Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1385/2021

Nr. 1385/2021 18. nóvember 2021

AUGLÝSING
um friðun æðplantna, mosa og fléttna.

1. gr.

Um friðunina.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur í samræmi við náttúruverndaráætlun 2009-2013 og með vísan til 1. mgr. 56. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013, ákveðið að friða þær tegundir æð­plantna, mosa og fléttna sem getið er í viðaukum með þessari auglýsingu. Tegundirnar eru friðaðar hvarvetna sem þær vaxa og finnast villtar í náttúru landsins. Upplýsingar um útlit, vaxtar­staði og dreifingu má nálgast hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Við ákvörðun um friðun þessa var höfð hliðsjón af samningnum um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu (Bern 1979), sbr. Stjórnartíðindi C nr. 17/1993, samningnum um líffræði­lega fjölbreytni (Ríó de Janeró 1992), sbr. Stjórnartíðindi C nr. 11/1995 og 2020 markmið Sam­einuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Friðunin tekur einnig mið af válista íslenskra plantna sem byggir á skilgreiningum Alþjóða náttúruverndarsamtakanna (IUCN 2004).

 

2. gr.

Markmið friðunarinnar.

Markmið friðunarinnar er að vernda og viðhalda fágætum æðplöntum, mosum og fléttum og náttúrulegu gróðurfari og varðveita líffræðilega fjölbreytni í náttúru landsins. Þekktir fundarstaðir tegundanna eru fáir hér á landi, tegundirnar eru sjaldgæfar eða mjög sjaldgæfar, með takmarkaða útbreiðslu og teljast vera í hættu samkvæmt válista.

Markmið friðunarinnar er jafnframt að tegundirnar geti þrifist og fjölgað sér náttúrulega án íhlut­unar og í friði frá neikvæðum áhrifum mannsins. Þá er friðunin liður í að stuðla að stöðvun skerð­ingar líffræðilegrar fjölbreytni.

 

3. gr.

Friðaðar æðplöntur.

Tegundir æðplantna sem taldar eru upp í viðauka I við auglýsingu þessa eru friðaðar. Forsendur fyrir friðun þessara tegunda eru hversu sjaldgæfar þær eru, takmörkuð útbreiðsla þeirra, fáir vaxtar­­staðir, mikilvægi þeirra fyrir líffræðilega fjölbreytni landsins og staða þeirra á válista íslenskra planta.

 

4. gr.

Friðaðir mosar.

Tegundir mosa sem taldar eru upp í viðauka II við auglýsingu þessa eru friðaðar. Forsendur fyrir friðun þessara tegunda eru hversu sjaldgæfar þær eru, útbreiðsla þeirra takmörkuð, fáir vaxtar­staðir, mikilvægi þeirra fyrir líffræðilega fjölbreytni landsins og staða þeirra á válista.

 

5. gr.

Friðaðar fléttur.

Tegundir fléttna sem taldar eru upp í viðauka III við auglýsingu þessa eru friðaðar. Forsendur fyrir friðun þessara tegunda eru hversu sjaldgæfar þær eru, útbreiðsla þeirra takmörkuð, fáir vaxtar­staðir, mikilvægi þeirra fyrir líffræðilega fjölbreytni landsins og staða þeirra á válista.

 

6. gr.

Umgengni.

Almenningi er heimil för um vaxtarstaði friðaðra æðplantna, mosa og fléttna en bannað er að aflífa, eyðileggja eða valda á annan hátt skaða á einstaklingum friðaðrar tegundar.

 

7. gr.

Ákvarðanir er hafa áhrif á friðaðar tegundir æðplantna, mosa og fléttna.

Við töku hvers kyns ákvarðana sem áhrif geta haft á friðaðar tegundir æðplantna, mosa og fléttna skulu stjórnvöld sýna sérstaka aðgát svo ekki verði gengið gegn markmiðum friðunarinnar. Leita skal umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúru­vernd­ar­nefndar áður en tekin er ákvörðun um framkvæmd sem felur í sér röskun friðaðra tegunda æð­plantna, mosa og fléttna. Við ákvörðunartöku skal leggja áherslu á mikilvægi framkvæmdar­staðar­ins með tilliti til útbreiðslu og verndarstöðu þeirra friðuðu tegunda sem þar er að finna og hvort full­nægjandi vernd náist með því að vernda eða byggja upp aðra staði þar sem hinar friðuðu tegundir er að finna. Framkvæmdaraðili skal taka sanngjarnan þátt í kostnaði við slíkar aðgerðir. Stjórn­­völdum er heimilt að binda leyfi skilyrðum sem miða að því að koma í veg fyrir eða draga úr röskun friðaðra tegunda.

 

8. gr.

Eftirlit og vöktun.

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með friðuðum æðplöntum, mosum og fléttum. Náttúrufræði­stofnun Íslands skal upplýsa Umhverfisstofnun um fundarstaði friðaðra plantna og fléttna.

Náttúrufræðistofnun Íslands ber ábyrgð á vöktun friðaðra æðplantna, fléttna og mosa, sbr. 74. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Niðurstöður vöktunar skulu vera aðgengilegar Umhverfis­stofnun og sveitarfélögum.

 

9. gr.

Fræðsla.

Umhverfisstofnun, sbr. 13. gr. laga nr. 60/2013 og Náttúrufræðistofnun Íslands, sbr. 57. gr. laga nr. 60/2013 skulu veita fræðslu um friðaðar tegundir æðplantna, mosa og fléttna hér á landi s.s. á heimasíðu eða með sérstakri útgáfu fræðslu- og kynningarefnis um friðaðar tegundir.

 

10. gr.

Viðurlög.

Um brot gegn friðun þessari fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 60/2013, um náttúruvernd.

 

11. gr.

Gildistaka.

Auglýsing þessi, um friðun æðplantna, mosa og fléttna, er birt á grundvelli 56.-59. gr. laga nr. 60/2013, um náttúruvernd, og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi auglýsing nr. 184/1978 um friðlýsingu nokkurra plöntutegunda.

 

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 18. nóvember 2021.

 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Sigríður Auður Arnardóttir.

 

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 2. desember 2021