Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 144/2019

Nr. 144/2019 8. febrúar 2019

REGLUR
um úthlutun styrkja úr Barnamenningarsjóði Íslands.

1. gr.

Tilgangur.

Hlutverk Barnamenningarsjóðs Íslands er að veita fjármagni til og styrkja verkefni á sviði barna­menningar, í samræmi við íslenska menningarstefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda um menn­ingu barna og ungmenna.

Sjóðurinn er átaksverkefni til fimm ára, stofnaður á 100 ára afmæli fullveldisins og er ætlað að styðja fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi.

2. gr.

Stjórn og umsýsla.

Stjórn Barnamenningarsjóðs Íslands metur styrkhæfi umsókna og gerir tillögur til ráðherra um veitingu styrkja.

Rannís annast umsýslu sjóðsins og tekur við umsóknum á heimasíðu sinni gegnum rafrænt umsóknar­kerfi.

3. gr.

Auglýsingar um úthlutun.

Úthlutað er úr sjóðnum einu sinni á ári á árabilinu 2019–2023 á degi barnsins, síðasta sunnudag í maí. Auglýst skal eftir umsóknum þar sem greint er frá hlutverki sjóðsins og áherslum sem liggja til grundvallar mati á umsóknum. Umsóknarfrestur skal eigi vera skemmri en fimm vikur. Umsóknir sem berast eftir að auglýstur umsóknarfrestur er liðinn koma ekki til mats. Niðurstaða úthlutunar skal liggja fyrir eigi síðar en átta vikum eftir að umsóknarfrestur rennur út.

4. gr.

Styrkir.

Styrkir eru veittir til einstaklinga, lögaðila, listhópa, fyrirtækja eða stofnana.

Ekki eru veittir styrkir til kjarnastarfsemi eða reglubundins rekstrar stofnana eða samtaka, til tækja­kaupa eða til uppbyggingar aðstöðu, s.s. húsnæðis, eða stakir ferðastyrkir. Ekki eru veittir styrkir til endurtekinna viðburða, s.s. hátíða, nema til komi afgerandi nýbreytni í inntaki, formi eða efnisvali.

5. gr.

Umsóknir.

Við mat á umsóknum ber að hafa gæði verkefnisins í fyrirrúmi. Því þarf hver umsókn að innihalda greinargóða lýsingu á verkefninu sjálfu og markmiðum þess, aðstandendum og verklagi við fram­kvæmd þess, ásamt vandaðri tíma- og kostnaðaráætlun. Njóti umsækjandi annarra styrkja eða fram­laga vegna verkefnisins skal gera grein fyrir slíkum framlögum eða styrkjum í umsókn.

6. gr.

Mat á umsóknum.

Stjórn Barnamenningarsjóðs leggur mat á umsóknir með hliðsjón af hlutverki sjóðsins og aug­lýstum áherslum hverju sinni.

Leitast skal fremur við að styrkja fá verkefni með hærri fjárhæðum hvert sem hafa veruleg áhrif á hvort af framkvæmd þess verður. Til greina kemur að styrkja verkefni sem ná yfir lengri tíma en eitt almanaksár.

Mat á umsóknum skal einkum byggja á eftirtöldum sjónarmiðum:

Verkefni styðji fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi.

Verkefni, sem auk ofangreindra þátta, stuðla að lýðræðislegri virkni barna í samfélaginu eða taka að öðru leyti mið af inntaki barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hafa sérstakt vægi. Einnig þau verkefni sem unnin eru í nánu samstarfi tveggja aðila eða fleiri, svo sem menningarstofnana, skóla, listafólks og félagasamtaka.

Stjórn hefur heimild til að leita álits sérfróðra aðila við mat á umsóknum, gerist þess þörf.

7. gr.

Hæfi stjórnarmanna.

Stjórnarmaður sem veit um ástæður er kunna að valda vanhæfi hans við úthlutun styrkja úr sjóðnum skal án tafar vekja athygli formanns stjórnar á því og ber formanni þá að kalla til vara­mann sem tekur við skyldum aðalmanns við úthlutunina.

8. gr.

Upplýsingagjöf og uppgjör.

Við undirritun úthlutunarskilmála koma 80% styrksins þegar til greiðslu en 20% eftir að rafræn greinargerð um framkvæmd verkefnisins og ráðstöfun styrksins hefur borist stjórn. Heimilt er þó að greiða styrkinn út í einu lagi ef heildarupphæðin er undir 1 milljón króna.

9. gr.

Kynning.

Við framkvæmd og kynningu verkefna sem hlotið hafa styrk úr Barnamenningarsjóði skal láta þess getið að verkefnið hafi hlotið styrk úr sjóðnum.

10. gr.

Gildistaka og gildistími.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 42. gr. laga nr. 123/2015 um opinber fjármál og 5. gr. reglu­gerðar nr. 642/2018 um styrkveitingar ráðherra. Reglur þessar, sem taka þegar gildi, skal endur­skoða áður en auglýst verður eftir umsóknum úr Barnamenningarsjóði Íslands árið 2020.

Forsætisráðuneytinu, 8. febrúar 2019.

Katrín Jakobsdóttir.

Ragnhildur Arnljótsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 11. febrúar 2019