Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 103/2020

Nr. 103/2020 10. júlí 2020

LÖG
um breytingu á samkeppnislögum, nr. 44/2005, með síðari breytingum (almenn endurskoðun og norrænn samstarfssamningur).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: stuðla að heilbrigðu samkeppnisumhverfi til hagsbóta fyrir neytendur.

 

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 6. gr. laganna:

 1. Á eftir orðunum „af stjórn stofnunarinnar“ í 1. málsl. kemur: til fimm ára í senn.
 2. Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Aðeins er hægt að ráða sama mann forstjóra tvisvar sinnum.

 

3. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

    Samkeppniseftirlitið skal gefa út ársskýrslu um störf sín.

    

4. gr.

    Í stað 1.–3. mgr. 15. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

    Bann skv. 10. og 12. gr. gildir ekki ef samningar, samþykktir, samstilltar aðgerðir eða ákvarðanir fyrirtækja eða samtaka fyrirtækja:

 1. stuðla að bættri framleiðslu eða dreifingu á vöru eða þjónustu eða efla tæknilegar og efna­hags­legar framfarir,
 2. veita neytendum sanngjarna hlutdeild í ávinningi sem af þeim hlýst,
 3. leggja ekki höft á hlutaðeigandi fyrirtæki sem óþörf eru til að settum markmiðum verði náð og
 4. veita fyrirtækjunum ekki færi á að koma í veg fyrir samkeppni að því er varðar verulegan hluta framleiðsluvaranna eða þjónustunnar sem um er að ræða.

    Samkeppniseftirlitið skal gefa út leiðbeiningar um undanþágur skv. 1. mgr.

 

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. a laganna:

 1. Í stað fjárhæðanna „2 milljarðar kr.“ og „200 millj. kr.“ í 1. mgr. kemur: 3 milljarðar kr.; og: 300 millj. kr.
 2. C-liður 6. mgr. orðast svo: Aðilar samrunans starfa ekki á sama sölustigi (lóðréttur samruni) og markaðshlutdeild hvers þeirra á viðkomandi mörkuðum er minni en 40%.
 3. Á eftir 6. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
      Samkeppniseftirlitið getur veitt samrunaaðilum heimild til að tilkynna samruna með styttri tilkynningu þótt samruninn uppfylli ekki skilyrði a–d-liðar 6. mgr.
 4. B-liður 7. mgr. orðast svo: Lýsing á vöru- eða þjónustumörkuðum og landfræðilegum mörkuðum sem samruninn hefur áhrif á, hvaða fyrirtæki eru helstu þátttakendur á við­kom­andi mörkuðum og rökstutt mat á markaðshlutdeild samrunaaðila.
 5. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
      Samkeppniseftirlitið getur veitt undanþágu frá efniskröfum a–d-liðar 8. mgr.

 

6. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „einn milljarður króna“ í 1. málsl. 3. mgr. 17. gr. b laganna kemur: 1,5 milljarðar kr.

 

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. d laganna:

 1. 1. mgr. orðast svo:
      Samkeppniseftirlitið skal innan 25 virkra daga tilkynna þeim aðila sem sent hefur stofn­uninni fullnægjandi samrunatilkynningu ef hún telur ástæður til frekari rannsóknar á samkeppnis­legum áhrifum samruna. Berist tilkynning frá Samkeppniseftirlitinu skv. 1. málsl. ekki innan tilskilins frests getur Samkeppniseftirlitið ekki ógilt samrunann. Ákvörðun um ógildingu samruna skal taka eigi síðar en 90 virkum dögum eftir að tilkynning skv. 1. málsl. hefur verið send þeim aðila sem tilkynnti um samruna. Setji samrunaaðilar, sem óska eftir sáttaviðræðum við Samkeppniseftirlitið, fram möguleg skilyrði vegna samrunans á 55. virka degi rannsóknar eftir að tilkynning skv. 1. málsl. var send þeim aðila sem tilkynnti um samruna, eða síðar, framlengist frestur til rannsóknar samrunans sjálfkrafa um 15 virka daga. Óski samrunaaðilar þess er Samkeppniseftirlitinu heimilt að framlengja framangreinda fresti til rannsóknar samruna um allt að 20 virka daga.
 2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
      Frestir samkvæmt ákvæði þessu byrja að líða fyrsta virka dag eftir viðkomandi tímamark.

 

8. gr.

    Á eftir 1. mgr. 17. gr. f laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

    Ef Samkeppniseftirlitið hefur til rannsóknar háttsemi sem kann að fara gegn ákvæðum 10.–12. gr. og hlutaðeigandi fyrirtæki eða samtök fyrirtækja bjóðast til að taka á sig skuldbindingar sem Samkeppniseftirlitið metur að bindi enda á samkeppnistakmarkanir er Samkeppniseftirlitinu heimilt að taka ákvörðun um að ljúka máli með sátt um þær skuldbindingar. Heimilt er að samþykkja skuldbindingar til tiltekins tíma.

    Samkeppniseftirlitinu er heimilt, að fenginni beiðni aðila eða að eigin frumkvæði, að hefja máls­meðferð að nýju:

 1. ef verulegar breytingar hafa orðið á þeim málsatvikum sem liggja til grundvallar ákvörðun,
 2. ef hlutaðeigandi fyrirtæki efna ekki skuldbindingar sínar, eða
 3. ef ákvörðunin er byggð á ófullnægjandi, röngum eða villandi upplýsingum sem aðilar hafa látið í té.

 

9. gr.

    17. gr. g laganna orðast svo:

    Fyrirtæki sem tilkynnir samruna skv. 1. mgr. 17. gr. a skal greiða samrunagjald að fjárhæð 500.000 kr. fyrir hverja samrunatilkynningu. Fyrirtæki sem tilkynnir samruna skv. 6. mgr. 17. gr. a skal greiða samrunagjald að fjárhæð 200.000 kr. fyrir hverja samrunatilkynningu. Fyrirtæki sem tilkynnir samruna samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins á grundvelli 3. mgr. 17. gr. b skal ekki greiða samrunagjald. Samrunagjald er greitt við afhendingu samrunatilkynningar og rennur til Samkeppniseftirlitsins.

 

10. gr.

    Við 19. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

    Ákvæði þessarar greinar um upplýsingaskyldu gilda einnig um upplýsingar og gögn sem krafist er af Samkeppniseftirlitinu í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt milliríkjasamningum.

 

11. gr.

    Við 1. mgr. 20. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Samkeppniseftirlitinu er jafnframt heimilt að framkvæma athuganir skv. 1. málsl. að beiðni samkeppnisyfirvalda í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Grænlandi og Færeyjum í samræmi við milliríkjasamning ríkjanna.

 

12. gr.

    2. mgr. 35. gr. laganna fellur brott.

 

13. gr.

    40. gr. laganna fellur brott.

 

14. gr.

    Við 41. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

    Beri aðili ákvörðun Samkeppniseftirlitsins undir dómstóla án þess að úrskurður áfrýjunarnefndar liggi fyrir skal mál höfðað innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um ákvörðunina.

 

15. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skulu 4. og 16. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. janúar 2021.

 

16. gr.

    Eftirfarandi breyting verður á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum: Í stað orðanna „að fengnu leyfi Samkeppniseftirlitsins, skv.“ í d-lið 5. mgr. 8. gr. laganna kemur: uppfylltum skil­yrðum.

 

Gjört á Bessastöðum, 10. júlí 2020.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.


A deild - Útgáfud.: 22. júlí 2020