Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1362/2019

Nr. 1362/2019 19. desember 2019

REGLUR
um framkvæmd hæfismats stjórnarmanna og framkvæmdastjóra vátryggingamiðlara og einstaklinga með starfsleyfi sem vátryggingamiðlarar.

I. KAFLI

Almennt.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um stjórnarmenn og framkvæmdastjóra vátryggingamiðlara og einstaklinga með starfsleyfi sem vátryggingamiðlarar.

Með stjórnarmönnum er átt við aðalmenn og varamenn í stjórn.

Með framkvæmdastjóra er átt við framkvæmdastjóra vátryggingamiðlara eða einstakling með starfsleyfi sem vátryggingamiðlari.

2. gr.

Tilkynning um nýja stjórn eða framkvæmdastjóra vátryggingamiðlara.

Vátryggingamiðlari skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um breytingar á skipun stjórnarmanna eða framkvæmdastjóra svo fljótt sem verða má og eigi síðar en viku eftir breytingar.

Vátryggingamiðlari skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um skipan stjórnarmanna eða fram­kvæmda­stjóra í gegnum þjónustugátt Fjármálaeftirlitsins.

Stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri skal skila skriflegum upplýsingum um mat á hæfi og hæfni stjórnarmanna og framkvæmdastjóra svo fljótt sem verða má, þó eigi síðar en tveimur vikum eftir skipun aðila. Spurningarlista um mat á hæfi og hæfni stjórnarmanna og framkvæmdastjóra má finna í þjónustugátt Fjármálaeftirlitsins eftir að tilkynnt hefur verið um skipun viðkomandi.

Fjármálaeftirlitið getur óskað eftir frekari upplýsingum en að framan greinir ef það þykir nauð­synlegt vegna mats á hæfi og hæfni aðila, þ. á m. boðað aðila í munnlegt hæfismat skv. III. kafla.

Ef upplýsingar samkvæmt framangreindu eru ófullnægjandi að mati Fjármálaeftirlitsins og aðili bætir ekki úr innan 14 daga frá því að óskað var frekari upplýsinga, leiðir það til þess að ekki verði unnt að leggja mat á hæfi og hæfni aðila. Skal farið með þá aðila eins og aðila sem ekki uppfylla hæfisskilyrði laga um dreifingu vátrygginga og stjórnvaldsfyrirmæla, sbr. 12. gr. reglna þessara.

II. KAFLI

Hæfisskilyrði.

3. gr.

Mat á hæfi og hæfni.

Mat á hæfi og hæfni felst annars vegar í yfirferð á skriflegri upplýsingagjöf stjórnarmanna og framkvæmdastjóra og hins vegar munnlegu hæfismati þegar það á við, sbr. III. kafla reglna þessara.

4. gr.

Þekking, fagleg hæfni og starfsreynsla.

Við mat á þekkingu, faglegri hæfni og starfsreynslu skv. a-lið 1. mgr. 22. gr. laga um dreifingu vátrygginga er höfð hliðsjón af umfangi og eðli starfsemi þess vátryggingamiðlara sem um ræðir.

5. gr.

Gott orðspor og háttsemi.

Við mat á góðu orðspori og háttsemi skv. b- og e-lið 1. mgr. 22. gr. laga um dreifingu vátrygginga er litið til þess hvort framkvæmdastjóri eða stjórnarmenn hafi sýnt af sér háttsemi, athöfn eða athafnaleysi, sem gefur tilefni til að draga í efa hæfni þeirra til að standa fyrir traustum og heil­brigðum rekstri eða að líkur séu til að þeir muni misnota aðstöðu sína eða skaða félagið.

Við matið er einnig litið til þess hvort aðili hafi sýnt af sér háttsemi sem kynni að rýra trú­verðug­leika hans og skaða orðspor félagsins ef opinber væri. Í því sambandi koma m.a. til skoð­unar fyrri afskipti Fjármálaeftirlitsins vegna starfa aðila eða vegna starfshátta eftirlitsskylds aðila sem hann var í forsvari fyrir eða bar ábyrgð á og hvort fyrri háttsemi hafi gefið tilefni til ávirð­inga á hendur aðila.

6. gr.

Dómur í tengslum við atvinnurekstur.

Stjórnarmaður og framkvæmdastjóri vátryggingamiðlara og einstaklingur með starfsleyfi sem vátryggingamiðlari mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað skv. d-lið 1. mgr. 22. gr. laga um dreifingu vátrygginga. Með dómi í tengslum við atvinnu­rekstur er átt við að aðili hafi sem starfsmaður, stjórnarmaður, eigandi, verktaki eða vegna annarra tengsla við atvinnu­rekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningar­lögum, lögum um dreifingu vátrygginga eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, árs­reikninga, gjald­þrotaskipti o.fl., staðgreiðslu opinberra gjalda eða öðrum lögum sem gefur tilefni til að ætla að þeir geti ekki sinnt starfi sínu á forsvaranlegan hátt.

III. KAFLI

Munnlegt hæfismat.

7. gr.

Munnlegt hæfismat framkvæmdastjóra.

Framkvæmdastjóri skal undirgangast munnlegt hæfismat innan sex vikna frá því að Fjármála­eftirlitið hefur lokið yfirferð skriflegra gagna skv. II. kafla reglna þessara.

Munnlegu hæfismati er ætlað að kanna hvort framkvæmdastjóri búi yfir nægilegri þekkingu, fag­legri hæfni og starfsreynslu til að geta sinnt starfi sínu á tilhlýðilegan hátt. Hæfismatinu er jafn­framt ætlað að kanna hvort framkvæmdastjóri fullnægi hæfisskilyrðum 25. gr. laga um dreifingu vátrygg­inga eins og við á.

Við framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra getur Fjármálaeftirlitið notið aðstoðar utanað­komandi aðila, s.s. við mat á þekkingu aðila.

8. gr.

Boðun framkvæmdastjóra í munnlegt hæfismat.

Til munnlegs hæfismats skal boðað skriflega með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara og tilgreina hvaða efni verður til umræðu. Boðuðu hæfismati verður ekki frestað nema sýnt sé fram á að ríkar ástæður liggi fyrir og almennt ekki lengur en um eina viku.

9. gr.

Endurtekning munnlegs hæfismats framkvæmdastjóra.

Hafi framkvæmdastjóri að mati Fjármálaeftirlitsins ekki sýnt fram á nægilega þekkingu og fag­lega hæfni varðandi það efni sem var til umræðu í hæfismati er honum gefinn kostur á að endurtaka munnlega hæfismatið innan fjögurra vikna frá því að niðurstaðan lá fyrir.

Hæfismat verður einungis endurtekið einu sinni, nema sérstök rök leiði til annars.

10. gr.

Undanþágur frá munnlegu hæfismati framkvæmdastjóra.

Hafi framkvæmdastjóri á síðastliðnum 12 mánuðum sinnt starfi framkvæmdastjóra vátrygginga­miðlara og staðist hæfiskröfur Fjármálaeftirlitsins vegna þess starfs getur hann óskað eftir undan­þágu frá munnlegu hæfismati.

Beiðni um undanþágu skal send Fjármálaeftirlitinu með skriflegum hætti og studd viðeigandi gögn­um.

Fjármálaeftirlitið getur óskað viðbótarupplýsinga ef þörf krefur.

11. gr.

Munnlegt hæfismat stjórnarmanna.

Fjármálaeftirlitið metur hvort stjórnarmenn skuli gangast undir munnlegt hæfismat.

Við matið er m.a. horft til stærðar og umfangs reksturs vátryggingamiðlara og þess hvort vafi sé á að viðkomandi uppfylli skilyrði laga um dreifingu vátrygginga, um nægilega þekkingu, faglega hæfni og starfsreynslu til að geta sinnt starfi sínu á tilhlýðilegan hátt.

Við framkvæmd hæfismats stjórnarmanna getur Fjármálaeftirlitið notið aðstoðar utanaðkomandi aðila, s.s. við mat á þekkingu aðila.

Önnur ákvæði þessa kafla gilda eftir því sem við á um munnlegt hæfismat stjórnarmanna.

IV. KAFLI

Mat á hæfi.

12. gr.

Niðurstaða mats á hæfi.

Geri Fjármálaeftirlitið ekki athugasemd við hæfi aðila með vísan til hæfisskilyrða laga um dreif­ingu vátrygginga og reglna þessara skal það tilkynnt aðila og stjórn vátryggingamiðlara skriflega.

Telji Fjármálaeftirlitið að aðili uppfylli ekki hæfisskilyrði laga um dreifingu vátrygginga og ákvæði reglna þessara eða ef ekki er unnt að leggja mat á hæfi aðila samkvæmt 5. mgr. 2. gr. reglna þessara tilkynnir það aðila og stjórn vátryggingamiðlara skriflega um niðurstöðu sína ásamt rök­stuðn­ingi.

Aðila sem uppfyllir ekki hæfisskilyrði laga um dreifingu vátrygginga og reglna þessara er óheimilt að gegna starfi framkvæmdastjóra eða taka sæti í stjórn vátryggingamiðlara. Hafi aðili hafið störf getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að aðili láti af störfum, ýmist tímabundið eða til frambúðar. Ef kröfum Fjármálaeftirlitsins er ekki sinnt innan hæfilegra tímamarka getur Fjármálaeftirlitið ein­hliða vikið aðila frá störfum, sbr. 4. mgr. 10. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

13. gr.

Viðvarandi mat á hæfi.

Framkvæmdastjórar og stjórnarmenn skulu á hverjum tíma uppfylla hæfisskilyrði laga um dreifingu vátrygginga og ákvæði reglna þessara. Í því skyni er þeim skylt að viðhalda þekkingu sinni og afla sér nýrrar þekkingar eftir því sem tilefni er til.

Verði breytingar á áður veittum upplýsingum sem geta haft áhrif á hæfi aðila ber honum að til­kynna það til Fjármálaeftirlitsins án tafar, þó eigi síðar en innan tveggja vikna frá breytingunum.

Fjármálaeftirlitið getur á hverjum tíma tekið hæfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna til sér­stakrar skoðunar.

14. gr.

Mat á hæfi í tengslum við umsókn um starfsleyfi.

Ef mat á hæfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna tengist umsókn um starfsleyfi sem vátrygg­ingamiðlari, og viðkomandi aðili uppfyllir ekki skilyrði laga um dreifingu vátrygginga, verður starfs­leyfi ekki veitt félaginu.

V. KAFLI

Gildistaka.

15. gr.

Gildistaka

Reglur þessar eru settar með heimild í 5. mgr. 22. gr. laga nr. 62/2019 um dreifingu vátrygginga og öðlast þegar gildi.

Fjármálaeftirlitinu, 19. desember 2019.

Unnur Gunnarsdóttir.

Anna Mjöll Karlsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 9. janúar 2020