Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 7/2023

Nr. 7/2023 27. febrúar 2023

LÖG
um breytingu á lögum um sértryggð skuldabréf og lögum um fjármálafyrirtæki (sértryggð skuldabréf).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

I. KAFLI

Breyting á lögum um sértryggð skuldabréf, nr. 11/2008.

1. gr.

    9. tölul. 2. gr. laganna orðast svo: Útgáfurammi sértryggðra skuldabréfa: Rammi um útgáfu sér­tryggðra skuldabréfa sem gefin eru út af sama útgefanda á grundvelli sama leyfis frá Fjármála­eftirlitinu.

 

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:

 1. Við 2. mgr. bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
  1. Að útgefandi hafi fullnægjandi stefnur, kerfi og ferla varðandi samþykki, breytingar, endurnýjun og endurfjármögnun lána í tryggingasafni til verndar eigendum sér­tryggðra skuldabréfa.
  2. Að þeir sem annast útgáfu hafi fullnægjandi hæfni og þekkingu á útgáfu sértryggðra skuldabréfa.
 2. Í stað orðsins „flokka“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: útgáfuramma.

 

3. gr.

    Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Evrópsk sértryggð skuldabréf.

    Skuldabréf sem uppfylla skilyrði laga þessara og reglna settra á grundvelli þeirra má mark­aðs­setja sem „evrópsk sértryggð skuldabréf“ eða „evrópsk sértryggð skuldabréf (úrvals)“, eða með opinberri þýðingu sömu hugtaka annars ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu.

 

4. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 6. gr. a og 6. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svo­hljóðandi:

    a. (6. gr. a.)

Laust fé í tryggingasafni.

    Í tryggingasafni skal ávallt vera nægt laust fé til að standa undir hreinu hámarksútflæði lauss fjár vegna sértryggðra skuldabréfa sem safnið tryggir og afleiðusamninga sem þeim tengjast næstu 180 daga.

    Við ákvörðun á hámarksútflæði lauss fjár skv. 1. mgr. getur útgefandi miðað við síðasta mögu­lega gjalddaga sértryggðs skuldabréfs sem heimilar frestun gjalddaga, sbr. 13. gr. b.

    Í reglum Seðlabanka Íslands skv. 5. tölul. 25. gr. skal afmarkað hvaða eignir megi telja til lauss fjár skv. 1. mgr. Ekki má telja ótryggðar kröfur í vanskilum skv. 178. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, sbr. lög um fjármálafyrirtæki, til lauss fjár skv. 1. mgr.

    b. (6. gr. b.)

Samræmi við reglugerð (ESB) nr. 575/2013.

    Tryggingasafn skal uppfylla skilyrði 129. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, sbr. lög um fjár­mála­fyrirtæki.

 

5. gr.

    Í stað orðanna „honum heimilt að“ í 2. málsl. 3. mgr. 8. gr. laganna kemur: hann.

 

6. gr.

    11. gr. laganna orðast svo:

    Uppreiknuð heildarfjárhæð höfuðstóls skuldabréfa og annarra eigna í tryggingasafni sem stendur til tryggingar tilteknum útgáfuramma sértryggðra skuldabréfa skal ávallt nema a.m.k. 5% hærri fjárhæð en sem nemur uppreiknaðri heildarfjárhæð höfuðstóls þess tiltekna útgáfuramma.

 

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:

 1. Í stað orðsins „flokks“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: útgáfuramma.
 2. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Umfang afleiðusamninga skal endurskoðað reglulega þannig að það sé ekki meira en þörf er á til að viðhalda hæfilegu jafnvægi og afleiðusamningar gerðir upp þegar sú áhætta sem þeim er ætlað að mæta er ekki lengur til staðar.
 3. Við 1. málsl. 2. mgr. bætist: og standi undir væntum kostnaði við slit útgáfuramma sér­tryggðra skuldabréfa.
 4. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
      Afleiðusamningar skulu metnir á markaðsvirði. Nú liggur markaðsvirði afleiðusamnings ekki fyrir og skal þá ákvarða virði hans með sérstöku mati. Matið skal vera grundvallað á almennum og viðurkenndum aðferðum við mat á virði afleiðusamninga.
      Andvirði ótryggðra krafna í vanskilum skv. 178. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, sbr. lög um fjármálafyrirtæki, telst ekki til andvirðis tryggingasafns.

 

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:

 1. Á eftir orðinu „gagnaðila“ í 8. tölul. 1. mgr. kemur: tryggingu sem gagnaðili leggur fram.
 2. Í stað orðsins „flokki“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: útgáfuramma.

 

9. gr.

    Á eftir 13. gr. laganna kemur ný grein, 13. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Upplýsingagjöf til fjárfesta.

    Útgefandi skal birta á vef sínum upplýsingar um útgáfuramma sértryggðra skuldabréfa sem hann gefur út. Upplýsingarnar skulu vera nægilega nákvæmar til að gera fjárfestum kleift að meta snið og áhættu útgáfuramma. Að lágmarki ársfjórðungslega skulu birtar upplýsingar um a.m.k. eftir­farandi:

 1. Virði tryggingasafns og útistandandi sértryggðra skuldabréfa.
 2. Alþjóðleg auðkennisnúmer (ISIN) sem útgáfur sértryggðra skuldabréfa hafa hlotið.
 3. Landfræðilega dreifingu og tegund eigna í tryggingasafni, stærð lána í tryggingasafni og hvernig virði eigna í tryggingasafni er metið.
 4. Markaðsáhættu, þar á meðal vaxta- og gjaldmiðilsáhættu, og útlána- og lausafjáráhættu.
 5. Gjalddaga eigna í tryggingasafni og sértryggðra skuldabréfa, þ.m.t. yfirlit yfir atburði sem geta valdið því að gjalddögum verði frestað.
 6. Áskilda og tiltæka tryggingaþekju, þar á meðal um lögboðna, samningsbundna og valkvæða tryggingaþekju umfram þá sem áskilin er í 11. gr.
 7. Hlutfall lána sem hafa verið í vanskilum í 90 daga eða lengur eða eru af öðrum sökum í vanskilum skv. 178. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, sbr. lög um fjármálafyrirtæki.

 

10. gr.

    Á eftir VI. kafla laganna kemur nýr kafli, VI. kafli A, Frestun gjalddaga, með einni nýrri grein, 13. gr. b, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Frestun gjalddaga.

    Útgefandi eða skiptastjóri í þrotabúi útgefanda getur með samþykki Fjármálaeftirlitsins frestað gjalddaga samkvæmt sértryggðu skuldabréfi. Samþykki er háð eftirfarandi skilyrðum:

 1. Frestunin er nauðsynleg:
  1. til að koma í veg fyrir vanefnd á sértryggðu skuldabréfi eða afleiðusamningi án þess að til sölu eigna með verulegum afföllum komi,
  2. svo að tímanleg inngrip Fjármálaeftirlitsins eða skilameðferð nái markmiðum sínum eða
  3. til að hámarka heimtur eigenda sértryggðra skuldabréfa og gagnaðila í afleiðu­samningum við slit eða skipti á búi útgefanda.
 2. Frestunin byggist á skýrri heimild í skilmálum skuldabréfsins þar sem greint er frá síðasta mögulega gjalddaga, atburðum sem geta valdið því að gjalddögum verði frestað, afleið­ingum sem ógjaldfærni eða skilameðferð útgefanda kann að hafa á frestun gjalddaga og hlut­verki Fjármálaeftirlitsins við frestun gjalddaga.
 3. Frestunin raskar ekki röð gjalddaga sértryggðra skuldabréfa sem eru tryggð með sama tryggingasafni.

    Útgefandi eða skiptastjóri í þrotabúi útgefanda skal þegar í stað tilkynna eigendum skulda­bréfsins um frestun og hve lengi hún varir.

 

11. gr.

    14. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Réttaráhrif skila- og ógjaldfærnimeðferðar.

    Sértryggð skuldabréf falla ekki sjálfkrafa í gjalddaga við skilameðferð, endurskipulagningu fjárhags eða slit útgefanda eða úrskurð um gjaldþrotaskipti á búi hans.

    Í afleiðusamningi má ekki vera ákvæði um að honum verði sjálfkrafa lokað vegna skila­meðferðar, endurskipulagningar fjárhags eða slita útgefanda eða úrskurðar um gjaldþrotaskipti á búi hans eða um að gagnaðili útgefanda geti sett fram slíka kröfu. Ef bú útgefanda er tekið til gjald­þrota­skipta tekur þrotabúið við réttindum og skyldum útgefanda samkvæmt afleiðusamningum sem gerðir hafa verið á grundvelli laga þessara. Kröfur samkvæmt slíkum afleiðusamningum njóta rétthæðar skv. 3. tölul. 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 111. gr. sömu laga.

 

12. gr.

    Í stað orðanna „hafa verið“ í 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: eru.

 

13. gr.

    Á eftir orðinu „afleiðusamningum“ í 2. mgr. 16. gr. laganna kemur: tryggingum fyrir efndum þeirra.

 

14. gr.

    Fyrirsögn VII. kafla laganna verður: Skila- og ógjaldfærnimeðferð útgefanda.

 

15. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „8. tölul. 25. gr.“ í 3. málsl. 1. mgr. 21. gr. laganna kemur: 9. tölul. 25. gr.

 

16. gr.

    Á eftir 24. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 24. gr. a og 24. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (24. gr. a.)

Upplýsingagjöf til Fjármálaeftirlitsins.

    Útgefandi skal reglubundið veita Fjármálaeftirlitinu upplýsingar um eftirfarandi:

 1. Eignir í tryggingasafni, þar á meðal laust fé, og hvernig þeim er haldið aðgreindum frá öðrum eignum útgefanda.
 2. Fylgni við jöfnunarreglur.
 3. Eftirlit sjálfstæðs skoðunarmanns.
 4. Skilyrði fyrir frestun gjalddaga sértryggðra skuldabréfa, þegar við á.

    b. (24. gr. b.)

Birting upplýsinga.

    Fjármálaeftirlitið skal birta á vef sínum:

 1. Lög, stjórnvaldsfyrirmæli og leiðbeiningar sem varða útgáfu sértryggðra skuldabréfa.
 2. Heiti lánastofnana sem hafa leyfi til að gefa út sértryggð skuldabréf.
 3. Skrá yfir sértryggð skuldabréf sem má markaðssetja sem „evrópsk sértryggð skuldabréf“ eða „evrópsk sértryggð skuldabréf (úrvals)“.

 

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:

 1. Á eftir 4. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Hvaða eignir megi telja til lauss fjár skv. 1. mgr. 6. gr. a.
 2. Á eftir orðinu „afleiðusamningum“ í 6. tölul. kemur: mat á virði afleiðusamninga.
 3. Á eftir 8. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Upplýsingagjöf til Fjármálaeftirlitsins skv. 24. gr. a, þar á meðal tíðni og form upplýsingagjafar. Mæla má fyrir um reglubundna upplýsingagjöf um fleiri atriði en tilgreind eru í 24. gr. a.

 

18. gr.

    Við 1. mgr. 26. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Fékk leyfið á grundvelli rangra upplýsinga eða á annan óeðlilegan hátt.

 

19. gr.

    Á eftir 30. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 30. gr. a og 30. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svo­hljóðandi:

    a. (30. gr. a.)

Samstarf við skilavaldið.

    Verði útgefandi tekinn til skilameðferðar skulu Fjármálaeftirlitið og skilavaldið vinna saman að því að gæta réttinda og hagsmuna eigenda sértryggðra skuldabréfa, að lágmarki með því að hafa eftirlit með samfelldri og traustri stýringu útgáfuramma sértryggðra skuldabréfa.

    b. (30. gr. b.)

Samstarf við yfirvöld á Evrópska efnahagssvæðinu.

    Fjármálaeftirlitið skal að ósk lögbærs yfirvalds samkvæmt tilskipun (ESB) 2019/2162 í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið láta því í té upplýsingar sem það þarf til að sinna eftirliti með útgáfu sértryggðra skuldabréfa. Fjármálaeftirlitið skal að eigin frumkvæði veita lögbæru yfirvaldi í öðru aðildarríki upplýsingar sem geta haft veruleg áhrif á mat þess á útgáfu sértryggðra skuldabréfa í viðkomandi ríki.

    Fjármálaeftirlitið skal við framkvæmd laga þessara starfa með Evrópsku banka­eftirlits­stofnuninni, Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnuninni og Eftirlitsstofnun EFTA eftir því sem við á. Það skal árlega upplýsa Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina um heiti lánastofnana sem hafa leyfi til að gefa út sértryggð skuldabréf og um sértryggð skuldabréf sem má markaðssetja sem „evrópsk sértryggð skuldabréf“ eða „evrópsk sértryggð skuldabréf (úrvals)“.

 

20. gr.

    31. gr. laganna orðast svo:

    Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn:

 1. 3. gr. með því að gefa út sértryggð skuldabréf án leyfis frá Fjármálaeftirlitinu eða með því að brjóta gegn skilyrðum fyrir leyfi.
 2. 5. gr., 6. gr. eða 6. gr. b um eignir í tryggingasafni.
 3. 6. gr. a um laust fé í tryggingasafni, enda sé brot ítrekað eða viðvarandi.
 4. 2. mgr. 7. gr. um að taka ekki á skrá skuldabréf í vanskilum.
 5. 9. gr. um reglubundið mat á markaðsvirði veðsettra eigna í tryggingasafni.
 6. 12. gr. um mat á tryggingasafni, meðferð þess o.fl.
 7. 13. gr. um skyldu til að halda skrá og árita skuldabréf.
 8. 13. gr. a um upplýsingagjöf til fjárfesta.
 9. 13. gr. b um frestun gjalddaga.
 10. 1. mgr. 23. gr. um upplýsingaskyldu.
 11. 24. gr. a um upplýsingagjöf til Fjármálaeftirlitsins.
 12. Sátt milli Fjármálaeftirlitsins og aðila, sbr. 32. gr.

    Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem hefur staðið að því að fyrirtæki fái leyfi til útgáfu sértryggðra skuldabréfa á grundvelli rangra upplýsinga eða á annan óeðlilegan hátt.

    Sektir geta numið frá 50 þús. kr. til 800 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta þó verið hærri eða allt að 10% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 10% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu. Ef fyrir liggur að brotlegur einstaklingur eða lögaðili hafði fjárhagslegan ávinning af broti getur sekt verið hærri eða allt að tvöfaldri þeirri fjárhæð sem fjárhagslegur ávinningur hins brotlega nemur.

    Við ákvörðun sekta skal tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t. eftirfarandi:

 1. alvarleika brots,
 2. þess hvað brotið hefur staðið lengi,
 3. ábyrgðar hins brotlega,
 4. fjárhagsstöðu hins brotlega,
 5. ávinnings hins brotlega af broti eða taps sem hann forðast með broti,
 6. þess hvort brot hafi leitt til taps þriðja aðila,
 7. hvers konar mögulegra kerfislegra áhrifa brotsins,
 8. samstarfsvilja hins brotlega,
 9. fyrri brota og hvort um ítrekað brot er að ræða.

    Ákvarðanir um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostn­aði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjár­mála­eftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttar­vaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.

    Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

 

21. gr.

    Á eftir 32. gr. laganna kemur ný grein, 32. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Réttur til að fella ekki á sig sök.

    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnsýsluviðurlaga hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

 

22. gr.

    Á eftir 33. gr. laganna koma fjórar nýjar greinar, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (34. gr.)

Rökstuðningur fyrir stjórnsýsluviðurlögum.

    Fjármálaeftirlitið skal rökstyðja skriflega ákvarðanir um stjórnsýsluviðurlög og aðrar ráðstafanir vegna brota gegn lögum þessum.

    b. (35. gr.)

Birting ákvarðana um stjórnsýsluviðurlög.

    Fjármálaeftirlitið skal birta á vef sínum ákvarðanir um stjórnsýsluviðurlög og aðrar ráðstafanir vegna brota gegn lögum þessum, þar á meðal um hver brotin eru og þá einstaklinga og lögaðila sem eru látnir sæta viðurlögum eða öðrum ráðstöfunum, án ástæðulausrar tafar eftir að við­komandi aðilar hafa verið upplýstir um ákvarðanirnar. Ef ákvarðanirnar eru bornar undir dóm­stóla skal Fjármálaeftirlitið jafnframt birta upplýsingar um stöðu og niðurstöðu dómsmálanna. Upplýs­ingarnar skulu vera á vefnum í minnst fimm ár. Persónuupplýsingar skulu þó ekki vera á vefnum lengur en nauðsynlegt getur talist og samræmist lögum um persónuvernd og vinnslu persónu­upplýsinga og ekki lengur en í sjö ár.

    Fjármálaeftirlitið skal fresta birtingu skv. 1. mgr. eða birta ákvarðanir án persónugreinanlegra auðkenna ef annað myndi valda viðkomandi einstaklingum eða lögaðilum tjóni sem væri ekki í eðlilegu samræmi við brotið eða stofnaði stöðugleika á fjármálamarkaði eða yfirstandandi rannsókn sakamáls í hættu.

    Fjármálaeftirlitið skal birta á vef sínum þá stefnu sem eftirlitið fylgir við framkvæmd birtingar samkvæmt þessari grein.

    c. (36. gr.)

Upplýsingagjöf til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar um stjórnsýsluviðurlög.

    Fjármálaeftirlitið skal upplýsa Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina um ákvarðanir um stjórn­sýslu­viðurlög og aðrar ráðstafanir vegna brota gegn lögum þessum og um dómsmál vegna þeirra og niðurstöður þeirra.

    d. (37. gr.)

Innleiðing.

    Með lögum þessum eru tekin upp ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2162 frá 27. nóvember 2019 um útgáfu sértryggðra skuldabréfa og opinbert eftirlit með sértryggðum skuldabréfum og um breytingu á tilskipunum 2009/65/EB og 2014/59/ESB.

 

23. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (I.)

    Nota má heitið „sértryggð skuldabréf“ um sértryggð skuldabréf sem voru gefin út fyrir 1. mars 2023 og uppfylltu þágildandi skilyrði. Sama gildir um sértryggð skuldabréf sem eru gefin út frá og með 1. mars 2023 en fyrir 1. janúar 2025 á grundvelli opinnar útgáfu sem fékk alþjóðlegt auðkennisnúmer (ISIN) fyrir 1. mars 2023, að eftirtöldum skilyrðum uppfylltum:

 1. Síðasti mögulegi gjalddagi skuldabréfanna er fyrir 8. júlí 2027.
 2. Heildarfjárhæð útgáfunnar frá og með 1. mars 2023 er ekki umfram tvöfalda heildarfjárhæð útgáfunnar sem var útistandandi 28. febrúar 2023.
 3. Heildarfjárhæð útgáfunnar á gjalddaga er ekki umfram jafnvirði sex milljarða evra.
 4. Veð sem tryggja eignir í tryggingasafni eru á Íslandi.

    b. (II.)

    Fjármálaeftirlitið skal eigi síðar en 8. júlí 2024 senda Eftirlitsstofnun EFTA upplýsingar um þau atriði sem greinir frá í 2. mgr. 31. gr. tilskipunar (ESB) 2019/2162.

    Ákvæði þetta til bráðabirgða fellur brott 9. júlí 2024.

 

II. KAFLI

Breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

24. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 1. gr. c laganna:

 1. Á eftir 6. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2160 frá 27. nóvember 2019 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 575/2013 að því er varðar áhættuskuldbindingar í formi sértryggðra skuldabréfa, sem er birt á bls. 163–168 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 63 frá 29. september 2022.
 2. Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Framseldri reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/424 frá 17. desember 2019 um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013 að því er varðar óhefðbundna staðalaðferð vegna markaðsáhættu, sem er birt á bls. 79–93 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 70 frá 27. október 2022.

 

25. gr.

    Á eftir orðunum „lög þessi“ í 17. gr. c laganna kemur: og önnur lög sem gilda um fjármálafyrirtæki.

 

26. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. mars 2023.

 

Gjört í Reykjavík, 27. febrúar 2023.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.


A deild - Útgáfud.: 28. febrúar 2023