Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1155/2021

Nr. 1155/2021 24. september 2021

ÚTHLUTUNARREGLUR
um styrkveitingu mennta- og menningarmálaráðherra.

1. gr.

Tilgangur.

Úthlutunarreglur þessar eru settar á grundvelli 42. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, og reglugerðar um styrkveitingar ráðherra, nr. 642/2018, og er ætlað að tryggja að gætt sé jafnræðis, hlutlægni, gagnsæis og samkeppnissjónarmiða við úthlutun og umsýslu framlaga og styrkja til ein­stakra verkefna á grundvelli fjárheimilda innan málefnasviða og málaflokka ráðuneytisins.

 

2. gr.

Auglýsing.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti skal að lágmarki árlega birta áform um styrkveitingar ráð­herra til verkefna í samráðsgátt stjórnvalda eða á heimasíðu ráðuneytisins. Í áformaskjali skal greina frá því til hvaða verkefna er fyrirhugað að veita styrki og framlög. Með birtingu áforma er kallað eftir umsóknum styrkhæfra aðila um verkefnastyrki eða framlög.

Þegar málefnalegar ástæður gefa tilefni til og ætla má að samkeppni geti orðið um styrki og framlög til verkefna á tilteknu sviði má til viðbótar við birtingu áformaskjals um styrkveitingar í samráðsgátt auglýsa sérstaklega eftir umsóknum um styrki og framlög til tiltekinna verkefna.

 

3. gr.

Framkvæmd.

Umsóknum ásamt fylgiskjölum, eins og við á hverju, sinni skal skilað rafrænt á umsóknarvef Stjórnarráðs Íslands.

Ráðuneytið leggur mat á umsóknir sem berast frá umsækjendum og gerir rökstudda tillögu til ráðherra um úthlutun framlags eða styrks til verkefnis á grundvelli könnunar á þeim umsóknum sem berast og í samræmi auglýsingar- og úthlutunarskilmála. Könnun ráðuneytisins getur m.a. falið í sér að leita eftir umsögnum og tillögum frá skipuðum sjóðstjórnum, undirstofnunum ráðuneytisins eða hagaðilum um umsóknir umsækjenda.

Ráðherra tekur ákvörðun um framlag eða styrk til verkefnis og kynnir niðurstöðu sína innan 60 daga frá auglýstum skiladegi umsókna á samráðsgátt eða á heimasíðu ráðuneytisins og með skrif­legri tilkynningu til allra umsækjenda.

Sé fjárhæð styrks eða framlags veruleg skal gera skriflegan samning um verkefnið milli aðila á grundvelli auglýsingar- og úthlutunarskilmála þar sem m.a. er tryggð fullnægjandi skýrslugjöf um framvindu verkefnisins og reikningsskil.

 

4. gr.

Hæfi umsækjenda.

Umsækjandi skal uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 1. Sýna fram á fullnægjandi aðstöðu og faglega getu til að ljúka framkvæmd verkefnisins.
 2. Ef um lögaðila er að ræða skal hann geta staðfest rekstrarhæfi með framlagningu endur­skoðaðs ársreiknings liðins árs sem sýni jákvæða eiginfjárstöðu eða staðfestan ársreikning af þar til bærum aðila. Ef viðmiðum er ekki náð skv. ársreikningi liðins árs getur umsækjandi lagt fram staðfest bráðabirgðauppgjör fyrir yfirstandandi ár sem sýnir jákvæða eiginfjár­stöðu eða skilað inn trúverðugri áætlun staðfestri af endurskoðanda um það hvernig hann hyggst bæta úr svo viðmiðum um eiginfjárstöðu verði náð. Leggja þarf fram samþykktir félags eða félagasamtaka þar sem staðfest er að starfsemi sé ekki rekin í hagnaðarskyni heldur á grundvelli samfélagslegra markmiða.
 3. Að lögaðili sé ekki í vanskilum vegna opinberra gjalda eða afdreginna lífeyrisiðgjalda. Aðili skal geta lagt fram staðfestingu á skuldastöðu við opinbera aðila og lífeyrissjóði.
 4. Þegar um er að ræða samfélagslegt verkefni sem starfrækt er á landsvísu má gera kröfu um:
  1. að umsækjandi séu landssamtök aðildarfélaga sem sinna sambærilegum verkefnum á landsvísu, eða
  2. að umsækjandi starfi á landsvísu í gegnum útibú eða samstarfsaðila á lands­byggðinni.
 5. Þegar um er að ræða verkefni á sviði þjálfunar, menntunar eða rannsókna sem miðar að því að veita íbúum svæðisbundna þjónustu í tilteknu sveitarfélagi eða landsvæði má gera kröfu um að umsækjandi sýni fram á samstarf við sveitarfélög og staðbundna hagsmuna­aðila.
 6. Hafi umsækjandi áður fengið styrk frá mennta- og menningarmálaráðuneyti eða öðru ráðu­neyti til sams konar verkefnis þarf að liggja fyrir greinargerð um framkvæmd þess og ráð­stöfun styrkfjárhæðar til að ný umsókn komi til greina.

Til viðbótar við framangreind skilyrði getur ráðherra ákveðið að setja frekari og sértæk skilyrði til umsækjenda fyrir úthlutun framlags eða styrks til verkefnis. Skal tilgreina slík sértæk skilyrði í áformaskjali eða auglýsingu um úthlutun.

 

5. gr.

Viðmið við val á umsóknum.

Við mat á umsóknum um framlag eða styrk til einstakra verkefna skal líta til eftirfarandi við­miða eins og við á hverju sinni:

 1. Hversu vel fellur verkefnið að markmiðum og áherslum stjórnvalda?
 2. Eru settir fram skýrir mælikvarðar um framgang og árangur verkefnisins?
 3. Hversu greinargóð er umsókn aðila?
 4. Hversu raunhæf er umsókn aðila?
 5. Er verkefnið að fullu fjármagnað og hver er eigin fjármögnun til verkefnisins?

Til viðbótar við framangreind viðmið getur ráðherra ákveðið að setja frekari og sértæk viðmið um úthlutun framlags eða styrks til verkefnis. Skal tilgreina slík sértæk viðmið í auglýsingu um úthlutun.

 

6. gr.

Almennir úthlutunarskilmálar.

Með því að þiggja framlag eða styrk til tiltekins verkefnis lýsir styrkþegi því yfir að hann ábyrgist að framlaginu eða styrknum verði einungis varið til þess tiltekna verkefnis. Jafnframt skuld­bindur hann sig til að skila greinargerð og fjárhagsuppgjöri um verkefnið og hlíta öðrum skilmálum ráðu­neytis­ins. Þá skal taka fram í kynningarefni að mennta- og menningarmálaráðuneyti styrki verk­­efnið.

Í styrktarbréfi eða samningi, skal kveðið nánar á um framkvæmd og framgang verkefnis og að lágmarki kveða á um:

 1. Að styrkþega sé óheimilt að verja styrkfjárhæð til annarra þátta í starfsemi en þeirra sem kveðið er á um í samningi.
 2. Að styrkþegi skuli senda ráðuneyti greinargerð um verkefnið og fjárhagsuppgjör vegna þess innan 60 daga frá því verkefninu lýkur. Greinargerðin skal staðfest af styrkþega og óháðum einstaklingi/skoðunarmanni eða endurskoðanda.
 3. Heimild ráðuneytisins til að kalla eftir frekari upplýsingum, gögnum, bókhaldsupplýsingum og öðru sem skiptir máli við eftirlit þess með framkvæmd styrksins hvenær sem er á samn­ings­tíma.
 4. Að styrkþega sé óheimilt að afhenda, án skriflegs samþykkis ráðuneytisins, réttindi sín og skyldur samkvæmt samningi eða styrktarbréfi í hendur þriðja aðila.
 5. Að styrkþega sé óheimilt að framselja greiðslur skv. samningi eða styrktarbréfi til þriðja aðila eða setja með öðrum hætti til tryggingar fjárskuldbindingu skv. 45. gr. laga um samn­ingsveð, nr. 75/1997.
 6. Greiðslutilhögun framlags.
 7. Að styrkþega sé skylt að tilkynna tafarlaust ef upp koma aðstæður sem tefja framkvæmd verkefnis eða koma í veg fyrir að markmiðum eða skilyrðum fyrir styrkveitingu sé fullnægt.
 8. Gildistíma og úrlausn ágreiningsmála.
 9. Að styrkur falli niður eftir ákveðinn tíma sé hans ekki vitjað.

Ef styrkþegi brýtur með athöfnum eða athafnaleysi gegn skilyrðum eða forsendum fyrir fram­lagi eða styrk í styrktarbréfi eða samningi um verkefni getur það leitt til endurskoðunar á styrk­fjárhæð og/eða skapað ráðuneytinu endurkröfurétt.

Til viðbótar við framangreinda úthlutunarskilmála getur ráðherra ákveðið að setja frekari og sértæka skilmála um úthlutun framlags eða styrks til verkefnis. Skal tilgreina slíka sértæka skilmála í auglýsingu um úthlutun.

 

7. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar með vísan til 5. gr. reglugerðar um styrkveitingar ráðherra, nr. 642/2018, sbr. 42. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, og taka þegar gildi.

 

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 24. september 2021.

 

Lilja D. Alfreðsdóttir.

Páll Magnússon.


B deild - Útgáfud.: 13. október 2021