Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 92/2019

Nr. 92/2019 1. júlí 2019

LÖG
um Seðlabanka Íslands.

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Stofnun.

    Seðlabanki Íslands er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins sem heyrir undir ráðherra.

    Ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum Seðlabankans.

    Aðsetur og varnarþing Seðlabankans er í Reykjavík.

2. gr.

Markmið og verkefni.

    Seðlabanki Íslands skal stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Þá skal bankinn sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðla­banka, svo sem að varðveita gjaldeyrisforða og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslu­miðlun í landinu og við útlönd.

    Seðlabankanum er heimilt með samþykki ráðherra að lýsa yfir tölulegu markmiði um verðbólgu.

    Seðlabankanum er heimilt með samþykki ráðherra að lýsa yfir markmiði um gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum.

    Seðlabankinn fer með þau verkefni sem Fjármálaeftirlitinu eru falin í lögum og stjórn­valds­fyrirmælum og er Fjármálaeftirlitið hluti af Seðlabankanum. Skal bankinn fylgjast með að starf­semi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli og að hún sé að öðru leyti í sam­ræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti, sbr. lög um opinbert eftirlit með fjár­mála­starfsemi.

    Seðlabankinn skal stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, enda telji hann það ekki ganga gegn markmiðum bankans.

II. KAFLI

Stjórnskipulag.

3. gr.

Yfirstjórn.

    Seðlabankastjóri stýrir og ber ábyrgð á starfsemi og rekstri Seðlabanka Íslands og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum bankans sem ekki eru falin öðrum með lögum.

    Ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabankans í peningamálum eru teknar af peninga­stefnu­nefnd, sbr. 9. gr. Ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabankans varðandi fjármála­stöðug­leika eru teknar af fjármálastöðugleikanefnd, sbr. 12. gr. Ákvarðanir sem faldar eru Fjármála­eftirlitinu í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum heyra undir fjármálaeftirlitsnefnd, sbr. 15. gr.

    Ákvarðanir um varðveislu gjaldeyrisforða, sbr. 30. gr., og veitingu ábyrgða eða lána til lána­stofn­ana í lausafjárvanda á grundvelli 2. mgr. 19. gr. skulu teknar af seðlabankastjóra og vara­seðlabanka­stjórum á fundi sem seðlabankastjóri boðar til. Á sama hátt skal taka ákvarðanir um setn­ingu reglna um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris á grundvelli laga um gjald­eyris­mál, ákvarðanir um setningu reglna um starfsemi skipulegra gjaldeyrismarkaða, sbr. 2. mgr. 27. gr., og um skipulag og setningu reglna um starfsemi bankans. Skal seðlabankastjóri boða til fundar þegar að minnsta kosti tveir varaseðlabankastjórar óska eftir því. Fundurinn er álykt­unar­hæfur ef meiri hluti bankastjóra situr hann. Afl atkvæða ræður úrslitum við afgreiðslu mála. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði seðlabankastjóra. Halda skal fundargerðir um fundi seðla­banka­stjóra og varaseðlabankastjóra þar sem sameiginlegar ákvarðanir þeirra skulu skráðar.

4. gr.

Skipun og hæfni.

    Ráðherra skipar seðlabankastjóra til fimm ára í senn. Ráðherra skipar einnig þrjá vara­seðlabanka­stjóra til fimm ára í senn. Einn varaseðlabankastjórinn leiðir málefni sem varða pen­inga­stefnu, annar málefni sem varða fjármálastöðugleika og sá þriðji málefni sem varða fjár­mála­eftirlit. Skulu varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og varaseðlabankastjóri fjár­mála­eftirlits skipaðir að fenginni tilnefningu þess ráðherra sem fer með efnahagsmál og málefni fjármála­markaðar.

    Sama mann er aðeins hægt að skipa seðlabankastjóra eða varaseðlabankastjóra tvisvar sinnum.

    Seðlabankastjóri og varaseðlabankastjóri peningastefnu skulu hafa lokið háskólaprófi í hagfræði eða tengdum greinum og búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi og efnahags- og peningamálum. Varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og varaseðlabankastjóri fjármála­eftirlits skulu hafa lokið háskólaprófi sem nýtist í starfi og búa yfir víðtækri reynslu og þekk­ingu á fjármálastarfsemi.

    Seðlabankastjóri og varaseðlabankastjórar skulu vera lögráða og mega aldrei hafa verið sviptir forræði á búi sínu. Þeir skulu hafa gott orðspor og mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hluta­félög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga eða gjaldþrot eða þeim sérlögum sem gilda um eftirlits­skylda aðila.

    Ráðherra auglýsir laus embætti seðlabankastjóra og varaseðlabankastjóra í samræmi við ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

    Ráðherra skipar þriggja manna nefnd til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti seðla­banka­stjóra og varaseðlabankastjóra peningastefnu. Skal einn nefndarmaður skipaður sam­kvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins, einn samkvæmt tilnefningu bankaráðs Seðla­banka Íslands og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.

    Ráðherra sem fer með efnahagsmál og málefni fjármálamarkaðar skipar þriggja manna nefnd til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika og vara­seðlabankastjóra fjármálaeftirlits. Skal einn nefndarmaður skipaður samkvæmt tilnefningu samstarfs­nefndar háskólastigsins, einn samkvæmt tilnefningu bankaráðs Seðlabanka Íslands og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.

    Ráðherra setur reglur um hæfi nefndarmanna í hæfnisnefndum skv. 6. og 7. mgr. og um máls­meðferð.

5. gr.

Laun og starfskjör.

    Laun seðlabankastjóra nema 1.936.202 kr. á mánuði.

    Laun varaseðlabankastjóra nema 1.742.581 kr. á mánuði.

    Laun skv. 1. og 2. mgr. skulu taka breytingum 1. júlí ár hvert. Hagstofa Íslands reiknar og birtir fyrir 1. júní hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Við mat á launabreytingum aflar Hagstofan skýrslna og gagna sem hún telur nauð­syn­leg og gerir jafnframt eigin kjararannsóknir eftir því sem hún telur þörf á. Við launa­afgreiðslu fyrir júlí uppfærir Seðlabankinn krónutölufjárhæð til samræmis við tölur Hagstof­unnar.

    Seðlabankastjóra og varaseðlabankastjórum er óheimilt að sitja í stjórnum stofnana og atvinnu­fyrirtækja utan bankans eða taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti nema slíkt sé boðið í lögum eða um sé að ræða stofnun eða atvinnufyrirtæki sem bankinn á aðild að. Ráðherra hefur úrskurðar­vald ef ágreiningur rís um beitingu þessa ákvæðis.

    Starfsmenn Seðlabanka Íslands mega ekki vera stjórnendur, starfsmenn, endurskoðendur, lög­menn eða tryggingastærðfræðingar eftirlitsskyldra aðila. Kveða skal á um þátttöku starfsmanna Seðla­bankans í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja í reglum um starfsemi bankans sem seðla­banka­stjóri og varaseðlabankastjórar setja.

    Ráðherra setur reglur um viðskipti seðlabankastjóra, varaseðlabankastjóra, utanaðkomandi nefndar­manna í peningastefnunefnd, fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd og starfs­manna við eftirlitsskylda aðila. Þar skal meðal annars kveðið á um takmarkanir á heimildum til að vera í fjárhags­legum skuldbindingum gagnvart eftirlitsskyldum aðilum eða eiga hlut í þeim.

6. gr.

Kosning bankaráðs.

    Kjósa skal bankaráð Seðlabanka Íslands að loknum kosningum til Alþingis. Bankaráð skipa sjö fulltrúar kjörnir hlutbundinni kosningu af Alþingi ásamt jafnmörgum til vara. Hvorki má kjósa til setu í bankaráði stjórnarmenn eða starfsmenn eftirlitsskyldra aðila né eigendur virkra eignarhluta í eftirlitsskyldum aðilum. Sama á við um alþingismenn, varaþingmenn og ráðherra. Bankaráðs­fulltrúar skulu búa yfir staðgóðri þekkingu á stjórnsýslu og þeim lögum og reglum sem gilda um Seðlabankann. Leitast skal við að í bankaráði sitji á hverjum tíma fulltrúar með víðtæka þekk­ingu á íslensku efnahagslífi, fjármálamarkaði, stjórnun og rekstri.

    Umboð bankaráðs gildir þar til nýtt bankaráð hefur verið kjörið. Láti bankaráðsmaður af störfum tekur varamaður sæti hans þar til Alþingi hefur kosið nýjan aðalmann til loka kjörtímabils banka­ráðsins.

    Bankaráð velur formann og varaformann úr eigin röðum. Ráðherra ákveður þóknun bankaráðs sem greidd er af Seðlabankanum.

7. gr.

Fundir bankaráðs.

    Formaður bankaráðs kallar bankaráð saman til fundar. Ætíð skal þó halda bankaráðsfund þegar tveir bankaráðsmenn óska þess. Fundur bankaráðs er ályktunarhæfur ef meiri hluti bankaráðs situr fund. Afl atkvæða ræður úrslitum við afgreiðslu mála. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns. Halda skal fundargerðir um fundi bankaráðs.

    Bankaráð setur sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa þess. Banka­ráði er heimilt að veita formanni þess umboð til að ráða einstökum málum til lykta. Þá getur banka­ráð skipað undirnefnd úr eigin röðum til að undirbúa mál fyrir almenna fundi þess.

    Seðlabankastjóri situr fundi bankaráðs og hefur þar tillögurétt og tekur þátt í umræðum. Hann skal þó víkja af fundi ef bankaráð ákveður.

    Innri endurskoðandi hefur rétt til setu á fundum bankaráðs og skal hann upplýsa bankaráðið reglulega um störf sín.

8. gr.

Hlutverk bankaráðs.

    Bankaráð hefur eftirlit með því að Seðlabanki Íslands starfi í samræmi við lög sem um starf­semina gilda. Eftirlit bankaráðs tekur þó ekki til málsmeðferðar eða ákvarðana í einstökum málum. Að öðru leyti skal bankaráð sérstaklega sinna eftirtöldum verkefnum:

  1. Staðfesta tillögur seðlabankastjóra og varaseðlabankastjóra að skipulagi bankans.
  2. Ákveða laun og starfskjör fulltrúa í peningastefnunefnd, fjármálastöðugleikanefnd og fjár­mála­eftirlitsnefnd.
  3. Staðfesta starfsreglur peningastefnunefndar, fjármálastöðugleikanefndar og fjármála­eftirlits­nefndar, sbr. 11., 14. og 16. gr.
  4. Hafa umsjón með innri endurskoðun við bankann og ráða innri endurskoðanda.
  5. Staðfesta kjarasamninga við starfsmenn bankans, fjalla um reglur um lífeyrissjóð þeirra og staðfesta skipun fulltrúa í stjórn hans þegar svo ber undir.
  6. Staðfesta tillögu Seðlabankans til ráðherra um reglur um reikningsskil og ársreikning bank­ans, sbr. 37. gr.
  7. Staðfesta ársreikning bankans, sbr. 38. gr.
  8. Staðfesta ákvörðun bankans um eiginfjármarkmið og ákvörðun um ráðstöfun hagnaðar, sbr. 40. gr.
  9. Staðfesta áætlun um rekstrarkostnað bankans sem seðlabankastjóri leggur fram í upphafi hvers starfsárs.
  10. Hafa eftirlit með eignum og rekstri bankans og staðfesta ákvarðanir um fjárfestingar í hús­næði og annarri aðstöðu fyrir starfsemina sem teljast meiri háttar.
  11. Staðfesta gjaldskrá skv. 43. gr.

    Veita skal bankaráði þær upplýsingar um Seðlabanka Íslands og félög í eigu bankans sem nauð­syn­legar eru til að ráðið geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Seðlabankastjóri skal jafnan upp­lýsa bankaráð um helstu þætti í stefnu bankans og um reglur sem hann setur.

III. KAFLI

Peningastefnunefnd.

9. gr.

Hlutverk og skipan peningastefnunefndar.

    Ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum, sbr. 10. gr., eru teknar af pen­inga­stefnu­nefnd. Ákvarðanir peningastefnunefndar skulu grundvallast á markmiði um stöðugt verð­lag og byggjast á vönduðu mati á ástandi og horfum í efnahagsmálum.

    Í peningastefnunefnd situr seðlabankastjóri, varaseðlabankastjóri peningastefnu, vara­seðlabanka­stjóri fjármálastöðugleika og tveir sérfræðingar á sviði efnahags- og peningamála sem ráðherra skipar til fimm ára í senn. Ráðherra getur aðeins skipað sama mann í peninga­stefnu­nefnd tvisvar sinnum. Seðlabankastjóri er formaður peningastefnunefndar og er vara­seðlabanka­stjóri peningastefnu staðgengill hans.

    Nefndarmenn í peningastefnunefnd sem ráðherra skipar skulu koma fyrir þá þingnefnd sem þing­forseti ákveður áður en skipun tekur gildi eða svo fljótt sem auðið er. Þeir skulu vera lögráða og mega aldrei hafa verið sviptir forræði á búi sínu. Þeir skulu hafa gott orðspor og mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegn­ingarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga eða gjaldþrot eða þeim sérlögum sem gilda um eftirlitsskylda aðila. Þá er þeim óheimilt að sinna störfum utan bankans sem geta verið til þess fallin að draga óhlutdrægni þeirra í efa. Ráðherra hefur úrskurðar­vald ef ágreiningur rís um beitingu þessa ákvæðis. Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um hæfis­skilyrði nefndarmanna í peningastefnunefnd.

10. gr.

Verkefni peningastefnunefndar.

    Peningastefnunefnd tekur ákvarðanir um vexti skv. 22. gr. til að framfylgja peningastefnu bank­ans. Einnig tekur nefndin ákvarðanir um viðskipti við lánastofnanir önnur en tilgreind eru í 2. mgr. 19. gr. Þá tekur nefndin ákvarðanir um bindiskyldu skv. 23. gr., viðskipti á gjaldeyrismarkaði skv. 27. gr. og viðskipti með verðbréf skv. 20. gr. sem ætlað er að stuðla að því að markmiðum bankans um stöðugt verðlag verði náð.

11. gr.

Fundir peningastefnunefndar.

    Peningastefnunefnd er ályktunarhæf ef fjórir af fimm nefndarmönnum sitja fund nefndarinnar. Ákvarðanir peningastefnunefndar skulu teknar með einföldum meiri hluta, en falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.

    Peningastefnunefnd skal halda fundi að minnsta kosti sex sinnum á ári. Auk þess getur pen­inga­stefnunefnd haldið fund ef formaður ákveður eða þrír nefndarmenn krefjast þess. Pen­inga­stefnu­nefnd setur sér starfsreglur, m.a. um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarð­ana sinna. Opinberlega skal birta fundargerðir peningastefnunefndar og gera grein fyrir ákvörð­unum nefndarinnar og forsendum þeirra. Peningastefnunefnd getur þó ákveðið að skýra ekki frá ákvörð­unum um viðskipti á gjaldeyrismarkaði skv. 27. gr.

    Peningastefnunefnd skal gefa Alþingi skýrslu um störf sín tvisvar á ári. Skýrsluna skal ræða í þeirri þingnefnd sem þingforseti ákveður.

IV. KAFLI

Fjármálastöðugleikanefnd.

12. gr.

Hlutverk og skipan fjármálastöðugleikanefndar.

    Ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabanka Íslands varðandi fjármálastöðugleika, sbr. 13. gr., eru teknar af fjármálastöðugleikanefnd. Ákvarðanir fjármálastöðugleikanefndar skulu grund­vallast á lögum og byggjast á vönduðu mati á ástandi og horfum í fjármálakerfinu. Vegna starfa nefndarinnar skal Seðlabankinn hafa samvinnu við önnur stjórnvöld, þar á meðal ráðuneyti sem fer með málefni fjármálastöðugleika.

    Í fjármálastöðugleikanefnd situr seðlabankastjóri, varaseðlabankastjórar og þrír sérfræðingar í málefnum fjármálamarkaðar eða hagfræði sem ráðherra sem fer með málefni fjármálastöðugleika skipar til fimm ára í senn. Ráðuneytisstjóri, eða tilnefndur embættismaður ráðuneytis sem fer með málefni fjármálastöðugleika, skal eiga sæti á fundum nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar. Samsetning fjármálastöðugleikanefndar skal vera þannig að nefndin búi sam­eigin­lega yfir fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu til að vinna þau verkefni sem nefndinni eru falin. Ráðherra getur aðeins skipað sama mann í fjármálastöðugleikanefnd tvisvar sinnum. Seðla­banka­stjóri er formaður fjármálastöðugleikanefndar og er varaseðlabankastjóri fjármála­stöðugleika staðgengill hans.

    Nefndarmenn í fjármálastöðugleikanefnd sem ráðherra skipar skulu koma fyrir þá þingnefnd sem þingforseti ákveður áður en skipun tekur gildi eða svo fljótt sem auðið er. Þeir skulu vera lögráða og mega aldrei hafa verið sviptir forræði á búi sínu. Þeir skulu hafa gott orðspor og mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga eða gjaldþrot eða þeim sérlögum sem gilda um eftirlitsskylda aðila. Þá er þeim óheimilt að sinna störfum utan bankans sem geta verið til þess fallin að draga óhlutdrægni þeirra í efa. Ráðherra hefur úrskurðar­vald ef ágreiningur rís um beitingu þessarar málsgreinar. Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um hæfisskilyrði nefndarmanna í fjármálastöðugleikanefnd.

13. gr.

Verkefni fjármálastöðugleikanefndar.

    Verkefni fjármálastöðugleikanefndar eru að:

  1. leggja mat á ástand og horfur í fjármálakerfinu, kerfisáhættu og fjármálastöðugleika,
  2. fjalla um og skilgreina þær aðgerðir sem taldar eru nauðsynlegar á hverjum tíma til að hafa áhrif á fjármálakerfið, í þeim tilgangi að efla og varðveita fjármálastöðugleika, og beina í því skyni ábendingum til viðeigandi stjórnvalda þegar tilefni er til,
  3. samþykkja stjórnvaldsfyrirmæli og taka þær ákvarðanir sem nefndinni er falið að taka með lögum,
  4. ákveða hvaða eftirlitsskyldir aðilar, innviðir og markaðir skuli teljast kerfislega mikilvægir og þess eðlis að starfsemi þeirra geti haft áhrif á fjármálastöðugleika.

14. gr.

Fundir fjármálastöðugleikanefndar.

    Fjármálastöðugleikanefnd er ályktunarhæf ef fimm af sjö nefndarmönnum sitja fund nefndar­innar. Ákvarðanir fjármálastöðugleikanefndar skulu teknar með einföldum meiri hluta, en falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.

    Fjármálastöðugleikanefnd skal halda fundi að minnsta kosti fjórum sinnum á ári. Auk þess getur fjármálastöðugleikanefnd haldið fund ef formaður ákveður eða þrír nefndarmenn krefjast þess. Fjármálastöðugleikanefnd setur sér starfsreglur, m.a. um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarðana sinna. Fjármálastöðugleikanefnd skal halda fundargerðir. Opinberlega skal birta ákvarð­anir fjármálastöðugleikanefndar um beitingu stjórntækja á sviði fjármálastöðugleika og gera grein fyrir forsendum þeirra og mati á ástandi, svo og birta fundar­gerðir þess efnis, nema ef ætla má að opinber birting geti haft neikvæð áhrif á fjármálastöðugleika. Fundargerðir og gögn sem eru unnin fyrir fjármálastöðugleikanefnd eða eru þar til meðferðar eru undanþegin upplýsingarétti sam­kvæmt upplýsingalögum og stjórnsýslulögum.

    Fjármálastöðugleikanefnd skal skila Alþingi skýrslu um störf sín einu sinni á ári. Skýrsluna skal ræða í þeirri þingnefnd sem þingforseti ákveður.

V. KAFLI

Fjármálaeftirlitsnefnd.

15. gr.

Hlutverk og skipan fjármálaeftirlitsnefndar.

    Fjármálaeftirlitsnefnd skal taka ákvarðanir sem faldar eru Fjármálaeftirlitinu samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Nefndin getur framselt til varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits vald sitt til töku ákvarðana sem ekki teljast meiri háttar.

    Í fjármálaeftirlitsnefnd situr varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, varaseðlabankastjóri fjár­mála­stöðugleika og þrír sérfræðingar í málefnum fjármálamarkaðar sem ráðherra sem fer með mál­efni fjármálamarkaðar skipar til fimm ára í senn. Samsetning fjármálaeftirlitsnefndar skal vera þannig að nefndin búi sameiginlega yfir fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu til að vinna þau verk­efni sem nefndinni eru falin. Ráðherra getur aðeins skipað sama mann í fjármálaeftirlitsnefnd tvisvar sinnum. Varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits er formaður fjármálaeftirlitsnefndar og er vara­seðlabanka­stjóri fjármálastöðugleika staðgengill hans. Við töku ákvarðana um setningu starfsreglna skv. 2. mgr. 16. gr., ákvarðana um framsal valds til vara­seðlabanka­stjóra fjármálaeftirlits til töku ákvarðana sem teljast ekki meiri háttar ákvarðanir sem og ákvarðana sem varða eigið fé, laust fé og fjármögnun kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja tekur seðlabanka­stjóri sæti í fjármála­eftirlits­nefnd sem formaður nefndarinnar og er þá vara­seðlabanka­stjóri fjármálaeftirlits staðgengill hans.

    Nefndarmenn í fjármálaeftirlitsnefnd sem ráðherra skipar skulu koma fyrir þá þingnefnd sem þingforseti ákveður áður en skipun tekur gildi eða svo fljótt sem auðið er. Þeir skulu vera lögráða og mega aldrei hafa verið sviptir forræði á búi sínu. Þeir skulu hafa gott orðspor og mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga eða gjaldþrot eða þeim sérlögum sem gilda um eftirlitsskylda aðila. Þá er þeim óheimilt að sinna störfum utan bankans sem geta verið til þess fallin að draga óhlutdrægni þeirra í efa. Ráðherra hefur úrskurðar­vald ef ágreiningur rís um beitingu þessa ákvæðis. Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um hæfisskilyrði nefndarmanna í fjármálaeftirlitsnefnd.

16. gr.

Fundir fjármálaeftirlitsnefndar.

    Fjármálaeftirlitsnefnd er ályktunarhæf ef fjórir nefndarmenn sitja fund nefndarinnar. Ákvarðanir fjármálaeftirlitsnefndar skulu teknar með einföldum meiri hluta, en falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.

    Fjármálaeftirlitsnefnd skal halda fundi að jafnaði tíu sinnum á ári. Auk þess getur fjármála­eftirlits­nefnd haldið fund ef formaður ákveður eða þrír nefndarmenn krefjast þess. Fjármála­eftirlits­nefnd setur sér starfsreglur, m.a. um undirbúning, rökstuðning og birtingu ákvarðana sinna. Fjármálaeftirlitsnefnd skal halda fundargerðir. Fjármálaeftirlitsnefnd er heimilt að birta opinber­lega ákvarðanir sínar. Þó skal ekki birta ákvörðun verði hún talin stefna hagsmunum fjármála­mark­aðarins í hættu, varði hún ekki hagsmuni markaðarins sem slíks eða ef ætla má að birting hennar valdi hlutaðeigandi aðilum tjóni sem telst ekki í samræmi við tilefni ákvörðunarinnar.

    Fjármálaeftirlitsnefnd skal skila Alþingi skýrslu um störf sín einu sinni á ári. Skýrsluna skal ræða í þeirri þingnefnd sem þingforseti ákveður.

VI. KAFLI

Útgáfa seðla og myntar.

17. gr.

    Seðlabanki Íslands hefur einkarétt til þess að gefa út peningaseðla og láta slá og gefa út mynt eða annan gjaldmiðil sem getur gengið manna á milli í stað peningaseðla eða löglegrar myntar.

    Seðlar og mynt sem Seðlabankinn gefur út skulu vera lögeyrir til allra greiðslna með fullu ákvæðis­verði.

    Tilefnismynt sem Seðlabankinn gefur út skal vera lögeyrir til allra greiðslna með fullu ákvæðis­verði. Seðlabankanum er heimilt að ákveða að tilefnismynt sé seld með álagi á ákvæðis­verð hennar. Ágóða af sölu tilefnismyntar skal varið til lista, menningar eða vísinda sam­kvæmt ákvörðun ráðherra.

    Ráðherra ákveður að fengnum tillögum Seðlabankans lögun, útlit og fjárhæð seðla þeirra og myntar sem bankinn gefur út og lætur birta auglýsingu um það efni.

VII. KAFLI

Viðskipti Seðlabanka Íslands o.fl.

18. gr.

Innlán.

    Seðlabanki Íslands tekur við innlánum frá þeim lánastofnunum sem teljast til viðskiptabanka, sparisjóða og útibúa erlendra innlánsstofnana hér á landi og frá öðrum aðilum sem heimilt er lögum samkvæmt að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar.

    Seðlabankanum er heimilt að taka við innlánum frá þátttakendum í greiðslukerfi Seðlabankans, öðrum lánastofnunum en taldar eru upp í 1. mgr., lánasjóðum, verðbréfafyrirtækjum, rekstrar­félögum verðbréfasjóða og verðbréfamiðstöðvum.

    Seðlabankinn setur nánari reglur um viðskipti sín samkvæmt þessari grein, þar á meðal hvaða aðilum sem tilgreindir eru í 2. mgr. er heimilt að eiga innstæður í bankanum.

19. gr.

Lánveitingar.

    Til að framfylgja aðgerðum Seðlabanka Íslands í peningamálum og til að efla og varðveita fjármálastöðugleika getur bankinn veitt viðskiptabönkum, sparisjóðum og öðrum sem hafa heimild til að taka við innlánum frá almenningi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki lán með kaupum á verðbréfum eða á annan hátt gegn tryggingum sem Seðlabankinn metur hæfar. Seðlabankanum er heimilt að veita þátttakendum í greiðslukerfi Seðlabankans og öðrum lánastofnunum en taldar eru upp í 1. mgr. 18. gr. lán með kaupum á verðbréfum eða á annan hátt gegn tryggingum sem bankinn metur hæfar. Lánsviðskipti Seðlabankans geta verið í innlendri eða erlendri mynt. Seðla­bankinn setur reglur um viðskipti sín samkvæmt þessari málsgrein.

    Þegar sérstaklega stendur á og Seðlabankinn telur þess þörf til að varðveita stöðugleika fjármálakerfis landsins getur hann veitt lánastofnunum í lausafjárvanda ábyrgðir eða önnur lán en um ræðir í 1. mgr. á sérstökum kjörum og gegn öðrum tryggingum en um getur í sömu málsgrein eða með öðrum skilyrðum sem bankinn setur. Heimild þessi nær ekki til fyrirgreiðslu til lána­stofnunar til þess að gera henni kleift að uppfylla skilyrði laga um lágmarks eigið fé.

    Ákvarðanir um veitingu ábyrgða og lána skv. 2. mgr. skulu teknar af seðlabankastjóra og vara­seðlabankastjórum, sbr. 3. mgr. 3. gr.

    Seðlabankinn skal upplýsa ráðherra sem fer með efnahags- og fjármál um lánveitingar á grund­velli 2. mgr.

20. gr.

Viðskipti með verðbréf.

    Til að ná markmiðum sínum um að stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi skv. 2. gr. kaupir Seðlabanki Íslands og selur ríkistryggð verðbréf og önnur trygg innlend verðbréf á verðbréfamarkaði eða í beinum viðskiptum við lánastofnanir.

21. gr.

Útgáfa verðbréfa.

    Seðlabanka Íslands er heimilt að gefa út framseljanleg verðbréf í innlendri eða erlendri mynt til að selja lánastofnunum sem geta átt innlánsviðskipti við hann, sbr. 18. gr.

22. gr.

Vextir.

    Seðlabanki Íslands ákveður vexti af innlánum við bankann, af lánum sem hann veitir og af verðbréfum sem hann gefur út.

23. gr.

Bindiskylda.

    Seðlabanka Íslands er heimilt að ákveða að lánastofnanir skuli eiga fé á bundnum reikningi í bankanum. Honum er einnig heimilt að ákveða að tiltekinn hluti aukningar innlána eða ráðstöf­unar­fjár við hverja stofnun skuli bundinn á reikningi í bankanum, enda fari heildarfjárhæð sem viðkom­andi stofnun er skylt að eiga í Seðlabankanum ekki fram úr því hámarki sem sett er skv. 1. málsl. Enn fremur er Seðlabankanum heimilt að ákveða að verðbréfasjóðir skuli eiga fé á bundnum reikningi í bankanum.

    Seðlabankinn setur nánari reglur um grundvöll og framkvæmd bindingar samkvæmt þessari grein, þar á meðal til hvaða lánastofnana hún tekur. Í þeim má ákveða að bindihlutfall sé mismunandi eftir eðli lánastofnana og verðbréfasjóða og flokkum innlána og annarra skuldbindinga sem bindingin nær til. Gæta skal jafnræðis við ákvörðun bindiskyldu þannig að hún valdi ekki röskun á samkeppnisstöðu milli innlendra fyrirtækja sem sæta innlánsbindingu.

24. gr.

Gjaldeyrisjöfnuður.

    Seðlabanka Íslands er heimilt, að fengnu samþykki fjármálastöðugleikanefndar, að setja lána­stofnunum reglur um gjaldeyrisjöfnuð. Seðlabankinn skilgreinir hvaða eignir og skuldir skuli telja til gjaldeyrisjafnaðar, sundurliðun þeirra og vægi. Til slíks jafnaðar er heimilt að telja skuld­bind­ingar og kröfur sem tengdar eru erlendum gjaldmiðlum utan efnahags, svo sem framvirka samn­inga og valréttarsamninga. Í reglum um gjaldeyrisjöfnuð má ákveða að mismunandi ákvæði gildi um ein­staka flokka lánastofnana.

25. gr.

Þjónusta við ríkissjóð.

    Seðlabanki Íslands annast hvers konar bankaþjónustu fyrir ríkissjóð aðra en lánafyrirgreiðslu, sbr. 26. gr. Innstæður ríkissjóðs skulu varðveittar á reikningum í Seðlabankanum nema sérstakar aðstæður gefi tilefni til annars.

    Seðlabankinn skal vera ríkisstjórn til ráðuneytis um allt sem varðar gjaldeyrismál, þar á meðal erlendar lántökur, og taka að sér framkvæmd í þeim efnum eftir því sem um verður samið.

26. gr.

Bann við lánveitingum.

    Seðlabanka Íslands er óheimilt að veita ríkissjóði, sveitarfélögum og ríkisstofnunum öðrum en lánastofnunum lán.

    Verðbréf, sem skráð eru á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga og gefin eru út af þeim aðilum sem um ræðir í 1. mgr. og Seðlabankinn kaupir á verðbréfamarkaði eða af lánastofnunum til að ná markmiðum sínum, skulu ekki teljast lán samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.

27. gr.

Gjaldeyrisviðskipti o.fl.

    Seðlabanki Íslands stundar viðskipti með erlendan gjaldeyri, hefur milligöngu um gjaldeyris­viðskipti og stundar önnur erlend viðskipti sem samrýmast markmiðum og hlutverki bank­ans.

    Seðlabankinn setur reglur um starfsemi skipulegra gjaldeyrismarkaða eftir því sem kveðið er á um í lögum um gjaldeyrismál.

    Þegar sérstaklega stendur á getur Seðlabankinn tímabundið takmarkað eða stöðvað viðskipti á skipulegum gjaldeyrismörkuðum.

28. gr.

Önnur viðskipti Seðlabanka Íslands.

    Seðlabanki Íslands stundar önnur banka- og verðbréfaviðskipti sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka. Í því skyni er bankanum meðal annars heimilt að stofna eða eiga aðild að og hlut í fyrirtækjum og stofnunum á sviði kauphallarstarfsemi, verðbréfaskráningar og greiðslumiðlunar og vegna umsýslu fullnustueigna og krafna og annarra verkefna sem tengjast starfsemi bankans.

    Seðlabankanum er óheimilt að annast viðskipti við einstaklinga og fyrirtæki sem samkvæmt lögum, venju eða eðli máls teljast verkefni annarra. Honum er þó heimilt að annast frumsölu og innlausn verðbréfa sem ríkissjóður hefur gefið út.

VIII. KAFLI

Gengismál, gjaldeyrismarkaður og erlend samskipti.

29. gr.

Gengisskráning.

    Hvern virkan dag sem skipulegir gjaldeyrismarkaðir eru almennt starfandi skal Seðlabanki Íslands skrá gengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum. Það gengi skal notað til viðmiðunar í opinberum samningum, dómsmálum og öðrum samningum milli aðila þegar önnur gengisviðmiðun er ekki sérstaklega tiltekin. Enn fremur getur Seðlabankinn ákveðið að skrá gengi krónunnar á þeim dögum sem skipulegir gjaldeyrismarkaðir eru almennt ekki starfandi. Þegar sérstaklega stendur á getur Seðlabankinn tímabundið fellt niður skráningu á gengi krónunnar.

30. gr.

Gjaldeyrisforði.

    Seðlabanki Íslands varðveitir gjaldeyrisforða í samræmi við markmið og hlutverk bankans. Seðlabankastjóri og varaseðlabankastjórar setja starfsreglur um varðveislu gjaldeyrisforðans.

    Seðlabankanum er heimilt að taka lán til að efla gjaldeyrisforðann. Honum er jafnframt heimilt að taka þátt í samstarfi erlendra seðlabanka og alþjóðlegra banka- eða fjármálastofnana um lánveitingar til að efla gjaldeyrisforða þátttakenda.

31. gr.

Samskipti við alþjóðlegar stofnanir.

    Seðlabanki Íslands annast samskipti og viðskipti við alþjóðlegar stofnanir á starfssviði sínu, sem seðla­banki og eftirlitsaðili á fjármálamarkaði, í umboði ríkisstjórnarinnar eða eftir því sem honum er falið með lögum.

    Seðlabankinn fer með fjárhagsleg tengsl við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fyrir hönd ríkisins. Ráð­herra skipar einn mann og annan til vara til fimm ára í senn til þess að taka sæti í sjóðsráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

    Seðlabankanum er jafnframt heimilt að eiga aðild að öðrum alþjóðlegum stofnunum, enda samrýmist það hlutverki hans sem seðlabanka og eftirlitsaðila á fjármálamarkaði.

IX. KAFLI

Öflun upplýsinga, rannsóknir og skýrslugerð.

32. gr.

Öflun upplýsinga.

    Til þess að sinna verkefnum sínum skv. 2. gr. og fullnægja eftirliti með reglum sem settar eru samkvæmt lögum þessum getur Seðlabanki Íslands milliliðalaust aflað upplýsinga frá þeim sem eru í viðskiptum við bankann skv. 18. gr., sbr. 19. gr., auk fyrirtækja í greiðslumiðlun og annarra fyrirtækja eða aðila sem lúta opinberu eftirliti með starfsemi sinni, sbr. lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Seðlabankinn getur í sama tilgangi einnig aflað upplýsinga frá lögaðilum um eignir og fjárhagslegar skuldbindingar í innlendum og erlendum gjaldeyri, svo sem beinar fjár­festingar, verðbréfafjárfestingar, aðrar fjárfestingar í framseljanlegum fjármálagerningum, lána­viðskipti, ábyrgðarskuldbindingar, afleiðuviðskipti og útgáfu skuldabréfa og annarra skulda­gern­inga. Upplýsingar skv. 1. og 2. málsl. skulu afhentar á því formi sem Seðlabankinn ákveður. Skylt er, að viðlögðum viðurlögum skv. 44. og 45. gr., að láta Seðlabankanum í té allar upp­lýs­ingar og gögn sem bankinn telur nauðsynleg. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu ann­arra stjórnvalda, fjármálafyrirtækja, greiðslustofnana og rafeyrisfyrirtækja til þess að veita upp­lýs­ingar og aðgang að gögnum.

    Skylt skal öllum að láta Seðlabankanum í té þær upplýsingar sem hann þarf á að halda til hagskýrslugerðar að viðlögðum viðurlögum skv. 44. og 45. gr.

    Seðlabanki Íslands getur sett nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.

33. gr.

Upplýsingar frá stjórnvöldum.

    Stjórnvöld veita Seðlabanka Íslands þær upplýsingar um efnahagsmál, opinber fjármál og lán­tökur sem nauðsynlegar eru fyrir starfsemi bankans.

34. gr.

Skýrslur Seðlabanka Íslands.

    Seðlabanki Íslands gerir skýrslur og áætlanir um peningamál, fjármálastöðugleika, fjármála­starfsemi, greiðslujöfnuð, gengis- og gjaldeyrismál og annað sem hlutverk og stefnu bank­ans varðar, þ.m.t. árangur markmiða. Seðlabankinn skal gefa út ársskýrslu þar sem hann gerir ítar­lega grein fyrir starfsemi sinni.

35. gr.

Hagrannsóknir og fræðsla.

    Seðlabanki Íslands stundar hagrannsóknir sem lúta að viðfangsefnum bankans á sviði pen­inga­mála, fjármálastöðugleika og fjármálakerfis. Jafnframt er bankanum heimilt að stuðla að rann­sóknum annarra á þessum sviðum.

    Seðlabankinn skal stuðla að aukinni fræðslu um peningastefnuna og hlutverk Seðlabankans við að tryggja fjármálastöðugleika og heilbrigði fjármálakerfisins.

36. gr.

Ytra mat.

    Á fimm ára fresti skal ráðherra fela þremur óháðum sérfræðingum á sviði peninga- og fjár­mála­hagfræði og fjármálaeftirlits að gera úttekt um hvernig Seðlabanka Íslands hefur tekist að upp­fylla markmið um stöðugt verðlag, fjármálastöðugleika og framkvæmd fjármálaeftirlits. Jafn­framt skal litið til annarra þátta í starfsemi bankans, svo sem skipulags, verkaskiptingar og vald­sviðs. Einn sérfræðinganna skal hafa haldgóða þekkingu á íslensku efnahagslífi en hinir tveir skulu hafa víðtæka þekkingu og reynslu af alþjóðlegri fjármálastarfsemi og rekstri seðlabanka utan Íslands.

X. KAFLI

Reikningsskil og ráðstöfun hagnaðar.

37. gr.

Reikningsskil.

    Reikningsár Seðlabanka Íslands er almanaksárið. Fyrir hvert reikningsár skal gera ársreikning og skal gerð hans lokið innan þriggja mánaða frá lokum reikningsárs. Um gerð ársreiknings fer, eftir því sem við á, eftir lögum um ársreikninga, lögum um bókhald og reglum settum á grundvelli þeirra laga.

    Eigið fé sem er innkallanlegt, sbr. 3. mgr. 40. gr., en ekki innborgað skal sýna meðal eigin­fjár­reikninga. Jafnframt skal dreginn frá sá hluti sem er óinnborgaður.

    Við reikningsskil Seðlabankans er heimilt að halda sérstaka reikninga meðal eiginfjárreikninga sem taka til óinnleystra tekna og gjalda.

    Ráðherra setur nánari reglur um reikningsskil og ársreikning að fengnum tillögum Seðlabankans, sbr. f-lið 1. mgr. 8. gr.

38. gr.

Endurskoðun.

    Ríkisendurskoðun skal annast endurskoðun hjá Seðlabanka Íslands.

    Að lokinni endurskoðun á ársreikningi bankans skal hann undirritaður af seðlabankastjóra og staðfestur af bankaráði, sbr. g-lið 1. mgr. 8. gr. Hafi bankaráðsmaður fram að færa athugasemdir við ársreikning skal hann undirritaður með fyrirvara og koma skal fram hvers eðlis fyrirvarinn er.

    Endurskoðaður reikningur skal lagður fyrir ráðherra til áritunar eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok reikningsárs.

    Ársreikning Seðlabankans skal birta í ársskýrslu bankans, sbr. 34. gr. Enn fremur skal bankinn birta mánaðarlegt efnahagsyfirlit. Seðlabankinn skal að auki birta óendurskoðað ársfjórð­ungs­uppgjör innan fjögurra vikna frá lokum síðasta ársfjórðungs.

39. gr.

Innri endurskoðun.

    Bankaráð hefur umsjón með innri endurskoðun við Seðlabanka Íslands og ræður innri endur­skoðanda, sbr. 8. gr.

    Innri endurskoðandi skal hafa sérþekkingu á sviði innri endurskoðunar, hafa lokið háskólaprófi sem nýtist í starfi og búa yfir nægilegri reynslu til þess að geta sinnt starfi sínu.

    Innri endurskoðandi skal hafa með höndum kerfisbundið, óháð og hlutlægt mat á virkni áhættu­stýringar, innra eftirlits og stjórnarhátta Seðlabankans. Hann skal starfa samkvæmt áhættu­miðaðri endurskoðunaráætlun sem staðfest er af bankaráði og uppfærð reglulega.

40. gr.

Eiginfjármarkmið.

    Seðlabanki Íslands skal búa yfir fjárhagslegum styrk sem gerir honum kleift að rækja lögbundið hlutverk sitt. Í því skyni skal Seðlabankinn á hverju ári ákveða eiginfjármarkmið fyrir bankann. Eiginfjármarkmiðið endurspeglar þörf bankans fyrir eigið fé og vaxtaberandi eignir og skal það taka mið af kostnaði af rekstri bankans og þeirri áhættu og óvissu sem bankinn stendur frammi fyrir á hverjum tíma. Ákvörðun um eiginfjármarkmið, staðfest af bankaráði, skal birt í ársskýrslu bankans, sbr. 34. gr.

    Árlegur hagnaður Seðlabankans á liðnu rekstrarári, að teknu tilliti til óinnleystra reiknaðra tekna og gjalda, sbr. 3. mgr. 37. gr., skal renna í ríkissjóð svo fremi sem honum er ekki ráðstafað til að efla eigið fé bankans. Greiðsla fer fram eigi síðar en 30. apríl hvert ár. Ákveði bankinn að ráðstafa hagnaði til eflingar á eigin fé, að hluta eða í heild, skal það gert til að uppfylla eiginfjármarkmið, sbr. 1. mgr., og að fenginni umsögn ráðherra. Skal bankinn þá kynna ráðherra mat sitt á eiginfjármarkmiði og ráðstöfun hagnaðar til næstu þriggja ára.

    Ríkissjóður skuldbindur sig, á grundvelli heimildar í fjárlögum, til að leggja Seðlabankanum til eigið fé í formi markaðshæfra eigna samkvæmt innköllun bankans þar að lútandi, enda telji bankinn það nauðsynlegt í þeim tilgangi að uppfylla lágmarkskröfur um innborgað eigið fé. Heildarfjárhæð innkallanlegs eigin fjár samkvæmt þessari málsgrein er 57,2 milljarðar kr. Eftirstöðvar innkallanlegs eigin fjár færast upp við hver áramót með hækkun vísitölu neysluverðs. Í fjárlögum skal miða gildi vísitölunnar við 1. janúar á því ári þegar frumvarp til þeirra laga er lagt fram. Ráðherra, f.h. ríkissjóðs, og Seðlabanka Íslands er heimilt að gera með sér samkomulag um nánari framkvæmd þessa ákvæðis.

XI. KAFLI

Ýmis ákvæði.

41. gr.

Þagnarskylda.

    Bankaráðsmenn, seðlabankastjóri, varaseðlabankastjórar, nefndarmenn í peningastefnunefnd, fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd og aðrir starfsmenn Seðlabanka Íslands eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans, viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila, tengdra aðila eða annarra og málefni bankans sjálfs, svo og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða til lögreglu eða skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Sama gildir um sérfræðinga, verktaka og aðra sem starfa fyrir eða á vegum bankans. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

    Bankaráðsmönnum, seðlabankastjóra, varaseðlabankastjórum, nefndarmönnum í peninga­stefnu­nefnd, fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd og öðrum starfsmönnum Seðla­bank­ans er óheimilt að nýta sér trúnaðarupplýsingar sem þeir komast yfir vegna starfs síns í bank­anum, þar á meðal í þeim tilgangi að hagnast eða forðast fjárhagslegt tjón í viðskiptum.

    Upplýsingar skv. 1. mgr. má veita í samandregnu formi þannig að einstakir aðilar séu ópersónu­greinanlegir.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er Seðlabankanum heimilt að eiga upplýsingaskipti við opinbera aðila um atriði sem lög þessi taka til þegar upplýsingaskiptin eru í samræmi við lögmælt hlutverk Seðlabankans eða móttakanda. Sá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu á sama hátt og þar greinir.

    Upplýsingar sem háðar eru þagnarskyldu samkvæmt sérlögum eða öðrum lögum eru háðar sambærilegri þagnarskyldu þegar þær hafa verið afhentar Seðlabankanum.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er Seðlabankanum heimilt að birta upplýsingar opinberlega, enda vegi hagsmunir almennings af birtingunni þyngra en hagsmunir sem mæla með leynd. Þegar viðskipta­maður bankans eða eftirlitsskyldur aðili er gjaldþrota eða þvinguð slit fara fram er heimilt við rekstur einkamála að upplýsa um atriði sem þagnarskylda gildir annars um skv. 1. mgr. Þagnar­skyldan gildir þó um upplýsingar sem varða þriðja aðila sem á hlut að björgunaraðgerðum vegna viðskiptamanns eða eftirlitsskylds aðila.

    Seðlabanka Íslands er heimilt að veita eftirlitsstjórnvöldum annarra aðildarríkja EES-samn­ings­ins, stofnunum EFTA, Seðlabanka Evrópu og evrópskum eftirlitsstofnunum á sviði fjármála­starfsemi, sbr. lög um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, upplýsingar sem háðar eru þagnar­skyldu skv. 1. mgr. sé það liður í samstarfi ríkjanna um eftirlit með starfsemi aðila á fjár­mála­markaði og slík upplýsingagjöf sé gagnleg til að unnt sé að framfylgja lögmæltu eftirliti. Slíkar upp­lýsingar má einungis veita með því skilyrði að um þær gildi þagnarskylda í hlutaðeigandi ríki eða hjá viðkomandi stofnun. Þagnarskylda skv. 1. mgr. gildir um hliðstæðar upplýsingar sem Seðla­banki Íslands fær frá eftirlitsstjórnvöldum annarra aðildarríkja, stofnunum EFTA og evrópskum eftirlits­stofnunum á sviði fjármálastarfsemi.

42. gr.

Undanþága frá tekjuskatti.

    Seðlabanki Íslands er undanþeginn tekjuskatti samkvæmt lögum um tekjuskatt eins og þau eru á hverjum tíma.

43. gr.

Gjaldskrá.

    Seðlabanka Íslands er heimilt að innheimta gjöld fyrir þjónustu sína, svo sem vegna viðskipta sem bankanum er heimilt að eiga á grundvelli laga þessara, þ.m.t. gjaldeyriskaupa og sölu, inn- og útlána og viðskipta með verðbréf, auk greiðslumiðlunar og rekstrar fjármálainnviða. Gjaldtaka Seðla­bankans skal miðuð við að hún standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er.

    Seðlabankinn setur sér gjaldskrá fyrir hvers kyns þjónustu skv. 1. mgr. og skal hún staðfest af bankaráði, sbr. k-lið 1. mgr. 8. gr., og birt í Stjórnartíðindum.

44. gr.

Dagsektir.

    Seðlabanki Íslands getur lagt dagsektir á lánastofnanir og verðbréfasjóði sem hlíta ekki reglum bankans um bindiskyldu, gjaldeyrisjöfnuð og lán tengd erlendum gjaldmiðlum. Seðlabankanum er einnig heimilt að leggja dagsektir á þá aðila sem vanrækja að veita bankanum upplýsingar, sem hann á rétt á samkvæmt lögum þessum, eða veita bankanum vísvitandi rangar upplýsingar. Greiðast dagsektirnar þangað til farið hefur verið að kröfum Seðlabankans. Dagsektirnar geta numið frá 10.000 kr. til 1 millj. kr. á dag. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis brots og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila.

    Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. innan 14 daga frá því að viðkomandi aðila var tilkynnt um hana og óski hann jafnframt eftir að málið hljóti flýtimeðferð er ekki heimilt að innheimta dagsektir fyrr en dómur hefur fallið. Þrátt fyrir málshöfðun til ógildingar ákvörðunar skv. 1. mgr. leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.

    Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þótt aðilar verði síðar við kröfum Seðlabankans nema Seðlabankinn ákveði það sérstaklega.

    Ákvarðanir um dagsektir samkvæmt þessari grein eru aðfararhæfar.

    Innheimtar dagsektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.

    Heimilt er að kveða nánar á um ákvörðun og innheimtu dagsekta í reglugerð.

45. gr.

Viðurlög.

    Fyrir brot á lögum þessum skal refsað með sektum eða fangelsi allt að einu ári liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum. Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsi­verð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

    Gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum óháð því hvort sök er sönnuð á tiltekinn fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðilans eða annan aðila sem starfar á hans vegum.

46. gr.

Reglugerðir og reglur bankans.

    Ráðherra getur, að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands, sett með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd einstakra ákvæða laga þessara.

    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur um viðfangsefni sín samkvæmt lögum þessum. Seðla­bankinn birtir reglur sem hann setur samkvæmt lögum þessum þannig að þær séu aðgengi­legar almenningi.

47. gr.

Gildistaka.

 

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020. Frá sama tíma falla úr gildi lög um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, með síðari breytingum. Við gildistöku þessara laga flytjast öll verkefni Fjármálaeftirlitsins til Seðlabanka Íslands.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Þrátt fyrir ákvæði 47. gr. er ráðherra heimilt að auglýsa og skipa varaseðlabankastjóra fyrir 1. janúar 2020. Þá er ráðherra heimilt fyrir 1. janúar 2020 að skipa verkefnisstjórn til að undirbúa gildistöku þessara laga. Í verkefnisstjórninni skulu eiga sæti einn fulltrúi ráðherra sem fer með mál­efni Seðlabanka Íslands, einn fulltrúi ráðherra sem fer með málefni fjármálamarkaða, einn full­trúi Seðlabanka Íslands og einn fulltrúi Fjármálaeftirlitsins.

II.

    Seðlabankastjóri skal við gildistöku laga þessara halda embætti sínu til loka skipunartíma síns.

    Embætti aðstoðarseðlabankastjóra verður lagt niður þegar lög þessi öðlast gildi og er ráðherra heimilt án auglýsingar að flytja núverandi aðstoðarseðlabankastjóra í nýtt embætti vara­seðlabanka­stjóra skv. 36. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Laun þeirra sem fluttir eru í embætti varaseðlabankastjóra samkvæmt þeirri grein skulu taka breyt­ingum 1. júlí ár hvert miðað við þær forsendur sem lýst er í 3. mgr. 5. gr. laga þessara.

III.

    Þeir sem sitja í bankaráði Seðlabanka Íslands við gildistöku laga þessara og varamenn þeirra skulu halda umboði sínu til setu í ráðinu þar til nýtt bankaráð hefur verið kjörið að loknum næstu kosningum til Alþingis.

IV.

    Þeir tveir sérfræðingar á sviði efnahags- og peningamála sem við gildistöku laga þessara sitja í peningastefnunefnd á grundvelli skipunar ráðherra skulu halda umboði til setu í nefndinni þar til skipunartími þeirra rennur út.

V.

    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 28. gr. er Seðlabanka Íslands heimilt að annast viðskipti við einstak­linga og fyrirtæki, enda sé um að ræða viðskipti sem Seðlabankinn metur nauðsynleg til að hægt sé að losa um takmarkanir sem settar hafa verið á fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti. Þá er Seðlabankanum heimilt, í þeim tilgangi að draga úr, koma í veg fyrir eða gera kleift að bregð­ast við neikvæðum áhrifum á stöðugleika í gengis- og peningamálum, að taka á móti hvers kyns fjárhags­legum verðmætum, þ.m.t. kröfuréttindum, fjármálagerningum og eignarhlutum í félögum og öðrum réttindum yfir þeim í tengslum við áætlanir um losun fjármagnshafta.

    Þau verðmæti sem Seðlabankinn tekur á móti á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. skulu renna í ríkis­sjóð. Laust fé, þ.m.t. söluandvirði eigna að frádregnum kostnaði við úrvinnslu og ráðstöfun eign­anna, skal varðveitt á sérstökum reikningum ríkissjóðs í bankanum. Bankasýsla ríkisins fer með eignar­hlut ríkisins í Íslandsbanka.

    Ráðstöfun ríkisins á verðmætum skv. 2. málsl. 1. mgr. skal samrýmast markmiðum um efna­hags­legan og fjármálalegan stöðugleika. Í frumvarpi til fjárlaga skal gerð grein fyrir áætlaðri með­ferð og ráðstöfun verðmætanna. Ráðherra skal hafa samráð við Seðlabankann um mat á áhrifum þessa á efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika og kynna málið fyrir efnahags- og viðskipta­nefnd á undirbúningsstigi fjárlagafrumvarps.

VI.

    Fyrir lok árs 2021 skal ráðherra flytja Alþingi skýrslu þriggja óháðra sérfræðinga á sviði peninga- og fjármálahagfræði og fjármálaeftirlits um reynsluna af starfi nefnda Seðlabanka Íslands eftir gildistöku laganna, m.a. með hliðsjón af skiptingu verkefna á milli fjármálastöðugleikanefndar og fjármálaeftirlitsnefndar. Meta skal sérstaklega reynsluna af varúðar- og viðskiptaháttaeftirliti innan bankans og mögulega orðsporsáhættu vegna þess.

VII.

    Úttekt skv. 36. gr. skal gera fyrsta sinni fyrir lok árs 2022.

Gjört á Bessastöðum, 1. júlí 2019.

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Katrín Jakobsdóttir.


A deild - Útgáfud.: 15. júlí 2019