Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 30/2020

Nr. 30/2020 15. apríl 2020

LÖG
um breytingu á lögum um framboð og kjör forseta Íslands og lögum um kosningar til Alþingis (rafræn söfnun meðmæla, heiti sveitarfélaga).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

I. KAFLI

Breyting á lögum um framboð og kjör forseta Íslands, nr. 36/1945,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    Ráðherra er heimilt að mæla fyrir um í reglugerð að safna megi meðmælum með forsetaefni rafrænt. Ráðherra skal m.a. mæla fyrir um form og viðmót sem Þjóðskrá Íslands lætur í té, tegund rafrænnar auðkenningar meðmælenda, meðferð persónuupplýsinga og varðveislu og eyðingu upp­lýsinga. Við rafræna skráningu meðmæla er Þjóðskrá Íslands heimilt að kanna hvort meðmæl­andi sé kosningarbær.

    Þjóðskrá Íslands er heimilt að beiðni yfirkjörstjórnar að samkeyra meðmælendalista forsetaefnis við þjóðskrá að fullnægðum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

    Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. janúar 2021.

 

II. KAFLI

Breyting á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000,
með síðari breytingum.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 6. gr. laganna:

  1. Í stað orðsins „Akureyrarkaupstaður“ í 2. tölul. kemur: Akureyrarbær.
  2. Orðið „Breiðdalshreppur“ í 2. tölul. fellur brott.
  3. Í stað orðanna „Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður“ í 3. tölul. kemur: Suðurnesjabær.

 

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

Gjört á Bessastöðum, 15. apríl 2020.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.


A deild - Útgáfud.: 16. apríl 2020