Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 12/2023

Nr. 12/2023 30. mars 2023

LÖG
um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997 (gjaldmiðlaáhætta og upplýsingagjöf til sjóðfélaga).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:

  1. Í stað orðanna „skal nema“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: skal að meðaltali nema.
  2. Í stað tilvísunarinnar „1. og 3. málsl. 1. mgr.“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: 1. og 2. málsl. 1. mgr.
  3. 4. mgr. orðast svo:
        Lífeyrissjóði sem ráðstafar lífeyrisiðgjaldi til lágmarkstryggingaverndar og viðbótar­trygginga­verndar skv. 2. mgr. 3. gr. er heimilt að veita sjóðfélaga sömu lágmarks­trygginga­vernd og skv. 3. málsl. 2. mgr.

 

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:

  1. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnframt ber lífeyrissjóði að veita nýjum sjóðfélaga upplýsingar um helstu réttindi sem ávinnast við greiðslu iðgjalda ásamt upp­lýsingum um skipulag og stefnu lífeyrissjóðsins.
  2. 4. mgr. orðast svo:
        Lífeyrissjóðum er heimilt að birta yfirlit og upplýsingar skv. 2. og 3. mgr. á rafrænan hátt þar sem rafrænnar auðkenningar sjóðfélaga er krafist. Við rafræna birtingu upplýsinga skv. 2. mgr. sem teljast almenns eðlis þarf þó ekki að krefjast rafrænnar auðkenningar sjóð­félaga. Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. málsl. skal sjóðfélagi sem eftir því óskar fá gögn og upp­lýs­ingar á pappírsformi sér að kostnaðarlausu.

 

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. b laganna:

  1. Við 3. tölul. 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó er heimilt að virði afleiðna skv. a-lið 6. tölul. 2. mgr. 36. gr. a sé neikvætt um allt að 10% heildareigna.
  2. Við 1. málsl. 5. mgr. bætist: og skilmálar samningsins vera í samræmi við rammasamning Alþjóðasamtaka um skiptasamninga og afleiður.
  3. Orðin „og skal tryggt að unnt sé að selja, gera upp eða loka slíkum samningum samdægurs á raunvirði hverju sinni“ í 2. málsl. 5. mgr. falla brott.

 

4. gr.

    Við 1. mgr. 36. gr. c laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við mat á hlutfalli afleiðna skv. 1. og 2. málsl. skal hrein neikvæð staða metin á sama hátt og hrein jákvæð staða.

 

5. gr.

    36. gr. d laganna orðast svo:

    Lífeyrissjóður skal takmarka gjaldmiðlaáhættu sína með því að tryggja að að lágmarki 35% af heildareignum sjóðsins séu í sama gjaldmiðli og skuldbindingar hans.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal lífeyrissjóður fram til ársins 2024 tryggja að að lágmarki 50% af heildareignum sjóðsins séu í sama gjaldmiðli og skuldbindingar hans. Hinn 1. janúar 2024 lækkar það lágmark í 48,5% og um 1,5 prósentustig 1. janúar ár hvert til 1. janúar 2027. Eftir það lækkar lágmarkið um eitt prósentustig 1. janúar ár hvert þar til það nær 35% 1. janúar 2036, sbr. 1. mgr.

    Lífeyrissjóður skal, þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr., eiga eignir í sama gjaldmiðli og skuld­bind­ingar sem jafngilda væntum lífeyrisgreiðslum sameignarhluta hans til næstu þriggja ára.

    Eigi síðar en árið 2027 skal ráðherra leggja mat á það hvort tilefni er til að leggja til aðrar breytingar á hlutföllum lágmarksins en þær sem koma fram í 2. mgr.

    Lífeyrissjóði er heimilt að fullnægja skilyrði 1. og 2. mgr. með afleiðum sem takmarka gjald­miðla­áhættu á sambærilegan hátt.

 

6. gr.

    Við 37. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

    Ef breytingar á gengi íslensku krónunnar eða verðhækkanir á erlendum eignamörkuðum leiða til þess að gjaldmiðlaáhætta lífeyrissjóða fer fram úr leyfilegum mörkum, sbr. 1. og 2. mgr. 36. gr. d, á ákvæði 1. mgr. ekki við nema að því leyti að tilkynningarskylda til Fjármálaeftirlitsins helst óbreytt. Meðan svo stendur á er lífeyrissjóði óheimilt að auka við gjaldmiðlaáhættu sína skv. 1. og 2. mgr. 36. gr. d með kaupum á eignum í öðrum gjaldmiðli en skuldbindingar hans eru í þar til leyfilegum mörkum um gjaldmiðlaáhættu er náð.

 

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skal a-liður 2. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. apríl 2023.

 

Gjört í Reykjavík, 30. mars 2023.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Bjarni Benediktsson.


A deild - Útgáfud.: 31. mars 2023