Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1015/2021

Nr. 1015/2021 25. ágúst 2021

SAMÞYKKT
um gatnagerðargjald í þéttbýli í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

1. gr.

Almenn heimild.

Af öllum nýbyggingum, svo og stækkunum eldri húsa, hvort sem er á eignarlóðum eða leigu­lóðum innan þéttbýlismarka í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, skv. tilgreiningu í aðalskipulagi, skal greiða gatnagerðargjald samkvæmt samþykkt þessari, eftir lögum um gatnagerðargjald nr. 153/2006, með síðari breytingum, og reglugerð um gatnagerðargjald. Um gatnagerðargjald fer að öðru leyti eftir lögum um gatnagerðargjald nr. 153/2006.

Einnig skal greiða vegna sömu framkvæmda, heimæðargjald vatnsveitu skv. lögum um vatns­veitur sveitarfélaga nr. 32/2004, tengigjald fráveitu skv. lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009, og byggingarleyfisgjald skv. lögum um mannvirki nr. 160/2010 auk annarra þeirra gjalda sem greiða ber skv. lögum og reglugerðum. Gjöld vegna framangreinds fara eftir viðkomandi gjald­skrám.

 

2. gr.

Ráðstöfun gatnagerðargjalds.

Gatnagerðargjaldi skal varið til gatnagerðar innan þéttbýlismarka í sveitarfélaginu skv. aðal­skipu­lagi svo og til viðhalds gatna og annarra gatnamannvirkja á sama svæði.

Tengi- og heimæðargjöld eru innheimt sérstaklega og ekki innifalin í gatnagerðargjaldi.

 

3. gr.

Gjaldstofn gatnagerðargjalds.

Gatnagerðargjald er tvíþætt. Annars vegar er það vegna nýrra bygginga og hins vegar vegna stækkunar á eldra húsnæði. Stofn til álagningar gatnagerðargjalds er fermetrafjöldi byggingar á tiltek­inni lóð.

Gjaldstofninn er ákveðinn á eftirfarandi hátt:

 1. Þegar sveitarfélagið úthlutar eða selur lóð eða byggingarrétt á lóð er gatnagerðargjald lagt á í samræmi við heildarfermetrafjölda þeirrar byggingar sem heimilt er að reisa á við­kom­andi lóð samkvæmt gildandi deiliskipulagi.
 2. Þegar gatnagerðargjald verður ekki lagt á skv. a-lið, eða ef byggingarleyfi er veitt fyrir stærri byggingu en álagning skv. a-lið var upphaflega miðuð við, er við útgáfu byggingar­leyfis lagt á gatnagerðargjald í samræmi við heildarfermetrafjölda þeirrar byggingar sem byggingarleyfi tekur til.

Við álagningu skv. b-lið 2. mgr. skal miða við heildarstærð húss samkvæmt samþykktum upp­dráttum og ÍST 50.

 

4. gr.

Útreikningur gatnagerðargjalds.

Af hverjum fermetra húss greiðist ákveðinn hundraðshluti byggingarkostnaðar pr. fermetra í vísitölu­húsi fjölbýlis, eins og hann er hverju sinni samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands á grund­velli laga nr. 42/1987 með síðari breytingum. Álagning gatnagerðargjalds er mismunandi eftir húsa­gerð/notkun fasteignar. Hún er reiknuð sem ákveðinn hundraðshluti af grunni gatna­gerðar­gjalds samkvæmt eftirfarandi töflu:

Notkun/húsagerð  
Einbýlishús 3%
Par-, rað-, tvíbýlis- og keðjuhús 3%
Fjölbýlishús 3%
Verslunar-, skrifstofu- og þjónustuhús 2%
Iðnaðar-, geymslu- og annað atvinnuhúsnæði 2%
Aðrar byggingar 1%

 

Þar sem um blandaða notkun er að ræða ákvarðast gatnagerðargjald skv. ofangreindum flokkum af meginnotkun flatarmáls húsnæðis m.t.t. gildandi deiliskipulags.

Þegar bygging er rifin og ný og stærri byggð í staðinn á sömu lóð skal innheimta gatnagerðar­gjald sem stækkuninni nemur. Gildir þessi regla um byggingar sem samþykkt er byggingarleyfi fyrir allt að fimm árum eftir að leyfi er gefið fyrir niðurrifi byggingar. Að öðrum kosti skal greiða fullt gatna­gerðargjald. Ef hin nýja bygging er annarrar tegundar eða til annarrar notkunar en hið eldra húsnæði gilda ákvæði næstu málsgreinar.

Þegar veitt er byggingarleyfi fyrir endurbyggingu, breytingu eða breyttri notkun húsnæðis þannig að það færist í hærri gjaldflokk, sbr. 1. mgr., skal greiða gatnagerðargjald af fermetrafjölda við­komandi húsnæðis sem svarar til mismunar hærri og lægri gjaldflokksins. Lóðarhafi, eða bygg­ingar­leyfis­hafi þar sem það á við, á ekki rétt á endurgreiðslu ef bygging færist í lægri gjaldflokk við slíka breytingu á notkun húsnæðis. Það sama gildir ef ný bygging á lóð er minni að flatarmáli en sú bygging sem stóð þar áður.

Fjárhæðir taka breytingum 1. hvers mánaðar í samræmi við breytingu á byggingarkostnaði vísitölu­hússins.

 

5. gr.

Undanþágur frá greiðslu gatnagerðargjalds.

Gatnagerðargjald skal lækkað eða fellt niður þegar svo stendur á sem segir í neðangreindum staf­liðum:

 1. Gatnagerðargjald skal fellt niður vegna lagnakjallara og annarra gluggalausra kjallara, sem aðeins er gengið í innan frá.
 2. Af svalaskýlum íbúðarhúsa, sem eru 20 m² eða minni, vegna hverrar íbúðar, skal ekki greiða gatnagerðargjald. Ef um stærri skýli er að ræða skal greiða gatnagerðargjald af þeim hluta svalaskýlis sem er umfram 20 m² pr. íbúð.
 3. Gatnagerðargjald skal fellt niður vegna sameiginlegrar bifreiðageymslu fjölbýlishúss sem er fyrir 3 bifreiðar eða fleiri.
 4. Óeinangraðra smáhýsa sem eru minni en 6 m².

 

6. gr.

Sérstök lækkunarheimild.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps er heimilt að lækka eða fella niður gatnagerðargjald af einstökum lóðum í sveitarfélaginu við sérstakar aðstæður, svo sem vegna þéttingar byggðar, atvinnu­­uppbyggingar, lítillar ásóknar í viðkomandi lóð eða eftirspurnar eftir leiguhúsnæði.

Sveitarstjórn er enn fremur heimilt að lækka eða fella niður gjöld vegna sérhæfðs félagslegs húsnæðis, svo sem sambýli fyrir fatlaða, þjónustuíbúðir fyrir aldraða, og félagslegs leiguhúsnæðis enda sé slíkt húsnæði í eigu stofnana, félagasamtaka eða félaga sem ekki eru rekin í ágóðaskyni.

Þegar um er að ræða gatnagerð til almenningsþarfa á landi sem er í einkaeign, s.s. vegna upp­byggingar nýrra hverfa, hvort sem um er að ræða fyrir íbúðir eða atvinnustarfsemi, er sveitarstjórn heimilt að lækka eða fella niður gatnagerðargjald, enda annist eigandi landsins gatnagerð innan svæðisins.

Þinglýsa skal kvöð á umrætt húsnæði um að greiða skuli gatnagerðargjald af því ef það fellur af einhverjum ástæðum ekki lengur undir ákvæði þetta. Stafi það af breyttri notkun, sem háð er sam­þykki byggingaryfirvalda, skulu gjalddagi og eindagi miðast við útgáfu byggingarleyfis en að öðrum kosti er gjalddaginn 30 dögum eftir að forsendur lækkunar eða niðurfellingar gatnagerðargjalds eru ekki lengur fyrir hendi, svo sem vegna sölu húsnæðis, og eindagi 30 dögum síðar.

Ákveði sveitarstjórn að nýta sér framangreindar heimildir, skal hún gera um það sérstaka sam­þykkt þar sem fram komi hversu lengi heimild til lækkunar frá 4. gr. þessarar gjaldskrár gildir, hvert sé tilefni lækkunarinnar og aðrar þær málefnalegu ástæður sem búa að baki ákvörðuninni. Fella má ákvörðun skv. þessari grein inn í úthlutunarskilmála lóða.

 

7. gr.

Greiðsluskilmálar.

Gjalddagar gatnagerðargjalds skulu vera sem hér segir:

 1. Gatnagerðargjald skv. a-lið 2. mgr. 3. gr. samþykktar þessarar fellur í gjalddaga við úthlutun lóðar eða sölu byggingarréttar sem er í eigu sveitarfélagsins eða sveitarfélagið hefur ráðstöf­unar­rétt á. Eindagi er 30 dögum eftir gjalddaga.
 2. Gatnagerðargjald skv. b-lið 2. mgr. 3. gr. og 3. og 4. mgr. 4. gr. og 6. gr. samþykktar þess­arar fellur í gjalddaga við útgáfu byggingarleyfis. Eindagi er hinn sami og gjalddagi.
 3. Gatnagerðargjald skv. 5. gr. samþykktar þessarar, vegna framkvæmda sem eru ekki undan­þegnar gatnagerðargjaldi, fellur í gjalddaga við útgáfu byggingarleyfis. Eindagi er hinn sami og gjalddagi.

Heimilt er að haga greiðslu gatnagerðargjalds sem hér segir:

Innan eins mánaðar frá úthlutun lóðar eða sölu byggingarréttar skal greiða 20% af gatna­gerðar­gjaldi og 80% innan 10 mánaða. Sé greiðsluskilmálum hagað með framangreindum hætti og vanskil verða, er allt gatnagerðargjaldið í gjalddaga fallið. Að öðru leyti vísast til úthlutunar­reglna lóða í sveitarfélaginu.

Af gjaldföllnu gatnagerðargjaldi skulu greiðast dráttarvextir, frá gjalddaga, skv. ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

 

8. gr.

Ábyrgð á greiðslu gatnagerðargjalds. Lögveðsréttur.

Lóðarhafi, eða byggingarleyfishafi þar sem það á við, er gjaldskyldur samkvæmt samþykkt þessari og ber ábyrgð á greiðslu gatnagerðargjalds.

Gatnagerðargjald er ásamt áföllnum vöxtum og kostnaði tryggt með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign í tvö ár frá gjalddaga með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði sem á fasteigninni kunna að hvíla. Gatnagerðargjald er aðfararhæft án undangengins dóms eða stjórn­valds­­ákvörðunar.

Lóðarúhlutun öðlast ekki gildi fyrr en gatnagerðargjald hefur verið greitt að fullu, sbr. reglur um úthlutun lóða.

 

9. gr.

Endurgreiðsla gatnagerðargjalds.

Gatnagerðargjald skal endurgreitt í eftirtöldum tilvikum:

 1. Ef lóð er skilað skv. reglum eða samkomulagi eða ef lóðarúthlutun er afturkölluð.
 2. Ef gatnagerðargjald hefur verið greitt í tengslum við útgáfu byggingarleyfis, en leyfið fellur úr gildi.

Gatnagerðargjald skal endurgreitt innan 90 daga ef lóð er skilað eða ef lóðarúthlutun er aftur­kölluð eða ógilt skv. a-lið. Sama gildir um gatnagerðargjald sem lagt hefur verið á í tengslum við útgáfu byggingarleyfis sbr. b-lið, en þá skal gatnagerðargjald endurgreitt innan 90 daga frá því að bygg­ingarleyfishafi hefur sannanlega krafist endurgreiðslu.

Gatnagerðargjald skal endurgreitt án vaxta og verðbóta. Um endurgreiðslu fer að öðru leyti skv. 9. gr. laga um gatnagerðargjald nr. 153/2006, sbr. 3. tl. ákvæðis til bráðabirgða.

 

10. gr.

Eldri samningar og skilmálar um gatnagerðargjald.

Um samninga um gatnagerðargjald af tilteknum lóðum, sem lóðarhafar eða lóðareigendur hafa gert við Skeiða- og Gnúpverjahrepp fyrir gildistöku samþykktar þessarar, svo og skilmálar varðandi gatnagerðargjald, sem sveitarstjórn hefur sett og lóðarhafi/lóðareigandi hefur undirgengist, halda gildi sínu, nema aðilar séu um annað sáttir.

 

11. gr.

Gildistaka.

Samþykktin er samin og samþykkt af sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps, skv. heimild í 12. gr. laga nr. 153/2006.

Samþykktin öðlast gildi við birtingu og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt fellur úr gildi samþykkt um gatnagerðargjald í þéttbýli í Skeiða- og Gnúpverjahreppi nr. 90/2019.

 

Skeiða- og Gnúpverjahreppi, 25. ágúst 2021.

 

Sylvía Karen Heimisdóttir sveitarstjóri.


B deild - Útgáfud.: 9. september 2021