Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 120/2022

Nr. 120/2022 29. desember 2022

LÖG
um leigubifreiðaakstur.

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

 I. KAFLI 

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigu­bifreiða­þjónustu fyrir neytendur.

 

2. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um leigubifreiðaakstur, sbr. 3. tölul. 3. gr.

    Lög þessi gilda ekki um leyfisskylda farþegaflutninga samkvæmt lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi þrátt fyrir að flutningurinn fari fram með fólksbifreiðum.

 

3. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð svofellda merkingu:

  1. Atvinnuleyfi: Leyfi til að stunda leigubifreiðaakstur með fólksbifreið sem er í eigu eða undir umráðum rekstrarleyfishafa skv. 5. tölul.
  2. Fólksbifreið: Bifreið sem skráð er fyrir átta farþega eða færri.
  3. Leigubifreiðaakstur: Þegar fólksbifreið er seld á leigu ásamt ökumanni fyrir tiltekið gjald til flutnings á farþegum og farangri þeirra, einnig nefnt leiguakstur.
  4. Leigubifreiðastöð: Aðili sem hefur milligöngu um þjónustu leigubifreiða í atvinnuskyni.
  5. Rekstrarleyfi: Leyfi til að stunda leigubifreiðaakstur þar sem leyfishafi er jafnframt skráður eigandi eða skráður umráðamaður fólksbifreiðarinnar. Rekstrarleyfi veitir rétt til reksturs einnar eða fleiri leigubifreiða.
  6. Umráðamaður: Sá sem hefur umráð yfir ökutæki með samþykki eiganda. Aðili telst ekki umráðamaður nema hann sé skráður sem slíkur í ökutækjaskrá, t.d. samkvæmt samningi við löggilt kaupleigu- eða rekstrarleigufyrirtæki.

 

4. gr.

Stjórnsýsla.

    Ráðherra fer með yfirstjórn leigubifreiðaaksturs samkvæmt lögum þessum.

    Samgöngustofa fer með framkvæmd laga þessara og stjórnvaldsfyrirmæla sem sett eru sam­kvæmt þeim. Undir starfssvið Samgöngustofu fellur meðal annars útgáfa atvinnuleyfa og rekstrar­leyfa, eftirlit með leyfishöfum og námskeiðahald. Þá sér Samgöngustofa um að reka rafrænan gagnagrunn sem skal meðal annars geyma upplýsingar um hverjir hafa leyfi skv. II. kafla, skráningarnúmer leigubifreiðar sem heyrir undir rekstrarleyfi, hvenær bifreiðin er í leiguakstri og leyfisnúmer þess sem ekur hverju sinni ef það er annar en rekstrarleyfishafi. Gagnagrunnurinn skal starfræktur í þeim tilgangi að tryggja öryggi og stuðla að neytendavernd og til að viðhafa megi eftirlit með því að starfsemi fari fram lögum samkvæmt.

 

II. KAFLI

Leyfisveitingar.

5. gr.

Atvinnuleyfi.

    Hver sá einstaklingur sem stundar leigubifreiðaakstur samkvæmt lögum þessum skal hafa til þess atvinnuleyfi, sbr. þó 6. mgr. 6. gr.

    Sá sem fullnægir öllum eftirtöldum skilyrðum getur fengið atvinnuleyfi samkvæmt lögum þessum:

  1. Hefur viðeigandi starfshæfni eins og nánar skal kveðið á um í reglugerð. Í viðeigandi starfshæfni felst að viðkomandi hafi fullnægjandi ökuréttindi, hafi setið tilskilin námskeið um leigubifreiðaakstur og staðist próf.
  2. Hefur gott orðspor. Við mat á orðspori ber að líta til þess hvort viðkomandi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi sem gefur tilefni til að draga í efa hæfni hans til að starfa sem leigubifreiðastjóri eða gefur til kynna að viðkomandi njóti ekki nauðsynlegs trausts til að geta gegnt starfanum. Hafi brot verið smávægilegt eða fimm ár eru liðin frá uppkvaðningu dóms eða frá viðurlagaákvörðun er heimilt að veita leyfi. Hafi brot verið stórfellt og varðað við XXIII. kafla almennra hegningarlaga skal ekki veita leyfi fyrr en að tíu árum liðnum frá uppkvaðningu dóms. Hafi brotið varðað við XXII. kafla almennra hegningarlaga skal ekki veita leyfi. Samgöngustofu er heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá um það hvort umsækjandi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi. Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um að tiltekin brot eða tilteknir brotaflokkar skuli ekki hafa áhrif á mat á góðu orðspori.
  3. Hefur náð 21 árs aldri og haft ökuréttindi fyrir B-flokk í minnst þrjú ár.

    Skilyrðum skv. 2. mgr. verður leyfishafi að fullnægja á leyfistímanum. Geri hann það ekki ber honum skylda til að tilkynna um slíkt til Samgöngustofu.

    Leyfisbréf samkvæmt ákvæði þessu skulu gefin út af Samgöngustofu. Leyfi skal gilda í fimm ár. Við endurnýjun leyfis skal leyfishafi leggja fram viðeigandi gögn sem sýna fram á að hann uppfylli enn skilyrði atvinnuleyfis.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari reglur um framkvæmd leyfisveitinga samkvæmt ákvæði þessu, þ.m.t. um umsóknir um leyfi og þau gögn og vottorð sem fylgja skulu umsóknum eða Samgöngustofu er heimilt að afla vegna þeirra.

 

6. gr.

Rekstrarleyfi.

    Hver sá sem stundar rekstur leigubifreiðar samkvæmt lögum þessum skal hafa til þess rekstrar­leyfi.

    Sá sem fullnægir öllum eftirtöldum skilyrðum getur fengið rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum:

  1. Hefur lögheimili innan Evrópska efnahagssvæðisins.
  2. Hefur viðeigandi starfshæfni eins og nánar skal kveðið á um í reglugerð. Í viðeigandi starfshæfni felst að viðkomandi hafi fullnægjandi ökuréttindi, hafi setið tilskilin námskeið um leigubifreiðaakstur, rekstur, bókhald, skattskil o.fl. og staðist próf. Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um að veita megi undanþágu frá skyldu til að sækja námskeið um rekstur, bókhald og skattskil enda sýni umsækjandi fram á að hann búi yfir tilhlýðilegri þekkingu á þeim sviðum.
  3. Hefur gott orðspor. Við mat á orðspori ber að líta til þess hvort viðkomandi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi sem gefur tilefni til að draga í efa hæfni hans til að starfa sem leigubifreiðastjóri eða sem gefur til kynna að viðkomandi njóti ekki nauðsynlegs trausts til að geta gegnt starfanum. Hafi brot verið smávægilegt eða fimm ár eru liðin frá uppkvaðningu dóms eða frá viðurlagaákvörðun er heimilt að veita leyfi. Hafi brot verið stórfellt og varðað við XXIII. kafla almennra hegningarlaga skal ekki veita leyfi fyrr en að tíu árum liðnum frá upp­kvaðningu dóms. Hafi brotið varðað við XXII. kafla almennra hegn­ingar­laga skal ekki veita leyfi. Samgöngustofu er heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá um það hvort umsækjandi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi. Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um að tiltekin brot eða tilteknir brotaflokkar skuli ekki hafa áhrif á mat á góðu orðspori.
  4. Er fjár síns ráðandi og ekki í vanskilum við opinbera aðila vegna opinberra gjalda.
  5. Hefur náð 21 árs aldri og haft ökuréttindi fyrir B-flokk í minnst þrjú ár.
  6. Er einn skráður eigandi eða umráðamaður fólksbifreiðar sem skráð er hér á landi, tryggð viðeigandi ökutækjatryggingu og viðkomandi hyggst nýta til reksturs leigubifreiðar.

    Skilyrðum skv. 2. mgr. verður leyfishafi að fullnægja á leyfistímanum. Geri hann það ekki ber honum skylda til að tilkynna um slíkt til Samgöngustofu.

    Leyfisbréf samkvæmt ákvæði þessu skulu gefin út af Samgöngustofu. Leyfi skal gilda í fimm ár. Við endurnýjun leyfis skal leyfishafi leggja fram viðeigandi gögn sem sýna fram á að hann uppfylli enn skilyrði rekstrarleyfis. Hið sama gildir um fyrirsvarsmann lögaðila ef leyfishafi er lögaðili.

    Rekstrarleyfi samkvæmt ákvæði þessu má veita einstaklingum eða lögaðilum. Fyrirsvarsmaður lögaðila skal uppfylla skilyrði 1.–5. tölul. 2. mgr., sbr. 3. mgr., að undanskildum skilyrðum sem lúta að ökuréttindum og ökuhæfni. Lögaðili skal uppfylla skilyrði 1. og 6. tölul. 2. mgr. og ekki vera í vanskilum við opinbera aðila skv. 4. tölul. 2. mgr., sbr. 3. mgr.

    Einstaklingar sem hafa rekstrarleyfi samkvæmt ákvæði þessu þurfa ekki jafnframt að hafa atvinnuleyfi skv. 5. gr. til að stunda leigubifreiðaakstur.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari reglur um framkvæmd leyfisveitinga samkvæmt ákvæði þessu, þ.m.t. um umsóknir um leyfi og þau gögn og vottorð sem fylgja skulu umsóknum eða Samgöngustofu er heimilt að afla vegna þeirra.

 

7. gr.

Starfsleyfi leigubifreiðastöðva.

    Leigubifreiðastöðvar samkvæmt lögum þessum skulu hafa starfsleyfi sem slíkar sem gefið hefur verið út af Samgöngustofu. Rekstrarleyfishafa er þó heimilt að reka leigubifreiðastöð án starfsleyfis leigubifreiðastöðvar þar sem ein leigubifreið sem hann er skráður eigandi eða umráðamaður að hefur afgreiðslu.

    Sá aðili sem fullnægir öllum eftirtöldum skilyrðum getur fengið starfsleyfi samkvæmt ákvæði þessu:

  1. Hefur fyrirsvarsmann sem fullnægir skilyrðum 1.–3. tölul. 2. mgr. 6. gr., að undanskildum skilyrðum sem lúta að ökuréttindum og ökuhæfni.
  2. Hefur fullnægjandi fjárhagsstöðu eins og nánar skal kveðið á um í reglugerð.

    Skilyrðum skv. 2. mgr. verður leyfishafi að fullnægja á leyfistímanum. Geri hann það ekki ber honum skylda til að tilkynna um slíkt til Samgöngustofu.

    Leyfisbréf samkvæmt ákvæði þessu skulu gefin út af Samgöngustofu. Leyfi skal gilda í fimm ár. Við endurnýjun leyfis skal leyfishafi leggja fram viðeigandi gögn sem sýna fram á að hann uppfylli enn skilyrði starfsleyfis.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari reglur um framkvæmd leyfisveitinga samkvæmt ákvæði þessu, þ.m.t. um umsóknir um leyfi og þau gögn og vottorð sem fylgja skulu umsóknum eða Samgöngustofu er heimilt að afla vegna þeirra.

 

III. KAFLI

Rekstur leigubifreiða.

8. gr.

Skyldur rekstrarleyfishafa.

    Rekstrarleyfishafi ber ábyrgð á rekstri leigubifreiðar og skal tryggja að reksturinn fari fram í samræmi við góða viðskiptahætti.

    Rekstrarleyfishafi skal tryggja að bifreið skv. 6. tölul. 2. mgr. 6. gr. uppfylli gæða- og tækni­kröfur skv. 10. gr., auk áskilnaðar um gjaldmæli, verðskrá og merkingar eins og við á sam­kvæmt lögum þessum.

    Rekstrarleyfishafi skal ganga úr skugga um að ökumaður leigubifreiðar á hverjum þeim tíma sem hún er í leiguakstri hafi atvinnuleyfi samkvæmt lögum þessum.

    Rekstrarleyfishafi skal tryggja fullnægjandi skráningu upplýsinga í gagnagrunn Samgöngustofu skv. 2. mgr. 4. gr. Auk þess skal rekstrarleyfishafi halda rafræna skrá með gervihnattaupplýsingum um upphafs- og endastöð hverrar seldrar ferðar og um staðsetningu meðan á ferðinni stendur í þeim tilgangi að tryggja öryggi og stuðla að neytendavernd og til að viðhafa megi eftirlit með því að starfsemi fari fram lögum samkvæmt. Óheimilt er að vinna staðsetningarupplýsingar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi. Staðsetningarupplýsingarnar skulu vera dulkóðaðar og varðveittar hjá rekstrarleyfishafa í 60 daga frá því að ferð var ekin.

    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um skyldur rekstrarleyfishafa samkvæmt ákvæði þessu í reglugerð.

 

9. gr.

Gjaldmælar og verðskrár.

    Löggiltir gjaldmælar skulu vera í öllum leigubifreiðum sem seldar eru á leigu fyrir gjald sem tekur mið af ekinni vegalengd eða þeim tíma sem ferðin tekur. Um löggildingu gjaldmæla og eftirlit með þeim fer eftir lögum um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn og reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra.

    Þrátt fyrir 1. mgr. er heimilt að aka án gjaldmælis þegar ferð er seld fyrir fyrirframumsamið áætlað eða endanlegt heildargjald. Rekstrarleyfishafi eða eftir atvikum atvinnuleyfishafi ber sönnunarbyrði um að komist hafi á samningur um heildargjald vegna ferðar áður en hún hófst.

    Þegar ekið er samkvæmt gjaldmæli skal verðskrá ávallt vera áberandi og aðgengileg viðskipta­vinum áður en farið er inn í bifreiðina.

    Þegar ferð er seld fyrir fyrirframumsamið áætlað eða endanlegt heildargjald skal verðskrá og þær forsendur sem umsamið heildargjald byggist á vera aðgengilegar viðskiptavini þannig að ljóst sé hvernig verðlagning er ákveðin.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um hvernig verðskrá skuli vera aðgengi­leg viðskiptavinum. Þá er ráðherra heimilt að kveða á um ólíkar kröfur um aðgengi verð­skráa eftir því hvort bifreið er búin gjaldmæli eða ekki.

    Neytendastofa fer með eftirlit með verðupplýsingum leigubifreiðaþjónustu samkvæmt ákvæði þessu. Um eftirlitsheimildir, viðurlög og málsmeðferð, þ.m.t. kærurétt til áfrýjunarnefndar neyt­enda­mála, fer eftir ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005.

 

10. gr.

Gæða- og tæknikröfur.

    Bifreið sem notuð er til leigubifreiðaaksturs samkvæmt lögum þessum skal, auk þess að uppfylla almennar kröfur sem gerðar eru til bifreiðarinnar samkvæmt umferðarlögum og reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra, vera búin þriggja punkta öryggisbelti í öllum sætum, sjúkrakassa og slökkvitæki. Leigubifreið skal skráð sem slík í ökutækjaskrá.

    Ráðherra er heimilt að kveða á um í reglugerð að leigubifreið skuli auk aðalskoðunar gangast undir sérstaka leyfisskoðun til að ganga úr skugga um að bifreiðin uppfylli gæða- og tæknikröfur samkvæmt ákvæði þessu.

 

11. gr.

Auðkenni.

    Leigubifreið skal ávallt auðkennd skilmerkilega þannig að ekki sé vafi á að um leigubifreið sé að ræða.

    Leigubifreiðastjórar skulu við leiguakstur ávallt hafa sýnilegt í bifreiðinni leyfisskírteini útgefið af Samgöngustofu til sönnunar á því að þeir hafi atvinnuleyfi eða rekstrarleyfi.

    Ráðherra mælir nánar fyrir um auðkenningu leigubifreiða í reglugerð.

 

12. gr.

Leigubifreiðastöðvar.

    Rekstrarleyfishafi skal hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð sem fengið hefur starfsleyfi hjá Samgöngustofu, sbr. þó 2. málsl. 1. mgr. 7. gr.

    Rekstrarleyfishafa er heimilt með samningi að framselja stöðinni skyldur sínar skv. 3. og 4. mgr. 8. gr.

    Leigubifreiðastöð er heimilt að setja reglur um hámarksgjald sem rekstrarleyfishafar sem hafa afgreiðslu á stöðinni mega taka fyrir akstur.

    Leigubifreiðastöðvar skulu skipuleggja starfsemi sína með þeim hætti að neytendum verði veitt góð og örugg þjónusta. Hver leigubifreiðastöð skal fylgjast með því að rekstrar- og atvinnu­leyfis­hafar sem hafa þar afgreiðslu fari eftir fyrirmælum laga og reglugerða um leigu­bifreiða­akstur.

    Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um hlutverk og skyldur leigubifreiðastöðva.

 

IV. KAFLI

Eftirlit, viðurlög o.fl.

13. gr.

Stjórnsýslueftirlit.

    Samgöngustofa hefur eftirlit með því að starfsemi leyfishafa sé í samræmi við lög, reglugerðir eða reglur sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti, sbr. þó 2. málsl. 1. mgr. og 6. mgr. 9. gr.

    Samgöngustofu er heimilt að gefa út og birta opinberlega almenn leiðbeinandi tilmæli um starfshætti og starfsemi aðila sem falla undir lög þessi.

 

14. gr.

Tilkynningar um brot.

    Tilkynna skal til lögreglu eða Samgöngustofu brot á lögum þessum og reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra. Tilkynningar má setja fram hvort sem er munnlega eða skriflega og þær skulu innihalda, eftir því sem við á, greinargóða lýsingu og skýringar á meintu broti, upplýsingar um þá starfsemi sem stunduð er, ökutæki sem notuð eru við starfsemina og aðila sem hana stunda.

 

15. gr.

Upplýsingagjöf til stjórnvalda.

    Samgöngustofa getur hvenær sem er krafið þá leyfishafa sem undir lög þessi heyra og aðra sem miðla leigubifreiðaþjónustu um allar þær upplýsingar og skriflegar skýringar sem nauðsynlegar eru til eftirlits með því að farið sé að lögum þessum og reglugerðum sem settar eru með stoð í þeim.

    Samgöngustofu er heimilt, að undangenginni skriflegri áskorun um að verða við upplýsingabeiðni skv. 1. mgr., að leggja dagsektir á aðila skv. 1. mgr. veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Sektirnar geta numið frá 10.000 kr. til 100.000 kr. á dag. Skal við ákvörðun dagsekta líta til eðlis og alvarleika aðstæðna hverju sinni.

    Leyfishafa er heimilt að kæra ákvörðun Samgöngustofu um beitingu dagsekta skv. 2. mgr. til ráðherra innan 14 daga frá því að honum var tilkynnt um ákvörðunina. Ráðherra skal kveða upp úrskurð eins fljótt og unnt er. Ákvarðanir Samgöngustofu um dagsektir eru aðfararhæfar og renna sektirnar í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu. Málskot til ráðuneytisins frestar aðför.

 

16. gr.

Leyfissvipting.

    Telji Samgöngustofa að leyfishafi uppfylli ekki lengur þau skilyrði sem mælt er fyrir um í lögum þessum eða að hann hafi á annan hátt gerst brotlegur við lög þessi og reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra skal Samgöngustofa tilkynna leyfishafa það með sannanlegum hætti og gefa viðkomandi færi á að setja fram skýringar og gögn þeim til stuðnings.

    Sé niðurstaða Samgöngustofu að undangenginni málsmeðferð skv. 1. mgr. að leyfishafi uppfylli sannanlega ekki lengur skilyrði leyfis eða hafi með öðrum hætti gerst brotlegur við lög þessi er stofnuninni heimilt að krefjast úrbóta innan hæfilegs frests. Sinni leyfishafi ekki úrbótum innan frestsins skal hann sviptur leyfinu.

    Séu ríkar ástæður til að ætla að skilyrði fyrir sviptingu leyfis séu fyrir hendi og að töf á sviptingu geti haft almannahættu í för með sér, svo sem ef leyfishafi hefur sannanlega gerst sekur um vítavert hátterni og telja verður varhugavert að hann njóti leyfis áfram, er Samgöngustofu heimilt að svipta leyfishafa leyfi þegar í stað til bráðabirgða þar til endanleg ákvörðun í málinu hefur verið tekin.

    Ráðherra er heimilt í reglugerð að setja nánari reglur um leyfissviptingu samkvæmt ákvæði þessu.

 

17. gr.

Vettvangseftirlit.

    Lögreglu er heimilt hvenær sem er að stöðva ökutæki sem falla undir lög þessi til að kanna hvernig flutning sé um að ræða og hvort hann sé í samræmi við ákvæði laga þessara. Ef um leyfisskyldan flutning er að ræða sem fram fer án tilskilins leyfis er lögreglu heimilt að fyrirskipa kyrrsetningu ökutækis.

    Leyfishafa er skylt að verða við fyrirmælum lögreglu í tengslum við eftirlit hennar.

    Rekstrarleyfishafi ber ábyrgð á fólki og farangri sem hann flytur þegar för ökutækis er stöðvuð samkvæmt ákvæði þessu og ber ábyrgð á að standa straum af þeim kostnaði sem af áframhaldandi flutningi hlýst.

    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd eftirlits á vettvangi í reglugerð.

 

18. gr.

Sektir.

    Það varðar sektum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra:

  1. 1. mgr. 5. gr. um skyldu til þess að hafa atvinnuleyfi,
  2. 1. mgr. 6. gr. um skyldu til þess að hafa rekstrarleyfi,
  3. 1. mgr. 7. gr. um skyldu til þess að hafa starfsleyfi sem leigubifreiðastöð,
  4. 3. mgr. 5. gr., 3. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 7. gr. um skilyrði leyfis á leyfistíma og tilkynn­ingar­skyldu til Samgöngustofu,
  5. 8. gr. um skyldur rekstrarleyfishafa,
  6. 9. gr. um notkun gjaldmæla og sýnileika verðskráa,
  7. 10. gr. um gæða- og tæknikröfur,
  8. 11. gr. um auðkenni,
  9. 2. mgr. 12. gr. um skyldur leigubifreiðastöðvar samkvæmt samningi við rekstrarleyfishafa, sbr. 3. og 4. mgr. 8. gr.,
  10. 1. mgr. 15. gr. um skyldu til þess að veita upplýsingar,
  11. 2. mgr. 17. gr. um skyldu til þess að verða við fyrirmælum lögreglu,
  12. 21. gr. um bann við framsali leyfis.

    Sektir á grundvelli þessa ákvæðis má ákvarða leigubifreiðastöð þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hennar eða aðra þá einstaklinga sem starfa í þágu hennar, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir stöðina. Einnig má gera leigubifreiðastöð sekt ef fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hennar eða aðrir einstaklingar sem starfa í þágu hennar gerast sekir um brot gegn lögum þessum.

    Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum.

    Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

    Röng upplýsingagjöf til lögreglu eða Samgöngustofu skv. 15. gr. varðar refsingu skv. 146. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, ef um ásetning er að ræða.

 

19. gr.

Málsmeðferð.

    Brot gegn lögum þessum geta sætt rannsókn lögreglu, hvort sem er að frumkvæði lögreglu eða að undangenginni kæru Samgöngustofu.

    Með kæru Samgöngustofu skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot styðst við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Samgöngustofu um að kæra mál til lögreglu.

    Samgöngustofu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem kærð eru.

    Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Samgöngustofu í té upplýsingar og gögn sem þau hafa aflað og nauðsynleg eru til að Samgöngustofa geti sinnt eftirlitshlutverki sínu.

 

V. KAFLI

Ýmis ákvæði.

20. gr.

Gjaldtökuheimild.

    Fyrir útgáfu leyfa og eftirlit með því að skilyrði þeirra séu uppfyllt, útgáfu vottorða og aðra umsýslu skal greiða gjöld til Samgöngustofu samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar. Nánar tiltekið skal greiða gjöld fyrir eftirfarandi:

  1. Atvinnuleyfi skv. 5. gr.
  2. Rekstrarleyfi skv. 6. gr.
  3. Starfsleyfi skv. 7. gr.
  4. Útgáfu leyfisskírteinis skv. 2. mgr. 11. gr.
  5. Annars konar vottorð eða umsýslu.

    Ráðherra staðfestir gjaldskrána sem skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöldunum er ætlað að standa straum af kostnaði vegna eftirfarandi:

  1. launa og launatengdra gjalda starfsfólks sem sinnir þjónustunni,
  2. þjálfunar og endurmenntunar starfsfólks,
  3. aðkeyptrar sérfræðiþjónustu,
  4. kostnaðar við að afla og reka húsnæði, starfsaðstöðu, búnað og tæki,
  5. stjórnunar- og stoðþjónustu, svo sem aksturs og flutnings.

    Gjöldin skulu ekki vera hærri en sem nemur raunkostnaði Samgöngustofu við að veita þjón­ustuna. Við ákvörðun fjárhæða er heimilt að taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustu sem telja má sambærilega.

 

21. gr.

Framsal leyfa.

    Samgöngustofa gefur út leyfi samkvæmt lögum þessum. Framsal, framleiga, veðsetning, annars konar aðilaskipti eða ráðstöfun leyfis til þriðja aðila er óheimil.

 

22. gr.

Málskot.

    Ákvörðunum Samgöngustofu samkvæmt lögum þessum er varða réttindi og skyldur aðila að lögum verður skotið til ráðherra með stjórnsýslukæru samkvæmt stjórnsýslulögum.

    Um málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum.

 

23. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd laga þessara.

 

24. gr.

Gildistaka og lagaskil.

    Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 2023.

    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um leigubifreiðar, nr. 134/2001.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Þrátt fyrir ákvæði 24. gr. skulu þeir einstaklingar sem hafa fengið útgefið atvinnuleyfi eða leyfi til reksturs eðalvagnaþjónustu hjá Samgöngustofu samkvæmt lögum um leigubifreiðar, nr. 134/2001, halda réttindum sínum eins og um rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum væri að ræða þar til gildistíma atvinnuskírteinis þeirra, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 134/2001, lýkur. Við endurnýjun réttinda skulu þeir teljast uppfylla skilyrði um viðeigandi starfshæfni skv. 2. tölul. 2. mgr. 6. gr. laga þessara hvað varðar menntun.

    Þrátt fyrir ákvæði 24. gr. skulu þeir einstaklingar sem hafa fengið útgefið leyfi sem forfalla­bílstjórar hjá Samgöngustofu samkvæmt lögum um leigubifreiðar, nr. 134/2001, halda réttindum sínum eins og um atvinnuleyfi samkvæmt lögum þessum væri að ræða þar til gildistíma leyfis þeirra lýkur. Við endurnýjun réttinda skulu þeir teljast uppfylla skilyrði um viðeigandi starfs­hæfni skv. 1. tölul. 2. mgr. 5. gr. laga þessara hvað varðar menntun.

 

II.

    Lög þessi skulu sæta endurskoðun með tilliti til reynslu af þeim breytingum á regluumhverfi leigubifreiða sem lögin fela í sér. Hefja skal endurskoðun laganna eigi síðar en 1. janúar 2025.

 

Gjört á Bessastöðum, 29. desember 2022.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Sigurður Ingi Jóhannsson.


A deild - Útgáfud.: 30. desember 2022