Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 25/2021

Nr. 25/2021 23. apríl 2021

LÖG
um opinberan stuðning við nýsköpun.

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að efla opinberan stuðning við nýsköpun á landinu með sveigjanlegu stuðningskerfi, sterkum tengslum við háskólasamfélag, atvinnulíf og hagaðila og áherslu á ný­sköpun á landsbyggðinni. Markmið laganna er einnig að skýra ábyrgð, einfalda verklag og forgangs­raða opinberum stuðningi og þjónustu við atvinnulífið.

 

2. gr.

Stofnun einkahlutafélags.

    Ráðherra skal stofna einkahlutafélag um rekstur tækniseturs.

    Við stofnun félagsins skal allt hlutafé þess vera í eigu ríkissjóðs.

 

3. gr.

Tilgangur félagsins.

    Tilgangur félagsins er að annast rekstur tækniseturs á sviði hátækni, verkfræði, raunvísinda og skyldra greina.

    Félagið skal vera óhagnaðardrifið og ekki greiða út arð til hluthafa.

    Félagið skal bjóða upp á tæknilega aðstöðu fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki á sviði hátækni, verkfræði, raunvísinda og skyldra greina, þar á meðal aðgang að aðstöðu og sérhæfðum tækja­búnaði, m.a. búnaði til byggingarrannsókna.

    Félagið skal veita viðskiptavinum ráðgjöf og þjónustu og vera heimilt að taka þátt í rannsóknar­verkefnum ef við á.

    Félagið skal hafa yfir að ráða sérhæfðu starfsfólki og vera heimilt að gera hvers konar samninga til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt.

    Tilgangi félagsins skal nánar lýst í samþykktum þess.

 

4. gr.

Forræði á hlutafé ríkisins.

    Sá ráðherra er fer með eignir ríkisins skal fara með hlut ríkisins í félaginu.

 

5. gr.

Stofnhlutafé.

    Ráðherra er heimilt að leggja til félagsins í formi stofnfjár tækjabúnað og annan nauðsynlegan búnað.

 

6. gr.

Stjórn félagsins.

    Stjórn félagsins skal skipuð fimm einstaklingum. Skal val þeirra staðfest á aðalfundi ár hvert.

    Fjöldi varamanna skal ákveðinn í samþykktum félagsins.

 

7. gr.

Frávik frá lögum um einkahlutafélög.

    Ákvæði laga um einkahlutafélög gilda um félagið ef ekki er kveðið á um annað í lögum þessum. Þó gilda ákvæði 2. mgr. 5. gr. laganna ekki um félagið.

    Upplýsingalög gilda um starfsemi félagsins.

 

8. gr.

Samningar ríkisins við félagið.

    Ráðherra er heimilt að gera samninga við félagið um tiltekna þjónustu við frumkvöðla, háskóla og fyrirtæki í samræmi við markmið stjórnvalda og stefnumótun í nýsköpunarmálum á hverjum tíma.

 

9. gr.

Nýsköpunarstuðningur.

    Ráðherra er heimilt að gera samninga við opinbera aðila eða einkaaðila um framkvæmd ýmissa verkefna á sviði nýsköpunar, svo sem samninga um rekstur stafrænna smiðja.

    Ráðherra skal setja á fót stafræna nýsköpunargátt fyrir upplýsingagjöf um stuðning við nýsköpun og tryggja að ráðgjöf á fyrstu stigum nýsköpunarverkefna sé gjaldfrjáls og aðgengileg hvar sem er á landinu, m.a. leiðsögn við umsóknarferli innan stuðningsumhverfis nýsköpunar. Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um framkvæmd ráðgjafar um nýsköpun.

    Ráðherra skal veita sértæka styrki, Lóu – verkefnastyrki, til eflingar nýsköpun á landsbyggðinni. Hlutverk styrkjanna er að styðja við nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi, verðmætasköpun og atvinnu­líf sem byggist á hugviti og þekkingu, á forsendum svæðanna sjálfra. Lóu – verkefna­styrkjum skal úthlutað utan höfuðborgarsvæðisins, eins og það er skilgreint á gildandi byggða­korti ESA og leiðbeinandi reglum þar um. Styrkjum má einnig úthluta til verkefna sem stuðla að uppbygg­ingu vistkerfis fyrir nýsköpunarstarfsemi og frumkvöðlastarf. Ráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði um framkvæmd styrkveitinga, fresti til að skila umsóknum um styrki, form og skilyrði umsókna og mats­nefnd vegna styrkveitinga.

 

10. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. júlí 2021.

    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007.

 

11. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:

  1. Lög um byggingarvörur, nr. 114/2014:
    1. Orðin „Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eða annars“ í 2. mgr. 12. gr. laganna falla brott.
    2. Orðin „Nýsköpunarmiðstöð Íslands“ í 14. gr. laganna falla brott.

  2. Lög um vísitölu byggingarkostnaðar, nr. 42/1987: Í stað orðanna „í samráði við Nýsköp­unar­miðstöð Íslands“ í 2. málsl. 1. gr. laganna kemur: skv. 3. gr.

  3. Lög um mannvirki, nr. 160/2010:
    1. Við 5. gr. laganna bætast tveir nýir töluliðir sem verða 8. og 14. tölul., svohljóðandi, og breytist röð annarra töluliða samkvæmt því:
      1. að annast rannsóknir, kynningu, fræðslu og gagnasöfnun í tengslum við byggingar- og mannvirkjarannsóknir,
      2. að annast umsýslu samkeppnissjóðs um byggingar- og mannvirkjarannsóknir, sbr. 54. gr. a.

    2. Á eftir 54. gr. laganna kemur ný grein, 54. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Samkeppnissjóður.

    Samkeppnissjóður um byggingar- og mannvirkjarannsóknir er í eigu ríkisins og ber ríkið ábyrgð á skuldbindingum hans. Sjóðurinn heyrir undir ráðherra en Hús­næðis- og mannvirkjastofnun annast stjórn og daglega umsýslu sjóðsins, þ.m.t. stjórn­sýslu og úthlutun.

    Hlutverk sjóðsins er að styrkja byggingarrannsóknir með áherslu á nýsköpun og samfélagslegar áskoranir á sviði mannvirkjagerðar hverju sinni.

    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um starfsemi sjóðsins í reglugerð, svo sem um úthlutunarreglur og fagráð.


    1. Við 60. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Nánari reglur um starfsemi samkeppnissjóðs um byggingar- og mannvirkjarannsóknir.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

 

I.

    Þrátt fyrir 2. mgr. 10. gr. skulu Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Tækniþróunarsjóður starfa til 1. júlí 2021 í samræmi við lög um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnu­þróun, nr. 75/2007.

 

II.

    Embætti forstjóra og önnur störf hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands skulu lögð niður 1. júlí 2021.

 

III.

    Við niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands fer um réttindi og skyldur starfsmanna eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

    Um biðlaunarétt sem kann að fylgja störfum einstakra starfsmanna Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands gilda ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

    Þegar starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands verður lögð niður, sbr. ákvæði til bráðabirgða I, fer um réttindi og skyldur starfsfólks Efnis-, líf- og orkutækni og Rannsóknastofu byggingar­iðnaðarins jafnframt eftir lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/2002, eftir því sem við á. Félag skv. 2. gr. skal bjóða öllu fastráðnu starfsfólki framan­greindra deilda störf.

 

IV. 

    Þrátt fyrir 10. gr. er ráðherra heimilt að stofna félag skv. 2. gr. við gildistöku laga þessara.

    Ráðherra er heimilt að ákveða að félag skv. 1. mgr. taki við verkefnum og tækjum Efnis-, líf- og orkutækni, tækjabúnaði Rannsóknastofu byggingariðnaðarins og frumkvöðlastuðningi í hátækni eigi síðar en 1. júlí 2021. Félagið getur jafnframt fyrir þann tíma yfirtekið hlut Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í gildandi samningum sem og aðrar skuldbindingar vegna rannsóknarverkefna stofn­unar­innar.

 

V.

    Eignarhlutir Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í rannsókna- og þróunarfyrirtækjum á grundvelli 7. gr. laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007, færast til ríkissjóðs við gildistöku laga þessara og skal sá ráðherra sem fer með eignir ríkisins fara með hlut ríkisins í slíkum félögum.

    Að öðru leyti færast eignir, réttindi og skyldur stofnunarinnar til ráðherra nýsköpunarmála við gildistöku laga þessara nema kveðið sé á um annað í lögum þessum.

 

VI.

    Ráðherra skal gefa Alþingi skýrslu um stöðu nýsköpunarstuðnings eftir niðurlagningu Nýsköp­unar­miðstöðvar Íslands, þróun nýsköpunarmála á landsbyggðinni, árangur sem og ásókn í hvatastyrki til nýsköpunar sem ráðuneytið úthlutar og starfsemi tækniseturs eigi síðar en tveimur árum eftir gildistöku laga þessara.

 

VII.

    Ráðherra er heimilt að semja við félag skv. 2. gr. um að hafa umsjón með sérhæfðum lang­tíma­byggingarrannsóknum í samvinnu við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík og nýta til þess þá aðstöðu sem fyrir hendi er. Samhliða verði unnið að framtíðarfyrirkomulagi byggingar­rannsókna í landinu og þeim komið í það horf sem best þykir henta fyrir árslok 2022.

 

Gjört á Bessastöðum, 23. apríl 2021.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.


A deild - Útgáfud.: 29. apríl 2021