Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 953/2023

Nr. 953/2023 1. september 2023

AUGLÝSING
um staðfestingu á breytingu á skipulagsskrá fyrir Þekkingarnet Þingeyinga, nr. 429/2006 með síðari breytingu nr. 611/2010.

1. gr.

Stjórn sjóðsins hefur samþykkt eftirfarandi breytingu á skipulagsskrá sjóðsins:

 

3. gr. orðist svo:

Markmið Þekkingarnets Þingeyinga eru:

Símenntun

að vera miðstöð símenntunar og fullorðinsfræðslu í Þingeyjarsýslum
að efla menntunarmöguleika í Þingeyjarsýslum
að bjóða upp á námskeið og námsleiðir tengd atvinnulífi og tómstundum
að hafa milligöngu um fjarnámsframboð í héraðinu í samstarfi við skóla á viðkomandi skóla­stigum
að veita námsráðgjöf og stuðning við nema og fólk sem hyggur á nám
að vinna með fyrirtækjum, sveitarfélögum og stofnunum við mótun símenntunarstefnu þeirra og sérsniðinna námsleiða

Rannsóknir og þróun

að vera miðstöð rannsóknastarfs og rannsakenda í Þingeyjarsýslum
að hafa frumkvæði að rannsóknaverkefnum og rannsóknastarfi í héraðinu
að þjóna vísinda- og fræðimönnum, einstaklingum, rannsóknanemum í framhaldsnámi, stofn­unum og samtökum í Þingeyjarsýslum
að vera leiðandi afl í að byggja upp samstarf þeirra aðila er stunda rannsóknir í héraðinu og stuðla að aukinni starfsemi rannsóknaraðila í héraðinu
að taka virkan þátt í að móta öflugt nýsköpunarumhverfi í Þingeyjarsýslum í samstarfi við hagsmunaaðila í héraðinu
að byggja upp samstarf og tengsl hagsmunaaðila innan íslensks nýsköpunarumhverfis

Háskólanám

að starfrækja háskólanámssetur á Húsavík og eftir þörfum víðar í Þingeyjarsýslum með tilheyr­andi aðstöðu og búnaði
að vinna með háskólum að bættri þjónustu í formi fjarkennslu og staðbundins náms í Þing­eyjar­sýslum
að þróa námsleiðir og/eða námskeið sem byggja á sérstöðu í náttúrufari og/eða menningu í Þingeyjarsýslum í samstarfi við háskóla

Nýsköpun

að stuðla að samþættingu svæðisbundins fræðslu- og rannsóknastarfs við nýsköpunar- og frumkvöðlastarf með klasasamstarfi á starfssvæðinu
að stuðla að eflingu frumkvöðlastarfs og vinna að bættri aðstöðu og aðbúnaði til nýsköpunar­starfs á starfssvæðinu, t.a.m. með uppbyggingu og rekstri frumkvöðlasetra og/eða fablab-smiðja

Samþætting þekkingarstarfs

að efla byggð í Þingeyjarsýslum með styrkri símenntun, þjónustu á sviði háskólanáms, rann­sóknastarfi og aðstöðu fyrir nýsköpunarstarf
að samþætta rannsóknir, fræðastarf, menntun og þróunarstarf og hagsmuni þeirra aðila sem koma að þessum málaflokkum.

 

4. gr. orðist svo:

Í stjórn stofnunarinnar sitja átta, tilnefnd til tveggja ára í senn. Samsetning stjórnar miðast við að hafa fulltrúa frá stéttarfélögum á starfssvæðinu, atvinnulífinu á starfssvæðinu, frá Norðurþingi, sveitar­stjórnum í Þingeyjarsýslum utan Húsavíkur, framhaldsskólum héraðsins, háskólum og stofn­unum sem starfa í samstarfsklasa Þekkingarnetsins. Stjórnarfólk skal tilnefnt á aðalfundi.

Til að ná þessu markmiði tilnefna eftirtaldir aðilar einn stjórnarmann hver:

Framsýn stéttarfélag
Samtök atvinnurekenda á Norðurlandi eystra
Norðurþing
Þingeyjarsveit, Langanesbyggð og Tjörneshreppur (einn sameiginlega)
Framhaldsskólinn á Laugum og Framhaldsskólinn á Húsavík (einn sameiginlega)
Háskólinn á Akureyri
Háskóli Íslands
Náttúrustofa Norðausturlands

Ef tilnefningar til stjórnar berast ekki fyrir aðalfund er fráfarandi stjórn heimilt að tilnefna fulltrúa í stjórn í stað þess sem vantar.

Falli stjórnarmaður úr stjórn af einhverjum ástæðum velur sá aðili sem hann tilnefndi annan í hans stað til stjórnarsetu frá og með næsta stjórnarfundi. Stjórnin skiptir með sér verkum til tveggja ára í senn og kýs sér formann, varaformann og ritara. Stjórn er heimilt að tilnefna framkvæmdaráð, skipað 3 stjórnarmönnum sem starfar í umboði stjórnar með forstöðumanni. Á fundum stjórnar ræður ein­faldur meirihluti atkvæða úrslitum. Falli atkvæði á stjórnarfundum jafnt hefur atkvæði for­manns tvöfalt vægi. Formanni stjórnar er skylt að boða fund ef a.m.k. tveir stjórnarmenn krefjast þess. Það sem gerist á fundum stjórnar skal bókað í gerðabók.

Stjórn Þekkingarnetsins fer með æðsta vald stofnunarinnar, mótar stefnu og starfstilhögun og vinnur að markmiðum stofnunarinnar skv. 3. gr. Stjórn ber ábyrgð á rekstri, fjárhag og eignum stofn­unarinnar og setur henni reglur. Stjórnarfundir skulu boðaðir með a.m.k. 5 daga fyrirvara. Stjórnar­maður víkur af fundi sé fjallað um málefni er varða hann persónulega. Stjórnin ræður lög­giltan endurskoðanda til að yfirfara reikninga stofnunarinnar. Stjórn hefur heimild til að skipa nefndir um sérstök verkefni.

 

5. gr. orðist svo:

Aðalfund sjálfseignarstofnunarinnar skal halda ár hvert. Formaður stjórnar boðar til aðalfundar með dagskrá með minnst 7 daga fyrirvara og skal hann haldinn fyrir 1. júlí ár hvert. Á aðalfundi skal stjórn leggja fram skýrslu um starfsemi ársins, ársreikning fyrir undangengið fjárhagsár ásamt áætlun um starfsemi komandi árs. Á aðalfundi skal lýsa tilnefningum í stjórn og leggja fram reikninga síðasta árs ásamt ársskýrslu stjórnar.

 

2. gr.

Ofangreind breyting á skipulagsskrá fyrir Þekkingarnet Þingeyinga staðfestist hér með sam­kvæmt lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

 

F.h. sýslumannsins á Norðurlandi vestra, 1. september 2023,

 

Björn Hrafnkelsson.

Auður Steingrímsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 15. september 2023