Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 137/2022

Nr. 137/2022 29. desember 2022

LÖG
um Vísinda- og nýsköpunarráð.

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að efla stefnumótun og samhæfingu á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar hér á landi svo að styrkja megi íslenskt þekkingarsamfélag og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

 

2. gr.

Hlutverk og skipan.

    Vísinda- og nýsköpunarráð starfar sjálfstætt og fjallar um stöðu vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar á Íslandi með tilvísun til alþjóðlegrar þróunar í stefnumótun á sviðinu, auk þess að vera ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun og ráðherra sem fer með málefni vísinda og nýsköpunar til ráðgjafar. Vísinda- og nýsköpunarráð skal vinna að því að efla samfélagsumræðu um vísindi, tækniþróun og nýsköpun með fagleg og lýðræðisleg sjónarmið að leiðarljósi.

    Ráðherra skipar, í samráði við ráðherra sem fer með málefni vísinda og nýsköpunar, níu fulltrúa í Vísinda- og nýsköpunarráð til fjögurra ára í senn á grundvelli tillagna tilnefningarnefndar, sbr. 5. gr., þar af einn sem formann ráðsins. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir með sama hætti. Ráðherra leggur tillögu um skipan ráðsins fyrir ráðherranefndina til kynningar.

 

3. gr.

Stefnumótun.

    Ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun, sbr. 4. mgr. 9. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, samræmir stefnu stjórnvalda á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar. Samræmda stefnu stjórnvalda skal birta í tvennu lagi, annars vegar framtíðarsýn til tíu ára sem endurskoðuð skal á fjögurra ára fresti og hins vegar aðgerðaáætlun til tveggja ára í senn. Ráðherranefndin skal að jafnaði halda tvo fundi árlega með Vísinda- og nýsköpunarráði.

    Vísinda- og nýsköpunarráð skilar árlega skýrslu til ráðherra og ráðherra sem fer með málefni vísinda og nýsköpunar. Í skýrslunni skal fjallað um stöðu málaflokksins hér á landi í alþjóðlegu tilliti, um stefnumótun stjórnvalda og framfylgd hennar og helstu samfélagslegu áskoranir. Ráðherra sem fer með málefni vísinda skal leggja skýrsluna fram á Alþingi.

 

4. gr.

Umsýsla.

    Ráðuneyti sem fer með málefni vísinda fer með faglega umsýslu fyrir ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun, undirbýr fundi Vísinda- og nýsköpunarráðs og ráðherranefndar og sinnir öðrum verkefnum sem tengjast stefnumótun, svo sem öflun upplýsinga og greiningu.

 

5. gr.

Tilnefningarnefnd.

    Hlutverk tilnefningarnefndar er að tilnefna fulltrúa til skipanar í Vísinda- og nýsköpunarráð. Við tilnefningu fulltrúa í ráðið skal tilnefningarnefnd hafa hlutverk ráðsins að leiðarljósi og leggja áherslu á að það sé skipað fólki með yfirgripsmikla þekkingu og reynslu á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar.

    Ráðherra skipar, að höfðu samráði við ráðherra sem fer með málefni vísinda og nýsköpunar, fimm einstaklinga í tilnefningarnefnd, tvo samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins, einn samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, einn samkvæmt tilnefningu samtaka launafólks og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður.

 

6. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um starfsemi og skipulag Vísinda- og nýsköpunarráðs og tilnefningarnefndar.

 

7. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 2023. Við gildistöku þeirra falla úr gildi lög um Vísinda- og tækniráð, nr. 2/2003.

 

8. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:

  1. Lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003:
    1. Í stað orðanna „Vísinda- og tækniráðs“ í 3. málsl. 2. gr., 3. málsl. 6. gr., 2. málsl. 6. gr. a, 1. málsl. 2. mgr. 6. gr. b, 3. málsl. 6. gr. d og 4. málsl. 7. gr. laganna kemur: ráðherranefndar um vísindi og nýsköpun.
    2. Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
      1. Í stað orðanna „vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs“ í 1. málsl. 1. mgr. og 6. mgr. kemur: Vísinda- og nýsköpunarráðs.
      2. Í stað orðanna „vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: Vísinda- og nýsköpunarráði.
    3. Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
      1. Í stað orðanna „Vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs skipar fagráð Rannsóknasjóðs“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: Stjórn Rannsóknasjóðs skipar fagráð sjóðsins.
      2. Í stað orðsins „Rannsóknasjóði“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: sjóðnum.
      3. Í stað orðsins „Vísindanefnd“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: Stjórnin.
      4. Í stað orðanna „Vísinda- og tækniráð og undirnefndir þess“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun og Vísinda- og nýsköpunarráð.
      5. Í stað orðanna „Vísinda- og tækniráði“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: Vísinda- og nýsköpunarráði.
    4. 1. málsl. 6. gr. laganna orðast svo: Vísinda- og nýsköpunarráð markar úthlutunarstefnu Rannsóknasjóðs samkvæmt áherslum ráðherranefndar um vísindi og nýsköpun.
    5. Í stað orðanna „vísindanefndar og tækninefndar Vísinda- og tækniráðs“ í 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. b laganna kemur: Vísinda- og nýsköpunarráðs.
    6. Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. c laganna:
      1. Í stað orðanna „Vísindanefnd og tækninefnd Vísinda- og tækniráðs skipa fagráð Innviðasjóðs“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: Stjórn Innviðasjóðs skipar fagráð sjóðsins.
      2. Í stað orðanna „Vísindanefnd og tækninefnd skipa“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: Stjórnin skipar.
      3. Í stað orðanna „Vísinda- og tækniráði“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: Vísinda- og nýsköpunarráði.
    7. 1. málsl. 6. gr. d laganna orðast svo: Stjórn Innviðasjóðs markar úthlutunarstefnu Innviðasjóðs samkvæmt áherslum ráðherranefndar um vísindi og nýsköpun.
    8. Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 9. gr. laganna:
      1. Í stað orðanna „Vísinda- og tækniráð“ í 1. málsl. kemur: Ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun.
      2. Í stað orðanna „Vísinda- og tækniráðs“ í 2. málsl. kemur: ráðherranefndarinnar.
    9. Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
      1. Í stað orðanna „vísinda- og tæknistefnu Vísinda- og tækniráðs“ í 2. málsl. kemur: stefnu ráðherranefndar um vísindi og nýsköpun.
      2. Í stað orðanna „Vísinda- og tækniráð og nefndir þess“ í 5. tölul. kemur: ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun og Vísinda- og nýsköpunarráð.
  2. Lög um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011: Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr. 9. gr. laganna:
    1. Í stað orðanna „og ráðherranefnd um efnahagsmál“ í 1. málsl. kemur: ráðherranefnd um efnahagsmál og ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun.
    2. Á eftir 3. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Forsætisráðherra, sá ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins, sá ráðherra sem fer með vísindamál, málefni atvinnuþróunar og nýsköpunar og sá ráðherra sem fer með fræðslumál eiga fast sæti í ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun.
    3. Í stað orðanna „og efnahagsmál“ í 4. málsl. kemur: efnahagsmál og vísindi og nýsköpun.
  3. Lög um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, nr. 142/2011: Í stað orðanna „vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs“ í 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: Vísinda- og nýsköpunarráði.
  4. Lög um vandaða starfshætti í vísindum, nr. 70/2019:
    1. Í stað orðanna „Vísinda- og tækniráð“ í 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: Vísinda- og nýsköpunarráð.
    2. Í stað orðanna „Vísinda- og tækniráðs“ í 2. málsl. 3. mgr. 6. gr. laganna kemur: Vísinda- og nýsköpunarráðs.

 

Gjört á Bessastöðum, 29. desember 2022.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Katrín Jakobsdóttir.


A deild - Útgáfud.: 9. janúar 2023