Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 110/2020

Nr. 110/2020 30. janúar 2020

AUGLÝSING
um friðlýsingu svæðis í Þjórsárdal.

1. gr.

Um friðlýsinguna.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur í samræmi við VII. kafla laga nr. 60/2013 um náttúru­vernd og með samþykki sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps ákveðið að friðlýsa svæði í Þjórsár­dal, sbr. 48. gr. og 50. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Svæðið í Þjórsárdal er verndað, sbr. 50. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, sem landslags­verndarsvæði. Innan svæðisins eru skilgreind þrjú svæði sem friðlýst eru sem náttúruvætti, skv. 48. gr. sömu laga, Gjáin, Háifoss og Granni og Hjálparfoss. Þessi svæði eru friðlýst sem náttúru­vætti vegna sérkenna, þ.e. jarðfræðilegrar og líffræðilegrar fjölbreytni, sbr. 2. og 3. gr. náttúru­verndar­laga.

Verndargildi svæðisins í Þjórsárdal felst fyrst og fremst í jarðfræðilegri sérstöðu, fágætu, sér­stöku og fögru landslagi ásamt sérstökum náttúrufyrirbærum sem þar er að finna, þ.e. Gjánni, Háa­fossi, Granna og Hjálparfossi, ásamt þykkum gjóskulögum og þyrpingum gervigíga. Dalurinn er nokkuð sléttlendur og vikurborinn eftir endurtekin eldgos í Heklu. Á svæðinu eru einnig mikil tæki­færi til útivistar og sjálfbærrar ferðamennsku. Sérstaða svæðisins felst einnig í menningar­minjum sem vitna til um mannvistir á svæðinu á fyrri tímum, t.a.m. eru rústir bæjarins að Stöng innan svæðis­ins.

Þá er að finna í dalnum merka sögu varðandi endurheimt birkiskóga og uppgræðslu vikra sem unnið hefur verið að síðan árið 1938 með það að markmiði að endurheimta birkiskóga til að gera landsvæðið betur í stakk búið til að standast áföll, s.s. vegna öskufalls úr eldgosum.

Við ákvörðun um friðlýsingu var höfð hliðsjón af samningnum um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu (Bern 1979, sbr. Stjórnartíðindi C 17/1993), samningnum um líffræðilega fjöl­breytni (Rio de Janeiro 1992, sbr. Stjórnartíðindi C 3/1995), loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og samningi Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun (sbr. Stjórnar­tíðindi C 16/1997).

Hið friðlýsta svæði er 58 km² að stærð.

 

2. gr.

Markmið friðlýsingarinnar.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda og varðveita sérstæðar jarðmyndanir og landslag sem er sérstætt á landsvísu vegna fagurfræðilegs og menningarlegs gildis, sbr. 3. gr. og 50. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Þá er jafnframt markmið friðlýsingarinnar að stuðla að vernd líffræði­legrar fjölbreytni með verndun vistkerfa og að stuðla að endurheimt raskaðra vistkerfa með áfram­haldandi vinnu við uppgræðslu og endurheimt birkiskóga, sbr. 1. og 2. gr. sömu laga.

Verndunin nær til sérstæðra jarðmyndana, landslagsheilda, lífríkis, fossa, vatnsfarvega og menn­ingarlegs gildis svæðisins. Með vernduninni skal tryggt að jarðminjum, landslagsheild, lífríki, menningarlegu gildi og ásýnd svæðisins verði ekki spillt og einkenni þess og sérkenni varðveitt þar sem svæðið er sérstætt á landsvísu og skipar mikilvægan sess í vitund þjóðar.

Gjáin, Háifoss og Granni og Hjálparfoss eru friðlýst sem náttúruvætti vegna sérkenna þeirra og fegurðar. Svæði við Rauðukamba og Fossöldu er skilgreint sem svæði með sérreglum vegna við­kvæmni þess.

 

3. gr.

Mörk verndarsvæðisins.

Mörk landslagsverndarsvæðisins eru sýnd á korti sem birt er með auglýsingu þessari og afmark­ast af þeim hnitum sem gefin eru upp í ISN93 hnitakerfi í viðauka I.

Innan landslagsverndarsvæðisins eru skilgreind þrjú svæði sem friðlýst eru sem náttúruvætti (sjá mörk á korti í viðauka I), eitt svæði með sérreglum og tvö svæði sem hafa verið deiliskipulögð m.a. til uppbyggingar mannvirkja í tengslum við ferðaþjónustu. Svæðaskiptinguna má sjá á korti í við­auka I.

 

4. gr.

Umsjón.

Umhverfisstofnun hefur umsjón með verndarsvæðinu í samræmi við 2. mgr. 13. gr. og 79. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Umhverfisstofnun getur falið einstaklingum, sveitarfélögum eða öðrum lögaðilum umsjón og rekstur annarra hluta svæðisins en þess sem Skógræktin vinnur að skógræktarverkefnum á sam­kvæmt samningi þar um, sbr. 4. mgr.

Til grundvallar samningi um umsjón og rekstur svæðisins, sbr. 2. mgr., skal liggja fyrir stjórn­unar- og verndaráætlun fyrir svæðið. Í samningnum skal m.a. kveðið á um réttindi og skyldur samn­ingsaðila, menntun starfsmanna og gjaldtöku.

Umhverfisstofnun skal gera umsjónarsamning við Skógræktina varðandi umsjón þess svæðis sem skógræktarverkefni ná til, sbr. samning þar um, sem ráðherra staðfestir, sbr. 85. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, þar sem m.a. skal fjalla um réttindi og skyldur samningsaðila auk annarra þátta, sbr. 85. gr. fyrrgreindra laga.

Minjastofnun Íslands fer með umsjón menningarminja á svæðinu skv. lögum nr. 80/2012 um menningarminjar og stjórnvaldsákvarðanir er varða menningarminjar.

Samstarfshópur um málefni verndarsvæðisins skal skipaður fulltrúum frá Umhverfisstofnun, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Minjastofnun Íslands og Skógræktinni. Fulltrúi Umhverfisstofnunar fer með formennsku í samstarfshópnum og boðar til funda. Hlutverk samstarfshópsins er að samræma starf­semi stofnana á svæðinu og stuðla að því að verndargildi svæðisins haldist. Hlutverk sam­starfs­­hópsins er einnig að fjalla um framkvæmdaáætlun og landvörslu fyrir verndarsvæðið, sam­vinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar ásamt endurskoðun og breytingum á henni svo og önnur stefnu­mótandi mál er varða verndarsvæðið. Samstarfshópurinn skal funda eigi sjaldnar en einu sinni á ári. Jafnframt skal haldinn a.m.k. einn fundur á ári með samstarfshópi um verndun menn­ingar­landslags í Þjórsárdal.

 

5. gr.

Stjórnunar- og verndaráætlun.

Umhverfisstofnun ber ábyrgð á að gerð sé stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlýsta svæðið í samræmi við 81. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Í stjórnunar- og verndaráætlun skal m.a. fjalla um landnýtingu, mannvirkjagerð, starfsemi, landvörslu, vöktun, verndun, uppbyggingu, fræðslu og miðlun upplýsinga, verndaraðgerðir, aðgengi og umferð gesta, þar á meðal aðgengi fatlaðs fólks, menningarminjar, landgræðslu, endurheimt birkiskóga, framandi lífverur, vernd og endur­heimt birkiskóga, starfsemi innan svæðisins og veiðar.

Stjórnunar- og verndaráætlun skal gerð í samvinnu við samstarfshóp um málefni verndar­svæðisins, Náttúrufræðistofnun Íslands og eftir atvikum aðrar fagstofnanir og hagsmunaaðila. Stjórnunar- og verndaráætlun er háð staðfestingu ráðherra.

 

6. gr.

Rannsóknir og vöktun.

Náttúrufræðistofnun Íslands ber ábyrgð á vöktun á verndarsvæðinu, sbr. 74. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Vöktunaráætlun skal vera unnin í samráði við Umhverfisstofnun og vera hluti stjórnunar- og verndaráætlunar.

Aðrar náttúrufarsrannsóknir en rannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands og lögbundnar rann­sóknir Skógræktarinnar, Landgræðslunnar og Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafar­stofnunar hafs og vatna sem kunna að hafa í för með sér jarðrask eða truflun dýralífs eru háðar leyfi Umhverfisstofnunar.

Veiting leyfa vegna rannsókna á menningarminjum fer eftir lögum nr. 80/2012 um menn­ingar­minjar.

 

7. gr.

Fræðsla.

Umhverfisstofnun, í samstarfi við samstarfshóp verndarsvæðisins, sem í eiga sæti fulltrúar Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Minjastofnunar Íslands og Skógræktarinnar, hefur frumkvæði að fræðslu um svæðið. Í fræðsluefni skal upplýst um svæðaskiptingu verndarsvæðisins og mismunandi umgengnis­reglur sem þar gilda, sérstöðu svæðisins og fleira. Nánar skal kveðið á um fræðslu í stjórnunar- og verndaráætlun svæðisins.

 

8. gr.

Verndun landslags.

Varðveita skal einkenni og sérkenni landslags svæðisins. Óheimilt er að valda spjöllum á lands­lagi svæðisins. Framkvæmdir, sbr. 13. gr., skulu ekki hafa afgerandi áhrif á ásýnd svæðisins og mann­virki skulu falla sem best að svipmóti lands.

Allt rask á menningarlandslagi er háð leyfi Minjastofnunar Íslands, sbr. lög nr. 80/2012 um menningarminjar, og stjórnvaldsfyrirmæli.

 

9. gr.

Verndun jarðminja.

Til að tryggja vernd jarðminja á svæðinu er óheimilt að hrófla við, raska, eða skemma jarð­minjar á friðlýsta svæðinu. Ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi getur Umhverfisstofnun veitt leyfi fyrir framkvæmdum og/eða starfsemi skv. 13. gr. og 14. gr.

Óheimilt er að planta hvers konar plöntum á gervigígunum umfram það sem nú er. Ekki skal vinna á móti náttúrulegri framvindu gróðurs á svæðinu nema í því skyni að standa vörð um verndar­gildi gervigíganna í samræmi við stjórnunar- og verndaráætlun. Nánar skal fjallað um verndun jarð­minja í stjórnunar- og verndaráætlun.

 

10. gr.

Verndun gróðurs og dýralífs.

Óheimilt er að sleppa eða dreifa framandi lífverum á svæðinu, þ.m.t. að rækta framandi plöntu­tegundir, sbr. reglugerð nr. 583/2000 um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntu­tegunda. Unnið skal að því að fjarlægja framandi tegundir plantna og/eða dýra sem hafa verið flutt inn á svæðið eða berast inn á það. Óheimilt er að gróðursetja aðrar trjátegundir en innlendar á svæð­inu.

Óheimilt er að spilla gróðri, öðrum en framandi tegundum, eða trufla dýralíf af ásetningi innan verndar­svæðisins.

Nánar skal fjallað um framandi lífverur í stjórnunar- og verndaráætlun fyrir verndarsvæðið.

 

11. gr.

Vernd og endurheimt birkiskóga.

Standa skal vörð um birkiskóga á svæðinu og stuðla að endurheimt þeirra. Vinna við land­græðslu, gróðursetningu birkis og endurheimt birkiskóga er heimil á svæði í umsjón Skógræktar­innar, sbr. 4. mgr. 4. gr.

Nánar skal kveðið á um vernd og endurheimt birkiskóga í stjórnunar- og verndaráætlun.

 

12. gr.

Verndun menningarminja.

Um vernd menningarminja fer eftir lögum nr. 80/2012 um menningarminjar.

 

13. gr.

Landnotkun og mannvirkjagerð.

Framkvæmdir, aðrar en vernd og endurheimt birkiskóga, sbr. 11. gr., á verndarsvæðinu eru háðar leyfi Umhverfisstofnunar að fenginni umsögn Minjastofnunar Íslands. Leyfi þarf frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi til framkvæmda, sbr. skipulagslög nr. 123/2010 og lög nr. 160/2010 um mann­virki. Einnig þarf leyfi frá forsætisráðuneyti og/eða sveitarfélaginu, sbr. lög nr. 58/1998 um þjóð­lendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

Framkvæmdir, s.s. uppbygging bílastæða, göngustíga og áningarstaða skulu ekki hafa afgerandi áhrif á ásýnd svæðisins og mannvirki skulu falla sem best að svipmóti lands.

Við landnotkun og mannvirkjagerð skal miða að því eins og kostur er að framkvæmdir séu afturkræfar, að þær stuðli að verndun svæðisins og öryggi gesta. Mannvirki s.s. uppbygging og við­hald bílastæða, salernis- og þjónustuhús og mannvirki í tengslum við uppbyggingu ferðaþjónustu, skulu hönnuð með þeim hætti að þau falli sem best að umhverfinu og hindri ekki náttúrulegan fram­gang lífríkis á svæðinu. Innviðauppbygging svæðisins skal fara eftir skipulagi þess. Þegar ekki liggur fyrir staðfest skipulag er Umhverfisstofnun heimilt að veita leyfi fyrir framkvæmdum ef þær ganga ekki gegn verndarmarkmiðum friðlýsingarinnar.

Réttur bænda til nýtingar afréttar til beitar og smölunar helst óbreyttur.

Á svæði sem gert er ráð fyrir uppbyggingu mannvirkja í tengslum við ferðaþjónustu er fyrir­huguð uppbygging á tveimur svæðum, 24 ha og 8 ha, í samræmi við gildandi deiliskipulag árið 2019.

 

14. gr.

Starfsemi innan svæðisins.

Afla skal leyfis Umhverfisstofnunar vegna skipulagðra viðburða og verkefna sem hafa í för með sér hættu á jarðraski, truflun dýralífs eða truflun umferðar um svæðið innan verndarsvæðisins, s.s. vegna kvikmyndagerðar, viðburða og samkomuhalds.

Starfsemi skal vera í samræmi við skipulag svæðisins.

Nánar skal fjallað um starfsemi innan svæðisins í stjórnunar- og verndaráætlun.

 

15. gr.

Umferð um landslagsverndarsvæði.

Almenningi er heimil för um verndarsvæðið en skylt er að ganga vel og snyrtilega um svæðið og fylgja þeim umgengnisreglum sem gilda innan þess. Ávallt skal fylgja göngustígum þar sem þeir eru til staðar. Á svæði við Rauðukamba og Fossöldu er óheimilt að ganga utan skilgreindra göngu­stíga.

Óheimilt er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega, sbr. þó undanþágur 31. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Hefðbundinn réttur bænda til smölunar sauðfjár helst eins og verið hefur.

Umhverfisstofnun er heimilt að loka ákveðnum svæðum í verndarskyni, sbr. 25. gr. og 25. gr. a. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Innan verndarsvæðisins er óheimilt að slá upp og gista í tjöldum, tjaldvögnum, fellihýsum, hjól­hýsum, húsbílum og öðrum sambærilegum búnaði.

Hundar, aðrir en þeir sem nýttir eru við smölun, skulu ávallt vera í taumi innan verndar­svæðis­ins. Hundar og önnur gæludýr skulu vera undir tryggri stjórn og þess gætt að þeir valdi ekki truflun fyrir gesti og dýralíf svæðisins. Sérstakar reglur gilda um umferð hunda í Gjánni, sbr. 16. gr.

Umferð reiðhjóla er aðeins heimil á þar til gerðum hjólastígum og vegum samkvæmt skipulagi svæðisins.

Ríðandi mönnum er heimil för um svæðið á merktum reiðleiðum og vegum. Sé nauðsynlegt að setja upp aðhald eða næturhólf fyrir hross skal þeim valinn staður á ógrónu landi sé þess kostur, og að höfðu samráði við landvörð eða umsjónaraðila svæðisins. Notkun hesta við smölun er heimil, sbr. 3. mgr.

Öll meðferð elds er óheimil á svæðinu, þ.m.t. notkun ferðagrilla.

Nánar skal fjallað um umferð um verndarsvæðið í stjórnunar- og verndaráætlun.

 

16. gr.

Umferð um náttúruvætti.

Almenningi er heimil för um náttúruvættin en er skylt að ganga vel og snyrtilega um svæðið og fylgja þeim umgengnisreglum sem gilda innan þess. Óheimilt er að fara út fyrir merkta göngustíga innan náttúruvætta.

Óheimilt er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega, sbr. þó undanþágur 31. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Hefðbundinn réttur bænda til smölunar sauðfjár helst eins og verið hefur.

Umhverfisstofnun er heimilt að loka ákveðnum svæðum í verndarskyni, sbr. 25. gr. og 25. gr. a. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Innan náttúruvætta er óheimilt að slá upp og gista í tjöldum, tjaldvögnum, fellihýsum, hjól­hýsum, húsbílum og öðrum sambærilegum búnaði.

Hundar, aðrir en þeir sem nýttir eru við smölun, skulu ávallt vera í taumi innan náttúruvætta. Hundar skulu vera undir tryggri stjórn og þess gætt að þeir valdi ekki truflun fyrir gesti og dýralíf svæðisins. Umferð gæludýra, annarra en þjónustuhunda, er óheimil í Gjánni til verndar dýralífi og vegna umferðar gesta um svæðið.

Umferð reiðhjóla er aðeins heimil á þar til gerðum hjólastígum og vegum samkvæmt skipulagi svæðisins, en ofan í Gjánni er umferð reiðhjóla óheimil.

Ríðandi mönnum er heimil för um svæðið á merktum reiðleiðum, vegum og slóðum, að undan­skilinni Gjánni þar sem umferð ríðandi manna er óheimil. Hrossabeit er óheimil utan áningarhólfa.

Notkun fjarstýrðra loftfara er óheimil í náttúruvættum nema að fengnu leyfi Umhverfis­stofn­unar. Þó er heimilt að nota fjarstýrð loftför vegna rannsókna og eftirlits Minjastofnunar Íslands með menn­ingar­minjum. Að öðru leyti skal farið eftir reglugerð nr. 990/2017 um starfrækslu fjar­stýrðra loftfara.

Óheimilt er að lenda þyrlum innan náttúruvætta nema með sérstöku leyfi Umhverfisstofnunar. Að öðru leyti skal farið eftir almennum reglum um flug.

Öll meðferð elds er óheimil á svæðinu, þ.m.t. notkun ferðagrilla.

Nánar skal fjallað um umferð um verndarsvæðið í stjórnunar- og verndaráætlun.

 

17. gr.

Umgengni um verndarsvæðið.

Óheimilt er að skilja eftir eða urða úrgang innan verndarsvæðisins og skal allur úrgangur settur í þar til gerð ílát eða hann tekinn með út af svæðinu.

 

18. gr.

Veiði og notkun skotvopna.

Veiðar eru heimilar á svæðinu, að undanskildum náttúruvættum, í samræmi við ákvæði laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Skotveiðar og notkun skotvopna eru óheimilar innan náttúruvætta.

Nánar skal fjallað um veiðar á verndarsvæðinu í stjórnunar- og verndaráætlun.

Heimild til veiða í ám og vötnum helst sem verið hefur.

 

19. gr.

Undanþáguákvæði.

Ráðherra getur, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og við­komandi náttúruverndarnefndar, veitt undanþágu frá ákvæðum friðlýsingar, sbr. 41. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd:

  1. ef það stríðir ekki verulega gegn markmiði friðlýsingarinnar og hefur óveruleg áhrif á verndar­­gildi þeirra náttúruminja sem friðlýsingin beinist að, eða
  2. ef öryggissjónarmið eða mjög brýnir samfélagshagsmunir krefjast þess.

 

20. gr.

Viðurlög.

Um brot gegn ákvæðum friðlýsingarinnar fer samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd.

 

21. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þar til göngu-, hjóla- og reiðstígar hafa verið skipulagðir og kort þess efnis birt í stjórnunar- og verndaráætlun er umferð heimil á þeim leiðum sem hefð er fyrir.

 

22. gr.

Gildistaka.

Friðlýsingin öðlast þegar gildi.

 

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 30. janúar 2020.

 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Sigríður Auður Arnardóttir.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 14. febrúar 2020