Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 40/2021

Nr. 40/2021 28. maí 2021

LÖG
um breytingu á lögum um ferðagjöf, nr. 54/2020 (endurnýjun).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

    Við 5. mgr. 1. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Gildistími ferðagjafar 2021 er frá og með 1. júní til og með 30. september.

 

2. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:

    Heildarfjárhæð stuðnings til tengdra rekstraraðila getur að hámarki numið 260 millj. kr., að meðtöldum stuðningi samkvæmt lögum þessum og lögum um viðspyrnustyrki, sem og lokunar­styrkjum fyrir lokunartímabil eftir 17. september 2020 samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstrar­aðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og tekjufallsstyrkjum samkvæmt lögum um tekjufalls­styrki.

    Sé um að ræða fyrirtæki sem metið var í rekstrarerfiðleikum 31. desember 2019, annað en lítið fyrirtæki sem ekki hefur hlotið björgunar- eða endurskipulagningaraðstoð eða verið tekið til slita eða bú þess til gjaldþrotaskipta, getur það að hámarki tekið við samanlagt 30 millj. kr. til tengdra rekstraraðila í formi ferðagjafa. Skal slík aðstoð samrýmast reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1407/2013 frá 18. desember 2013 um beitingu 107. og 108. gr. sáttmálans um starfs­hætti Evrópusambandsins gagnvart minniháttaraðstoð eins og hún var tekin upp í EES-samning­inn.

 

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    Hafi ferðagjöf með gildistíma til og með 31. maí 2021 skv. 1. málsl. 5. mgr. 1. gr. ekki verið nýtt fyrir 1. júní 2021 fellur hún niður.

 

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2021.

 

Gjört á Bessastöðum, 28. maí 2021.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.


A deild - Útgáfud.: 31. maí 2021