Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1322/2021

Nr. 1322/2021 11. nóvember 2021

REGLUR
um fjárhagsaðstoð hjá félagsþjónustu Múlaþings.

I. KAFLI

Almenn atriði.

1. gr.

Inntak fjárhagsaðstoðar.

Hverjum manni er skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára, sbr. 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, með síðari breytingum.

Múlaþing, Fljótsdalshreppur og Vopnafjarðarhreppur veita einstaklingum og fjölskyldum, sem eiga lögheimili í viðkomandi sveitarfélögum og geta ekki séð sér og sínum farborða án aðstoðar (sbr. IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum) fjárhags­aðstoð til framfærslu enda sé það ekki í verkahring annarra aðila svo sem almannatrygginga, atvinnu­leysistrygginga, lífeyrissjóða eða sjúkrasjóða stéttarfélaga.

Heimilt er að veita einstaklingum og fjölskyldum aðstoð vegna sérstakra aðstæðna sbr. IV. kafla reglna þessara.

Gefa skal sérstakan gaum að fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum barnafjölskyldna og meta sérstaklega þarfir barna vegna þátttöku þeirra í þroskavænlegu félagsstarfi.

Fjárhagsaðstoð skal veitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði félagsþjónustunnar, svo sem ráð­gjöf og leiðbeiningar, í samræmi við V. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Við meðferð og vinnslu umsókna ber að sýna umsækjanda fyllstu virðingu og gæta trúnaðar um málefni hans.

 

2. gr.

Tímabil samþykkis.

Fjárhagsaðstoð skal að öðru jöfnu greidd einn mánuð í senn, í lok mánaðar og skulu ákvarðanir um aðstoð að jafnaði ekki ná yfir lengra tímabil en þrjá mánuði. Aðstæður þeirra sem hafa fengið fjárhagsaðstoð í sex mánuði samfellt skulu kannaðar sérstaklega og félagslegri ráðgjöf beitt ásamt öðrum viðeigandi úrræðum.

Í undantekningartilvikum er heimilt að veita fjárhagsaðstoð vikulega vegna sérstakra aðstæðna.

 

3. gr.

Fjárhagsaðstoð aftur í tímann.

Fjárhagsaðstoð er aldrei veitt lengra aftur í tímann en tvo mánuði frá því að umsókn var lögð fram.

Rökstuddar ástæður þurfa að liggja að baki ef aðstoð er veitt aftur í tímann og verður skilyrðum reglna þessara fyrir fjárhagsaðstoð að vera fullnægt allt það tímabil sem sótt er um.

 

4. gr.

Form fjárhagsaðstoðar.

Fjárhagsaðstoð skal að jafnaði veitt sem styrkur. Fjárhagsaðstoð er einungis veitt sem lán óski umsækjandi þess eða könnun á aðstæðum leiðir í ljós að eðlilegt sé að gera kröfu um endur­greiðslur með tilliti til eigna og framtíðartekna.

Fjárhagsaðstoð telst til skattskyldra tekna. Um frádrátt staðgreiðslu vísast til laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Umsækjandi skal gefa upplýsingar um nýtingu skattkorts áður en aðstoð er greidd út.

 

5. gr.

Um fjárhagsaðstoð sem veitt er í formi láns.

Fjárhagsaðstoð skal að jafnaði veitt sem styrkur. Einungis er veitt lán óski umsækjandi þess eða könnun á aðstæðum leiðir í ljós að eðlilegt sé að gera kröfur um endurgreiðslur með tilliti til eigna og framtíðartekna. Skal þess sérstaklega getið í skriflegri skuldaviðurkenningu með hvaða hætti og hvenær lánið skuli endurgreitt. Félagsleg lán bera ekki vexti. Lán skal eingöngu veitt þeim umsækj­endum sem staðfest er að hafi ekki lánstraust hjá lánastofnunum. Við endurkröfu lánsins skal leitast við að koma lánþega ekki í þá stöðu að hann geti ekki séð sér og sínum farborða.

Ef veita á fjárhagsaðstoð sem lán og fyrir liggur að umsækjandi er þegar með eldra lán hjá félags­þjónustunni skal gera eldra lánið upp eða sameina það nýrri lánveitingu.

Almennt skal hámarkslánstími sem hægt er að samþykkja hjá félagsþjónustunni vera sex mán­uðir.

Að öllu jöfn skal ekki veita umsækjanda lán, ef hann hefur fengið afskrifað lán frá félags­þjónust­unni/sveitarfélögunum á síðustu tólf mánuðum.

Umsóknum um lán skal vísa til afgreiðslu á meðferðarfundi í umboði fjölskylduráðs.

 

6. gr.

Réttur til fjárhagsaðstoðar.

Fjárhagsaðstoð er veitt einstaklingum og fjölskyldum. Sérhver fjárráða einstaklingur sem á lög­heimili í Múlaþingi, Fljótsdalshreppi og Vopnafjarðarhreppi á rétt á að leggja fram umsókn. Skylt er að veita fólki í neyð sem dvelur í fyrrnefndum sveitarfélögum, en á lögheimili í öðrum, tíma­bundna aðstoð. Skal um það haft samráð við lögheimilissveitarfélag og aðstoð metin og veitt í sam­ræmi við reglur þess enda endurgreiði lögheimilissveitarfélag aðstoðina.

Fólk sem er í sambúð eða staðfestri samvist á sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón.

Einstaklingar sem sitja í fangelsi eiga ekki rétt á fjárhagsaðstoð. Einstaklingar sem afplána dóm með samfélagsþjónustu geta átt rétt á fjárhagsaðstoð. Einstaklingar sem hafa nýlokið afplánun dóms eiga rétt á fjárhagsaðstoð sem nemur einni grunnfjárhæð framfærslu þegar þeir losna úr fangelsi.

Einstaklingar yngri en 18 ára eiga alla jafna ekki rétt á fjárhagsaðstoð í eigin nafni.

 

7. gr.

Námsmenn.

Einstaklingar sem stunda nám sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna geta að öllu jöfnu ekki sótt um styrk til framfærslu. Aðrir námsmenn eiga ekki kost á framfærslustyrk nema fullnægt sé skilyrðum 23. gr. reglna þessara um námsstyrki.

 

8. gr.

Meðferð við fíknivanda.

Heimilt er að greiða dvalarkostnað umsækjanda sem býr á áfangaheimili, í neyðarathvarfi eða á meðferðarheimili og veita fjárhagsaðstoð sem skal vera jafnhá ráðstöfunarfé samkvæmt skilgrein­ingu Tryggingastofnunar ríkisins á hverjum tíma. Dvalargjald og vasapeningur geta að hámarki numið grunnfjárhæð einstaklings og skal dvalargjald greitt beint til viðkomandi stofnunar. Skilyrði fyrir greiðslu dvalarkostnaðar er að viðkomandi stofnun sé með starfsleyfi. Einnig er heimilt að veita aðstoð til greiðslu ferðakostnaðar einstaklinga sem eru að fara í meðferð. Fjárhagsaðstoð er einungis sam­þykkt ef umsækjandi er tekjulaus eða með tekjur undir grunnfjárhæð fjárhags­aðstoðar.

 

II. KAFLI

Umsókn um fjárhagsaðstoð.

9. gr.

Umsókn.

Sótt skal um fjárhagsaðstoð á sérstöku umsóknareyðublaði sem hægt er að nálgast á heimasíðu sveitarfélagsins. Umsókn skal fylgja staðfest skattframtal sl. árs, staðgreiðsluyfirlit skatta frá tíma­bili síðasta skattframtals ásamt yfirliti yfir allar tekjur og aðrar greiðslur til umsækjanda og maka hans þann mánuð sem umsóknin er lögð fram og mánuðinn á undan. Til tekna teljast greiðslur frá Trygg­inga­stofnun ríkisins, lífeyrissjóðum, Vinnumálastofnun, sjúkrasjóðum stéttar­félaga eða öðrum aðilum.

Umsækjandi getur veitt öðrum skriflegt umboð til að sækja um aðstoð fyrir sína hönd.

 

10. gr.

Atvinnuleysi.

Þegar umsækjandi er atvinnulaus skal hann framvísa staðfestingu á atvinnuleysi og atvinnuleit sinni frá Vinnumálastofnun. Eigi umsækjandi ekki rétt á atvinnuleysisbótum frá Vinnumálastofnun ber honum að framvísa staðfestingu á því. Hafi umsækjandi ekki fengið atvinnuleysisbætur vegna veikinda skal hann framvísa læknisvottorði. Hafi hann, án viðhlítandi skýringa, ekki skráð sig hjá Vinnumálastofnun missir hann rétt á fjárhagsaðstoð fyrir það tímabil.

Hafi umsækjandi, sem er atvinnulaus, hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu að tilefnislausu skerðist réttur til framfærslu um helming grunnfjárhæðar þann mánuð sem hann hafnar vinnu/segir starfi sínu lausu svo og mánuðinn á eftir.

 

11. gr.

Erlendir ríkisborgarar.

Í þeim tilvikum að umsækjandi er erlendur ríkisborgari ber honum að framvísa dvalarleyfi. Sé erlendur ríkisborgari með dvalarleyfi á þeim forsendum að skyldur/tengdur aðili ábyrgist framfærslu hans, á hann að jafnaði ekki rétt á fjárhagsaðstoð. Upplýsa ber umsækjanda um möguleg neikvæð áhrif veittrar fjárhagsaðstoðar á umsókn um íslenskan ríkisborgararétt skv. 9. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt.

 

12. gr.

Neyðaraðstoð.

Heimilt er að veita skyndiaðstoð í neyðartilvikum án þess að öll gögn liggi fyrir. Hámark aðstoðar er fjórðungur af grunnfjárhæð. Skal þetta gert að mati starfsmanns og í samráði við félags­mála­stjóra sé þess kostur.

 

13. gr.

Upplýsingaskylda.

Umsækjanda er skylt að veita starfsmönnum félagsþjónustu Múlaþings upplýsingar úr skatt­framtölum og staðgreiðsluyfirliti og aðrar upplýsingar sem teljast nauðsynlegar við vinnslu umsóknar.

 

14. gr.

Upplýsingar um tekjur og fjárhag umsækjanda.

Starfsmaður félagsþjónustu Múlaþings skal, ef þörf krefur, afla frekari upplýsinga um tekjur og eignir umsækjanda, m.a. hjá skattayfirvöldum, atvinnurekendum, Tryggingastofnun ríkisins, lífeyris­­sjóðum, bönkum og Vinnumálastofnun. Einnig skal afla upplýsinga um önnur atriði, t.d. félags­legar aðstæður, eftir því sem umsókn gefur tilefni til. Ofangreind upplýsingaöflun skal gerð í sam­ráði við umsækjanda. Neiti umsækjandi að veita upplýsingar um fjárhag sinn eða maka eða að aflað sé upp­lýsinga hjá öðrum aðilum stöðvast afgreiðsla umsóknar hans.

 

III. KAFLI

Mat á fjárþörf og útreikningur fjárhagsaðstoðar.

15. gr.

Mat á fjárþörf.

Við ákvörðun á fjárhagsaðstoð skal framfærslugrunnur lagður til grundvallar og frá honum dregnar heildartekjur. Tekið skal tillit til sérstakra aðstæðna eftir því sem við á, sbr. IV. kafla þessara reglna.

 

16. gr.

Framfærslugrunnur.

Fjárhagsaðstoð til einstaklings 18 ára og eldri tekur mið af útgjöldum vegna daglegs heimilis­halds og getur numið allt að 174.200 kr. á mánuði. Framfærslugrunnur vegna einstaklinga hefur stuðul­inn 1,0 en vegna hjóna og fólks í sambúð 1,6 eða 278.720 kr. á mánuði. Framfærslugrunnur einstak­linga sem deila heimili með öðrum og njóta hagræðis vegna þessa hefur stuðulinn 0,5 og er þá 87.100 kr. á mánuði.

Ofangreindar upphæðir breytast í janúar ár hvert samkvæmt samþykkt fjölskylduráðs hverju sinni og almennt með hliðsjón af hækkun neysluvísitölu milli ára.

Mat á fjárhagsaðstoð er óháð því hvort barn eða börn búa á heimilinu.

 

17. gr.

Tekjur umsækjanda.

Allar tekjur umsækjanda og maka ef við á, í þeim mánuði er sótt er um og mánuðinum á undan eru taldar með við mat á fjárþörf. Með tekjum er átt við allar tekjur og greiðslur til umsækjanda og maka, þ.e. atvinnutekjur, allar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins (nema greiðslur með börnum), greiðslur úr lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, atvinnuleysisbætur, leigutekjur o.s.frv. og koma þær til frádráttar. Að jafnaði skal miða við heildartekjur áður en tekjuskattur hefur verið dreg­inn frá. Undantekningar frá tekjuviðmiðinu skal leggja fyrir fjölskylduráð.

Greiðslur vegna barna teljast ekki til tekna enda ekki reiknað með framfærslukostnaði þeirra við mat á fjárþörf. Sé sótt um fjárstyrk skv. 21. gr. þessara reglna ber að horfa til tekna heimilisins vegna barna.

Húsnæðis- og vaxtabætur eru ekki reiknaðar til tekna. Gert er ráð fyrir að húsnæðiskostnaði verði fyrst og fremst mætt með greiðslum vaxta- og húsnæðisbóta, en einnig er gert ráð fyrir honum í grunnfjárhæð.

Eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlingur, eignir umfram íbúðarhúsnæði sem umsækjandi eða fjölskylda hans býr í og umfram eina fjölskyldubifreið, eða hafi hann nýlega hagnast af sölu eigna sinna, skal honum að jafnaði vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða, þó að tekjur hans séu lægri en grunnfjárhæð. Ef umsækjandi, maki hans eða sambúðaraðili eiga eignir eða eigið fjár­magn sem nýst geta til framfærslu á hann ekki rétt á fjárhagsaðstoð.

 

18. gr.

Greiðslur meðlags.

Þegar tekjur umsækjanda eru við eða lægri en grunnfjárhæðin skal taka tillit til meðlags­greiðslna með barni eða börnum sem umsækjandi hefur greitt með reglulega fram að þeim tíma að hann fær fjárhagsaðstoð. Hækkar fjárhagsaðstoðin sem nemur einu meðlagi eins og það er á hverjum tíma með hverju barni. Umsækjandi skal sýna fram á að hann hafi staðið í skilum með meðlag a.m.k. undanfarna þrjá mánuði. Átt er við meðlagsgreiðslur hverju sinni, en ekki uppsafnaðar meðlags­skuldir.

 

19. gr.

Atvinnurekendur og sjálfstætt starfandi einstaklingar.

Atvinnurekendur og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem hafa lægri tekjur en sem nemur grunn­fjárhæð, eiga rétt á fjárhagsaðstoð að því tilskildu að þeir hafi stöðvað atvinnurekstur sinn og leitað réttar síns til atvinnuleysisbóta í samræmi við ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.

 

20. gr.

Mat á tekjum bænda.

Stundi umsækjandi búrekstur skal mat á tekjum byggt á skattframtali síðasta árs vegna umsókna sem berast fyrir 1. júlí, en með umsóknum sem berast síðar skal einnig fylgja rekstrar- og efnahags­yfirlit uppfært til 30. júní sl. Þá liggi einnig fyrir greiðslumark búsins, breytingar á bústofni, yfirlit yfir eignir og skuldir aðrar en þær er tengjast viðkomandi rekstri, auk tekna utan bús undan­farna tvo mánuði. Aðstoð skal miða við framfærslugrunn, sbr. 16. gr.

 

IV. KAFLI

Heimildir vegna sérstakra aðstæðna.

21. gr.

Aðstoð til foreldra vegna barna á þeirra framfæri.

Heimilt er að veita sérstaka fjárhagsaðstoð til tekjulágra foreldra sem eru með forsjá barna sinna. Um er að ræða aðstoð til að greiða eftirfarandi:

 1. Daggæslu barna í heimahúsum, leikskóla, skólamáltíðir, skólavistun.
 2. Sumardvöl og/eða þátttöku barna í þroskandi félags- og tómstundastarfi.
 3. Sérstakan kostnað vegna skóla og tómstunda s.s. ferðakostnað, fatnað og skólavörur.
 4. Kostnað vegna fermingar.
 5. Læknis- og lyfjakostnaðar.
 6. Náms 16 og 17 ára barna. Styrkurinn skal miða að því að greiða áætlaðan bókakostnað og skólagjöld.

Ætíð skal vera um tímabundna aðstoð að ræða sem sætir endurskoðun á a.m.k. sex mánaða fresti. Viðmiðunarmörk aðstoðar með hverju barni eru að hámarki 40.000 kr. á mánuði.

Í þeim tilvikum þar sem um er að ræða sérstök meðferðar- og/eða stuðningssjónarmið eða fyrir­byggjandi starf í þágu barna, er heimilt að veita foreldrum styrk sem nemur heildarkostnaði eða hluta hans vegna liða a til f hér að ofan. Ávallt skal liggja fyrir samkomulag um félagslega ráðgjöf.

 

22. gr.

Námskostnaður barna í skóla fjarri heimabyggð.

Ef sérstök meðferðar og/eða stuðningssjónarmið mæla með því, er heimilt að taka sérstakt tillit til námskostnaðar barna tekjulágra foreldra sem ekki geta sótt framhaldsskóla í heimabyggð. Við mat á fjárþörf skal taka mið af aðstæðum fjölskyldu, m.a. fjárhag hennar og fjarlægð skóla frá heimili. Skilyrði fyrir aðstoð vegna náms barna fjarri heimabyggð er að sótt hafi verið um námsstyrk sam­kvæmt lögum um námsstyrki nr. 79/2003 og fjárþörf síðan metin að teknu tilliti til námsstyrksins.

 

23. gr.

Námsstyrkir.

Námsstyrki er heimilt að veita einstaklingum sem hafa tekjur við eða undir viðmiðunarmörkum í eftirfarandi tilvikum: til einstaklinga og einstæðra foreldra 18-24 ára sem ekki hafa lokið grunn­skóla eða framhaldsskóla og hafa átt við félagslega erfiðleika að stríða.

Aðstoðin miðast við grunnfjárhæð ásamt almennum skólagjöldum og bókakostnaði.

Miðað skal við að námið leiði til þess að nemandi fái starfsréttindi eða geti síðar hafið nám sem er lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Ákvarðanir um námsstyrk skulu teknar fyrir hverja önn og er heimilt að halda námsaðstoð áfram með hliðsjón af námsframvindu.

Nemandi skal leggja fram yfirlit yfir skólasókn mánaðarlega og einkunnir í annarlok. Auk þess er starfsmanni félagsþjónustunnar heimilt að kalla eftir frekari upplýsingum um ástundun og náms­framvindu. Starfsmaður skal meta námsframvindu miðað við aðstæður hvers og eins. Heimilt er að stöðva greiðslur til einstaklinga sýni þeir ekki fram eðlilega námsframvindu miðað við getu og áætlanir.

Aðstoðin skal vera liður í umfangsmeiri vinnu starfsmanna sem miðar m.a. að því að gera við­komandi kleift að lifa efnahagslega sjálfstæðu lífi.

 

24. gr.

Greiðsla sérfræðiaðstoðar.

Heimilt er að veita fjárhagsaðstoð vegna:

 1. læknis- og lyfjakostnaðar,
 2. nauðsynlegra tannlækninga,
 3. kaupa á hjálpartækjum svo sem gleraugum og heyrnartækjum til einstaklinga ef aðrir aðilar gera það ekki.

Umsækjandi þarf að uppfylla eitt af fjórum skilyrðum:

 1. hafa verið atvinnu- eða tekjulaus undanfarna sex mánuði,
 2. vera lífeyrisþegi með greiðslur frá TR sem megin tekjur heimilisins,
 3. hafa notið framfærslu til lengri tíma.
 4. vera tekjulág eða sem nemur mánaðarlegum greiðslum lífeyrisþega hjá TR.

Hámark aðstoðar skal vera 60.000 kr. á ári fyrir hvern af þremur ofantöldum þáttum. Kostnaðar­áætlun eða reikningur skal ávallt fylgja með umsókn.

Heimilt er að veita einstaklingum í eftirtöldum aðstæðum fjárhagsaðstoð til greiðslu fyrir sjúkra­þjálfun, iðjuþjálfun, viðtala hjá félagsráðgjöfum, sálfræðingum, geðlæknum og sérfræðingum í fjármálaráðgjöf ef það er liður í umfangsmeiri félagslegri aðstoð og fyrirsjáanlegt að eigi sé hægt að veita þjónustuna innan félagsþjónustunnar eða á vegum heilbrigðisstofnana.

 1. einstaklingum sem búa við mikla og langvarandi félagslega erfiðleika,
 2. einstaklingum eða fjölskyldum sem hafa orðið fyrir alvarlegum áföllum.

Hámark aðstoðar samkvæmt liðum a og b er 80.000 kr. á ári. 

 

25. gr.

Útfararstyrkur.

Heimilt er að veita aðstoð til greiðslu útfararkostnaðar þegar staðreynt hefur verið að dánarbú eða framfærsluskyldir aðstandendur geta ekki staðið undir útför hins látna. Hámarksaðstoð er 250.000 kr.

Eftirfarandi gögn þurfa að fylgja umsókn um útfararstyrk: Staðfest ljósrit af skattframtali hins látna, launaseðlar og greiðsluyfirlit frá tryggingum og lífeyrissjóðum, staðfesting frá stéttarfélagi um rétt til útfararstyrks, tilkynning sýslumanns um skiptalok á grundvelli eignayfirlýsingar, sbr. 25. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, eða einkaskiptaleyfi útgefið af sýslumanni til erfingja skv. 31. gr., sbr. 28. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl.

Samþykkt aðstoð greiðist gegn framvísun reikninga vegna kostnaðar útfarar.

 

26. gr.

Áfallaaðstoð.

Heimilt er að veita tekjulágum einstaklingum eða fjölskyldum fjárhagsaðstoð vegna skyndilegs missis búslóðar eða annars eignamissis sem orðið hefur vegna bruna eða náttúruhamfara. Einnig þegar rýma þarf íbúð af heilbrigðisástæðum er heimilt að veita aðstoð til kaupa á búslóð. Aðstoðin kemur einungis til álita þegar tjónþoli hefur ekki haft heimilistryggingu eða aðra tryggingu sem bætir tjónið. Hámarksaðstoð er 100.000 kr.

Heimilt er að veita fjárhagsaðstoð vegna alvarlegra veikinda umsækjanda, barns, maka eða for­eldris. Miða skal við að fjárhagur sé þröngur og að um mikla röskun á högum sé að ræða. Aðstoð­in skal að öðru jöfnu veitt vegna ferðakostnaðar og uppihalds ef aðrir aðilar svo sem Trygg­inga­­stofnun ríkisins veita ekki aðstoð. Gert er ráð fyrir að viðkomandi sæki til skattstjóra um lækkun skatta vegna sömu aðstæðna. Hámarksaðstoð er 250.000 kr.

 

27. gr.

Aðstoð vegna sérstakra fjárhagserfiðleika.

Heimilt er að veita einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki lán eða styrk vegna mikilla fjárhags­legra og félagslegra erfiðleika, að uppfylltum öllum neðangreindum skilyrðum:

 1. staðfest sé að umsækjandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu banka, sparisjóða eða ann­arra lánastofnana,
 2. fyrir liggi yfirlit starfsmanns félagsþjónustunnar eða umboðsmanns skuldara um fjárhags­stöðu umsækjanda og tillögur að úrbótum þegar við á,
 3. fyrir liggi á hvern hátt lán eða styrkur muni bæta fjárhagsstöðu umsækjanda þegar til lengri tíma er litið,
 4. fyrir liggi samkomulag um félagslega ráðgjöf og/eða fjármálaráðgjöf.

Þegar um lán er að ræða skal greiðsluáætlun fylgja með umsókn.

Eigi er heimilt að veita styrk eða lán til greiðslu skulda við banka, sparisjóði eða aðrar lána­stofnanir, s.s. greiðslukortafyrirtæki. Þá er hvorki heimilt að veita styrk eða lán til greiðslu skatta­skulda og sekta, né heldur til greiðslu skulda við einkaaðila. 

Aðstoð samkvæmt þessari grein er veitt vegna barna, þ.e. leikskólaskuld, skuld vegna skóla­gæslu og fæðis í skóla og enn fremur vegna húsnæðis, þ.e. húsaleigu, fasteignagjalda, rafmagns og hita, allt að kr. 250.000 á ári fyrir hvert heimili.

 

28. gr.

Styrkur vegna íslenskunáms.

Heimilt er að veita nýbúum styrk til íslenskunáms. Skilyrði er að umsækjandi uppfylli viðmið 6. gr. þessara reglna og ljúki námskeiðinu.

 

29. gr.

Sérstök fjárhagsaðstoð í desember.

Heimilt er að veita þeim sem njóta fjárhagsaðstoðar sér til framfærslu sérstaka desemberuppbót sem nemur fjórðungi af grunnfjárhæð. Heimilt er að veita sérstaka aðstoð vegna barna sem nemur 15.000 kr. á barn.

 

V. KAFLI

Málsmeðferð.
Um málsmeðferð gilda ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og ákvæði XV. og
XVI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

30. gr.

Könnun á aðstæðum.

Kanna skal aðstæður umsækjanda svo fljótt sem unnt er eftir að umsókn um fjárhagsaðstoð hefur borist. Sama á við ef félagsþjónustu Múlaþings berast upplýsingar um nauðsyn á aðstoð með öðrum hætti.

Félagsþjónustan skal taka ákvörðun í máli svo fljótt sem unnt er og sjá jafnframt til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin.

 

31. gr.

Samvinna við umsækjanda.

Öflun gagna og upplýsinga skal unnin í samvinnu við umsækjanda. Við meðferð umsóknar og ákvarðanatöku skal leitast við að hafa samvinnu og samráð við umsækjanda eftir því sem unnt er, að öðrum kosti umboðsmann hans ef við á. Umboðsmaður skal framvísa skriflegu umboði.

 

32. gr.

Varðveisla gagna, trúnaður og aðgangur að gögnum.

Málsgögn er varða persónulega hagi einstaklinga skulu varðveitt með tryggilegum hætti. Hafi starfs­menn kynnst einkahögum umsækjanda eða annarra í starfi sínu er þeim óheimilt að fjalla um þau mál við óviðkomandi nema að fengnu samþykki viðkomandi.

Umsækjandi á rétt á að kynna sér upplýsingar úr skráðum gögnum sem varða mál hans að svo miklu leyti sem það stangast ekki á við trúnað gagnvart öðrum.

 

33. gr.

Leiðbeiningar til umsækjanda.

Við afgreiðslu umsóknar skal starfsmaður bjóða umsækjanda félagslega og fjárhagslega ráðgjöf og veita upplýsingar og leiðbeiningar um réttindi sem hann kann að eiga annars staðar. Berist skrif­lega erindi sem ekki snertir félagsþjónustuna, skal starfsmaður í samráði við umsækjanda framsenda erindið á réttan stað svo fljótt sem auðið er.

 

34. gr.

Rangar eða villandi upplýsingar.

Fjárhagsaðstoð veitt á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hendi þess sem aðstoðina fær er endurkræf og getur félagsþjónustan endurkrafið viðkomandi um fjárhæðina samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Ef sannreynt er við vinnslu málsins að upplýsingar sem umsækjandi hefur veitt eru rangar eða villandi stöðvast afgreiðsla umsóknarinnar.

 

35. gr.

Heimildir til ákvarðana samkvæmt reglum þessum.

Á meðferðarfundi félagsþjónustunnar er umsókn metin og afgreidd í umboði fjölskylduráðs. Náist ekki sameiginleg niðurstaða um afgreiðslu máls á meðferðarfundi eða ef um álitamál er að ræða sem reglur ná ekki yfir þá skal leggja málið fyrir fjölskylduráð.

Félagsmálastjóra er alltaf heimilt að vísa ákvörðun til fjölskylduráðs til fullnaðarafgreiðslu, sérstak­lega ef ætla má að aðili muni ekki vilja sæta niðurstöðu hans.

Fjölskylduráð hefur eftirlit með ákvörðunum og kallar reglulega eftir skýringum og upplýs­ingum um ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli reglna þessara.

Fjölskylduráð tekur aðrar ákvarðanir skv. reglum þessum.

 

36. gr.

Kynning á ákvörðun um fjárhagsaðstoð.

Kynna skal niðurstöðu umsóknar svo fljótt sem unnt er. Sé umsókn hafnað í heild eða að hluta skal umsækjandi fá skriflegt svar þar sem ákvörðun er rökstudd með skýrum hætti með vísan til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð ásamt kynningu á áfrýjunar- og kærurétti viðkomandi.

Bókun meðferðarfundar skal kynnt umsækjanda tryggilega og um leið skal honum kynntur réttur hans til málskots til fjölskylduráðs. Uni hann ekki niðurstöðu ráðsins má skjóta málinu til úrskurðar­nefndar velferðarmála.

 

37. gr.

Málskot og áfrýjun.

Telji umsækjandi á rétt sinn hallað skv. reglum þessum er honum heimilt að vísa ákvörðun félags­þjónustunnar til fjölskylduráðs innan fjögurra vikna frá því honum barst vitneskja um ákvörðun. Fjölskylduráð skal fjalla um umsókn og taka ákvörðun um afgreiðslu hennar svo fljótt sem unnt er.

Umsækjandi getur skotið ákvörðun fjölskylduráðs til úrskurðarnefndar velferðarmála. Skal það gert innan þriggja mánaða frá því að umsækjanda barst vitneskja um ákvörðun fjölskylduráðs.

 

38. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar voru samþykktar af sveitarstjórn Múlaþings þann 10. nóvember 2021.

 

Egilsstöðum, 11. nóvember 2021.

 

Björn Ingimarsson sveitarstjóri.


B deild - Útgáfud.: 25. nóvember 2021