Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 66/2019

Nr. 66/2019 24. júní 2019

LÖG
um samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að stuðla að þátttöku Íslands í samtökum um evrópska rann­sóknar­innviði.

2. gr.

Lögfesting.

    Ákvæði reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009 frá 25. júní 2009 um lagaramma Bandalagsins um samtök um evrópska rannsóknainnviði (ERIC), sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópu­sambandsins nr. 23 frá 23. apríl 2015, bls. 109–116, og reglugerð ráðsins (ESB) nr. 1261/2013 frá 2. desember 2013 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 723/2009 um lagaramma Banda­lagsins um samtök um evrópska rannsóknainnviði (ERIC), sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnar­tíðindi Evrópusambandsins nr. 23 frá 23. apríl 2015, bls. 92–93, skulu hafa lagagildi hér á landi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 72/2015 frá 20. mars 2015, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 29 frá 19. maí 2016, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

3. gr.

Skráning samtaka um evrópska rannsóknarinnviði.

    Ríkisskattstjóri skráir samtök um evrópska rannsóknarinnviði, sem hafa lögboðið aðsetur á Íslandi, innan þriggja mánaða frá því að umsókn var samþykkt skv. 6. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009.

    Í tilkynningu um stofnun samtaka um evrópska rannsóknarinnviði skal, eftir því sem við á, til­greina eftirfarandi atriði:

  1. heiti samtakanna, 
  2. lögheimili, 
  3. tilgang, 
  4. stofnendur, 
  5. stjórn, 
  6. framkvæmdastjórn, 
  7. prókúru og 
  8. endurskoðendur.

    Með tilkynningu skulu fylgja stofnsamþykktir samtakanna.

    Breytingar á samþykktum eða öðru því sem tilkynnt hefur verið skal tilkynna innan mánaðar sé ekki kveðið á um annað í lögum þessum eða reglugerð ráðsins (EB) nr. 723/2009. Krefjast má sann­ana fyrir lögmæti breytinga. Tilkynningar um breytingar skulu undirritaðar af meiri hluta stjórn­ar eða prókúruhafa.

    Samtökum um evrópska rannsóknarinnviði er skylt að hafa skammstöfunina ERIC í heiti sínu.

    Um stofnun og skráningu samtaka um evrópska rannsóknarinnviði gilda að öðru leyti ákvæði reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009 og eftir því sem við á ákvæði laga um fyrirtækjaskrá.

4. gr.

Slit samtaka um evrópska rannsóknarinnviði.

    Þegar tekin hefur verið ákvörðun um slit samtaka um evrópska rannsóknarinnviði með lögboðið aðsetur á Íslandi, í samræmi við 2. mgr. 16. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009, skulu sam­tökin birta í Lögbirtingablaðinu áskorun til kröfuhafa samtakanna um að tilkynna kröfur sínar til stjórnar samtakanna innan sex vikna frá birtingu áskorunarinnar. Þekktum kröfuhöfum skal jafn­framt send tilkynning um slitin sé þess kostur.

    Tilkynning um lok slitameðferðar samtaka um evrópska rannsóknarinnviði skal send ríkis­skattstjóra innan tíu daga frá birtingu hennar og skal tilkynningin skráð í fyrirtækjaskrá. Um slit sam­taka um evrópska rannsóknarinnviði gilda ákvæði 16. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 723/2009.

5. gr.

Reglugerð.

    Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um ferli sem varðar umsóknir um þátttöku Íslands í ERIC-samtökum.

6. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Gjört á Bessastöðum, 24. júní 2019.

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Lilja D. Alfreðsdóttir.


A deild - Útgáfud.: 3. júlí 2019