Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 13/2023

Nr. 13/2023 31. mars 2023

LÖG
um breytingu á lögum um málefni innflytjenda og lögum um vinnumarkaðsaðgerðir (sameining Vinnumálastofnunar og Fjölmenningarseturs, þjónustustöðvar).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

I. KAFLI

Breyting á lögum um málefni innflytjenda, nr. 116/2012.

1. gr.

    2. gr. laganna ásamt fyrirsögn fellur brott.

 

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:

  1. Í stað orðanna „Verkefni Fjölmenningarseturs eru meðal annars að“ í 1. mgr. kemur: Vinnumálastofnun annast framkvæmd laga þessara, undir yfirstjórn ráðherra, og skal stofnunin í því sambandi meðal annars.
  2. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Framkvæmdaraðili.

 

3. gr.

    Í stað orðanna „Fjölmenningarsetur“, „Fjölmenningarsetri“ og „Fjölmenningarseturs“ í 1.–4. mgr. 3. gr. a, 1. og 2. málsl. 1. mgr. og 2.–4. mgr. 3. gr. b, 1. mgr. 7. gr. og 9. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarmynd: Vinnumálastofnun.

 

4. gr.

    Í stað orðanna „Forstöðumaður Fjölmenningarseturs“ í 3. mgr. 4. gr. laganna kemur: Forstjóri Vinnumálastofnunar eða fulltrúi hans.

 

5. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I í lögunum orðast svo:

    Við gildistöku ákvæðis þessa skal Fjölmenningarsetur lagt niður og tekur Vinnumálastofnun við hlutverki, verkefnum, réttindum og skyldum, eignum og skuldbindingum Fjölmenningarseturs.

    Ákvarðanir sem Fjölmenningarsetur hefur tekið halda gildi sínu eftir gildistöku ákvæðis þessa.

    Starfsfólk Fjölmenningarseturs sem er í starfi við gildistöku ákvæðis þessa verður starfsfólk Vinnumálastofnunar með sömu ráðningarkjörum og áður giltu. Um rétt starfsmanna til starfa hjá Vinnumálastofnun fer eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Ákvæði 7. gr. þeirra laga gilda þó ekki við ráðstöfun starfa samkvæmt ákvæði þessu.

    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. verður embætti forstöðumanns Fjölmenningarseturs lagt niður við gildistöku ákvæðis þessa.

 

6. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða II–IV í lögunum falla brott.

 

II. KAFLI

Breyting á lögum um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006.

7. gr.

    3. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:

    Vinnumálastofnun skal reka þjónustustöðvar um land allt og skal minnst ein þjónustustöð vera á hverju eftirtalinna landsvæða: Austurlandi, höfuðborgarsvæðinu, Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra, Suðurlandi, Suðurnesjum, Vestfjörðum og Vesturlandi.

 

8. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 2023.

 

Gjört á Bessastöðum, 31. mars 2023.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.


A deild - Útgáfud.: 31. mars 2023