Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 24/2023

Nr. 24/2023 9. janúar 2023

GJALDSKRÁ
Vatnsveitu Strandabyggðar.

1. gr.

Gjaldskylda.

Strandabyggð innheimtir gjald fyrir lagningu heimæðar skv. 5. gr. laga um vatnsveitur sveitar­félaga nr. 32/2004. Jafnframt innheimtir sveitarfélagið vatnsgjald og notkunargjald skv. 6. og 7. gr. laganna.

 

2. gr.

Ráðstöfun gjalda.

Tekjum sveitarfélagsins vegna heimæðargjalds vatnsveitu skal varið til vatnsveituframkvæmda og skal gjaldið taka mið af gerð, stærð og lengd heimæða. Vatnsgjald, ásamt öðrum tekjum vatns­veitu, skal standa undir rekstri vatnsveitunnar, þ.m.t fjármagnskostnaði og fyrirhuguðum stofn­kostnaði sam­kvæmt langtímaáætlun veitunnar.

 

3. gr.

Tengigjald vatnsveitu.

Tengigjöld skal innheimta af öllum fasteignum sem eru tengdar við vatnsveitu í eigu Stranda­byggðar og skal gjaldið lagt á og innheimt við tengingu og skal vera sem hér segir:

  32 mm kr. 212.800
  40 mm kr. 231.250

Starfsmenn áhaldahúss sjá um að leggja og tengja heimæðar, setja inntakskrana utanhúss og krana, síu og einstefnuloka innanhúss. Miðað er við að ídráttarrör hafi verið lagt frá inntaksstað mann­virkis að krana í lóð í frostfríu dýpi samkvæmt fyrirmælum verkstjóra áhaldahúss Stranda­byggðar og fjarlægð frá stofnæð sé ekki meiri en 15 metrar.

Við endurnýjun eldri vatnsinntaka skal farið eftir framangreindum reglum en greitt verði eftir umfangi verks.

 

4. gr.

Vatnsgjald.

Stofn til álagningar vatnsgjalds skal vera 0,30% af fasteignamati allra húsa og lóða samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 94/1976, með síðari breytingum. Vatnsgjald er ekki lægra en kr. 36.430 og ekki hærra en kr. 48.820 af íbúðarhúsnæði. Vatnsgjald fer þó ekki yfir 0,5% af fasteignamati húss og lóðar.

 

5. gr.

Aukavatnsgjald.

Auk vatnsgjalds, skulu fyrirtæki og aðrir, er nota kalt vatn til annars en heimilisþarfa, greiða aukavatnsgjald. Aukavatnsgjald er innheimt eftir á, samkvæmt mældri notkun með rúmmetramæli sem vatnsveita leggur til. Þar sem ekki eru mælar er stjórn vatnsveitu heimilt að áætla notkun.

Aukavatnsgjald fyrir hvern m³ að 100.000 m³ er kr. 30.

Afsláttur til stórnotenda frá 100.000 m³ að 250.000 m³ er 20%.

Afsláttur til stórnotenda frá 250.000 m³ er 40%.

Vatnsgjald vegna 20 feta beitningargáma er kr. 12.270

 

6. gr.

Mælaleiga.

Greiðendur aukavatnsgjalds skulu árlega greiða mælagjald vegna leigu á vatnsmælum sem hér segir:

Stærð mælis Mælaleiga á ári
25 - 31 mm   7.590 kr.
32 - 39 mm 10.580 kr.
40 - 49 mm 16.735 kr.
50 - 74 mm 25.960 kr.
75 mm og stærri 46.950 kr.

 

7. gr.

Breytingar á gjöldum.

Ákvörðun um vatnsgjald samkvæmt 2. gr. er tekin árlega af sveitarstjórn samhliða ákvörðun um álagningarstuðla fasteignagjalda. Önnur gjöld í gjaldskrá þessari miðast við byggingarvísitölu í desember 2022 sem er 110,6 stig og grunnur 2021 og breytast samkvæmt henni 1. janúar ár hvert. Gjöld vatnsveitunnar bera ekki virðisaukaskatt.

 

8. gr.

Ábyrgð á greiðslu gjalda.

Vatnsgjald greiðist af hús- og íbúðareiganda, lóðareiganda ef um eignarlóð er að ræða, en af leigutaka ef um leigulóð er að ræða og bera þessir aðilar ábyrgð á greiðslu gjaldsins. Vatnsgjald nýtur aðfararheimildar skv. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2004, sbr. 10. tl. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989, og má gera aðför í hinni skattskyldu eign án tillits til eigendaskipta. Vatnsgjald nýtur lögveðsréttar í lóð og mannvirkjum næstu tvö ár eftir gjalddaga með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði. Notkunargjald og leigugjald, ásamt áföllnum kostnaði og vöxtum, má taka fjárnámi.

 

9. gr.

Gildistaka.

Gjaldskrá þessi var samþykkt af sveitarstjórn Strandabyggðar 13. desember 2022 samkvæmt 10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 32/2004.

Gjaldskráin öðlast þegar gildi, jafnframt fellur brott gjaldskrá sama efnis nr. 136/2022.

 

Strandabyggð, 9. janúar 2023.

 

Þorgeir Pálsson sveitarstjóri.


B deild - Útgáfud.: 23. janúar 2023