Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 32/2021

Nr. 32/2021 29. apríl 2021

LÖG
um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

I. KAFLI

Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:

  1. Í stað orðsins „almenningsheilla“ í 4. tölul. kemur: almannaheilla.
  2. Við 4. tölul. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
        Eftirtalin starfsemi telst til almannaheilla:
    1. mannúðar- og líknarstarfsemi,
    2. æskulýðs- og menningarmálastarfsemi,
    3. starfsemi björgunarsveita, landssamtaka björgunarsveita og slysavarnadeilda og ein­stakra félagseininga sem starfa undir merkjum samtakanna,
    4. vísindaleg rannsóknarstarfsemi,
    5. starfsemi sjálfstæðra háskólasjóða og annarra menntasjóða,
    6. neytenda- og forvarnastarfsemi,
    7. starfsemi þjóðkirkjunnar, þjóðkirkjusafnaða og annarra skráðra trú- og lífsskoðunar­félaga.
  3. Við bætist nýr töluliður, 9. tölul., svohljóðandi: Þeir lögaðilar sem um ræðir í 5. tölul. 1. mgr. 2. gr., sbr. 5. tölul. þessarar greinar, sem hafa með höndum starfsemi sem fellur undir a–g-lið 2. mgr. 4. tölul. og eru skráðir í sérstaka almannaheillaskrá hjá fyrirtækjaskrá Skatts­ins. Ákvæði VII. kafla laga um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starf­semi yfir landamæri, nr. 119/2019, gilda um skráningu lögaðila í almannaheillaskrána eftir því sem við á. Þrátt fyrir 1. málsl. er lögaðila heimilt að stunda atvinnustarfsemi til fjár­öfl­unar innan þeirra marka sem tilgreind eru í samþykktum hans og leiða má beint af tilgangi lögaðilans eða starfsemi sem hefur aðeins óverulega fjárhagslega þýðingu með tilliti til heildar­tekna hans.

 

2. gr.

    Við A-lið 1. mgr. 30. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Gjafir og framlög til lögaðila skv. 9. tölul. 4. gr., að lágmarki samtals 10 þús. kr. og allt að hámarki samtals 350 þús. kr. á almanaksári. Skilyrði frádráttar samkvæmt þessum lið er að sá lögaðili sem veitir viðtöku gjöfum eða framlögum til starfsemi sinnar falli undir 2. mgr. 4. tölul. 4. gr. og sé sem slíkur skráður í sérstaka almannaheillaskrá hjá fyrirtækjaskrá Skattsins á því tímamarki þegar gjöf er afhent eða framlag er veitt og upplýsingar um fjárhæð fjárframlags hafi verið mótteknar frá viðtakanda til áritunar á skattframtal skv. 92. gr. Ráðherra setur með reglugerð nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

 

3. gr.

    2. tölul. 31. gr. laganna orðast svo: Einstakar gjafir og framlög til lögaðila skv. 9. tölul. 4. gr., þó ekki yfir 1,5% af tekjum skv. B-lið 7. gr. á því ári sem gjöf er afhent eða framlag er veitt. Auk þess skulu gjafir og framlög til aðgerða sem stuðla eiga að kolefnisjöfnun, svo sem aðgerða í rekstri til kolefnisjöfnunar, sem og fjárframlög til skógræktar, uppgræðslustarfa og endurheimtar votlendis falla undir þennan tölulið, þó ekki yfir 1,5% af tekjum skv. B-lið 7. gr. á því ári sem gjöf er afhent eða framlag er veitt. Skilyrði frádráttar skv. 1. málsl. er að sá lögaðili sem veitir viðtöku gjöfum eða framlögum til starfsemi sinnar falli undir 2. mgr. 4. tölul. 4. gr. og sé sem slíkur skráður í sérstaka almannaheillaskrá hjá fyrirtækjaskrá Skattsins á því tímamarki þegar gjöf er afhent eða framlag er veitt. Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um hvaða málaflokkar og stofnanir falla undir þennan tölulið og um framkvæmd hans að öðru leyti.

 

4. gr.

    Í stað orðanna „1., 2., 4., 5., 6., 7. og 8. tölul.“ í 1. málsl. 4. mgr. 71. gr. laganna kemur: 1., 2., 5., 6., 7. og 8. tölul.

 

5. gr.

    Á eftir orðunum ,,sem og tekjur af þeim“ í 6. mgr. 92. gr. laganna kemur: veittar og mótteknar gjafir eða framlög til starfsemi sem telst til almannaheilla skv. 2. mgr. 4. tölul. 4. gr.

 

II. KAFLI

Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

6. gr.

    5. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:

    Góðgerðarstarfsemi er undanþegin skattskyldu, enda renni hagnaður af henni að öllu leyti til lögaðila sem fellur undir 9. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Skilyrði fyrir undanþágu eru auk þess að starfsemin sé á ábyrgð og fjárhagslegri áhættu aðila sem hefur með höndum góðgerðarstarfsemi og að hann hafi fengið staðfestingu Skattsins um að framangreind skilyrði séu uppfyllt. Undanþága samkvæmt þessari málsgrein tekur eingöngu til eftirtalinnar starfsemi:

  1. basarsölu, merkjasölu og annarrar hliðstæðrar sölu, þ.m.t. sölu í netverslun, enda vari starf­semin ekki lengur en í 5 daga í hverjum mánuði eða í 25 daga sé um árlegan atburð að ræða,
  2. söfnunar og sölu verðlítilla notaðra muna, enda sé einungis selt til skattskyldra aðila,
  3. sölu nytjamarkaða á notuðum munum sem seljandi hefur fengið afhenta án endurgjalds,
  4. sölu listaverka, enda falli listaverkin undir tollskrárnúmer 9701.1000–9703.0000.

 

7. gr.

    42. gr. A laganna orðast svo:

    Endurgreiða skal lögaðilum sem falla undir 9. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, 60% þess virðisaukaskatts sem þessir aðilar hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum, eða sérgreindum matshlutum þeirra, sem alfarið eru í eigu þeirra samkvæmt skráningu í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Þrátt fyrir að skráning í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands sé ekki til staðar er endurgreiðsla heimil ef fyrir liggur fullgildur kaupsamningur um viðkomandi mannvirki, eða sérgreindan matshluta þess, og umsækjandi hefur fengið það afhent á grundvelli kaupsamnings.

    Endurgreiðsla samkvæmt ákvæði þessu tekur til mannvirkja sem að yfirgnæfandi hluta eru nýtt í þágu meginstarfsemi umsækjanda samkvæmt samþykktum hans. Endurgreiðsla tekur ekki til íbúðar- og frístundahúsnæðis eða mannvirkja sem einkum eru notuð í atvinnustarfsemi í samkeppni við annan atvinnurekstur. Þá tekur endurgreiðsla ekki til virðisaukaskatts sem telja má til innskatts, sbr. VII. kafla.

    Frekari skilyrði fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt ákvæði þessu eru eftirfarandi:

  1. Umsækjandi sé skráður í fyrirtækjaskrá og sérstaka almannaheillaskrá hjá fyrirtækjaskrá Skattsins og sé hvorki í heild né að hluta í opinberri eigu, þ.e. hvorki opinberra hlutafélaga, ríkis, sveitarfélaga eða stofnana né í eigu félags alfarið í þeirra eigu.
  2. Virðisaukaskattur sem umsókn tekur til sé ekki af kostnaði við aðföng sem varða lögbundnar skyldur opinberra aðila, svo sem lögmælt verkefni ríkis, sveitarfélaga og/eða félaga eða stofnana alfarið í þeirra eigu vegna byggingar mannvirkis.
  3. Samanlögð fjárhæð endurgreidds virðisaukaskatts og styrks frá opinberum aðilum vegna framkvæmdar sé ekki hærri en heildarfjárhæð vinnu við framkvæmdir.
  4. Umsækjandi hagi bókhaldi sínu þannig að unnt sé að hafa eftirlit með því að virðis­auka­skattur verði leiðréttur ef breyting verður á forsendum fyrir endurgreiðslu skv. 4. mgr.
  5. Umsækjandi sé ekki í vanskilum vegna opinberra gjalda eða afdreginna lífeyrisiðgjalda. Leggja skal fram staðfestingu á skuldastöðu við opinbera aðila og lífeyrissjóði.

    Verði breyting á forsendum endurgreiðslu innan tíu ára frá því að framkvæmd fór fram, svo sem ef viðkomandi mannvirki er selt eða tekið til annarrar notkunar en varðar meginstarfsemi umsækj­anda samkvæmt samþykktum hans, skal umsækjandi leiðrétta virðisaukaskatt og endur­greiða ríkissjóði þá fjárhæð sem hann hefur móttekið vegna þess mannvirkis.

 

8. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    Þrátt fyrir ákvæði 42. gr. A skal á tímabilinu 1. janúar 2022 til 31. desember 2025 endurgreiða lögaðilum sem falla undir 9. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, 100% þess virðis­auka­skatts sem þessir aðilar hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endur­bætur á mannvirkjum, eða sérgreindum matshlutum þeirra, sem alfarið eru í eigu þeirra sam­kvæmt skráningu í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Um endurgreiðslu samkvæmt ákvæði þessu gildir að öðru leyti 42. gr. A.

    Ákvæði þetta skal sæta endurskoðun fyrir 31. desember 2025.

 

III. KAFLI

Breyting á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013.

9. gr.

    Á eftir 3. mgr. 3. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

    Lögaðilar sem falla undir 9. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og eru undanþegnir greiðslu tekjuskatts samkvæmt þeim lögum, eru undanþegnir gjaldskyldu samkvæmt lögum þessum.

 

IV. KAFLI

Breyting á lögum um erfðafjárskatt, nr. 14/2004.

10. gr.

    5. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:

    Ekki skal greiða erfðafjárskatt af gjöfum og framlögum til lögaðila sem falla undir 9. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

 

V. KAFLI

Breyting á lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003.

11. gr.

    Á eftir orðinu „landamæri“ í 4. tölul. 2. gr. og 3. gr. laganna kemur: lögaðila sem falla undir 9. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

 

12. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. nóvember 2021. Þó öðlast 7. og 8. gr. gildi 1. janúar 2022.

 

Gjört á Bessastöðum, 29. apríl 2021.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Bjarni Benediktsson.


A deild - Útgáfud.: 10. maí 2021