Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1100/2019

Nr. 1100/2019 11. desember 2019

REGLUGERÐ
um bann við selveiðum.

1. gr.

Bann við veiðum.

Reglugerð þessi gildir um bann við veiðum á öllum selategundum.

Allar selveiðar eru óheimilar á íslensku forráðasvæði (í sjó, ám og vötnum) nema að fengnu sér­stöku leyfi frá Fiskistofu til selveiða til eigin nytja. Öll sala og markaðsfærsla á íslenskum sel og sela­afurðum er bönnuð.

2. gr.

Leyfi til veiða vegna eigin nytja.

Fiskistofa getur veitt leyfi til takmarkaðra veiða á sel til eigin nytja innan netlaga þar sem veiðar hafa verið eða verða stundaðar sem búsílag. Leyfi skulu bundin því skilyrði að allur afli sé skráður og að Fiskistofu verði sendar árlega skýrslur um sókn og afla.

Leyfi til selveiða til eigin nytja skulu gefin út fyrir hvert almanaksár.

3. gr.

Umsóknir.

Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um leyfi til selveiða til eigin nytja næsta almanaksár eigi síðar en 1. september ár hvert og skal umsóknarfrestur vera til og með 1. október.

Í umsóknum skal koma fram við hvaða land áformað er að veiða, hvaða veiðiaðferð verði notuð og fjöldi sela sem sótt er um leyfi til að veiða.

Með umsóknum skulu fylgja upplýsingar um veiði umsækjanda síðustu 5 árin ásamt eignar­heimild eða samningi við eiganda viðkomandi lands.

4. gr.

Málsmeðferð og útgáfa leyfa.

Fiskistofa annast útgáfu leyfa til veiða á sel til eigin nytja.

Fiskistofa metur umfang umsókna þegar allar umsóknir hafa borist og skal leita umsagnar Haf­rannsóknastofnunar. Fiskistofa getur takmarkað útgáfu leyfa, magn sem má veiða eða takmarkað veiðar með öðrum hætti ef ástæða er til.

Heimilt er að binda útgáfu leyfa til veiða ákveðnum skilyrðum, m.a. um skýrsluskil, stærð sela, gerð veiðarfæra, magn sem heimilt er að veiða, veiðitímabil o.s.frv.

Í leyfi skal koma fram fyrir hvaða veiðisvæði og tímabil það gildir. Þá skal koma fram hvaða veiðiaðferð megi beita við veiðarnar og hversu mörg dýr megi veiða.

5. gr.

Framkvæmd og tilhögun veiða til eigin nytja.

Við veiðarnar skal leyfishafi fara eftir lögum og stjórnvaldsreglum sem gilda um veiðarnar og einnig ákvæðum sem sett eru um veiðarnar í leyfi.

6. gr.

Framsal.

Framsal leyfa til selveiða samkvæmt þessari reglugerð er óheimilt.

7. gr.

Skýrsluskil.

Skil á skýrslum um veiði skulu fara fram á því formi sem Fiskistofa gefur út og með þeim hætti sem stofnunin ákveður og birtir upplýsingar um á vefsíðu sinni.

8. gr.

Afturköllun leyfa til eigin nytja.

Fiskistofa getur afturkallað leyfi sem veitt hefur verið ef Hafrannsóknastofnun telur að nauðsyn­legt sé að takmarka veiðar eða ef leyfishafi uppfyllir ekki skilyrði leyfisins. Endurnýjun leyfa skal vera háð því að skilað hafi verið skýrslu um veiði og veiðisókn síðasta árs það ár sem veiði var stunduð.

9. gr.

Eftirlit.

Fiskistofa hefur eftirlit með að veiðar samkvæmt þessari reglugerð séu í samræmi við lög og reglur og getur gripið til aðgerða ef hún telur ástæðu til t.d. vegna brota á reglugerðinni eða ef skil­yrði leyfisins eru ekki lengur uppfyllt.

10. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 61/2006, um lax- og silungs­veiði og öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Fiskistofa skal auglýsa eftir umsóknum um leyfi til selveiða til eigin nytja vegna ársins 2020 samkvæmt 3. gr. eigi síðar 15. desember 2019 og skal umsóknarfrestur vera til og með 15. janúar 2020. Fiskistofa skal afgreiða umsóknir eigi síðar en 1. mars 2020 og skulu útgefin leyfi taka gildi frá og með 1. mars 2020 og gilda til og með 31. desember 2020.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 11. desember 2019.

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Jóhann Guðmundsson.


B deild - Útgáfud.: 13. desember 2019