Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 730/2022

Nr. 730/2022 2. júní 2022

SKIPULAGSSKRÁ
fyrir Römpum upp Ísland.

1. gr.

Sjálfseignarstofnunin heitir Römpum upp Ísland. Stofnunin starfar skv. lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Heimili stofnunarinnar og varnarþing er í Reykjavík. Stofnunin stundar ekki atvinnurekstur.

 

2. gr.

Markmið stofnunarinnar er að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitinga­húsum á Íslandi. Stofnunin sér um framkvæmd og/eða styrkir aðila til að koma upp römpum eða annars konar lausnum við innganga sína og tryggja þannig að fólk með hreyfihömlun hafi aðgengi að þeirri þjónustu sem þar stendur til boða, auk tengdra verkefna sem snúa að aðgengismálum.

 

3. gr.

Stofnfé stofnunarinnar er framlag frá stofnanda hennar, UENO ehf., kt. 430214-0120, kr. 10.000.000 í peningum.

Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum og öðrum þeim eignum er hún kann að eignast síðar.

Engin sérréttindi í stofnuninni tilheyra stofnanda hennar.

 

4. gr.

Tekjur stofnunarinnar eru framlög einstaklinga, fyrirtækja, samtaka og stofnana og opinberra aðila til verkefnisins. Heimilt er að verja vaxtatekjum og verðbótum til styrkveitinga og reksturs stofn­unarinnar.

Eina milljón af stofnfé, auk verðbóta, má ekki skerða, en vöxtum, gjöfum, áheitum og öðrum gjöfum sem stofnuninni kann að áskotnast, skal varið í samræmi við tilgang hennar samkvæmt 2. gr.

 

5. gr.

Styrkveitingar úr sjóðnum fara fram eins fljótt og kostur er eftir að stjórn hefur samþykkt umsókn.

 

6. gr.

Stjórn stofnunarinnar skal skipuð þremur aðilum og þremur til vara. Stjórnin skal skipuð til eins árs í senn. Haraldur Ingi Þorleifsson, kt. 020877-3089, tilnefnir aðal- og varamenn í stjórn. Gengið skal frá skipun fyrstu stjórnar stofnunarinnar á stofnfundi.

Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum, en kosnir skulu a.m.k. formaður, ritari, sem jafnframt skal vera varaformaður og gjaldkeri. Stjórnin stýrir öllum málefnum stofnunarinnar og kemur fram út á við fyrir hönd hennar. Stjórnin skal sjá til þess að skipulag og starfsemi hennar sé jafnan í réttu og góðu horfi. Undirskriftir meirihluta stjórnar skuldbinda stofnunina. Stjórn stofnunarinnar getur veitt prókúru­umboð fyrir stofnunina.

Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið, sé þess nokkur kostur. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Halda skal fundargerðabók um það sem gerist á stjórnarfundum.

 

7. gr.

Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda. Hver stjórnarmaður getur krafist stjórnarfunda. Stjórnin skal setja sér starfsreglur, þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa hennar.

 

8. gr.

Stjórn stofnunarinnar skal velja einn eða fleiri löggilta endurskoðendur eða skoðunarmenn til að endurskoða reikninga stofnunarinnar fyrir hvert starfsár. Endurskoðendur eða skoðunarmenn má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna stofnunarinnar.

 

9. gr.

Reikningsárið er almanaksárið og er fyrsta reikningstímabil frá stofnun sjálfseignarstofnunarinnar og til næstu áramóta.

 

10. gr.

Skipulagsskrá stofnunarinnar verður ekki breytt eða stofnunin lögð niður nema með samþykki allra stjórnarmanna. Slíkt skal svo borið skriflega undir embætti sýslumannsins á Norðurlandi vestra. Verði stofnunin lögð niður skal hreinum eignum hennar ráðstafað í samræmi við tilgang stofnunar­innar.

 

11. gr.

Þar sem ákvæði skipulagsskrár þessarar ná ekki til um hvernig með skuli farið, skal hlíta ákvæð­um laga nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, svo og öðrum lagaákvæðum er við geta átt.

 

12. gr.

Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Norðurlandi vestra á skipulagsskrá þessari.

Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa sam­kvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988.

 

F.h. sýslumannsins á Norðurlandi vestra, 2. júní 2022,

 

Björn Hrafnkelsson.

Auður Steingrímsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 20. júní 2022