæði 1., 2., 7. og 8. gr. taka þó gildi 1. maí 2019.

Gjört í Reykjavík, 19. febrúar 2019.

Katrín Jakobsdóttir. Steingrímur J. Sigfússon. Þorgeir Örlygsson.
  (L. S.)  

Bjarni Benediktsson.


A deild - Útgáfud.: 21. febrúar 2019