Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1740/2022

Nr. 1740/2022 30. desember 2022

REGLUR
um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna.

I. KAFLI

Valdbeiting og valdbeitingartæki lögreglu.

1. gr.

Valdbeiting og lögreglutök.

Lögregla skal ekki grípa til valdbeitingar nema nauðsyn krefji og stig valdbeitingar skal vera í samræmi við aðstæður hverju sinni. Ávallt skal gæta meðalhófs við valdbeitingu. Ef gripið er til vald­beitingar skal þess getið í lögregluskýrslu hvers eðlis hún var og ástæður þess að henni var beitt.

 

2. gr.

Þjálfun lögreglumanna.

Lögreglunemar skulu hljóta grunnþjálfun hjá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu í notkun lögreglutaka og sjálfsvarnaraðferða. Lögreglutök og sjálfsvarnaraðferðir sem kenndar eru hjá Mennta- og starfsþróunarsetrinu skulu samþykktar af ríkislögreglustjóra sem mælir einnig fyrir um árlega viðhaldsþjálfun lögreglumanna.

 

3. gr.

Skilgreining og notkun fjötra.

Fjötrar eru búnaður til að hefta hreyfingar einstaklinga. Ríkislögreglustjóri ákveður hverrar gerðar þeir skuli vera. Fjötrar eru eftirfarandi búnaður:

Handjárn: Fjötrar úr málmi sem ætlaðir eru til að hefta handahreyfingar einstaklinga.

Bensli: Bönd til að hefta hreyfingar einstaklinga á höndum og/eða fótum svo sem úr plasti eða tauefni.

Flutningsbelti: Belti til að hefta hreyfingar sem notuð eru við flutning handtekinna einstaklinga.

Fótajárn: Fjötrar sem ætlaðir eru til að hefta fótahreyfingar einstaklinga.

Þegar fjötrar eru notaðir skal þess getið í lögregluskýrslu sem og um ástæður þess að fjötrum er beitt.

 

4. gr.

Handjárn.

Handjárn skal nota á þann sem er handtekinn eða á fanga, sé ástæða til að ætla að viðkomandi muni reyna að flýja, beita ofbeldi eða valda sjálfum sér eða öðrum tjóni.

Handjárn skal nota ef einstaklingur er æstur, órólegur eða ætla má að öryggi hans eða annarra verði ekki tryggt með öðrum hætti.

Handjárn skal nota ef fullnægjandi líkamsleit hefur ekki farið fram á einstaklingnum og ætla má að viðkomandi hafi í fórum sínum muni sem hafa sönnunargildi í máli eða muni sem leggja skal hald á.

Að jafnaði skal handjárna einstakling með hendur fyrir aftan bak þannig að lófarnir snúi út. Ekki skal handjárna einstakling við annan lögreglumann eða annan aðila og ekki skal handjárna einstakling við fastan hlut nema afar sérstakar og ríkar aðstæður krefjist þess og öryggi verði ekki tryggt með öðru móti.

Við flutning handjárnaðs einstaklings skulu að jafnaði vera tveir lögreglumenn. Þegar hand­járnaður einstaklingur er fluttur í bifreið skal að jafnaði einn lögreglumaður sitja við hlið viðkomandi. Handjárnaður einstaklingur skal ekki vera eftirlitslaus.

 

5. gr.

Bensli.

Um heimild og notkun bensla gilda sömu reglur og um handjárn skv. 4. gr.

Aðeins skal fjötra einstakling á fótum með benslum ef rík ástæða er til svo sem ef viðkomandi telst sjálfum sér eða öðrum hættulegur.

 

6. gr.

Fótjárn.

Notkun fótjárna er heimil þegar brýna nauðsyn ber til, í fangageymslum lögreglunnar eða á öðrum stað sem lögregla ákveður. Ákvörðun um notkun fótjárna skal tekin af stjórnanda lögreglu á vakt hverju sinni. Eftirlit skal haft með fótjárnuðum einstaklingi eigi sjaldnar en á 15 mínútna fresti.

Heimilt er í öryggisskyni að fjötra einstaklinga á fótum með fótjárnum við flutning ef rík ástæða er til, t.d. við flutning viðkomandi í flugvél eða ef hann er svo æstur eða órólegur að hann er sjálfum sér eða öðrum hættulegur.

 

II. KAFLI

Lögregluvopn.

7. gr.

Skilgreining vopna.

Ríkislögreglustjóri tekur ákvörðun um notkun vopna hjá lögreglu samkvæmt þessum reglum. Með vopnum er átt við eftirfarandi tæki:

Úðavopn: Úðabrúsar sem innihalda táragas (CS, OC eða annað samkvæmt ákvörðun ríkis­lögreglu­stjóra) og ætlaðir eru til að yfirbuga einstakling í návígi.

Kylfur: Barefli til að yfirbuga einstaklinga eða verjast árás.

Rafvarnarvopn: Óbanvæn vopn sem hafa tímabundin áhrif á vöðvastjórnun þess sem vopninu er beitt gegn. Með langdrægu rafvarnarvopni er tveimur rafskautum/rafpílum skotið í einstakling og honum veitt vægt raflost sem truflar tímabundið sjálfviljuga vöðvastjórnun og gerir lögreglu betur kleift að handtaka viðkomandi án þess að ógna lífi eða heilsu hans eða lögreglumanna.

Skotvopn: Skammbyssa, haglabyssa, vélbyssa og riffill.

Gasvopn: Gasbyssa, táragas- og reykbúnaður. Einnig gasbúnaður sem skotið er úr skotvopnum.

Hvellvopn: Búnaður til að trufla og rugla einstakling. Einungis til notkunar af sérstökum sér­þjálf­uðum sveitum lögreglu.

Sprengivopn: Sprengiefni sem notað er sem hluti af vopnabúnaði lögreglu.

Úthlutun ofangreindra vopna með leiðbeiningum um notkun þeirra fer eftir nánari ákvörðun ríkis­lögreglustjóra.

Ríkislögreglustjóri setur verklagsreglur og leiðbeiningar um nauðsynlegar áætlanir lögregluliða varðandi viðbúnað með vopnum vegna sérstaklega alvarlegra tilvika. Hann ákveður einnig hvaða lágmarksþjálfun lögreglumenn skulu fá sem árlega viðhaldsþjálfun í notkun lögregluvopna.

 

8. gr.

Tegundir vopna.

Ríkislögreglustjóri ákveður nánar hverrar gerðar vopn skv. 7. gr. skuli vera þ. á m. tegund búnaðar, hlaupvídd skotvopna o.fl.

Óheimilt er að nota annan búnað og vopn en þann sem samþykktur er af ríkislögreglustjóra. Inn­kaup, sala, innflutningur og útflutningur er háð samþykki ríkislögreglustjóra. Skotfæragerð er einnig háð samþykki ríkislögreglustjóra.

Ríkislögreglustjóri getur heimilað notkun annarra vopna en talin eru upp í 7. gr. svo sem högg­skota o.fl.

 

9. gr.

Aflífun dýra o.fl.

Reglur þessar gilda ekki um úthlutun skotvopna í tengslum við aflífun dýra eða úthlutun vopna til notkunar hjá sprengjusérfræðingum lögreglu við sprengjueyðingu.

 

10. gr.

Lögregluhundar.

Lögreglustjórum er heimilt með samþykki ríkislögreglustjóra að þjálfa lögregluhunda til notkunar við valdbeitingu. Ríkislögreglustjóri gefur út verklagsreglur um notkun hunda í þessu skyni.

 

11. gr.

Um notkun úðavopna.

Lögreglu er einungis heimilt að nota úðavopn þegar vægari aðferðir duga ekki til þess að yfirbuga mótþróa einstaklings við handtöku. Þá er ávallt heimilt að nota úðavopn ef heimilt er að nota kylfu eða rafvarnarvopn.

 

12. gr.

Úthlutun úðavopna.

Úðavopn eru hluti af búnaði lögreglumanna og úthluta skal þeim til einstakra lögreglumanna með sama hætti og kylfum er úthlutað.

Óheimilt er að úthluta úðavopnum til annarra en þeirra sem hlotið hafa þjálfun í notkun þeirra og þeir einir mega nota úðavopn sem hlotið hafa slíka þjálfun. Úðavopn skal ekki notað í nálægð ungra barna nema í neyð.

 

13. gr.

Fyrsta hjálp.

Skola skal þann sem beittur er úðavopni með vatni eða þar til gerðu hreinsiefni.. Fái einstaklingur úða beint í augun af stuttu færi skal viðkomandi færður til læknisskoðunar ef batamerki koma ekki fljótlega fram. Ef úðavopni er beitt gegn einstaklingi sem síðar er færður í fangageymslu, skal við­komandi eiga kost á baði og ómenguðum fötum.

Þegar mannfjölda er dreift með úðavopni við mannfjöldastjórnun er nægjanlegt að koma því vel á framfæri hvar sé hægt að leita sér hjálpar á eða við vettvang.

 

14. gr.

Heimild vegna gæslu öryggis einstaklinga.

Lögreglustjórum er heimilt með samþykki ríkislögreglustjóra að afhenda einstaklingi úðavopn til sjálfsvarnar ef viðkomandi nýtur sérstakrar gæslu lögreglu, öryggis síns vegna. Lögreglan skal annast þjálfun í notkun búnaðarins og skal viðkomandi gert skylt að tilkynna lögreglu þegar í stað komi til notkunar. Vopninu skal skilað til lögreglu ef það er mat hennar að ekki sé lengur þörf á því fyrir viðkomandi.

Með sama hætti er ríkislögreglustjóra heimilt að afhenda bílstjórum þeirra sem gegna æðstu stjórn ríkisins úðavopn til sjálfsvarnar.

 

15. gr.

Skýrslugerð.

Gera skal skýrslu í hvert sinn sem úðavopni er beitt. Þar skal koma fram ástæða notkunarinnar, hvernig úðavopninu var beitt og þær ráðstafanir sem síðar voru gerðar til þess að koma í veg fyrir skaða af völdum efnisins.

Ef úðavopni er beitt af aðila sem hefur til þess heimild lögreglu skal það skráð í lögregluskýrslu.

 

16. gr.

Notkun kylfu.

Þegar aðrar vægari aðferðir duga ekki er lögreglu heimilt að nota kylfu. Einungis er heimilt að nota kylfu þegar brýna nauðsyn ber til í eftirfarandi tilvikum:

  1. Til að afstýra árás á lögreglumann eða þriðja aðila.
  2. Til að handtaka hættulegan brotamann.
  3. Þegar einhver reynir að koma í veg fyrir handtöku eða reynir að frelsa handtekinn ein­stakling.
  4. Þegar einhver reynir að hindra lögreglu við störf sín.
  5. Til að knýja fram hlýðni við skipun sem ekki er fylgt, enda sé nauðsynlegt að henni sé framfylgt tafarlaust.

Ef því verður við komið og aðstæður leyfa skal lögreglumaður vara við að kylfu verði beitt til að framfylgja aðgerðum.

 

17. gr.

Beiting kylfu.

Kylfu skal beita með þeirri aðgæslu að ekki hljótist af meira hnjask eða meiðsl en þörf krefur. Lögreglumenn skulu leitast við að hæfa handleggi eða fætur. Ekki má beina höggi að höfði, hálsi, brjósti, nýrnasvæði eða hryggsúlu og forðast skal eftir megni að slá í liðamót. Ekki skal nota kylfu til stungu.

 

18. gr.

Skýrslugerð vegna beitingar kylfu.

Beiti lögreglumaður kylfu skal hann án tafar greina yfirmönnum sínum frá því og rita skýrslu um atvikið. Í skýrslu skulu koma fram ástæður notkunarinnar, hvernig kylfunni var beitt og ráðstafanir sem síðan voru gerðar til að koma í veg fyrir skaða af völdum kylfubeitingarinnar. Vinni lög­reglu­menn undir sameiginlegri stjórn, mega þeir einungis nota kylfu eftir beinni skipun yfir­manns nema svo sé ástatt sem greinir í a-lið 16. gr.

 

19. gr.

Notkun rafvarnarvopna.

Lögreglu er heimilt að nota rafvarnarvopn þegar heimilt er að nota úðavopn eða kylfu, ef talið er að úðavopn eða kylfa eða aðrar vægari aðgerðir muni ekki nægja til þess að yfirbuga aðila eða skilyrði um notkun skotvopna er ekki til staðar. Heimilt er að nota rafvarnarvopn ef lögreglumaður telur notkun þess geta afstýrt frekari hættu fyrir hann sjálfan eða aðra, svo sem þar sem hægt er að beita rafvarnar­vopni á lengra færi en úðavopni eða kylfu. Notkun rafvarnarvopna verður alltaf að vera nauðsynleg, réttlætanleg og taka mið af meðalhófsreglu.

Þegar rafvarnarvopni er beitt skal hafa í huga hvar sá sem rafvarnarvopni er beitt gegn muni mögu­lega falla niður. Ekki má nota rafvarnarvopn gegn þeim sem er í áberandi slæmu líkamlegu ástandi eða konum sem eru augljóslega þungaðar. Einstaklingar sem rafvarnarvopni hefur verið beint gegn skulu færðir til læknisskoðunar ef ástæða þykir til.

Ríkislögreglustjóri skal setja nánari verklagsreglur um notkun rafvarnarvopna.

 

20. gr.

Aðvörun.

Ef því verður við komið og aðstæður leyfa skal lögreglumaður vara þann við sem beita á rafvarn­ar­vopni um að því verði beitt til að framfylgja aðgerðum.

 

21. gr.

Úthlutun rafvarnarvopna.

Óheimilt er að úthluta rafvarnarvopnum til annarra en skipaðra eða settra lögreglumanna sem hafa lokið lögreglunámi og fengið tilskilda þjálfun í notkun þeirra. Þeir einir mega nota rafvarnarvopn sem hlotið hafa slíka þjálfun.

Lögreglumenn sem fá úthlutað rafvarnarvopni skulu einnig bera búkmyndavél og nota hana sam­hliða notkun rafvarnarvopns.

Viðkomandi lögreglumenn skulu hljóta árlega viðhaldsþjálfun í notkun rafvarnarvopna sam­kvæmt nánari reglum sem ríkislögreglustjóri setur.

 

22. gr.

Skýrslugerð.

Beiti lögreglumaður rafvarnarvopni skal hann strax greina yfirmönnum sínum frá því og rita skýrslu um atvikið. Í skýrslu skulu koma fram ástæður notkunarinnar, hvernig rafvarnarvopninu var beitt og ráðstafanir sem síðan voru gerðar til að koma í veg fyrir skaða af völdum beitingarinnar.

 

III. KAFLI

Skotvopn, önnur vopn og beiting þeirra.

23. gr.

Geymsla og afhending.

Að jafnaði skal geyma skotvopn, skotfæri, sprengivopn, gasvopn, hvellvopn og fylgibúnað á lög­reglu­stöð. Vopnin skulu geymd með tryggilegum hætti í læstri hirslu eða aðstöðu, þar sem þau eru tilbúin til notkunar. Ríkislögreglustjóri getur sett reglur um vopnageymslur lögreglu.

Lögreglustjóri getur þó ákveðið í samráði við ríkislögreglustjóra að skotvopn séu geymd í lög­reglu­bifreiðum. Sérstakar sveitir lögreglu sem ríkislögreglustjóri hefur samþykkt starfrækslu á, geta einnig haft sprengivopn meðferðis, skv. hans heimild. Tryggilega skal gengið frá vopnum og skot­færum í sérstökum vopnageymslum í lögreglubifreiðum sem eru viðurkenndar af ríkis­lögreglu­stjóra.

Ákvörðun um að hafa gasvopn, gas- og reykbúnað í lögreglubifreið er í höndum lögreglustjóra.

 

24. gr.

Hlífðarbúnaður.

Skotvesti, skotskýlingarskildi, skotskýlingarhjálma og eftir atvikum annan hlífðarbúnað skal geyma á sama stað og skotvopn. Lögreglumenn skulu búast tiltækum hlífðarbúnaði þegar þeir vopnast ef verkefnið krefst ekki annars.

 

25. gr.

Skráning vopna.

Hjá ríkislögreglustjóra skal haldin sérstök skrá um vopnaeign lögreglu. Í hana skrá lögreglustjórar upplýsingar um vopn lögregluliða. Stjórnandi vaktar eða sá lögreglumaður sem lögreglustjóri felur það verkefni skal hafa eftirlit með vörslu, úthlutun og skráningu vopna og ber ábyrgð á því að varslan sé trygg og vopnin í góðu lagi. Yfirfara og prófa skal vopn reglulega, a.m.k. tvisvar á ári.

Sé um að ræða sérstaka vopnaða sveit lögreglu er hlutverk það sem lýst er í 1. mgr. varðandi vopn sveitarinnar í höndum daglegs yfirmanns hennar.

 

26. gr.

Afhending vopna.

Lögreglustjóri skal setja reglur um afhendingu vopna til lögreglumanna. Viðkomandi yfir­maður skal ganga úr skugga um að lögreglumaðurinn hafi gild skotvopnaréttindi fyrir vopninu.

Lögreglustjóra er heimilt að afhenda lögreglumönnum vopn til varanlegrar notkunar meðan þeir gegna störfum. Viðkomandi lögreglumaður ber þá ábyrgð á vopninu.

Vopn skal því aðeins afhenda lögreglumanni, að hann hafi undirgengist vopnaþjálfun og staðist árlegt hæfnispróf í notkun viðkomandi vopns.

 

27. gr.

Vopnum skilað.

Vopnum sem eru afhent vegna einstaka verkefna, skal skilað þegar verkefninu er lokið. Við­komandi lögreglumaður er ábyrgur fyrir því að skila vopninu og meðfylgjandi skotfærum.

Þegar vopn eru afhent hóp eða vakt, er stjórnandi ábyrgur fyrir skilum þeirra að lokinni vakt eða verkefni.

 

28. gr.

Notkun annarra vopna.

Lögreglumönnum er óheimilt, nema í neyðartilvikum, að nota önnur vopn í starfi en þeim hefur verið úthlutað samkvæmt þessum reglum. Notkun eigin vopna, þó þau séu sömu gerðar og lög­reglu­­mönnum hefur verið úthlutað, er því að öðru jöfnu óheimil.

 

29. gr.

Notkunarleiðbeiningar.

Ríkislögreglustjóri skal útbúa notkunarleiðbeiningar um skotvopn, sprengiefni, hvellvopn og gas­vopn sem samþykkt eru til notkunar hjá lögreglu.

 

30. gr.

Skotæfingar og þjálfun.

Allir nemar í starfsnámi hjá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu skulu hljóta grunnþjálfun í skotvopnareglum og meðferð vopna. Þeir sem standast lágmarkskröfur, samkvæmt nánari reglum sem ríkislögreglustjóri setur, skulu útskrifaðir með hæfnispróf fyrir viðkomandi skotvopn.

Ríkislögreglustjóri gefur fyrirmæli um framkvæmd þjálfunar í notkun sérbúnaðar og stærri skot­vopna.

 

31. gr.

Viðhaldsþjálfun.

Lögreglustjóri skal tryggja að lögreglumenn við embætti hans viðhaldi þekkingu á vopnareglum þessum og fái nauðsynlega viðhaldsþjálfun í notkun vopnanna. Árlega skulu lögreglumenn undir­gangast vopnaþjálfun og standast verklegt hæfnispróf í notkun viðkomandi skotvopns, samkvæmt nánari fyrirmælum sem ríkislögreglustjóri setur varðandi fjölda árlegra æfinga og lág­marks­kröfur.

 

32. gr.

Skotvopnaréttindi.

Skotvopnaréttindi lögreglumanna skal skrá í skotvopnaskrá lögreglu til staðfestingar á því að hann hafi heimild til að nota viðkomandi skotvopn. Tilgreina skal nafn og kennitölu ásamt upplýs­ingum um þau skotvopn sem viðkomandi hefur heimild til að nota. Endurnýja skal skotvopnaréttindi lögreglumanna árlega standist þeir hæfnispróf.

Skrá skal þátttöku lögreglumanna í árlegri viðhaldsþjálfun í vinnugrunninn, fræðslu- og þjálf­unar­kerfi lögreglunnar, ásamt niðurstöðu árlegra hæfnisprófa.

 

33. gr.

Lögregla vopnuð gasvopnum.

Lögreglustjóri gefur fyrirmæli um hvenær lögreglumenn skuli vopnast með gasvopnum. Óheimilt er að vopnast gasvopnum í einstökum tilvikum nema samkvæmt ákvörðun vakthafandi yfirmanns. Einungis má vopna þá lögreglumenn með gasvopnum sem fengið hafa tilskilda þjálfun.

 

34. gr.

Lögregla vopnuð skotvopnum.

Lögreglustjóri getur gefið fyrirmæli um að lögreglumenn skuli vopnast skotvopnum þegar:

  1. Talið er að fyrirliggjandi verkefni krefjist þess eða aðstæður eru slíkar að vopnaburður teljist nauðsynlegur, svo sem ef ætla má að lögreglumaður þurfi að eiga við einstakling sem ástæða er til að ætla að sé vopnaður og líklegur er til að nota skotvopn eða önnur banvæn vopn.
  2. Ríkislögreglustjóri hefur samþykkt eða mælt fyrir um að vopna beri lögreglumenn til að leysa tilgreind verkefni eða við sérstakar aðstæður, svo sem við öryggisgæslu eða verkefni sérstakra sveita lögreglu.

Lögreglustjórum er heimilt í samráði við ríkislögreglustjóra að gefa fyrirmæli um vopnaburð, sem gilda í ákveðinn tíma.

1. mgr. þessarar greinar kemur ekki í veg fyrir að hæstráðandi lögreglumaður á hverjum stað geti gefið fyrirmæli um að lögreglumenn vopnist í neyðartilvikum.

Þegar verkefni krefjast vopnunar skal vopna a.m.k. tvo lögreglumenn hverju sinni en lögreglu­menn skulu ekki starfa einir að vopnuðum aðgerðum nema í neyðartilvikum.

Með lögreglumönnum í 1. mgr. er einungis átt við skipaða eða setta lögreglumenn sem fengið hafa tilskilda þjálfun og erlenda lögreglumenn sem ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að fari með lög­reglu­vald á grundvelli 11. gr. a. lögreglulaga nr. 90/1996 og ríkislögreglustjóri hefur samþykkt eða mælt fyrir um að vopna beri á grundvelli b-liðar 1. mgr. þessarar greinar. Hér er ekki átt við þá sem hafa löggæsluvald á tilteknu sviði.

 

35. gr.

Vopnaburður.

Við lögregluaðgerðir skulu lögreglumenn, sem vopnaðir eru skotvopnum, alla jafna vera einkennis­klæddir og bera vopn sýnileg utanklæða, nema verkefnið sé þess eðlis að annað sé nauðsyn­legt við úrlausn þess.

 

36. gr.

Gasvopn og hvellvopn.

Gas- og hvellvopnum má einungis beita í sérstökum hættutilvikum eða ef lögregluaðgerð verður ekki framkvæmd á annan hátt án þess að öryggi lögreglumanna sé stefnt í hættu. Eingöngu þeir lögreglumenn sem fengið hafa til þess þjálfun og ríkislögreglustjóri hefur samþykkt mega nota hvellvopn í lögregluaðgerðum.

 

37. gr.

Óspektir og óeirðir.

Heimild lögreglustjóra þarf til að beita gasvopnum við óspektir og óeirðir. Lögreglumaður getur þó tekið ákvörðun um notkun ef ekki er mögulegt að leita heimildar lögreglustjóra og aðstæður slíkar að notkun sé mjög brýn. Þegar mannfjölda er dreift með gasvopni við mannfjöldastjórnun skal koma því vel á framfæri hvar sé hægt að leita sér hjálpar á eða við vettvang.

 

38. gr.

Skotvopn og beiting skotvopna.

Skotvopni má því aðeins beita gegn einstaklingi þegar önnur úrræði eru ekki tiltæk eða hafa verið fullreynd og/eða brýna nauðsyn ber til í því skyni að:

  1. Lögreglumaður verjist lífshættulegri árás á sig eða þriðja aðila.
  2. Yfirbuga og handtaka afbrotamenn sem teljast hættulegir lífi fólks eða öryggi ríkisins.
  3. Koma í veg fyrir alvarlegt ofbeldi gegn fólki eða að verulegu tjóni sé valdið á þjóðfélagslega mikilvægum hagsmunum eða stofnunum, rekstri þeirra og/eða starfsemi.

 

39. gr.

Aðvörun.

Telji lögreglumaður að því verði við komið og aðstæður leyfa án þess að skapa aukna hættu fyrir hann eða aðra, skal hann gefa þeim aðvörun sem ógnunin stafar frá og tilkynna að vopni verði beitt til að framfylgja aðgerðunum. Hann skal einnig tilkynna að hann komi fram sem lögreglumaður.

 

40. gr.

Aðvörunarskot.

Lögreglumenn skulu ekki skjóta aðvörunarskotum. Slíkt er þó heimilt í undantekningartilvikum ef lögreglumaður álítur að því verði við komið og aðstæður leyfa án þess að skapa aukna hættu fyrir hann eða aðra.

Aðvörunarskoti má ekki hleypa af nema til staðar séu skilyrði til að beita skotvopni skv. 38. gr.

 

41. gr.

Skotvopni beitt gegn einstaklingi.

Ef skotvopni er beitt gegn einstaklingi á lögreglumaður að miða á stærsta hluta þess líkamshluta sem honum er sýnilegur nema sérstakar aðstæður krefjist annars. Telji lögreglumaður að því verði við komið og aðstæður leyfa án þess að skapa aukna hættu fyrir hann eða aðra, skal hann reyna að tak­marka þann skaða sem af beitingu skotvopnsins hlýst svo sem með því að skjóta í fætur við­komandi.

Hafi skotvopni verið beitt skal ávallt veita alla hugsanlega aðstoð eftir á.

 

42. gr.

Bifreiðar, bátar, loftför.

Til að stöðva bifreiðar, báta eða loftför, má aðeins beita skotvopni ef um sérstaklega hættulega aðila er að ræða og brýn þörf er á að stöðva þá strax. Ef ekki eru til staðar skilyrði 38. gr. skal skotvopni við þessar aðstæður aðeins beitt til að hefta för farartækisins.

 

43. gr.

Sprengivopn.

Sprengivopn má aðeins nota þegar skilyrði 38. gr. um beitingu skotvopna eru til staðar og auk þess telst nauðsynlegt að brjóta sér leið inn í aflokað, eða læst rými. Í vissum tilfellum er þó heimilt að nota sprengivopn til þess að trufla eða rugla athygli þess sem handtaka skal eða til að ryðja úr vegi erfiðum hindrunum við úrlausn fyrirliggjandi verkefnis.

Eingöngu þeir lögreglumenn sem fengið hafa til þess þjálfun og ríkislögreglustjóri hefur sam­þykkt mega nota sprengivopn í lögregluaðgerðum.

 

44. gr.

Lögreglumenn undir stjórn yfirmanns.

Ef lögreglumenn starfa saman í hóp undir beinni stjórn yfirmanns sem gefur skipanir um notkun vopna er notkun þeirra einungis heimil eftir skipun yfirmannsins, nema í neyðarvörn.

Ef um er að ræða lögreglumenn sérhæfða í notkun á rifflum skal gefa þeim fyrirmæli fyrirfram um hvort beiting vopnsins sé heimil. Bein skipun um beitingu vopnsins er háð samþykki lögreglustjóra eða yfirlögregluþjóns, nema í neyðarvörn.

 

45. gr.

Skýrslugerð.

Nú hefur lögreglumaður beitt eða hótað að beita vopni skv. III. kafla í starfi sínu, og skal hann þá þegar í stað gefa næsta yfirmanni sínum munnlega og síðar skriflega skýrslu með ítarlegum skýringum á ástæðum þess nema fyrir liggi að héraðssaksóknari muni taka málið til rannsóknar eða rannsókn er þegar hafin. Lögreglustjóra skal strax tilkynnt um málavexti og skal hann tryggja að gripið sé til nauðsynlegra ráðstafana, þ.m.t. að veitt verði nauðsynleg sálfræðiaðstoð ef vopni hefur verið beitt.

 

46. gr.

Skráning.

Öll tilvik þar sem lögregla vopnast með gas-, hvell-, skot- og sprengivopnum skal skrá í lögreglu­kerfið LÖKE. Fram skulu koma nauðsynlegar upplýsingar varðandi málavexti svo sem ástæðu þess að lögregla vopnaðist, stutt lýsing á atburðum og hvort skotum hafi verið hleypt af.

 

47. gr.

Skrár ríkislögreglustjóra.

Ríkislögreglustjóri heldur skotvopnaskrá lögreglu. Þá heldur ríkislögreglustjóri sérstakan vinnu­grunn fyrir fræðslu- og þjálfunarkerfi lögreglu og auk þess tölfræði um fjölda tilfella þar sem lögreglu­menn vopnast.

 

48. gr.

Mat á viðbúnaðargetu.

Um hver áramót skal lögreglustjóri senda ríkislögreglustjóra greinargerð með mati á viðbúnaðar­getu lögregluliðsins til þess að takast á við vopnatilfelli.

 

49. gr.

Erlendir lögreglumenn eða öryggisverðir.

Ríkislögreglustjóri getur heimilað erlendum lögreglumönnum og öryggisvörðum að bera vopn við störf sín hér á landi enda starfi þeir undir stjórn lögreglunnar og fylgi reglum þessum um vopnaburð og notkun vopna að öllu leyti. Ríkislögreglustjóri gefur út sérstök skírteini handa viðkomandi.

 

IV. KAFLI

Eftirför og stöðvun ökutækja með valdbeitingu.

50. gr.

Naglamottur og lokun með hindrunum.

Lögreglu er heimilt að nota naglamottur og annan búnað sem ríkislögreglustjóri hefur samþykkt notkun á til að stöðva ökutæki ef ökumaður sinnir ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og það er mat lögreglu að viðkomandi skapi hættu fyrir sig sjálfan eða aðra almannahættu með aksturslagi sínu. Einnig er heimilt að nota slíkan búnað ef nauðsynlegt er að stöðva viðkomandi strax til að hindra að hann valdi skaða á fólki, eða til að tryggja mikilvæg sönnunargögn um alvarleg afbrot, eða til að tryggja mikilvæga almannahagsmuni. Einnig er lögreglu heimilt að loka vegum með þungum öku­tækjum eða öðrum hindrunum sem þvera veg í því skyni að stöðva för viðkomandi ef stöðvunar­merkjum lögreglu hefur ekki verið sinnt.

 

51. gr.

Stöðvun ökutækis með ákeyrslu.

Lögreglu er heimilt af sömu ástæðum og getið er í 46. gr. að stöðva ökutæki með því aka lög­reglu­ökutæki á ökutækið sem á að stöðva til þess að hindra frekari akstur. Aðferðinni skal aðeins beitt ef það telst mjög nauðsynlegt að stöðva aksturinn strax, aðrar aðferðir duga ekki til eða ekki er möguleiki á að beita þeim og viðkomandi hefur ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglu.

 

52. gr.

Verklagsreglur um eftirfarir og stöðvun ökutækja.

Ríkislögreglustjóri skal setja verklagsreglur um stöðvun með valdbeitingu svo sem um fram­kvæmd og hvaða forsendur þurfa að vera til staðar við beitingu 50. og 51. gr. reglna þessara. Þá skal og í reglunum kveðið á um þjálfun lögreglumanna vegna notkunar á naglamottum og stöðvun ökutækis með hindrun eða ákeyrslu.

 

V. KAFLI

Lagastoð og gildistaka.

53. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 3. gr. vopnalaga nr. 16/1998, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi reglur um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeit­ingartækja og vopna frá 22. febrúar 1999, sbr. auglýsingu nr. 156/2015 um birtingu á reglunum.

 

Dómsmálaráðuneytinu, 30. desember 2022.

 

Jón Gunnarsson.

Kjartan J. Bjarnason.

 

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 23. janúar 2023