Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1528/2020

Nr. 1528/2020 21. desember 2020

GJALDSKRÁ
fyrir katta- og hundahald í Blönduósbæ.

1. gr.

Af hundum og köttum í Blönduósbæ skal bæjarsjóður innheimta gjöld samkvæmt gjaldskrá þessari sem eru ætluð til að standa undir kostnaði við framkvæmd samþykktar um hundahald í Blönduós­bæ, nr. 242/2004 og samþykkt um kattahald í Blönduósbæ, nr. 1121/2005.

 

2. gr.

Við umsókn um skráningu hunds í fyrsta sinn skal innheimta skráningargjald að fjárhæð kr. 3.270 ásamt árlegu leyfisgjaldi vegna hunds að fjárhæð kr. 10.530 miðað við heilt ár. Við umsókn um skráningu kattar í fyrsta sinn skal innheimta skráningargjald að fjárhæð kr. 3.270 ásamt árlegu leyfisgjaldi vegna katta að fjárhæð kr. 3.750 miðað við heilt ár. Leyfisgjaldið lækkar svo eftir því sem líður á árið þegar kemur til fyrstu skráningar, gjaldið er í janúar - mars 100%, apríl - júní 75%, júlí - september 50% og október - desember 25%.

Leyfisgjald er ekki endurgreitt þrátt fyrir breytingar á katta- eða hundahaldi innan ársins.

 

3. gr.

Greiðsla fyrir ábyrgðartryggingu hunda er innifalin í gjaldi sem innheimt er samkvæmt 2. gr. Í þessu sambandi vísast til e- og f-liða 2. gr. samþykktar um hundahald á Blönduósi nr. 242/2004, sem kveða á um skyldur hundaeigenda til að hafa hunda sína ábyrgðartryggða og er tryggingin innfalin í gjaldinu enda sé það í skilum.

Árleg hundahreinsun er á ábyrgð hundaeigenda og framkvæmd hennar í höndum þeirra. Blönduós­bær auglýsir 2 daga á ári þar sem boðið er uppá hundahreinsun sem er innifalin í gjaldinu. Að öðrum kosti ber eigendum að snúa sér til dýralæknis sem annast hana á kostnað hundaeigenda.

 

4. gr.

Við afhendingu handsamaðs hunds eða kattar skal innheimta handsömunargjald sem hér segir:

Fyrsta afhending kr. 10.530
Önnur afhending kr. 18.950
Þriðja afhending kr. 29.170
Við afhendingu hunds/kattar sem ekki er gilt leyfi fyrir kr. 22.900

Að auki skal umráðamaður hunds/kattar greiða þann kostnað sem leggst á vegna dvalar eða geymslu viðkomandi hunds/kattar. Óskráða hunda/ketti má ekki afhenda fyrr en að lokinni skrán­ingu og greiðslu skráningargjalds og annars áfallins kostnaðar.

 

5. gr.

Gjalddagi leyfisgjalda er 1. mars og eindagi 30 dögum síðar. Dráttarvextir reiknast frá gjalddaga séu gjöldin ekki greidd á eindaga. Um innheimtu gjalda fer samkvæmt ákvæðum laga um hollustu­hætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum. Gjöld samkvæmt gjaldskránni má innheimta með fjárnámi.

 

6. gr.

Eigendur blindra-, leitar- og björgunarhunda eiga rétt á niðurfellingu gjalda samkvæmt 2. og 3. gr., enda leggi þeir fram skilríki um að hundarnir séu notaðir í þeim tilgangi.

 

7. gr.

Ofangreind gjaldskrá sveitarstjórnar Blönduósbæjar staðfestist hér með samkvæmt 59. gr. laga nr. 7/1998, með síðari breytingum, um hollustuhætti og mengunarvarnir, samanber samþykkt um hundahald í Blönduósbæ nr. 242/2004 og samþykkt um kattahald í Blönduósbæ nr. 1121/2005, til að öðlast gildi við birtingu. Jafnframt fellur úr gildi eldri gjaldskrá nr. 18/2020.

 

Blönduósi, 21. desember 2020.

 

Valdimar O. Hermannsson sveitarstjóri.


B deild - Útgáfud.: 11. janúar 2021