Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 688/2021

Nr. 688/2021 26. maí 2021

AUGLÝSING
um friðland við Fitjaá í Skorradal.

1. gr.

Um friðlýsinguna.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið, að tillögu Umhverfisstofnunar, að frumkvæði land­eigenda Fitja og með samþykki Skorradalshrepps og annarra landeigenda, að friðlýsa votlendis­svæði Fitjaár í Skorradal sem friðland í samræmi við 49. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Friðlýsingin miðar að því að vernda víðlent, samfellt og lítið raskað votlendissvæði við Fitjaá þar sem skiptast á mýrar og flóar.

Svæðið gegnir fjölbreyttu hlutverki í vistkerfum og er meðal annars mikilvægt búsvæði plöntu- og fuglategunda, það dregur úr áhrifum flóða og mengunar og eykur vatnsgæði straumvatna sem um það renna. Jarðvegur votlendisins er lífrænn og hefur hátt kolefnisinnihald og mikla vatnsgeymd. Ríkj­andi æðplöntutegundir eru mýrarstör og gulstör og mynda þær eitt víðaáttumesta mýragróður­sam­félagið á svæðinu en jafnframt er þar að finna fjölbreytt mýragróðursamfélög og vatnaplöntur. Starungs­mýravist sem er helsta votlendisvistgerð svæðisins hefur mjög hátt verndargildi. Við ósa Fitjaár er jafnframt fjölbreytt fuglalíf.

Lögð er áhersla á mikið verndargildi þess óspillta votlendissvæðis sem er við ósa Fitjaár.

Friðlýsingin samræmist markmiði 2. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd þar sem kveðið er á um vernd líffræðilegrar fjölbreytni með því að viðhalda tegundafjölbreytni og vistfræðilegum ferl­um.

Við ákvörðun um friðlýsingu var m.a. höfð hliðsjón af samningnum um vernd villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu (Bern 1979, sbr. Stjórnartíðindi C nr. 17/1993), samningnum um líffræði­lega fjölbreytni (Rio de Janeiro 1992, sbr. Stjórnartíðindi C nr. 11/1995), samþykkt um votlendi sem hafa alþjóð­legt gildi, einkum fyrir fuglalíf (Ramsar 1971, sbr. Stjórnartíðindi C nr. 1/1978) og ramma­samningi Sameinuðu þjóðanna um loftlagsbreytingar (sbr. Stjórnartíðindi C nr. 14/1993 og nr. 39/1993).

Hið friðlýsta svæði er 0,88 km² að stærð.

 

2. gr.

Markmið friðlýsingarinnar.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda víðlent, samfellt og lítið raskað votlendissvæði við Fitjaá, vernda vistgerðir og búsvæði ásamt því að styrkja verndun lífvera sem eru sjaldgæfar eða í hættu. Þá miðar friðlýsingin jafnframt að því að vernda og viðhalda tegundafjölbreytni svæðisins og vist­fræði­­legum ferlum sem og stuðla að ákjósanlegri verndarstöðu tegunda og fræðslu um votlendis­­svæðið.

 

3. gr.

Mörk friðlandsins.

Mörk friðlandsins eru sýnd á korti sem birt er í viðauka I með auglýsingunni og afmarkast af þeim hnitum sem gefin eru upp í ISN93 hnitakerfi í viðauka II.

 

4. gr.

Umsjón með friðlandinu.

Umhverfisstofnun hefur umsjón og eftirlit með friðlandinu í samræmi við 2. mgr. 13. gr. og 79. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Umhverfisstofnun er heimilt¸ að höfðu samráði við land­eig­endur, að gera umsjónarsamning um friðlandið, sbr. 1. mgr. 85. gr. laga nr. 60/2013 um náttúru­vernd.

Nánar skal fjallað um umsjón friðlandsins í stjórnunar- og verndaráætlun.

 

5. gr.

Stjórnunar- og verndaráætlun.

Umhverfisstofnun ber ábyrgð á að gerð sé stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið í sam­ræmi við 81. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Í stjórnunar- og verndaráætlun skal m.a. fjalla um land­nýtingu, landvörslu, vöktun, uppbyggingu, fræðslu og miðlun upplýsinga, verndaraðgerðir, grunn­­vatns­stöðu á svæðinu, framandi tegundir, umferð og aðgengi ferðamanna, þar á meðal aðgengi fatlaðs fólks. Stjórnunar- og verndaráætlun skal gerð í samvinnu við eigendur svæðisins, viðkom­andi sveitar­stjórn, Náttúrufræðistofnun Íslands og eftir atvikum aðrar fagstofnanir og hags­muna­aðila.

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið er háð staðfestingu ráðherra, sbr. 3. mgr. 81. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

 

6. gr.

Rannsóknir og vöktun.

Náttúrufræðistofnun Íslands ber ábyrgð á vöktun lífríkis í friðlandinu í samræmi við 74. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Vöktunaráætlun skal vera unnin í samráði við Umhverfisstofnun og vera hluti stjórnunar- og verndaráætlunar. Skýrslur um niðurstöður rannsókna og vöktunar skulu vera aðgengilegar Umhverfisstofnun.

Aðrar náttúrufarsrannsóknir en rannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands og lögbundnar rann­sóknir Skógræktarinnar, Landgræðslunnar og Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafa­stofnunar hafs og vatna sem kunna að hafa í för með sér jarðrask eða truflun dýralífs eru háðar leyfi Umhverfis­stofnunar. Niðurstöður rannsókna skulu vera aðgengilegar Umhverfisstofnun og Náttúru­fræðistofnun Íslands.

Veiting leyfa vegna rannsókna á menningarminjum fer eftir lögum nr. 80/2012 um menningar­minjar.

Nánar skal kveðið á um rannsóknir og vöktun í stjórnunar- og verndaráætlun.

 

7. gr.

Fræðsla.

Umhverfisstofnun, í samráði við landeigendur, hefur umsjón með gerð fræðsluefnis um frið­landið. Þar skulu meðal annars koma fram upplýsingar um verndargildi og sérstöðu svæðisins og þær umgengnisreglur sem þar gilda.

Nánar skal kveðið á um fræðslu í stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið.

 

8. gr.

Verndun jarðminja.

Allt rask á jarðminjum er óheimilt nema með sérstöku leyfi, sbr. 11. gr.

Nánar skal fjallað um verndun jarðminja í stjórnunar- og verndaráætlun.

 

9. gr.

Verndun gróðurs og dýralífs.

Vernda skal lífríki friðlandsins, líffræðilega fjölbreytni þess og vistkerfi. Óheimilt er að spilla gróðri eða trufla dýralíf, að undanskildum framandi tegundum.

Óheimilt er að sleppa eða dreifa framandi lífverum innan friðlandsins, þ.m.t. að rækta framandi plöntutegundir, sbr. reglugerð nr. 583/2000 um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntu­tegunda og lög nr. 54/1990 um innflutning dýra.

Óheimilt er að gróðursetja plöntur og notkun tilbúins áburðar á svæðinu er óheimil. Unnið skal að því að fjarlægja framandi tegundir plantna og/eða dýra sem hafa verið flutt inn á friðlandið eða berast inn á það.

Nánar skal fjallað um framandi lífverur og aðgerðir í tengslum við þær í stjórnunar- og verndar­áætlun.

 

10. gr.

Verndun menningarminja.

Um vernd menningarminja fer eftir lögum nr. 80/2012 um menningarminjar.

 

11. gr.

Landnotkun og mannvirkjagerð.

Allar framkvæmdir sem áhrif kunna að hafa á verndargildi friðlandsins eru háðar leyfi Umhverfis­stofnunar, sbr. 2. mgr. 40. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og sveitarfélagsins Skorradals­hrepps, sbr. skipulagslög nr. 123/2010 og lög nr. 160/2010 um mannvirki, sem og leyfi land­eig­enda.

Við landnotkun og mannvirkjagerð skal miða að því eins og kostur er að framkvæmdir séu aftur­kræfar, að þær stuðli að verndun friðlandsins og öryggi gesta.

Til að tryggja vernd og náttúrulegt ástand votlendisins er öll framræsla innan friðlandsins óheimil.

Heimilt er að viðhalda leiðirás vestan við Dimmamel og tæmingarskurði austast á friðlandinu sem taka við yfirborðsvatni, að höfðu samráði við Umhverfisstofnun.

Innviðauppbygging svæðisins, svo sem stígagerð skal vera í samræmi við samþykkt skipulag.

Um viðhald vega fer eftir ákvæðum vegalaga nr. 80/2007 og framkvæmdir innan veghelgunar­svæðis eru háðar leyfi Vegagerðarinnar.

Nánar skal fjallað um landnotkun og mannvirkjagerð í stjórnunar- og verndaráætlun.

 

12. gr.

Umferð í friðlandinu.

Almenningi er heimil för um friðlandið en er skylt að ganga vel og snyrtilega um svæðið og fylgja þeim umgengnisreglum sem gilda innan þess. Ávallt skal fylgja göngustígum þar sem þeir eru til staðar.

Næturgisting er óheimil innan friðlandsins.

Óheimilt er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega, sbr. þó undanþágur 31. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Umferð sjókatta og vélknúinna báta innan friðlandsins er óheimil.

Umhverfisstofnun er heimilt að loka friðlandinu, í heild eða að hluta, í verndarskyni í samræmi við 25. gr. a. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Hefðbundinn réttur bænda til smölunar helst eins og verið hefur.

Óheimilt er að hafa hunda innan marka friðlandsins án fylgdar og tryggrar stjórnar. Gestir svæðis­ins skulu hafa hunda sína í taumi á svæðinu á varptíma. Varptími skal skilgreindur í stjórn­unar- og verndaráætlun.

Öll meðferð elds er óheimil á svæðinu, þ.m.t. notkun ferðagrilla. Umferð reiðhjóla er aðeins heimil á skilgreindum hjólastígum og vegum samkvæmt skipulagi svæðisins.

Ríðandi mönnum er aðeins heimil för um svæðið á skilgreindum reiðleiðum og vegum.

Óheimilt er að lenda þyrlum og öðrum mönnuðum loftförum innan friðlandsins nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar. Flug fjarstýrðra loftfara er óheimilt yfir friðlandinu nema með leyfi Umhverfis­stofn­unar. Undanskilið þessu banni eru leitar- og björgunaraðgerðir.

Nánar skal fjallað um umferð og umgengni um friðlandið í stjórnunar- og verndaráætlun.

 

13. gr.

Umgengni um friðlandið.

Óheimilt er að skilja eftir eða urða úrgang innan marka friðlandsins og skal allur úrgangur settur í þar til gerð ílát eða hann tekinn með út af svæðinu.

 

14. gr.

Veiði og notkun skotvopna.

Stefnt skal að útrýmingu minks.

Veiðar á mink og ref eru heimilar í samræmi við ákvæði laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og á vegum sveitarfélagsins og í samráði við Umhverfis­­stofnun. Halda skal skrá yfir veidd dýr og skila til Umhverfisstofnunar.

Öll önnur meðferð skotvopna er bönnuð innan friðlandsins, að undanskildum veiðum á fram­andi ágengum tegundum í samræmi við ákvæði laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Heimild til veiða í ám og vötnum helst sem verið hefur.

 

15. gr.

Viðurlög.

Um brot gegn ákvæðum friðlýsingarinnar fer samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd.

 

16. gr.

Gildistaka.

Friðlýsingin öðlast þegar gildi.

 

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 26. maí 2021.

 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Sigríður Auður Arnardóttir.

 

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 10. júní 2021