Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1737/2021

Nr. 1737/2021 28. desember 2021

SKIPULAGSSKRÁ
fyrir Stofnun um líf og list Helga Þorgils Friðjónssonar, myndlistarmanns.

1. gr.

Heiti.

Sjálfseignarstofnunin heitir Stofnun um líf og list Helga Þorgils Friðjónssonar, myndlistarmanns og starfar skv. lögum nr. 19/1988. Stofnunin stundar ekki atvinnurekstur.

 

2. gr.

Heimilisfang.

Heimilisfang stofnunarinnar er í Reykjavík.

 

3. gr.

Markmið og framkvæmd.

Markmið stofnunarinnar eru:

 1. Að varðveita listaverk og heimildir um lífsstarf Helga Þorgils, sem hún kann að eignast.
 2. Að gera almenningi auðveldara að kynnast list og lífsstarfi Helga Þorgils.
 3. Stuðla að því að almenningur fái notið listar hans.
 4. Vinna að því að framlag Helga Þorgils á sviði myndlistar fái notið sín í menningarlífi Íslands til framtíðar.

Til að ná þessum markmiðum skal stofnunin:

 1. Stuðla að sýningum á verkum og lífsstarfi Helga Þorgils.
 2. Geyma með öruggum hætti þau listaverk eftir Helga Þorgils og heimildir um lífsstarf hans, sem stofnunin kann að eignast.
 3. Styðja við rannsóknir á verkum hans, m.a. með styrkveitingum. Stjórn skal setja nánari reglur um úthlutun styrkja, þar sem fram kemur hverjir geta sótt um, heildarfjárhæð, úthlutun og annað það sem kann að skipta máli.

 

4. gr.

Stofnendur.

Stofnendur stofnunarinnar eru:

Helgi Þorgils Friðjónsson, kt. 070353-2889, myndlistarmaður og eiginkona hans Rakel Halldórs­dóttir, kt. 220572-5529.

 

5. gr.

Stofnfé og tekjur.

Stofnfé stofnunarinnar er kr. 1.285.000, sem lagt er fram af stofnendum að jöfnu, sbr. 4. gr.

Tekjur sjálfseignarstofnunarinnar eru:

 1. Vextir og arður af eignum hennar.
 2. Gjafir og áheit sem henni kunna að berast.
 3. Fé, styrkir og annað verðmæti sem safnast í nafni hennar.
 4. Aðrar tekjur.

Stjórn sjálfseignarstofnunarinnar ber ábyrgð á meðferð og vörslu fjármuna hennar, nema öðrum verði falin sú ábyrgð, og skal varðveita eignir hennar og leitast við að ávaxta fjármunina á sem hagkvæmastan og öruggastan hátt, í samræmi við markmið sjálfseignarstofnunarinnar.

Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum og öðrum þeim verðmætum er hún kann að eignast síðar. Stofnendur hafa engin sérréttindi í stofnuninni, sjá þó 6. gr.

Stjórn skal í störfum sínum fara í öllu eftir fyrirmælum ákvæða 3. gr. um markmið og fram­kvæmd.

 

6. gr.

Stjórn.

Stjórn stofnunarinnar skal skipuð þremur mönnum til 5 ára í senn. Jafnframt skal við kjör á aðal­mönnum í stjórn kosinn einn í varastjórn til sama tíma. Stofnendur tilnefna fyrstu stjórn og vara­stjórn, en eftirleiðis mun fráfarandi stjórn við lok kjörtímabils kjósa nýja stjórn.

Við val stjórnarmanna og aðrar ákvarðanir skal einfaldur meirihluti ráða.

Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Stjórnin stýrir öllum málefnum stofnunarinnar og kemur fram út á við fyrir hönd hennar. Stjórnin skal sjá til þess að skipulag og starfsemi hennar sé jafnan í réttu og góðu horfi. Undirskriftir meirihluta stjórnar skuldbinda stofnunina. Stjórn stofnunarinnar getur veitt umboð fyrir stofnunina.

Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Mikilvægar ákvarðanir má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi fjallað um málið, sé þess nokkur kostur. Halda skal fundar­gerðabók um það sem gerist á stjórnarfundum.

Þrátt fyrir framangreint skal fyrrnefnd Rakel Halldórsdóttir vera í stjórn, sem formaður, svo lengi sem hún kýs.

 

7. gr.

Fundarboðun.

Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda. Hver stjórnarmaður getur krafist þess að stjórnar­fundur sé haldinn. Stjórninni er heimilt að setja sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa hennar.

 

8. gr.

Aðrar stjórnareiningar.

Stjórn stofnunarinnar er heimilt að ráða einn eða fleiri framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóri á rétt til setu á stjórnarfundum þótt hann sé ekki stjórnarmaður, en hann fer þó ekki með atkvæðisrétt. Framkvæmdastjóra ber að veita stjórnarmönnum og endurskoðendum allar upplýsingar um rekstur stofnunarinnar, sem þeir óska eftir og veita ber samkvæmt lögum.

 

9. gr.

Endurskoðendur.

Stjórn stofnunarinnar skal velja einn eða fleiri endurskoðendur/skoðunarmenn til að endurskoða reikninga stofnunarinnar fyrir hvert starfsár. Endurskoðendur má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna stofnunarinnar.

 

10. gr.

Reikningsárið.

Reikningsárið er almanaksárið og er fyrsta reikningstímabil frá stofnun sjálfseignarstofnunar­innar og til næstu áramóta.

 

11. gr.

Breyting skipulagsskrár, slit og sameining.

Til þess að breyta skipulagsskrá þessari, sameina stofnunina annarri sjálfseignarstofnun eða leggja hana niður, þarf samþykki allra stjórnarmanna stofnunarinnar. Komi til niðurlagningar stofn­unarinnar skal listmunum og öðrum eignum hennar varið til Listasafns Íslands eða á annan þann hátt sem samræmist markmiðum stofnunarinnar samkvæmt 3. gr. Skal fyrst leitað skriflegrar heim­ildar til embættis sýslumannsins á Norðurlandi vestra, varðandi framangreint.

 

12. gr.

Staðfesting sýslumanns.

Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Norðurlandi vestra á skipulagsskrá þessari.

 

Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir, sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988.

 

F.h. sýslumannsins á Norðurlandi vestra, 28. desember 2021,

 

Björn Hrafnkelsson.

Auður Steingrímsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 12. janúar 2022