Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 39/2021

Nr. 39/2021 17. maí 2021

LÖG
um breytingu á umferðarlögum, nr. 77/2019 (umframlosunargjald og einföldun regluverks).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

     Í stað skammstöfunarinnar „sm“ í 8. tölul. og a-lið 28. tölul. 1. mgr. 3. gr., 2. mgr. 40. gr. og 2. og 3. mgr. 77. gr. laganna kemur: cm.

 

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:

  1. Í stað „10 km“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 15 km.
  2. Í stað orðsins „Vélknúnum“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: Skráningarskyldum.

 

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:

  1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Veghaldara er enn fremur heimilt að kveða á um frekari undanþágur frá banni við umferð í samræmi við 1. og 4. mgr. 84. gr.
  2. 2. mgr. orðast svo:
        Veghaldara er heimilt að veita íbúum og rekstraraðilum við göngugötu leyfi til aksturs vélknúinna ökutækja um göngugötuna, til og frá lóð heimilis þeirra eða eftir atvikum lóð fyrirtækis þeirra, hvort heldur almennt eða í einstökum tilvikum. Sama á við um íbúa og rekstraraðila nærliggjandi gatna þegar aðgengi að bifreiðastæðum þeirra er frá göngugötu og önnur leið að þeim er ekki fær. Almenna heimild skal gefa til kynna með umferðarmerki. Veghaldari gefur út göngugötukort til íbúa og rekstraraðila sem leyfi hafa til aksturs um göngugötu. Slíkt kort skal vera sýnilegt í eða á ökutæki í göngugötu. Lögreglu er heimilt að leggja hald á göngugötukort til bráðabirgða ef grunur leikur á um misnotkun þess og skal þá afhenda veghaldara kortið. Veghaldari skal afturkalla kort ef um misnotkun er að ræða. Veghaldari getur, að höfðu samráði við lögreglu, sett reglur um göngugötukort þar sem nánar er kveðið á um útgáfu og notkun þeirra.

 

4. gr.

    Í stað orðsins „vélknúið“ í 1. málsl. 3. mgr. 28. gr. laganna kemur: skráningarskylt.

 

5. gr.

    E-liður 11. mgr. 58. gr. laganna orðast svo: akstursmat skv. 59. gr., námsheimild skv. 67. gr. og leyfi leiðbeinanda skv. 68. gr., og.

 

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 63. gr. laganna:

  1. Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ákvörðun um afturköllun ökuréttinda þess sem ekki uppfyllir lengur skilyrði b-liðar 2. mgr. 58. gr. skal byggð á læknisfræðilegu mati á aksturshæfni. Við ákvörðun um afturköllun ökuréttinda skal fylgja ákvæðum stjórn­sýslu­laga.
  2. 2. mgr. orðast svo:
        Þegar afskipti eru höfð af ökumanni við umferðareftirlit sem lögregla hefur sérstaka ástæðu til að ætla að fullnægi ekki skilyrðum b-liðar 2. mgr. 58. gr. er lögreglu heimilt að afturkalla ökuréttindin tafarlaust til bráðabirgða í þrjá mánuði þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. Þau verða ekki gild að nýju fyrr en ökumaður hefur undirgengist læknisfræðilegt mat á aksturs­hæfni.
  3. 3. mgr. orðast svo:
        Læknir getur ákveðið að handhafi ökuréttinda fari í próf í aksturshæfni að loknu læknisfræðilegu mati skv. 1. eða 2. mgr.
  4. Í stað orðanna „Nú fullnægir handhafi ökuréttinda ekki skilyrðum b-liðar 2. mgr. 58. gr. að mati trúnaðarlæknis Samgöngustofu“ í 4. mgr. kemur: Nú fullnægir handhafi ökuréttinda að mati læknis ekki skilyrðum b-liðar 2. mgr. 58. gr., að undangenginni læknisrannsókn skv. 1. eða 2. mgr.
  5. Orðin „skipun og hæfi trúnaðarlæknis Samgöngustofu“ í 5. mgr. falla brott.
  6. 9. mgr. orðast svo:
        Ökumaður ber sjálfur kostnað af læknisfræðilegu mati, námskeiðum og prófi í aksturs­hæfni eftir því sem við á samkvæmt þessari grein.

 

7. gr.

    Orðið „lögreglustjóra“ í 1. málsl. 4. mgr. 67. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 68. gr. laganna fellur brott.

 

8. gr.

    Við 69. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

    Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt að leggja umframlosunargjald á framleiðanda ökutækja þegar vegið meðaltal útblásturs skaðlegra lofttegunda nýskráðra ökutækja framleiðandans á Evrópska efnahagssvæðinu er hærra en viðmið sem kveðið er á um í reglugerð sem ráðherra setur. Í reglu­gerðinni skal kveðið nánar á um hvernig og í hvaða tilvikum slíkt gjald skal lagt á.

 

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 72. gr. laganna:

  1. Við 2. málsl. bætist: sem gerður er fyrir meira en 750 kg heildarþyngd, svo og hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagn óháð heildarþyngd.
  2. Við bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ráðherra getur þó í reglugerð kveðið á um skráningarskyldu eftirvagns vélknúins ökutækis sem gerður er fyrir 750 kg heildarþyngd eða minna. Undanþegin skráningarskyldu eru létt bifhjól í flokki I.

 

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr. 82. gr. laganna:

  1. Í stað orðsins „veghaldara“ kemur: Vegagerðarinnar.
  2. Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Slíka undanþágu má binda viðeigandi skilyrðum, t.d. um að sá sem óskar eftir slíkri undanþágu afli samþykkis annarra veghaldara eftir því sem við á.

 

11. gr.

    Við 5. mgr. 86. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá getur ráðherra heimilað ríkis­aðila að sjá um innheimtu gjalds fyrir notkun stöðureita sem viðkomandi ríkisaðili hefur umsjón með.

 

12. gr.

    3. mgr. 89. gr. laganna orðast svo:

    Ráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmdir, viðburði eða aðrar aðstæður á eða við veg þar sem umferð kann að vera raskað þannig að hætta stafi af, m.a. um gerð öryggis­áætlunar og ábyrgð veghaldara og verktaka við að tryggja öryggi á verkstað.

 

13. gr.

    Í stað tilvísananna „39.–41. gr., 42. gr.“ í 1. mgr. 94. gr. laganna kemur: 39.–42. gr., 1.–4. mgr. 43. gr.

 

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 95. gr. laganna:

  1. Á eftir tilvísuninni „48. gr.“ í 1. málsl. kemur: 6. mgr. 49. gr.
  2. Í stað orðsins „sæta“ í 2. málsl. kemur: varða.
  3. Á eftir orðinu „gegn“ í 2. málsl. kemur: 1.–5. mgr. og 7. mgr.

 

15. gr.

    Orðin „allt að 500.000 kr.“ í 97. gr. laganna falla brott.

 

16. gr.

    Á eftir orðinu „Eigandi“ í 2. málsl. 1. mgr. 110. gr. laganna kemur: eða umráðamaður.

 

17. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

Gjört í Reykjavík, 17. maí 2021.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Sigurður Ingi Jóhannsson.


A deild - Útgáfud.: 21. maí 2021