Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 133/2022

Nr. 133/2022 22. desember 2022

LÖG
um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991 (kennitöluflakk).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

    Á eftir XXV. kafla laganna kemur nýr kafli, XXVI. kafli, Atvinnurekstrarbann, með ellefu nýjum greinum, 180.–190. gr., svohljóðandi, og breytist röð annarra kafla og greina samkvæmt því:

 

    a. (180. gr.)

    Við skipti á hlutafélagi eða einkahlutafélagi skal skiptastjóri krefjast þess að lagt verði atvinnu­rekstrarbann á þann sem komið hefur að stjórnun félagsins á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag enda telji hann skilyrði 181. gr. uppfyllt. Sama á við um þann sem komið hefur að stjórnun samlagsfélags og ber takmarkaða ábyrgð á skuldbindingum þess.

    Í atvinnurekstrarbanni felst að þeim sem því sætir er óheimilt að stjórna félagi sem rekið er með takmarkaðri ábyrgð eigenda og fara með prókúru eða annað umboð slíks félags.

 

    b. (181. gr.)

    Skilyrði atvinnurekstrarbanns er að viðkomandi einstaklingur teljist ekki hæfur til að stýra félagi sem rekið er með takmarkaðri ábyrgð eigenda vegna skaðlegra eða óverjandi viðskiptahátta við stjórnun félags.

    Við mat á því hvort leggja skuli á atvinnurekstrarbann skal meðal annars litið til hlutverks viðkomandi við stjórnun félags sem og aðstæðna í heild sinni. Skal þar meðal annars litið til þess til hvaða ráðstafana hann hefur gripið til að varna tjóni.

    Við mat á því hvort úrskurða skuli einstakling í atvinnurekstrarbann er heimilt að líta til athafna hans fyrir það tímamark sem um getur í 1. mgr. 180. gr.

 

    c. (182. gr.)

    Atvinnurekstrarbann skal vara í þrjú ár. Við sérstakar aðstæður má þó ákveða að atvinnu­rekstrar­bann vari skemur.

    Sé krafist atvinnurekstrarbanns hjá einstaklingi sem hefur áður sætt slíku banni, og sá tími sem því var upphaflega markaður er ekki liðinn þegar krafa kemur fram, skal upphafstími nýs atvinnu­rekstrarbanns miðast við þann tíma þegar fyrra tímabili lýkur. Atvinnurekstrarbann getur þó aldrei varað lengur en í tíu ár samfleytt.

 

    d. (183. gr.)

    Héraðsdómari tekur ákvörðun um atvinnurekstrarbann eftir ákvæði 180. gr. á grundvelli skrif­legrar kröfu frá skiptastjóra.

    Um málsmeðferð fer að öðru leyti eftir ákvæðum XXIV. kafla nema annað sé tekið fram.

 

    e. (184. gr.)

    Skiptastjóri beinir skriflegri kröfu um atvinnurekstrarbann til þess héraðsdómstóls þar sem hann var skipaður til starfa. Krafan skal innihalda:

  1. rökstuðning fyrir kröfu skiptastjóra,
  2. þær málsástæður sem krafan byggist á sem og skýringu þeirra atvika sem nauðsyn ber til samhengis vegna,
  3. afrit þeirra skjala og annarra sönnunargagna sem nauðsynleg eru til stuðnings kröfunni.

    Strax í kjölfar móttöku kröfu skiptastjóra skal héraðsdómari af sjálfsdáðum kanna hvort tilefni er til að taka hana til efnislegrar meðferðar. Héraðsdómari getur ákveðið að taka kröfu skiptastjóra ekki fyrir og skal hann þá tilkynna skiptastjóra það skriflega. Sú ákvörðun verður ekki kærð til æðri dóms.

    Ákveði dómari að taka málið fyrir á dómþingi sendir hann tilkynningu um fyrirtöku málsins eftir reglum 174. og 175. gr. Sú ákvörðun verður ekki kærð til æðri dóms.

 

    f. (185. gr.)

    Sá sem kröfu um atvinnurekstrarbann er beint að getur brugðist við innan frests sem héraðsdómari setur honum með því að:

  1. senda skriflega greinargerð,
  2. tilkynna dómara um að hann óski eftir munnlegri málsmeðferð.

    Afrit af skriflegri greinargerð skv. 1. tölul. 1. mgr. skal jafnframt sent skiptastjóra. Héraðsdómari getur ákveðið að óska eftir frekari greinargerð frá aðilum teljist það nauðsynlegt til að upplýsa málið.

    Héraðsdómari boðar aðila til aðalmeðferðar hafi beiðni komið fram um munnlegan málflutning eða ef hann telur það annars nauðsynlegt.

    Við meðferð kröfunnar getur héraðsdómari boðað þann sem krafa um atvinnurekstrarbann beinist að til skriflegrar skýrslugjafar. Kjósi viðkomandi að tjá sig ekki eða upplýsi hann ekki um málsatvik að öðru leyti getur héraðsdómari metið honum það í óhag við úrlausn málsins. Hið sama á við ef sá sem krafa beinist að mætir ekki, hafi hann sannanlega verið boðaður til skýrslugjafar.

 

    g. (186. gr.)

    Héraðsdómari skipar þeim sem krafa um atvinnurekstrarbann beinist að málsvara úr hópi lög­manna krefjist viðkomandi þess eða dómari telur það að öðrum kosti nauðsynlegt.

    Héraðsdómari getur ákveðið að þóknun málsvara skv. 1. mgr. greiðist úr ríkissjóði. Dæmdur málskostnaður þess sem úrskurðaður er í atvinnurekstrarbann greiðist í ríkissjóð.

 

    h. (187. gr.)

    Héraðsdómari lýkur málsmeðferð með úrskurði. Kæra til Landsréttar frestar réttaráhrifum atvinnurekstrarbanns. Hið sama á við ef Hæstiréttur fellst á kæruleyfi eða ef fallist er á endur­upptöku úrskurðar um atvinnurekstrarbann.

 

    i. (188. gr.)

    Dómstólasýslan setur reglur um þóknun til skiptastjóra vegna kröfu um atvinnurekstrarbann.

    Dómari tekur ákvörðun um þóknun til skiptastjóra og útlagðan kostnað í samræmi við reglur dómstólasýslunnar þar um.

    Þóknun til skiptastjóra og útlagður kostnaður hans greiðist úr ríkissjóði.

 

    j. (189. gr.)

    Ef kveðinn er upp úrskurður um atvinnurekstrarbann skal viðkomandi dómstóll senda staðfest afrit hans til fyrirtækjaskrár.

    Fyrirtækjaskrá heldur skrá um þá einstaklinga sem úrskurðaðir hafa verið í atvinnurekstrarbann. Ráðherra sem fer með málefni fyrirtækjaskrár setur nánari reglur um þær upplýsingar sem færðar skulu í skrána og hvernig upplýsingar verða veittar úr henni.

 

    k. (190. gr.)

    Sá sem brýtur gegn atvinnurekstrarbanni ber persónulega og ótakmarkaða ábyrgð á skuldum og skuldbindingum sem ekki fást greiddar úr þrotabúum þeirra félaga sem hann tekur þátt í að stýra enda sé frestdagur innan tímaramma atvinnurekstrarbannsins.

    Dómari getur ákveðið að veita undanþágu að öllu leyti eða að hluta frá ábyrgð skv. 1. mgr.

    Dómari getur ákveðið að ábyrgð skv. 1. mgr. nái að öllu leyti eða að hluta til félaga sem tekin hafa verið til gjaldþrotaskipta og frestdagur er innan árs frá því að atvinnurekstrarbanni lýkur.

    Við mat skv. 2. eða 3. mgr. skal dómari líta til helstu orsaka gjaldþrots félags og til þess hvort rétt þykir í ljósi allra aðstæðna að viðkomandi beri persónulega og ótakmarkaða ábyrgð á skuldum og skuldbindingum þess.

 

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

Gjört í Reykjavík, 22. desember 2022.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Jón Gunnarsson.


A deild - Útgáfud.: 6. janúar 2023