Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 23/2020

Nr. 23/2020 21. mars 2020

LÖG
um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa (minnkað starfshlutfall).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

I. KAFLI

Breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (XIII.)

    Þegar atvinnuleysisbætur eru greiddar samhliða minnkuðu starfshlutfalli skv. 17. gr. vegna tíma­bundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda skulu föst laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnk­aða starfshlutfall ekki koma til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. enda hafi fyrra starfshlutfall lækkað um 20 prósentustig hið minnsta og launamaður haldið að lágmarki 25% starfs­hlutfalli. Atvinnurekanda er óheimilt að krefjast vinnuframlags frá launamanni umfram það starfs­hlutfall sem eftir stendur þegar starfshlutfall hefur verið minnkað.

    Greiðslur atvinnuleysisbóta skv. 1. mgr. skulu nema hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta í réttu hlutfalli við hið skerta starfshlutfall. Laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta samanlagt geta þó aldrei numið hærri fjárhæð en 700.000 kr. á mánuði og skulu ekki nema hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launa­manns. Til að finna út meðaltal heildarlauna skal miða við þriggja mánaða tímabil áður en launamaður missti starf sitt að hluta. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.

    Samtala launa frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbóta sam­kvæmt ákvæði þessu skal ekki sæta skerðingu skv. 2. málsl. 2. mgr. ef meðaltal heildarlauna launa­manns er undir 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf. Ef meðaltal heildarlauna launa­manns er yfir 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf má skerðing skv. 2. málsl. 2. mgr. aldrei verða til þess að samtala launa frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnu­leysis­bóta samkvæmt þessu ákvæði nemi samanlagt lægri fjárhæð en 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf.

    Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir upplýsingum og gögnum frá vinnuveitanda sem launa­maður missti starf sitt hjá að hluta þar sem fram komi nánari rökstuðningur fyrir samdrætti í starf­seminni, svo sem fækkun verkefna eða samdráttur í þjónustu.

    Heimilt er að greiða bætur samkvæmt þessu ákvæði þótt launamaður teljist ekki tryggður í skilningi laganna, svo sem vegna náms, sbr. 52. gr., eða skilyrða um ávinnslutímabil, sbr. 15. gr., enda sé skilyrðum ákvæðisins fullnægt. Önnur ákvæði laganna gilda um greiðslu bóta samkvæmt þessu ákvæði eftir því sem við getur átt. Greiðslur atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæði þessu skerða ekki áunnin réttindi til greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt lögunum.

    Ákvæði þetta á ekki við um launamenn sem njóta réttar til kauptryggingar og starfa hjá vinnu­veitanda sem á rétt á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði í tímabundinni vinnslustöðvun á grundvelli laga um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.

    Ákvæði þetta gildir frá og með 15. mars 2020 og fellur úr gildi 1. júní 2020.

    b. (XIV.)

    Sjálfstætt starfandi einstaklingur telst uppfylla skilyrði f- og g-liðar 1. mgr. 18. gr., sbr. einnig 20. og 21. gr., um stöðvun rekstrar, hafi hann tilkynnt Skattinum um verulegan samdrátt í rekstri sínum sem leiðir til tímabundinnar stöðvunar á rekstri.

    Taki sjálfstætt starfandi einstaklingur að sér tilfallandi verkefni samhliða greiðslu atvinnu­leysis­bóta skal hann tilkynna það til Vinnumálastofnunar enda á viðkomandi ekki rétt á atvinnu­leysis­bótum á því tímabili sem verkefnið stendur yfir.

    Skattinum er heimilt, að eigin frumkvæði, að miðla upplýsingum til Vinnumálastofnunar sem varða úrræðið sem kveðið er á um í þessu ákvæði, sbr. 4. mgr. 9. gr.

    Ákvæði þetta gildir frá og með 15. mars 2020 og fellur úr gildi 1. júní 2020.

 

II. KAFLI

Breyting á lögum um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003,
með síðari breytingum.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, III, svohljóðandi:

    Þrátt fyrir a-lið 5. gr. skal taka mið af vinnulaunum launamanns fyrir síðustu þrjá starfsmánuði hans í þjónustu vinnuveitanda áður en starfshlutfall launamanns var minnkað vegna samdráttar í starfsemi vinnuveitanda vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði. Að öðru leyti gildir a-liður 5. gr.

    Þrátt fyrir b-lið 5. gr. skal við útreikning bóta vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi eftir að starfshlutfall hafði áður verið minnkað taka mið af vinnulaunum launamanns í samræmi við 1. mgr. enda hafi héraðsdómara borist krafa um gjaldþrotaskipti á búi vinnuveitanda innan tólf mánaða frá því að starfshlutfall launamanns var minnkað. Að öðru leyti gildir b-liður 5. gr.

    Ákvæði þetta gildir frá og með 15. mars 2020 og fellur úr gildi 1. júní 2020.

 

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

Gjört á Bessastöðum, 21. mars 2020.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Ásmundur Einar Daðason.


A deild - Útgáfud.: 23. mars 2020