Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 96/2021

Nr. 96/2021 25. júní 2021

LÖG
um breytingu á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga (lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

I. KAFLI

Breyting á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011.

1. gr.

    Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

        Lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags.

    Í því skyni að auka sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þeirra til að annast lögbundin verkefni skal stefna að því að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags sé ekki undir 1.000.

    Ef íbúafjöldi sveitarfélags er undir 1.000 við almennar sveitarstjórnarkosningar skal sveitarstjórn þess, innan árs frá þeim sveitarstjórnarkosningum, leitast við að ná markmiðum skv. 1. mgr. með því að:

  1. hefja formlegar sameiningarviðræður á grundvelli 119. gr. eða
  2. vinna álit um stöðu sveitarfélagsins, getu þess til að sinna lögbundnum verkefnum, sbr. 1. mgr., og um þau tækifæri sem felast í mögulegum kostum sameiningar sveitarfélagsins við annað eða önnur sveitarfélög.

    Ráðherra setur með auglýsingu leiðbeiningar um þau atriði sem fram þurfa að koma í áliti skv. b-lið 2. mgr. en þar skal m.a. fjallað um fjárhagslega og félagslega þætti sveitarfélagsins, íbúaþróun, þjónustu sveitarfélagsins og aðrar samfélagslegar aðstæður. Ráðherra getur að ósk sveitarstjórnar veitt henni lengri tíma til afgreiðslu álitsins ef ástæða þykir til.

    Álit skv. b-lið 2. mgr. skal sent ráðuneytinu til umsagnar og síðan kynnt íbúum sveitarfélagsins með fullnægjandi hætti ásamt umsögn ráðuneytisins. Að því loknu skal sveitarstjórn taka ákvörðun um hvort hefja eigi sameiningarviðræður á grundvelli 119. gr. og hafa um það tvær umræður skv. 1. mgr. 18. gr.

    Taki sveitarstjórn ákvörðun um að hefja ekki sameiningarviðræður skv. 4. mgr. geta minnst 10% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óskað almennrar atkvæðagreiðslu um ákvörðun sveitarstjórnar hafi slík atkvæðagreiðsla ekki þegar farið fram. Sveitarstjórn skal verða við ósk íbúa eigi síðar en innan sex mánaða frá því að hún berst og skal niðurstaða atkvæðagreiðslunnar vera bindandi fyrir sveitarstjórn. Að öðru leyti fer um atkvæðagreiðsluna skv. 107. og 108. gr.

 

2. gr.

    Í stað 3. mgr. 17. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

    Mæla skal fyrir um heimild sveitarstjórnarmanna til að taka þátt með rafrænum hætti í fundum sveitarstjórnar og nefnda og ráða á vegum sveitarfélagsins í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins.

    Þegar nefndarmaður tekur þátt í fundi með rafrænum hætti skv. 3. mgr. skal hann vera staddur í viðkomandi sveitarfélagi eða í erindagjörðum innan lands á vegum þess. Þá skal tryggja jafna möguleika allra fundarmanna til þátttöku á fundi og í atkvæðagreiðslu, óskerta möguleika þeirra til að fylgjast með því sem þar fer fram, sbr. 1. mgr. 16. gr., og öryggi samskipta milli fundarmanna.

 

3. gr.

    Í stað orðanna „skv. 3. mgr. 17. gr.“ í 2. málsl. 2. mgr. 19. gr. laganna kemur: skv. 3. og 4. mgr. 17. gr.

 

4. gr.

    Orðin „enda sé um að ræða a.m.k. ⅔ sveitarfélaganna og í þeim sveitarfélögum búi a.m.k. ⅔ hlutar íbúa á svæðinu“ í 2. mgr. 120. gr. laganna falla brott.

 

5. gr.

    Í stað orðsins „fimm“ í 2. málsl. 127. gr. laganna kemur: sjö.

 

6. gr.

    Á eftir 130. gr. laganna kemur ný grein, 130. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Stefna um þjónustustig í byggðum og byggðarlögum sveitarfélags.

    Samhliða fjárhagsáætlun, sbr. 62. gr., skal sveitarstjórn móta stefnu fyrir komandi ár og næstu þrjú ár á eftir um það þjónustustig sem sveitarfélagið hyggst halda uppi í byggðum og byggðar­lögum fjarri stærstu byggðarkjörnum viðkomandi sveitarfélags.

    Við gerð og mótun stefnunnar skal sveitarstjórn hafa samráð við íbúa sveitarfélagsins. Máls­meðferð við afgreiðslu stefnunnar skal að öðru leyti vera skv. 3. mgr. 62. gr.

 

7. gr.

    Fyrirsögn XIV. kafla laganna verður: Aðrar skyldur sveitarfélaga.

 

8. gr.

    3. málsl. 3. mgr. 132. gr. laganna fellur brott.

 

9. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

 

    a. (IX.)

    Við gerð næstu stefnumótandi áætlunar í málefnum sveitarfélaga skv. 4. mgr. 2. gr. skal ráð­herra hafa til hliðsjónar greiningu á mismunandi leiðum sem eru til þess fallnar að ná mark­miðum um að sveitarfélög á Íslandi verði öflug og sjálfbær vettvangur lýðræðislegrar starfsemi.

 

    b. (X.)

    Þrátt fyrir 2. mgr. 4. gr. a skal skylda til að hefja sameiningarviðræður, sbr. a-lið ákvæðisins, eða vinna álit um stöðu sveitarfélagsins, sbr. b-lið, aðeins taka til sveitarfélaga sem hafa færri en 250 íbúa við sveitarstjórnarkosningar 2022.

 

II. KAFLI

Breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995.

10. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er heimilt að halda eftir allt að 1.000 millj. kr. af tekjum sjóðsins skv. a-, b- og d-lið 8. gr. a, utan þeirrar fjárhæðar sem skal renna til málefna fatlaðs fólks, á hverju ári á tímabilinu 2020–2035 til að safna fyrir sérstökum framlögum úr sjóðnum sem koma til vegna sameiningar sveitarfélaga, sbr. a-lið 11. gr.

 

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

Gjört í Vestmannaeyjum, 25. júní 2021.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Sigurður Ingi Jóhannsson.


A deild - Útgáfud.: 9. júlí 2021