Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 76/2022

Nr. 76/2022 28. júní 2022

LÖG
um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999 (hækkun hlutfalls endurgreiðslu).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

    Á eftir 1. mgr. 5. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

    Þrátt fyrir 1. mgr. skal hlutfall endurgreidds framleiðslukostnaðar vera 35% af framleiðslu­kostnaði skv. 2. gr. og 5. gr. a fyrir framleiðslu sem, auk annarra skilyrða laga þessara, uppfyllir öll eftirfarandi skilyrði:

  1. Framleiðslukostnaður sem fellur til við framleiðslu viðkomandi kvikmyndar eða sjón­varps­efnis hér á landi er að lágmarki 350 millj. kr.
  2. Um er að ræða framleiðslu þar sem starfsdagar hér á landi eru að lágmarki 30, hvort sem um er að ræða tökudaga eða starfsdaga við skilgreinda eftirvinnslu verkefnis. Af 30 starfs­dögum skv. 1. málsl. skulu þó ávallt að lágmarki vera 10 tökudagar hér á landi.
  3. Fjöldi starfsmanna sem vinna beint að verkefninu er að lágmarki 50 og nemi sú vinna að lágmarki 50 starfsdögum. Skilyrði er að launa- eða verktakagreiðslur þessara starfsmanna séu skattlagðar hér á landi.

 

2. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „2. mgr. 5. gr.“ í a-lið 3. mgr. 5. gr. a laganna kemur: 3. mgr. 5. gr.

 

3. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „5. mgr. 5. gr.“ í 2. málsl. 8. gr. laganna kemur: 6. mgr. 5. gr.

 

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

    Ráðherra skal láta óháðan aðila gera úttekt á endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, þar á meðal hagrænum áhrifum þeirra og samfélagslegum ávinningi. Þá skal úttektin fjalla um hvernig til hafi tekist við hækkun á hlutfalli endurgreiðslu fyrir stærri verkefni. Úttektinni skal lokið fyrir árslok 2024 og niðurstöður hennar birtar opinberlega.

 

Gjört á Bessastöðum, 28. júní 2022.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Sigurður Ingi Jóhannsson.


A deild - Útgáfud.: 13. júlí 2022