Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 787/2017

Nr. 787/2017 23. ágúst 2017

SAMÞYKKT
um fráveitu í Ísafjarðarbæ.

I. KAFLI

Almennt.

1. gr.

Samþykkt þessi gildir um fráveitu í Ísafjarðarbæ og nær til allra fasteigna, íbúðarhúsnæðis, sumar­bústaða, stofnana og atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu. Samþykktin nær til allra fráveitna, þar með talið allra mannvirkja sem reist eru til meðhöndlunar eða flutnings á frárennsli, svo sem rotþróa, annarra hreinsivirkja, set- og sandskilja, fellitanka og olíu- og fitugildra. Jafnframt skulu uppfyllt ákvæði reglugerða nr. 982/2010 um fráveitur sveitarfélaga, nr. 798/1999 um fráveitur og skólp, nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru, nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, og nr. 797/1999 um varnir gegn mengun grunnvatns, sem og ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunar­varnir, laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna.

Bæjarstjórn heldur skrá yfir hreinsivirki, þ.m.t. rotþrær með siturlögnum og settanka, og færir stað­setningu þeirra á skipulagsgögn sveitarfélagsins.

Samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, hefur heilbrigðisnefnd Vest­fjarða eftirlit með framkvæmd samþykktar þessarar og annast eftirlit með fráveitum.

2. gr.

Markmið samþykktar þessarar er að:

  1. afmarka skyldur sveitarfélagsins hvað varðar fráveitumál og fráveituframkvæmdir,
  2. tryggja uppbyggingu og starfrækslu fráveitna þannig að frárennsli valdi sem minnstum óæski­legum áhrifum á umhverfið,
  3. skýra réttindi og skyldur eigenda og notenda fráveitna og
  4. stuðla að hagkvæmni í uppbyggingu og starfrækslu fráveitna.

3. gr.

Ísafjarðarbær ber ábyrgð á uppbyggingu fráveitna í sveitarfélaginu og rekstri þeirra í þéttbýli í samræmi við 1. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Umhverfis­nefnd Ísafjarðarbæjar í umboði bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar fer með stjórn fráveitumála í Ísafjarðarbæ. Fráveita Ísafjarðarbæjar starfrækir fráveitu í Ísafjarðarbæ. Fráveita Ísafjarðarbæjar er rekin sem B-hluta fyrirtæki með sjálfstæðan fjárhag og er í eigu Ísafjarðarbæjar. Rekstur frá­veitu í Ísafjarðarbæ og framkvæmdir eru kostaðar af eigin tekjum af fráveitugjöldum eða lán­tökum eftir því sem bæjarstjórn ákveður hverju sinni í fjárhagsáætlun.

Tæknideild Ísafjarðarbæjar fer með umsjón, hönnun, framkvæmdir og rekstur fráveitunnar í umboði umhverfisnefndar.

4. gr.

Í þéttbýli skulu öll hús tengd sameiginlegri fráveitu sem rekin er af fráveitu Ísafjarðarbæjar eða aðila sem bæjarstjórn hefur falið reksturinn að hluta eða öllu leyti.

Fyrir stök hús í þéttbýli sem vegna landfræðilegrar stöðu er ekki hægt að tengja inn á sameiginlega frá­veitu getur heilbrigðisnefnd veitt leyfi til að setja niður stakt hreinsivirki, svo sem rotþró með situr­lögn eða annan hreinsibúnað, sem heilbrigðisnefnd samþykkir.

Í dreifbýli þar sem fjöldi húsa er u.þ.b. 20 á hverja 10 ha skal sveitarstjórn sjá til þess að skólpi sé safnað á kerfisbundinn hátt með safnkerfi, stofnlögnum og sameiginlegu hreinsikerfi.

Þar sem eru húsaþyrpingar með færri húsum en skv. 3. mgr. skal leitast við að samnýta fráveitur til hreinsunar skólps.

Þar sem eru stök hús skal fráveita leidd í stakt hreinsivirki, svo sem rotþró með siturlögn, sem heilbrigðisnefnd samþykkir.

Fráveita frá salernum í gripahúsum skal leidd í hreinsivirki, svo sem rotþró með siturlögn, ásamt sigvatni frá haughúsum, skolvatni frá þvottastöðum o.þ.h. Þar sem við á skal leiða fituríkt fráveituvatn um fituskilju, t.d. frá mjólkurhúsum.

Atvinnustarfsemi í dreifbýli sem ekki getur tengst safnkerfi og sameiginlegu hreinsikerfi en losar meira en 50 pe. skal reka eigið hreinsivirki, svo sem rotþró með siturlögn, sem heilbrigðisnefnd samþykkir.

Í skipulagðri frístundabyggð skal landeigandi eða félag í frístundabyggð koma á fót sameiginlegri fráveitu með hreinsivirki þar sem fjöldi húsa er u.þ.b. 20 á hverja 10 ha.

Fyrir stök hús sem ekki geta tengst sameiginlegri fráveitu skal húseigandi koma fyrir rotþró með situr­lögn eða öðrum hreinsivirkjum sem heilbrigðisnefnd samþykkir. Leitast skal við að hafa sam­eigin­lega fráveitu frá skipulögðum hverfum fyrir hvers konar tómstundabúskap og hest­húsa­hverfi. Fráveita frá salernum skal leidd í hreinsivirki, svo sem rotþró með siturlögnum, ásamt sigvatni frá haughúsum og skolvatni frá þvottastöðvum.

5. gr.

Fráveitan veitir frárennsli, sem getur verið húsaskólp, iðnaðarskólp, ofanvatn, kælivatn og ræsis­vatn, um fráveitulagnir frá byggð til viðtaka.

Einföld fráveita veitir skólpi og ofanvatni saman í einni fráveitulögn, en tvöföld fráveita veitir skólpi og ofanvatni í tveimur aðskildum samliggjandi fráveitulögnum.

Fráveita Ísafjarðarbæjar á allar holræsalagnir fráveitu, útrásir, stofnræsi, götuholræsi, ofan­vatns­ræsi í götum og opnum svæðum og götufráræsi að frárennsli húseigna við lóðamörk. Enn fremur allan fráveitubúnað, brunna, niðurföll, hverfisrotþrær, dælustöðvar og hreinsistöðvar.

6. gr.

Þar sem fráveita bæjarfélagsins nær til skal húseigendum séð fyrir tengingu frá fráveitukerfi að heimæð húseigna. Þar sem fráveitan liggur um lóðir skal séð fyrir tengigrein á holræsalögn. Tæknideild Ísafjarðarbæjar ákveður legu götuholræsa og tengigreina.

7. gr.

Húseigandi þar sem fráveita liggur er skylt á sinn kostnað að annast lagningu og viðhald heimæðar frá húseign sinni að tengistað við fráveitu Ísafjarðarbæjar. Þegar reist eru ný iðnaðar- eða atvinnu­hús skal aðgreina fráveitulagnir húss og koma viðeigandi mengunarvarnabúnaði fyrir þar sem hans er þörf, en að öðrum kosti að gera ráð fyrir honum ef hans kann síðar að vera þörf. Sama gildir um gripahús.

Þar sem þvottaplön eða búnaður, sem valdið getur mengun í fráveitu, er staðsettur á iðnaðar- eða atvinnulóðum skal gera ráð fyrir viðeigandi mengunarvörnum á fráveitu. Þar sem aðstæður og byggingarskilmálar leyfa má ofanvatn frá húseignum og lóðum þeirra fara í til þess gerðar grjót­þrær í jörðu á lóðum viðkomandi húseigna. Samþykki byggingarfulltrúa þarf fyrir slíkum útfærslum.

Þegar lögð er tvöföld fráveita skulu húseigendur halda skólpi aðskildu frá ofanvatni. Að öðru leyti gilda ákvæði reglugerðar nr. 798/1999, um fráveitur og skólp.

8. gr.

Frá atvinnustarfsemi skal forhreinsa fráveituvatn áður en því er hleypt inn á fráveitukerfi sveitar­félaga eða í viðtaka um eigin lagnakerfi. Atvinnustarfsemi sem ber að hafa starfsleyfi í samr­æmi við reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, ber að fara eftir þeim skilyrðum um hámarksmagn mengandi efna sem sleppt er um fráveitu til viðtaka, t.d. um magn lífrænna efna, svifagnir, málma, leiðni, sýrustig o.þ.h. sem fram koma í starfsleyfum þeirra. Rekstraraðilar fyrirtækja bera fulla ábyrgð á að fylgjast með hreinsi­virkjum og láta tæma þau og hreinsa reglulega, þannig að tryggt sé að þau yfirfyllist ekki, geti tekið við mengunarslysum og að virkni þeirra sé hámörkuð. Rekstraraðilar bera allan kostnað af rekstri, viðhaldi og þjónustu við hreinsivirki fráveitna. Að öðru leyti gilda almennt eftirfarandi kröfur:

  1. Við skipulag iðnaðarsvæða og atvinnuhúsnæðis er krafa um að fráveita frá gólfum og vinnslu­sölum sé aðskilin fráveitu frá salernum, þannig að auðvelt sé að koma fyrir hreinsi­virkjum fráveitu frá vinnslu, jafnvel þótt starfsemin breytist.
  2. Í hvers konar starfsemi þar sem unnið er með olíur, olía geymd eða tekið á móti úrgangsolíu skal leiða fráveitu frá gólfum og vöskum í vinnslusal sem og fráveitu frá niðurföllum í plönum um olíuskilju. Olíuskiljur skulu hannaðar samkvæmt stöðlum um olíuskiljur nr. IST EN 1825-1:2004 og IST EN 858-2:2003. Miða skal við að hámark olíu í fráveituvatni frá olíu­skiljum sé 15 ppm (= 15 mg/l).
  3. Þar sem magn olíu eða starfsemi er mjög lítil er hægt að samþykkja undanþágur frá kröfu um olíuskilju gegn því að niðurföllum sé lokað varanlega.
  4. Í matvælafyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum þar sem unnið er með fitu skal leiða fráveitu frá gólfi og vöskum í vinnslusal sem og fráveitu frá niðurföllum á plönum, ef við á, um fitu­skilju. Fituskiljur skulu hannaðar þannig að hámarksmagn fitu frá fituskilju sé 100 mg/l þar sem endanlegur viðtaki fráveitunnar flokkast sem síður viðkvæmur, en 50 mg/l þar sem viðtaki flokkast sem viðkvæmur.
  5. Auk efnisþátta sem fram koma í starfsleyfisskilyrðum einstakra fyrirtækja gilda eftirfarandi losunarmörk um frárennsli sem losað er inn á lagnakerfi sveitarfélaga sem eru aðilar að samþykkt þessari eða er losað eftir lögnum í eigu atvinnustarfsemi beint í viðtaka:
 Mæliþáttur Síður viðkvæmur viðtaki Viðkvæmur viðtaki
 Lífræn efni sem COD, mg/l O2 1000 125
 BOD mg/l O2   25
 Svifagnir, mg/l 500 35
 Olía, mg/l 15 15
 Fita, mg/l 100 50
 Hitastig að hámarki, °C 35 35
 Sýrustig, pH meðaltal fyrir vinnsludag 6,5-10 6,5-10

II. KAFLI

Um fráveitur.

9. gr.

Þegar ekki er unnt að ná nægilegum halla á frárennsli húseignar að fráveitu bæjarfélagsins skal húseigandi leiða fráveituvatn frá húseigninni að safnbrunni þannig staðsettum, að hægt sé að veita frárennsli frá honum í fráveitu bæjarfélagsins.

10. gr.

Teikningar skulu fylgja almennum reglum um hönnun fráveitulagna í húsum, sbr. bygging­ar­reglu­gerð og byggingarskilmála. Allt efni skal standast kröfur um efni og vinnu sem gerðar eru á hverjum tíma.

11. gr.

Byggingarfulltrúi bæjarins skal hafa eftirlit með því, að fráveitulagnir frá húseignum séu lagðar sam­kvæmt samþykktum teikningum. Áður en lagnir eru huldar skal einnig taka út og viðurkenna frárennsli frá húseignum og tengingar þeirra við fráveitu bæjarins eða rotþrær.

12. gr.

Eigendum fasteigna er skylt að hlíta því að lagnir fráveitu bæjarfélagsins séu lagðar um lóðir þeirra og lönd og fram fari á þeim nauðsynlegt viðhald enda sé haft um það samráð við lóðarhafa. Ísafjarðarbæ er skylt að halda raski í lágmarki og ganga snyrtilega um og færa allt til fyrra horfs eins og við verður komið.

13. gr.

Húseigendum er skylt að halda vel við fráveitulögnum húseigna sinna og sjá um hreinsun á þeim og gæta þess að þær stíflist ekki.

Óheimilt er að losa í fráveitur fitu, olíur, bensín, lyf, lífræn leysiefni, önnur spilliefni, föst efni eða annað það, sem skemmt getur eða truflað rekstur fráveitukerfisins. Um mengunarvarnir fer sam­kvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerða settum sam­kvæmt þeim og starfsleyfum ef við á. Draga skal úr magni lífræns úrgangs og fasts úrgangs inn á fráveitukerfi eftir föngum, t.d. með því að hafa ristar á niðurföllum, sandskiljur eða slógbrunna.

14. gr.

Þar sem hætta er á að fráveituvatn frá fráveitu bæjarfélagsins flæði til baka um fráræsislagnir frá húseignum vegna vatnsborðsriss af völdum ofanvatns eða hárrar sjávarstöðu skulu húseigendur koma fyrir sjálfvirkum flóðlokum við gólfniðurföll.

III. KAFLI

Um minni hreinsivirki.

15. gr.

Rotþrær skulu uppfylla kröfur og leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um stærð og siturlagnir og vera samþykktar af heilbrigðisnefnd.

Hreinsivirki önnur en rotþrær, sem geta hreinsað fráveituvatn jafnvel eða betur en rotþrær og siturlagnir, skulu samþykktar af Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd, eftir því sem við á.

Þar sem fleiri hús eða húsaþyrpingar eru tengd inn á rotþrær og siturlagnir eða önnur hreinsivirki skal staðsetning háð leyfi í deiliskipulagi.

Aðgengi stórra bíla til tæminga á hreinsivirkjum og rotþróm skal vera gott.

Rotþrær og siturlagnir og önnur hreinsivirki skal sýna á afstöðuteikningum og á lagnateikningum húsa.

Í rotþró og önnur stök hreinsivirki skal leiða skólp, baðvatn og þvottavatn úr öllum niðurföllum innan­húss. Ekki skal leiða afrennsli frá ofnum eða afbræðslukerfum, heitum pottum, þakvatn eða annað yfirborðsvatn í rotþró og önnur stök hreinsivirki. Heimilt er að leiða sturtuvatn gegnum síur í aftasta hólf rotþróar.

Ísafjarðarbær skal halda skrá yfir öll stök hreinsivirki í sveitarfélaginu, svo sem rotþrær og situr­lagnir þeirra, og sjá til þess að þau séu tæmd eftir þörfum að mati heilbrigðisnefndar.

Komi til bilana eða stíflna milli tæminga bera eigendur viðkomandi hreinsivirkja ábyrgð á að láta tæma þrærnar og gera við á eigin kostnað.

16. gr.

Ísafjarðarbær eða aðili á vegum sveitarfélagsins annast alla meðhöndlun seyru í sveitarfélaginu, þ.e. hreinsun minni hreinsivirkja, svo sem rotþróa, frá öllu húsnæði í sveitarfélaginu, ásamt flutningi, endurnýtingu eða förgun í samræmi við ákvæði samþykktar þessarar. Eingöngu þeir sem hafa starfsleyfi samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, mega tæma rotþrær og önnur hreinsivirki og meðhöndla seyru.

Sveitarstjórn ákveður almenna tíðni og framkvæmd hreinsunar, þó skal minna hreinsivirki, þ.m.t. rotþró, ekki hreinsað sjaldnar en á þriggja ára fresti. Heilbrigðisnefnd getur mælt fyrir um örari hreinsun ef aðstæður krefja. Ákvörðun um tíðni skal tilkynnt íbúum og fyrirtækjum sveitarfélagsins, svo og ef um breytingar er að ræða, með hæfilegum fyrirvara.

17. gr.

Skólp frá sérhverri húseign í Ísafjarðarbæ, sem ekki er unnt að tengja við fráveitu sveitarfélagsins, skal leiða gegnum minna hreinsivirki, svo sem rotþró og siturlögn eða aðra sambærilega hreinsun. Eigendur fasteigna skulu sækja um leyfi til sveitarfélagsins til niðursetningar rotþróar eða safn­tanks. Umsókn skal fylgja sérteikning sem sýnir gerð og staðsetningu. Rotþró og lagnir eru eign húseiganda og sér hann um viðhald á þeim.

18. gr.

Staðsetja skal minna hreinsivirki, svo sem rotþró, og tilheyrandi siturlögn og/eða sandsíu innan lóðar að jafnaði ekki nær húseign en 10 m. Fjarlægð í mörk aðliggjandi lóðar skal aldrei vera minni en 5 m. Verði siturlögn eða sandsíu ekki komið fyrir innan lóðar viðkomandi húseignar getur sveit­ar­stjórn samþykkt annað fyrirkomulag ef samþykki hlutaðeigandi lóðarhafa liggur fyrir. Að öðru leyti skal farið eftir leiðbeiningum Umhverfisstofnunar um niðursetningu rotþróa og siturlagna.

19. gr.

Allar lagnir vegna hreinsivirkis, þ.m.t. rotþróar, skulu lagðar nægilega djúpt í jörðu svo að þær séu ætíð frostfríar.

20. gr.

Fráveituvatni úr rotþró skal veitt í útloftaða siturlögn og/eða sandsíu.

Heimilt er að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar að leyfa að afrennsli rotþróar fari í grjótpúkk verði öðru ekki við komið og ekki er ástæða til að krefjast safntanks.

21. gr.

Rotþró og önnur minni hreinsivirki skal hreinsa í samræmi við ákvæði samþykktar þessarar. Hús­eigandi skal sjá um að greiður aðgangur sé með hreinsitæki að rotþrónni og safntanki.

IV. KAFLI

Um fráveitugjald.

22. gr.

Af öllum fasteignum í Ísafjarðarbæ, sem liggja við vegi, götur eða opin svæði, þar sem hol­ræsa­lagnir fráveitu bæjarfélagsins liggja, skal greiða árlega fráveitugjald og skal því varið til þess að standa straum af kostnaði við fráveitu Ísafjarðarbæjar.

Álagningarstofn fráveitugjalds skal vera fasteignamat húsa, mannvirkja, lóða og landa samkvæmt lögum nr. 6/2001um skráningu og mat fasteigna.

Gjalddagar fráveitugjalds skulu vera þeir sömu og bæjarstjórn ákveður fyrir fasteignagjöld og skal innheimtu þess hagað á sama hátt og innheimtu fasteignagjalda.

Fráveitugjald greiðist af skráðum eiganda fasteignar ef um eignarlóð er að ræða, en af leigutaka ef um leigulóð er að ræða og bera þessir aðilar ábyrgð á greiðslu gjaldsins.

Gjald þetta skal ákveðið með sérstakri gjaldskrá sem bæjarstjórn setur og birtir í B-deild Stjórn­ar­tíðinda í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 14. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna, og að fenginni umsögn heil­brigðis­nefndar. Fráveitu­gjaldið innheimtist á sama hátt og önnur fasteignagjöld til Ísa­fjarðar­bæjar. Nýtur fráveitu­gjaldið lögveðsréttar í viðkomandi fasteign næstu tvö ár eftir gjald­daga með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði.

23. gr.

Sveitarstjórn er heimilt að setja gjaldskrá á grundvelli samþykktar þessarar að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar Vestfjarða til að standa undir kostnaði við hreinsun og tæmingu á rotþró og öðrum minni hreinsivirkjum, söfnun og förgun seyru. Gjald þetta skal ákveðið með sérstakri gjaldskrá í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. og ákvæði 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar og má aldrei vera hærri en nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu og framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Sveitarfélagið skal láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda.

24. gr.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar er heimilt að nýta sér heimild 4. og 7. mgr. 14. gr. og 3. mgr. 17. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna, til að lækka eða fella niður gjöld samkvæmt þessum lögum hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum samkvæmt reglum sem bæjarstjórn setur.

V. KAFLI

Málsmeðferð og gildistaka.

25. gr.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum rúmist þau jafnframt innan refsiákvæða hlutaðeigandi heimildar­laga, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Skulu þau brot sæta þeirri máls­meðferð, sem boðin er í lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

26. gr.

Samþykkt þessi staðfestist hér með samkvæmt 59. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. og 2. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og 10. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna, til þess að öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 898/2010 um fráveitu í Ísafjarðarbæ.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 23. ágúst 2017.

F. h. r.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

Laufey Helga Guðmundsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 7. september 2017