Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 2/2021

Nr. 2/2021 8. febrúar 2021

LÖG
um breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997 (opinberar sóttvarnaráðstafanir o.fl.).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi orða og hugtaka sem hér segir:

  1. Afkvíun: Takmarkanir á för milli byggðarlaga, landshluta eða til eða frá landinu. Afkvíun tekur almennt til svæða eða er beint að stórum hópi fólks.
  2. Einangrun: Aðskilnaður einstaklinga sem eru smitaðir, eða farangurs, gáma, farartækja, vara eða póstböggla sem eru sýkt eða menguð eða bera með sér sýkingar- eða meng­unar­uppsprettur og skapa því hættu fyrir lýðheilsu, frá öðrum eða öðru á þann hátt sem kemur í veg fyrir útbreiðslu sýkingar eða mengunar.
  3. Farsótt: Smitandi sjúkdómur, innan samfélags eða landsvæðis, sem er nýr eða í tíðni sem er umfram það sem skýra má með því að um tilviljun sé að ræða.
  4. Ferðamaður: Einstaklingur á ferð milli landa.
  5. Heilbrigðisskoðun: Bráðabirgðamat á einstaklingi sem viðurkenndur heilbrigðisstarfsmaður framkvæmir eða annar aðili sem er til þess bær að ákvarða heilbrigðisástand viðkomandi og hvort hann skapi hugsanlega hættu fyrir heilbrigði annars fólks. Skoðunin getur einnig náð yfir athugun heilbrigðisskjala sem og líkamsskoðun eftir því sem réttlætanlegt er miðað við aðstæður í hverju tilviki.
  6. Inngrip: Götun eða skurður í húð eða ísetning áhalds eða framandi efnis í líkamann eða rannsókn á líkamsholi. Með inngripi er ekki átt við læknisrannsókn á eyra, nefi og munni, hita­mælingu með eyrna-, munn- eða hörundshitamæli, eða hitamyndatöku, heilbrigðis­skoðun, hlustun, ytri þreifingu, sjónuspeglun, töku þvag-, saur- eða munnvatns­sýnis utan frá, mælingu blóðþrýstings utan frá eða hjartalínurit.
  7. Ónæmisaðgerð: Skipulögð aðgerð sem örvar ónæmiskerfið til að halda smitsjúkdómi í skefjum í samfélaginu, svo sem með bólusetningu eða gjöf mótefna.
  8. Samkomubann: Ráðstöfun til að koma í veg fyrir eða hægja á útbreiðslu smits í samfélaginu sem getur falið í sér reglur um bann við samkomum eða takmarkanir á samkomum, t.d. um að ekki megi fleiri en tiltekinn fjöldi manna koma saman á sama stað eða í sama rými, að tryggja skuli tiltekna fjarlægð milli manna og/eða að loka skuli tiltekinni starfsemi þar sem sérstök smithætta er fyrir hendi.
  9. Skimun: Kerfisbundin yfirstandandi söfnun, samantekt og greining á gögnum í þágu lýð­heilsu og tímanleg miðlun lýðheilsuupplýsinga til að unnt sé að meta þær og bregðast við með aðgerðum á sviði lýðheilsu, eftir því sem þörf krefur.
  10. Smitrakning: Þegar rakin eru smit á milli einstaklinga með nákvæmu samtali við þá sem eru smitaðir til að komast að því hvar viðkomandi smitaðist og hverja hann gæti hafa smitað, og önnur upplýsingaöflun í því skyni að finna þá sem kunna að hafa verið útsettir fyrir smiti.
  11. Sótthreinsun: Heilbrigðisráðstafanir til að óvirkja eða drepa flestar örverur, hvort sem það er gert með efnafræðilegum eða eðlisfræðilegum aðferðum. Það á við um húð, yfirborð flata eða í eða á farangri, farmi, gámum, farartækjum, vörum og póstbögglum.
  12. Sóttkví: Takmörkun á athafnafrelsi og/eða aðskilnaður einstaklinga sem grunur leikur á að hafi verið útsettir fyrir smiti en eru ekki veikir eða grunsamlegs farangurs, gáma, farartækja eða vöru frá öðrum eða öðru á þann hátt sem kemur í veg fyrir hugsanlega útbreiðslu sýkingar eða mengunar.
  13. Sóttvarnahús: Staður þar sem einstaklingur, sem ekki á samastað á Íslandi eða getur af öðrum sökum ekki eða vill ekki einangra sig í húsnæði á eigin vegum, getur verið í sóttkví eða einangrun vegna gruns um að hann sé smitaður af farsótt eða ef staðfest er að svo sé.
  14. Vöktun vegna lýðheilsu: Vöktun heilsufars tiltekins ferðamanns um tíma til að ganga úr skugga um hvort hann beri með sér smitsjúkdóm.

 

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. málsl. 3. mgr. 3. gr. laganna:

  1. Á eftir tilvísuninni „1. tölul.“ kemur: 1. mgr.
  2. Í stað orðanna „og sýklalyfjanotkunar, sbr. 3. tölul. 5. gr.“ kemur: sýklalyfjanotkunar og skimana.

 

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:

  1. Í stað orðanna „yfirlækna heilsugæslu“ í 3. mgr. kemur: umdæmislækna sóttvarna.
  2. 4. mgr. orðast svo:
        Landinu skal skipt í sóttvarnaumdæmi sem afmörkuð eru með sama hætti og heil­brigðis­umdæmi samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu og reglugerðum settum á grund­velli þeirra. Ráðherra tilnefnir umdæmislækna sóttvarna úr hópi lækna þeirra heilsu­gæslu­stöðva sem ríkið rekur í hverju sóttvarnaumdæmi samkvæmt tillögu sóttvarna­læknis. Umdæmis­læknar sóttvarna skulu vera ábyrgir fyrir sóttvörnum í sínu umdæmi undir faglegri stjórn sóttvarna­læknis. Tilnefna má fleiri en einn lækni í hverju sóttvarna­umdæmi sem umdæmis­lækna sóttvarna.
  3. Í stað orðanna „Yfirlæknar heilsugæslu“ í 5. mgr. kemur: Umdæmislæknar.

 

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:

  1. Við bætast fimm nýir töluliðir, svohljóðandi:
    1. Að vera tengiliður Íslands við samsvarandi tengilið Alþjóða­heilbrigðismála­stofnunar­innar í samræmi við ákvæði alþjóðaheilbrigðis­reglugerðar­innar.
    2. Að gera faraldsfræðilega rannsókn á uppruna smits, og eftir atvikum hefja smit­rakningu, þegar brotist hefur út hópsýking eða farsótt sem ógnað getur heilsu manna.
    3. Að gera tillögur til ráðherra um hvort gripið skuli til sóttvarnaráðstafana skv. 2. mgr. 12. gr., 13. og 14. gr.
    4. Að taka ákvörðun í tilefni af hættu á útbreiðslu smits frá tilteknum einstaklingi, svo sem um heilbrigðisskoðun, sóttkví, einangrun eða aðrar nauðsynlegar ráðstafanir, sbr. 14. gr., og eftir atvikum fara með mál fyrir dóm, sbr. 15. gr.
    5. Að opna sóttvarnahús á vegum stjórnvalda, eftir því sem þörf þykir vegna farsótta.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
        Sóttvarnalækni er heimilt að fela tilteknum aðilum, svo sem ríkislögreglustjóra, eða stofnun að rekja smit, t.d. þegar farsótt geisar á landinu. Sóttvarnalæknir ber ábyrgð á smitrakningu í þessum tilvikum.

 

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:

  1. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Gruni lækni að einstaklingur geti verið hald­inn smitsjúkdómi, eða ef smitrakning vekur upp slíkan grun, er viðkomandi skylt að fylgja fyrirmælum um ráðstafanir, þ.m.t. reglugerðum settum á grundvelli laga þessara, til að fyrirbyggja smit.
  2. 2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Komi læknirinn því ekki við ber honum að vísa sjúklingi til göngudeildar skv. 1. mgr. 16. gr., stofnunar eða annars aðila sem hefur aðstöðu til að rekja smit og hefur til þess heimild sóttvarnalæknis.

 

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:

  1. Orðið „rökstuddan“ í 1. mgr. fellur brott.
  2. Í stað orðanna „yfirlækni heilsugæslu“ í 3. mgr. kemur: umdæmislækni sóttvarna.

 

7. gr.

    Í stað orðanna „yfirlæknis heilsugæslu“ í 10. gr. laganna kemur: umdæmislæknis sóttvarna.

 

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 11. gr. laganna:

  1. Í stað orðanna „yfirlækni heilsugæslu“ í 1. málsl. kemur: umdæmislækni sóttvarna.
  2. Í stað orðanna „Yfirlæknir heilsugæslu“ í 2. málsl. kemur: Umdæmislæknir sóttvarna.

 

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:

  1. Á eftir orðunum „svo sem ónæmisaðgerða“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: skimana, sóttkvíar.
  2. Á undan orðunum „eða samkomubanns“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: stöðvunar atvinnu­rekstrar.
  3. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Opinberum sóttvarnaráðstöfunum skal aflétta svo fljótt sem verða má.
  4. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
        Ráðstöfunum skv. 2. mgr. skal ekki beita nema brýn nauðsyn krefji til verndar heilsu og lífi manna. Við beitingu ráðstafana, sem og við afléttingu þeirra, skal gæta meðalhófs og jafnræðis og taka tillit til annarra verndarhagsmuna, einkum þeirra sem njóta verndar stjórnarskrárinnar og mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að. Ekki skal stöðva atvinnurekstur nema að því marki sem starfsemin felur í sér hættu á útbreiðslu farsóttar, svo sem vegna fjölda fólks sem þar kemur saman eða návígis þess eða snertingar.
  5. Í stað orðanna „hefur í slíkum tilvikum sama rétt til aðgangs að gögnum og til skoðunar og kveðið er á um í 2. mgr. 11. gr.“ í 3. mgr. kemur: eftir atvikum hefja smitrakningu.
  6. Við 3. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sóttvarnalæknir hefur í slíkum tilvikum sama rétt til aðgangs að gögnum og til skoðunar og kveðið er á um í 2. mgr. 11. gr. Þagnar- og trúnaðarskylda sem kveðið er á um í öðrum lögum skal ekki hindra afhendingu upp­lýsinga til sóttvarnalæknis.
  7. Við bætast fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
        Sóttvarnalæknir telst ábyrgðaraðili við vinnslu persónuupplýsinga vegna þeirra ráðstafana sem grípa má til samkvæmt ákvæði þessu, þ.m.t. skimana, sóttkvíar, einangrunar, faralds­fræðilegrar rannsóknar á uppruna smits og smitrakningar. Við vinnslu persónu­upplýsinga skal sóttvarnalæknir gæta að reglum laga um persónuvernd og vinnslu persónu­upplýsinga, þar á meðal meginreglum þeirra um lágmörkun gagna, áreiðanleika þeirra og varðveislu­tíma.
        Sóttvarnalækni er heimilt að halda skrá yfir þá sem sæta sóttkví. Um þá sem sæta ein­angrun fer eftir reglum um smitsjúkdómaskrá, sbr. 3. mgr. 3. gr. Sóttvarnalækni er jafn­framt heimilt að miðla upplýsingum um einstaklinga í sóttkví og einangrun til aðila sem starfa sinna vegna þurfa á slíkum upplýsingum að halda, t.d. aðila sem annast sjúkra­flutninga, lögreglu, slökkviliðs og þeirra sem sinna heimahjúkrun eða annarri aðhlynn­ingu á heimilum fólks.
        Sóttvarnalæknir skal tryggja að miðlun persónuupplýsinga vegna skimunar, faralds­fræði­legrar rannsóknar á uppruna smits eða smitrakningar fari fram á öruggan hátt, t.d. með dulkóðun gagna, notkun gerviauðkenna, aðgangsstýringum og aðgerðaskráningu.
        Persónuupplýsingar sem sérstaklega er aflað vegna smitrakningar, t.d. frá aðilum sem á hvílir þagnar- og trúnaðarskylda samkvæmt öðrum lögum eða vegna notkunar smitaðs einstaklings á hugbúnaði eða öðrum búnaði sem geymir t.d. upplýsingar um staðsetningu hans, skulu undanþegnar varðveislu- og skilaskyldu samkvæmt lögum um opinber skjala­söfn. Slíkum gögnum skal eytt þegar þeirra er ekki lengur þörf vegna smitrakningar. Slík gögn er óheimilt að nota í öðrum tilgangi en þeirra var aflað.

 

10. gr.

    13. gr. laganna orðast svo:

    Ráðherra getur með reglugerð, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, kveðið á um að gripið skuli til sóttvarnaráðstafana vegna hættu á að farsóttir berist til eða frá Íslandi.

    Í reglugerðinni er ráðherra heimilt að kveða á um að við komu eða brottför og af ástæðum er varða lýðheilsu megi krefjast þess að ferðamenn:

  1. Upplýsi um áfangastaði og samskiptaupplýsingar svo að unnt sé að ná sambandi við þá og fylli út spurningalista um heilsu sína.
  2. Upplýsi um ferðaslóð sína fyrir komu og framvísi heilbrigðisskjölum.
  3. Tilkynni sig til íslenskra stjórnvalda, enda hafi þeir verið settir undir vöktun vegna lýðheilsu í öðru ríki.
  4. Undirgangist heilbrigðisskoðun sem er eins lítið ífarandi og unnt er til að ná settu lýðheilsu­markmiði. Ekki skal beitt inngripum nema gagnvart þeim sem grunur leikur á að gæti hafa smitast.

    Með sama hætti er unnt að krefjast skoðunar farangurs, farms, gáma, farartækja, vara, póst­böggla og líkamsleifa og, ef tilefni er til, sótthreinsunar, einangrunar eða sóttkvíar.

    Ef vísbendingar eru um að lýðheilsa sé í yfirvofandi hættu getur ráðherra enn fremur kveðið á um í reglugerð að ferðamenn skuli undirgangast ráðstafanir sem koma í veg fyrir sjúkdóma, aðrar en ónæmisaðgerð, eða varna útbreiðslu þeirra, þ.m.t. einangrun, sóttkví, vöktun og sjúkdóms­skimun, svo sem með stroki úr nef- eða munnholi eða annars konar heilbrigðisskoðun sem ekki krefst mikils inngrips.

    Þrátt fyrir 2.–4. mgr. er heimilt að kveða á um í reglugerð, til að bregðast við tiltekinni hættu eða bráðri ógn við lýðheilsu, að beita skuli fleiri en einni ráðstöfun samtímis, óháð því hvort grunur leikur á að einstaklingur hafi smitast. Í þeim tilvikum skal gætt að tilkynningarskyldu íslenskra stjórnvalda til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar skv. 43. gr. alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar.

    Ekki skal framkvæma heilbrigðisskoðun eða ónæmisaðgerð eða grípa til annarrar heilbrigðis­ráðstöfunar án þess að fá fyrst skýlaust og upplýst samþykki viðkomandi ferðamanns fyrir því, eða foreldra hans eða forráðamanna, nema í þeim tilvikum sem kveðið er á um í 7. mgr.

    Ef ferðamaður, sem grunur leikur á að hafi smitast, neitar ráðstöfun eða neitar að láta í té þær upplýsingar eða þau skjöl sem um getur í ákvæði þessu er unnt að fyrirskipa viðkomandi, eftir atvikum með aðstoð lögreglu, að hlýða skilyrðislaust þeim fyrirmælum sem kveðið er á um í 2.–5. mgr. Það skal þó einungis gert ef vísbendingar eru um að lýðheilsa sé í hættu og þvingun sé nauðsynleg til að verjast þeirri hættu.

    Lögreglustjóra er heimilt að vísa útlendingi, sem ekki er búsettur hér á landi, úr landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum eftir komu ef hann neitar að verða við fyrirmælum um ráðstafanir sem ráðherra hefur heimilað skv. 2.–5. mgr. eða í ljós kemur að hann hefur ekki fylgt þeim. Ákvörðun um frávísun er kæranleg til kærunefndar útlendingamála, en kæra frestar ekki framkvæmd ákvörðunar. Að öðru leyti fer um málsmeðferð samkvæmt lögum um útlendinga.

    Hafi ferðamaður undir höndum viðurkennt vottorð um ónæmisaðgerð er ekki hægt að synja honum um komu inn í landið eða beita öðrum ráðstöfunum á grundvelli þessa ákvæðis með skír­skotun til sjúkdómsins sem vottorðið varðar, jafnvel þótt hann komi frá smitsvæði, nema sannan­legar ábendingar og/eða vísbendingar séu um að ónæmisaðgerðin hafi ekki borið árangur eða að vottorðið sé falsað.

    Ferðamanni, sem kann að hafa smitast og er við komu settur undir vöktun vegna lýðheilsu eða látinn sæta öðrum ráðstöfunum samkvæmt þessu ákvæði, er heimilt að halda áfram ferð sinni milli landa ef hann ógnar ekki lýðheilsu. Stjórnvöld skulu tilkynna lögbæru yfirvaldi á landamærastöð ákvörðunarstaðar, ef hann er þekktur, um væntanlega komu ferðamannsins.

    Ferðamönnum sem koma til landsins ber að öðru leyti að fylgja þeim reglum sem settar hafa verið á grundvelli 12. og 14. gr.

    Ráðherra getur kveðið á um nánara fyrirkomulag ráðstafana samkvæmt þessu ákvæði í reglu­gerð og innleitt að öðru leyti alþjóðaheilbrigðisreglugerð Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

 

11. gr.

    14. gr. laganna orðast svo:

    Þegar sóttvarnalækni berst tilkynning um að einstaklingur sé haldinn smitsjúkdómi tekur hann afstöðu til þess hvort grípa þurfi til frekari aðgerða en heilbrigðisstarfsmaður hefur þegar gert til þess að fyrirbyggja eða hefta útbreiðslu smits sem ógnað getur almannaheill.

    Þegar sóttvarnalækni berast upplýsingar úr smitrakningu eða eftir öðrum leiðum um að grunur leiki á að tiltekinn einstaklingur sé haldinn smitsjúkdómi skal sóttvarnalæknir taka ákvörðun um viðeigandi aðgerðir.

    Með aðgerðum skv. 1. og 2. mgr. er m.a. átt við heilbrigðisskoðun, sóttkví, einangrun eða aðrar viðeigandi ráðstafanir sem miða að því að hefta að smitaður einstaklingur eða einstaklingur, sem grunur leikur á að sé haldinn smitsjúkdómi, smiti aðra.

    Sóttvarnalæknir getur krafið heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisstofnanir um upplýsingar og gögn, sem hann telur nauðsynleg, m.a. úr sjúkraskrá þess sem er smitaður eða grunur leikur á að sé smitandi svo og frá lögreglu og öðrum aðilum vegna meðferðar stjórnsýslumála.

    Áður en tekin er stjórnvaldsákvörðun um aðgerðir skal þess freistað að ná samstarfi við hlutað­eigandi um viðeigandi og hóflegar aðgerðir þar sem fylgt skal tilteknum fyrirmælum og reglum. Takist það ekki tekur sóttvarnalæknir stjórnvaldsákvörðun í máli hlutaðeigandi að undan­genginni málsmeðferð samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga. Í ákvörðun sem felur í sér sviptingu frelsis, svo sem einangrun eða sóttkví, skal koma skýrt fram hvaða dag og klukkan hvað hún fellur niður. Hafi einstaklingur fallist á samstarf um að fylgja reglum um einangrun eða sóttkví, en í ljós kemur að hann hefur ekki fylgt þeim, getur sóttvarnalæknir ákveðið að hann skuli settur í sóttkví eða einangrun á sjúkrahúsi eða í sóttvarnahúsi eða gripið til annarra viðeigandi aðgerða.

    Sóttvarnalæknir getur tekið stjórnvaldsákvörðun munnlega ef hann telur að hvers konar töf á afgreiðslu málsins sé hættuleg. Veita skal málsaðila skriflega og rökstudda staðfestingu á ákvörð­un­­inni svo fljótt sem verða má.

    Sóttvarnalæknir getur leitað aðstoðar lögreglu við að framfylgja ákvörðunum sem teknar eru samkvæmt þessari lagagrein, eftir atvikum með líkamlegri valdbeitingu beri nauðsyn til.

    Sóttvarnayfirvöld og lögregla skulu sýna þeim sem þau hafa afskipti af á grundvelli laga þessara virðingu og kurteisi og skulu draga eftir föngum úr óþægindum og vanlíðan sem fylgt getur ráðstöfunum sem beita þarf. Slíkar ráðstafanir skulu aldrei standa lengur en þörf krefur.

    Umdæmislæknar sóttvarna hafa einnig valdheimildir til að taka ákvarðanir samkvæmt þessari lagagrein undir faglegri stjórn og eftirliti sóttvarnalæknis.

    Stjórnvaldsákvörðun um aðgerðir samkvæmt þessari lagagrein er kæranleg til ráðherra feli hún ekki í sér sviptingu frelsis. Kæra frestar ekki framkvæmd ákvörðunar.

    Aðgerðir, sem mælt er fyrir í stjórnvaldsákvörðun samkvæmt lögum þessum og hafa í för með sér sviptingu frelsis í skilningi 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, er heimilt að bera undir héraðs­dóm. Slíkar aðgerðir mega aldrei vara lengur en 15 daga í senn.

    Ráðherra getur sett reglugerð um nánari útfærslu þessarar lagagreinar, t.d. þar sem kveðið er á um þær reglur sem gilda skulu um þá sem sæta einangrun eða sóttkví.

    Ráðherra skal, eftir atvikum í samráði við aðra ráðherra í ríkisstjórn, upplýsa Alþingi um sótt­varna­aðgerðir með mánaðarlegri skýrslugjöf enda hafi aðgerð varað lengur en í tvo mánuði.

 

12. gr.

    15. gr. laganna orðast svo:

    Nú er tekin stjórnvaldsákvörðun sem sviptir einstakling frelsi sínu, svo sem þegar viðkomandi er settur í einangrun eða sóttkví, og skal þá gera honum tafarlaust grein fyrir ástæðum þess og veita honum leiðbeiningar um rétt hans til að bera ákvörðunina undir dóm.

    Nú óskar málsaðili eftir því að ákvörðun verði borin undir dóm og skal sóttvarnalæknir þá svo fljótt sem verða má setja fram skriflega kröfu um staðfestingu á gildi ákvörðunarinnar sem afhent skal dómstjóra héraðsdóms í þinghá þar sem málsaðili dvelst þegar ákvörðun er tekin.

    Í slíku dómsmáli skal sóttvarnalæknir, eða eftir atvikum löglærður fulltrúi embættis landlæknis, talinn sóknaraðili málsins og sá er stjórnvaldsákvörðunin beinist gegn varnaraðili þess.

    Málsmeðferð fyrir dómi frestar ekki framkvæmd stjórnvaldsákvörðunar.

    Í skriflegri kröfu sóknaraðila skal að jafnaði koma fram nafn, kennitala og heimilisfang hans og varnaraðila, og hvar sá síðarnefndi dvelst meðan á meðferð málsins stendur og eftir atvikum símanúmer hans. Þar skal vera ítarleg lýsing á málavöxtum og rökstuðningur fyrir nauðsyn þess að gripið sé til umræddra úrræða með stjórnvaldsákvörðuninni. Þá skal geta þeirrar lagaheimildar sem ákvörðunin byggist á. Loks skulu talin upp önnur gögn sem lögð eru fram, svo sem afrit stjórnvalds­ákvörðunarinnar.

    Sóttvarnalækni er heimilt í kröfugerð sinni að víkja frá ákvörðun sinni og gera kröfu um breyttan vistunarstað varnaraðila. Sé þess krafist getur dómari einnig sett það skilyrði að varnaraðili hafi á sér búnað svo að unnt sé að fylgjast með ferðum hans. Þá má að kröfu sóknaraðila skylda varnar­aðila til að afhenda vegabréf sitt meðan á frelsissviptingu stendur ef hætta þykir á að hann muni reyna að yfirgefa landið.

    Dómari skal taka málið fyrir án tafar og hraða meðferð þess svo sem kostur er.

    Dómari skal kynna varnaraðila kröfu sóknaraðila og gefa honum kost á að tjá sig um hana nema ástandi hans sé svo háttað að það sé ekki mögulegt. Ef ekki er unnt að kveðja varnaraðila fyrir dóm skal veita honum færi á að tjá sig um fram komna kröfu í símtali eða með annarri fjarskiptatækni sé þess nokkur kostur.

    Dómari skal skipa varnaraðila talsmann samkvæmt ákvæðum laga um meðferð sakamála um verjendur og gefa honum kost á að bera fram ósk um hver verði skipaður.

 

13. gr.

    Á eftir 15. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 15. gr. a og 15. gr. b, svohljóðandi:

 

    a. (15. gr. a.)

    Dómari skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en hann kveður upp úrskurð í því. Dómari skal sjálfur afla sönnunargagna sem hann telur þörf á. Skylt er öllum sem vegna starfa sinna geta veitt upplýsingar um varnaraðila, sem dómari telur að skipt geti máli fyrir úrlausn málsins, að veita honum þær og láta honum í té þau gögn um varnaraðila sem dómari krefst. Sama á við um aðra sem vegna tengsla sinna við varnaraðila geta veitt nauðsynlegar upplýsingar.

    Dómari kveður sóknaraðila, talsmann varnaraðila og vitni fyrir dóm ef þess er þörf.

    Dómari skal eftir að rannsókn máls er lokið gefa aðilum kost á að flytja málið munnlega áður en það er tekið til úrskurðar.

    Að svo miklu leyti sem ekki er á annan veg fyrir mælt í þessum lögum fer um meðferð slíkra mála eftir lögum um meðferð einkamála.

    Dómari kveður upp úrskurð um það hvort stjórnvaldsákvörðun sóknaraðila skuli staðfest eða felld úr gildi að hluta eða öllu leyti. Reynist frelsissvipting ólögmæt skal varnaraðili þegar látinn laus. Þegar efni standa til að ákvörðun sóknaraðila skuli staðfest skal í úrskurðarorði taka fram hvaða dag og klukkan hvað frelsissvipting skal niður falla, en hún má ekki vara lengur en 15 sólarhringa í senn. Ef sóknaraðili telur nauðsynlegt að hún vari lengur skal hann að nýju bera fram kröfu um það undir héraðsdóm áður en markaður tími frelsissviptingar samkvæmt úrskurði rennur út.

    Nú telur sóttvarnalæknir ekki þörf á að varnaraðili sæti lengur einangrun, sóttkví eða annarri frelsissviptingu sem staðfest hefur verið í úrskurði að varnaraðili skuli sæta, þótt 15 sólarhringar séu ekki liðnir, og skal varnaraðili þá þegar látinn laus.

    Þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila og annan málskostnað, þ.m.t. kostnað við öflun læknis­vottorða og annarra sérfræðiskýrslna, skal greiða úr ríkissjóði. Engin dómsmálagjöld skal greiða vegna dómsmála samkvæmt lögum þessum.

 

    b. (15. gr. b.)

    Talsmaður varnaraðila skal kynna honum niðurstöðu úrskurðar dómara svo fljótt sem við verður komið. Þetta er þó ekki nauðsynlegt ef það er bersýnilega þýðingarlaust vegna ástands varnaraðila.

    Úrskurði þeim sem um ræðir í 5. mgr. 15. gr. a má skjóta til Landsréttar með kæru og fer um hana eftir ákvæðum XXX. kafla laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, eftir því sem við á. Kæra frestar ekki framkvæmd úrskurðar héraðsdóms.

    Um kæru á úrskurði Landsréttar gilda ákvæði XXXII. kafla laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.

    Dæma skal bætur úr ríkissjóði hafi einstaklingur verið sviptur frelsi með ákvörðun sóknaraðila ef lögmælt skilyrði hefur brostið til slíkrar ákvörðunar, hún hefur staðið lengur en efni stóðu til eða staðið hefur verið að frelsissviptingunni á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt. Bæta skal fjártjón og miska ef því er að skipta. Að öðru leyti gilda almennar reglur skaðabótaréttar.

 

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:

  1. Í stað orðsins „Læknisskoðun“ í 1. og 2. málsl. 2. mgr. kemur: Heilbrigðisskoðun.
  2. 3. mgr. orðast svo:
        Ef frá eru talin þau tilvik sem falla undir 2. mgr. skal ekki tekið gjald fyrir heil­brigðis­ráðstafanir á grundvelli 13. gr. nema þær séu til hagsbóta fyrir ferðamenn. Nú hefur sóttvarna­læknir metið svo að yfirvofandi eða bráð ógn sé við lýðheilsu og er honum þá, eða þeim sem hann hefur falið slíka framkvæmd, heimilt að taka gjald fyrir heilbrigðis­ráðstafanir á grundvelli 13. gr. þrátt fyrir að þær séu ekki til hagsbóta fyrir ferða­menn. Þegar tekið er gjald samkvæmt ákvæði þessu skal ráðherra birta gjaldskrá í reglu­gerð eða sérstaklega í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldskrá og breytingar á henni skulu birtar með a.m.k. tíu daga fyrirvara. Fjárhæð gjalds skal ekki vera hærri en sem nemur kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skal byggjast á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjöld má innheimta með fjárnámi.

 

15. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

Gjört í Reykjavík, 8. febrúar 2021.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Svandís Svavarsdóttir.


A deild - Útgáfud.: 9. febrúar 2021