Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1370/2019

Nr. 1370/2019 14. nóvember 2019

GJALDSKRÁ
Brunavarna Húnaþings vestra.

1. gr.

Verkefni Brunavarna Húnaþings vestra (BHV) ákvarðast af lögum um brunavarnir nr. 75/2000 með síðari breytingum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Af öðrum verkefnum skal BHV taka gjald samkvæmt gjaldskrá þessari.

2. gr.

Af gjaldskyldum verkefnum skal BHV taka gjald í samræmi við þann kostnað sem stofnunin verður fyrir vegna þeirra. Gjald skal ákvarðað á grundvelli vinnuframlags starfsmanna. Þegar um útkall er að ræða er að lágmarki innheimt fyrir fjóra tíma vegna hvers starfsmanns. Fast tímagjald fyrir klukkustund útseldrar vinnu hvers starfsmanns er 7.950 krónur og tekur mið af fjárhagsáætlun BHV.

3. gr.

Af umsögnum til annarra opinberra stofnana vegna leyfisskyldrar starfsemi skal tekið fast gjald vegna þriggja klukkustunda vinnu ef skoða þarf viðkomandi stað, en einnar klukkustundar ef umsögn er afgreidd án skoðunar á staðnum.

4. gr.

Slökkviliðsstjóra er heimilt að fella niður gjald vegna starfsemi ef verkefni telst þjóna almanna­hagsmunum og/eða fellur að markmiðum BHV. Falli ráðgjafarvinna undir ákvæði stjórnsýslulaga um upplýsinga- og leiðbeiningaskyldu skal sú vinna undanþegin gjaldi.

5. gr.

Skrifstofa Húnaþings vestra annast innheimtu gjalda f.h. BHV samkvæmt gjaldskrá þessari eða innheimtufyrirtæki sem er falið verkefnið samkvæmt samningi þar að lútandi. Um innheimtu gjalda skal fara eftir viðteknum venjum í innheimtu opinberra stofnana. Vangreidd gjöld samkvæmt gjald­skránni skulu, þegar vægari innheimtuaðgerðir hafa ekki borið árangur, sótt fyrir dómstólum og í kjölfarið skal afla fjárnáms fyrir öllum skuldum skv. ofangreindu. Gjöldum sem til eru komin vegna eftirlits með því að farið hefur verið að kröfum um úrbætur á eldvörnum fylgir lögveð í viðkomandi fasteign eða lóð, sbr. 2. og 3. mgr. 29. gr. laga um brunavarnir.

6. gr.

Gjalddagi gjalda samkvæmt gjaldskránni er útgáfudagur reiknings og eindagi er 30 dögum síðar. Dráttarvextir reiknast frá gjalddaga séu gjöldin ekki greidd á eindaga.

7. gr.

Innheimt gjöld samkvæmt gjaldskrá þessari skulu renna til samfélags- og forvarnaverkefna á vegum BHV.

8. gr.

Gjaldskrá þessi er unnin af slökkviliðsstjóra og samþykkt af sveitarstjórn Húnaþings vestra, með heimild í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 með síðari breytingum. Gjaldskráin öðlast gildi við birtingu. Jafnframt fellur brott gjaldskrá sama efnis nr. 1110/2017.

Gjaldskráin tekur breytingum samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar hverju sinni. Samþykkt á 318. fundi sveitarstjórnar þann 14. nóvember 2019.

Hvammstanga, 14. nóvember 2019.

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri.


B deild - Útgáfud.: 13. janúar 2020