Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 850/2021

Nr. 850/2021 2. júlí 2021

AUGLÝSING
um landslagsverndarsvæði norðan Dyrfjalla og náttúruvættið Stórurð.

1. gr.

Um friðlýsinguna.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að friðlýsa jarðirnar Unaós-Heyskála, Hrafna­björg og hluta Sandbrekku sem landslagsverndarsvæði og náttúruvætti í samræmi við 48. gr. og 50. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Friðlýsta svæðið er hluti af þyrpingu eldstöðva sem teljast meðal þeirra elstu á Austfjörðum, um 13,5 til 12 milljón ára gamlar. Svæðið hýsir tvær eldsstöðvar, Njarðvíkureldstöðina sem er með gíg í Grjótfjalli og Dyrfjallaeldstöðina sem er með öskjugíg í Dyrfjöllum. Í Dyrfjöllum má sjá þykkt móbergslag sem myndaðist við gos undir vatni og afmarkar útlínur öskjunnar. Njarðvíkureldstöðin er aðeins eldri en Dyrfjallaeldstöðin en í báðum varð sprengigos með tilheyrandi flikrubergsmyndun, nálægt lokum líftíma þessara eldstöðva. Í flikruberginu finnast steingerðar gróðurleifar og í Grjót­fjalli finnast stærstu baggalútar sem vitað er um á Íslandi. Dyrnar eru taldar hafa myndast í berg­hlaupi/grjóthruni þar sem hraun- og móbergsbjörg hrundu yfir jökulinn og voru síðan borin með honum langa leið. Urðir beggja vegna við dyrnar bera ummerki þess, svo sem hin fræga Stórurð. Úr Stórurð er mikilfenglegt útsýni, meðal annars á dyrnar í Dyrfjöllum sem er stórbrotin sjón.

Nokkrar vistgerðir eru á svæðinu sem hafa hátt verndargildi og flokkast sem forgangsvistgerðir. Á sléttunni norðan Selfljóts er að finna runnamýravist og starungsmýravist auk gulstararflóavistar. Þá eru í hlíðum Ósfjalla og suður af þeim kjarrskógavist og lyngskógavist, báðar forgangsvistgerðir með hátt verndargildi. Þá er auk þess að finna ferskvatnsvistgerðina kransþörungavötn og fjöru­vistgerðina hrúðurkarlafjörur en þær eru á lista Bernarsamningsins. Þar eru einnig leirulón sem er sjald­gæf vistgerð á svæðinu.

Talið er að um 40 fuglategundir verpi á friðlýsta svæðinu, þar á meðal tegundir á válista. Svæðið nær að hluta yfir láglendi Úthéraðs sem skilgreint hefur verið sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Þá eru fýlabyggðirnar í fjöllunum utan við Unaós (7.000 pör) nálægt þeim mörkum að teljast alþjóðlega mikilvægar.

Ýmsan sérstakan gróður er að finna á svæðinu, til að mynda mosann dökklepp sem er sjaldgæf tegund, fléttuna geislabikar sem skráð er á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands (1996) og æð­plöntu­tegundirnar lyngbúa, súrsmæru og línarfa sem allar eru friðaðar og skráðar á válista sem tegundir í nokkurri hættu.

Á svæðinu út af Unaósi eru tvö selalátur þar sem fjöldi sela hefur farið vaxandi.

Helsta nýting innan friðlýsta svæðisins er landbúnaður, skot- og stangveiði, útivist, ferða­þjón­usta auk þess sem þar er frístundabyggð.

Við ákvörðun um friðlýsingu var höfð hliðsjón af samningnum um líffræðilega fjölbreytni (Rio de Janeiro 1992, sbr. Stjórnartíðindi C nr. 3/1995), samningnum um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu (Bern 1979, sbr. Stjórnartíðindi C nr. 17/1993) og Landslagssamningur Evrópu (Flórens, 2000).

Hið friðlýsta svæði er 55 km ² að stærð.

 

2. gr.

Markmið friðlýsingarinnar.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda og varðveita sérstæðar jarðminjar og landslag sem er sérstætt á landsvísu vegna fagurfræðilegs gildis. Þá er jafnframt markmið friðlýsingarinnar að standa vörð um líffræðilega fjölbreytni svæðisins með verndun vistkerfa, þ.m.t. mikilvægt fuglasvæði norðan Selfljóts, og stýringu umferðar um svæðið, sbr. 2. gr., 3. gr., 48. gr. og 50. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Friðlýsingin skal stuðla að því að nýting svæðisins fari fram með þeim hætti að ekki sé gengið á gæði landsins.

Með vernduninni skal tryggt að jarðminjum, landslagsheild, lífríki og ásýnd svæðisins verði ekki spillt og einkenni þess og sérkenni varðveitt þar sem svæðið er sérstætt á landsvísu og skipar mikilvægan sess í vitund þjóðar. Hið verndaða svæði er varðveitt til náttúruupplifunar fyrir almenn­ing og er kappkostað að innviðir geri sem flestum fært að njóta svæðisins án þess að skerða náttúru­verðmæti og/eða upplifun annarra hópa. Stórurð verður varðveitt sem áfangastaður fyrir ferðamenn með áherslu á aðgengi. Í heild hefur svæðið hátt vísindalegt gildi og verður kappkostað að viðhalda gildi þess og gera vísindamönnum kleift að rannsaka náttúruminjar svæðisins.

 

3. gr.

Mörk verndarsvæðisins.

Mörk verndarsvæðisins eru sýnd á korti í viðauka I með auglýsingu þessari og afmarkast af þeim hnitum sem gefin eru upp í ISN93 hnitakerfi í viðauka II.

Innan landslagsverndarsvæðisins er skilgreint eitt svæði sem friðlýst er sem náttúruvætti, Stór­urð, auk svæðis innan marka jarðarinnar Hrafnabjarga þar sem sérstakar reglur gilda. Svæðaskipt­ing­una má sjá á korti í viðauka I.

 

4. gr.

Umsjón.

Umhverfisstofnun hefur umsjón með verndarsvæðinu í samræmi við 2. mgr. 13. gr. og 79. gr. laga nr. 60/2013.

Umhverfisstofnun, í samráði við samstarfsnefnd svæðisins, getur falið einstaklingum, sveitar­félögum eða öðrum lögaðilum umsjón og rekstur svæðisins, sbr. 85. gr. laga nr. 60/2013 um náttúru­vernd.

Samstarfsnefnd um málefni friðlýsta svæðisins skal skipuð fulltrúum Umhverfisstofnunar, sveitar­félags, fulltrúum landeigenda Hrafnabjarga, Unaóss-Heyskála og Sandbrekku, auk fulltrúa Minja­stofnunar. Fulltrúi Umhverfisstofnunar skal vera formaður. Hlutverk samstarfsnefndar er að stuðla að því að verndargildi svæðisins haldist ásamt því að fjalla um framkvæmdaáætlun og stefnu­mótun fyrir landvörslu á verndarsvæðinu, samvinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar ásamt endurskoðun og breytingum á henni og önnur stefnumótandi mál er varða friðlýsta svæðið. Skip­unar­tími nefndarinnar er sá sami og kjörtímabil sveitarstjórna. Samstarfsnefnd skal funda eigi sjaldnar en einu sinni á ári.

 

5. gr.

Stjórnunar- og verndaráætlun.

Umhverfisstofnun ber ábyrgð á að gerð sé stjórnunar- og verndaráætlun fyrir verndarsvæðið í samstarfi við samstarfsnefnd og í samræmi við 81. gr. laga nr. 60/2013. Í stjórnunar- og verndar­áætlun skal m.a. fjalla um landnýtingu, landvörslu, vöktun, uppbyggingu, fræðslu og miðlun upplýs­inga, verndaraðgerðir, aðgengi ferðamanna, þar á meðal aðgengi fatlaðs fólks, svæðaskiptingu, efnistöku, framandi tegundir, viðhald mannvirkja, beit, umferð þ.m.t. umferð ríðandi og hjólandi, flug ómannaðra og mannaðra loftfara og veiðar.

Stjórnunar- og verndaráætlun skal gerð í samvinnu við samstarfsnefnd um málefni verndar­svæðisins, Náttúrufræðistofnun Íslands, Hafrannsóknastofnun og eftir atvikum aðrar fagstofnanir og hagsmunaaðila.

Stjórnunar- og verndaráætlun er háð staðfestingu ráðherra.

 

6. gr.

Rannsóknir og vöktun.

Náttúrufræðistofnun Íslands ber ábyrgð á vöktun náttúruminja á verndarsvæðinu, sbr. 74. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Vöktunaráætlun skal vera unnin í samráði við Umhverfisstofnun og vera hluti stjórnunar- og verndaráætlunar.

Aðrar rannsóknir en lögbundnar rannsóknir fagstofnana sem kunna að hafa í för með sér jarð­rask eða truflun eru háðar leyfi Umhverfisstofnunar.

Niðurstöður rannsókna skulu vera aðgengilegar fyrir Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands.

 

7. gr.

Fræðsla.

Umhverfisstofnun, í samstarfi við samstarf verndarsvæðisins, hefur frumkvæði að fræðslu um svæðið. Í fræðsluefni skal upplýst um verndargildi svæðisins, svæðaskiptingu og mismunandi umgengnis­reglur sem þar gilda, sérstöðu svæðisins og fleira. Nánar skal fjallað um fræðslu í stjórnunar- og verndaráætlun.

 

8. gr.

Verndun landslags.

Varðveita skal einkenni og sérkenni landslags svæðisins í heild. Sérstaklega skal standa vörð um landslag og sérkenni náttúruvættisins Stórurðar. Óheimilt er að valda spjöllum á landslagi svæðisins. Framkvæmdir og mannvirki skal skipuleggja og hanna þannig að þau falli sem best að svipmóti lands.

 

9. gr.

Verndun jarðminja.

Allt rask á jarðminjum er óheimilt innan verndarsvæðisins nema með sérstöku leyfi skv. 12. gr.

 

10. gr.

Verndun gróðurs og dýralífs.

Óheimilt er að spilla gróðri eða trufla dýralíf af ásetningi innan friðlýsta svæðisins. Undan­skildar eru þó framandi, ágengar tegundir.

Óheimilt er að rækta útlendar plöntutegundir á verndarsvæðinu, sbr. 10. gr. reglugerðar um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda, nr. 583/2000. Unnið skal gegn útbreiðslu lúpínu, skógarkerfils, bjarnarklóar og minks innan marka hins friðlýsta svæðis.

Undanskilið ákvæði 2. mgr. er svæði á Hrafnabjörgum, en tryggja skal að útlendar plöntu­tegundir berist ekki út fyrir svæðið.

Nánar skal fjallað um framandi tegundir í stjórnunar- og verndaráætlun.

 

11. gr.

Verndun menningarminja.

Um vernd menningarminja fer eftir lögum um menningarminjar, nr. 80/2012.

 

12. gr.

Landnotkun og mannvirkjagerð.

Allar framkvæmdir, þ.m.t. mannvirkjagerð, jarðrask og aðrar breytingar á landi innan verndar­svæðisins eru háðar leyfi sveitarfélagsins, sbr. skipulagslög, nr. 123/2010 og lög um mannvirki, nr. 160/2010, landeigenda og Umhverfisstofnunar, sbr. 2. mgr. 40. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, auk annarra stofnana eftir því sem við á. Mannvirki skulu ekki hafa afgerandi áhrif á ásýnd svæðis­ins og falla sem best að svipmóti lands.

Uppbygging innviða á svæðinu skal fara eftir skipulagi þess og stjórnunar- og verndaráætlun. Þegar ekki liggur fyrir staðfest skipulag er Umhverfisstofnun heimilt að veita leyfi fyrir framkvæmd­um ef þær ganga ekki gegn verndarmarkmiðum friðlýsingarinnar.

Heimilt er að halda við mannvirkjum, s.s. mannvirkjum Vegagerðarinnar innan veghelgunar­svæða og göngubrúm, sem þegar eru í notkun án þess að leita þurfi leyfis Umhverfisstofnunar svo fremi viðhald hafi ekki neikvæð áhrif á verndargildi svæðisins en um þær framkvæmdir gilda skipulagslög nr. 123/2010, lög um mannvirki, nr. 160/2010 og eftir atvikum vegalög, nr. 80/2007. Nánar skal fjallað um viðhald mannvirkja í stjórnunar- og verndaráætlun.

Gert er ráð fyrir að á jörðinni Unaós-Heyskálum verði áfram stundaður landbúnaður. Ábú­endum er heimilt að fara í nýrækt á jörðinni en skulu áður eiga samráð við Umhverfisstofnun og eftir atvikum aðrar stofnanir um staðsetningu slíkrar nýræktar.

Réttur bænda til nýtingar afréttar til beitar og smölunar helst óbreyttur en nánar skal fjallað um beit á svæðinu í stjórnunar- og verndaráætlun.

Efnistaka á svæðinu er óheimil án leyfis Umhverfisstofnunar. Undanþegin banninu er efnistaka landeigenda Hrafnabjarga við Knarrará til einkanota auk þess sem Vegagerðin hefur heimild til efnistöku á þegar röskuðu landi, að höfðu samráði við Umhverfisstofnun og með leyfi landeigenda, til viðhalds og minniháttar framkvæmda innan veghelgunarsvæðis. Efnistökustaðir skulu skilgreindir og nánar skal fjallað um efnistöku í stjórnunar- og verndaráætlun.

 

Sérreglur um náttúruvættið Stórurð.

Framkvæmdir og mannvirkjagerð eru óheimilar innan náttúruvættisins Stórurðar að undan­skildum framkvæmdum í þágu aðgengis göngufólks að svæðinu, s.s. stígagerð, stikun og gerð göngu­brúa.

 

Sérreglur um svæði á Hrafnabjörgum.

Framkvæmdir og mannvirkjagerð á deiliskipulögðu svæði innan jarðarinnar Hrafnabjarga eru heimilar í samræmi við samþykkt deiliskipulag frá 5. desember 2012. Heimilt er að reisa 6 hús auk þjónustuhúss sem gert er ráð fyrir í deiliskipulagi að því tilskyldu að ekki verði raskað vistkerfum né jarðminjum sem njóta sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013, frárennsli verði hreinsað með fullnægjandi hætti, sbr. reglugerð um fráveitur og skólp, nr. 798/1999, og að frágangur að fram­kvæmdum loknum sé ætíð til fyrirmyndar. Framkvæmdaraðili skal tilkynna Umhverfisstofnun með hæfilegum fyrirvara um upphaf framkvæmda og fylgja nánari leiðbeiningum stofnunarinnar um tilhögun framkvæmdar og frágang.

 

13. gr.

Starfsemi innan svæðisins.

Afla skal leyfis Umhverfisstofnunar vegna skipulagðra viðburða og verkefna sem kalla á aðstöðu, mannafla eða meðferð tækja innan verndarsvæðisins, s.s. vegna kvikmyndagerðar, list­viðburða og samkomuhalds.

 

14. gr.

Umferð um verndarsvæðið.

Almenningi er heimil för um verndarsvæðið en er skylt að ganga vel og snyrtilega um svæðið og fylgja þeim umgengnisreglum sem þar gilda. Ávallt skal fara eftir merktum leiðum og skipulögðum stígum þar sem þess er kostur.

Óheimilt er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega, sbr. þó undanþágur í 31. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Undanþágur 31. gr. laga um náttúruvernd gilda þó ekki innan náttúru­vættisins Stórurðar þar sem umferð vélknúinna ökutækja er óheimil. Þó er heimilt að aka vélknúnum farartækjum innan náttúruvættisins þegar jörð er frosin eða snjóþekjan traust og augljóst er að ekki er hætta á náttúruspjöllum.

Umhverfisstofnun er heimilt að loka verndarsvæðinu að hluta í verndarskyni í samræmi við 25. gr. a. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Innan verndarsvæðisins er óheimilt að slá upp og gista í tjöldum, tjaldvögnum, fellihýsum, hjólhýsum og öðrum sambærilegum búnaði utan skilgreindra tjaldsvæða. Undanskilið banninu eru svæði við íbúðar- og sumarhús á svæðinu að fengnu leyfi landeigenda eða ábúenda.

Lausaganga hunda og annarra gæludýra er óheimil á svæðinu, nema um dýr landeigenda eða ábúenda sé að ræða eða þjónustuhunda, s.s. við veiðar og smalamennsku.

Lausaganga hrossa er óheimil. Nánar skal fjallað um ríðandi umferð í stjórnunar- og verndar­áætlun.

Umferð hjólandi er heimil á skilgreindum leiðum og vegum. Nánar skal fjallað um umferð hjólandi í stjórnunar- og verndaráætlun.

Óheimilt er að lenda þyrlum og öðrum mönnuðum loftförum innan verndarsvæðisins utan skil­greindra lendingarstaða nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar. Heimilt er að skilgreina lend­ingarstaði í stjórnunar- og verndaráætlun. Undanskilið banni þessu eru leitar- og björgunaraðgerðir, landhelgisgæsla eða sambærileg verkefni.

Um flug fjarstýrðra loftfara innan verndarsvæðisins fer skv. almennum reglum þar um að undanskildu náttúruvættinu Stórurð þar sem sérstakar reglur gilda.

Nánar skal fjallað um umferð, þ.m.t. flug mannaðra og ómannaðra loftfara, umferð hjólandi og ríðandi um verndarsvæðið í stjórnunar- og verndaráætlun.

 

Sérreglur um náttúruvættið Stórurð.

Notkun vélknúinna ökutækja er óheimil innan náttúruvættisins að undanskilinni umferð þegar jörð er frosin eða snjóþekjan traust og augljóst er að ekki er hætta á náttúruspjöllum.

Umferð hjólandi og ríðandi er óheimil innan náttúruvættisins.

Notkun fjarstýrðra loftfara er óheimil innan náttúruvættisins nema með leyfi Umhverfis­stofnunar. Undanskildar banni þessu eru leitar- og björgunaraðgerðir.

 

Svæði á Hrafnabjörgum.

Landeigendum er heimilt að aka innan skilgreinds svæðis á Hrafnabjörgum eins og verið hefur svo fremi ekki hljótist af náttúruspjöll. Akstur að svæðinu og innan þess er einnig heimill vegna þjónustu við hús á svæðinu.

 

15. gr.

Umgengni um verndarsvæðið.

Óheimilt er að skilja eftir eða urða úrgang innan verndarsvæðisins nema á viðurkenndum móttökustöðum.

 

16. gr.

Veiði og notkun skotvopna.

Veiðar eru heimilar á svæðinu í samræmi við ákvæði laga þar um og að fengnu leyfi land­eigenda. Nánar skal fjallað um veiðar á verndarsvæðinu í stjórnunar- og verndaráætlun.

Veiðar á ref eru heimilar skv. almennum reglum þar um enda skulu þær stundaðar á vegum viðkomandi sveitarfélags.

Stefnt skal að útrýmingu minks. Veiðar á mink skulu stundaðar skv. almennum reglum þar um á vegum viðkomandi sveitarfélags.

Heimild til veiða í ám helst eins og verið hefur og í samræmi við reglur veiðifélaga þar um.

 

Sérreglur um náttúruvættið Stórurð.

Veiðar eru óheimilar innan náttúruvættisins. Undanskilið banni á veiðum eru veiðar á ref og mink auk þess sem rjúpnaveiðar eru heimilar að fengnu leyfi landeigenda.

 

17. gr.

Viðurlög.

Um brot gegn ákvæðum friðlýsingarinnar fer samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd.

 

18. gr.

Gildistaka.

Frðlýsingin öðlast þegar gildi.

 

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 2. júlí 2021.

 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Sigríður Auður Arnardóttir.

 

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 19. júlí 2021