Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 889/2022

Nr. 889/2022 26. júlí 2022

SAMÞYKKT
um breytingu á samþykkt um stjórn Fjarðabyggðar nr. 252/2022.

1. gr.

62. gr. samþykktarinnar orðast svo:

I. Nefndir og stjórnir. Hér er um að ræða fastanefndir og stjórnir, sem sinna faglegu starfi á grundvelli sérstakra erindisbréfa sem staðfest eru í bæjarstjórn. Kjörtímabil nefndanna er almennt hið sama og bæjarstjórnar. Bæjarstjórn ákveður verkefni þeirra með erindisbréfi, í samræmi við lög og reglur sem um störf þeirra gilda.

Fastanefndir undirbúa stefnumörkun í málefnum sem þeim eru falin. Nefndirnar hafa umsjón með verkefnum sem falla undir verksvið þeirra og að framkvæmd þeirra samræmist stefnumörkun bæjarstjórnar í viðkomandi málaflokki og sé innan heimilda í fjárhagsáætlun. Við undirbúning ákvarðana og önnur störf nefnda skulu þær njóta faglegs stuðning frá starfsmönnum þannig að ákvarðanir stjórnkerfis Fjarðabyggðar uppfylli kröfur laga og séu í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.

Bæjarstjórn kýs í eftirtaldar nefndir, ráð og stjórnir a- og b- hluta ásamt því að kjósa formann og varaformann. 

A. Til eins árs.
Bæjarráð. Kjósa skal þrjá fulltrúa í bæjarráð til eins árs í samræmi við 39. gr. samþykktar þessarar.

B. Til fjögurra ára. Á fyrsta eða öðrum fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar.
Barnaverndarnefnd. Bæjarstjórn kýs fimm fulltrúa og jafnmarga til vara í barnaverndarnefnd. Um verkefni barnaverndarnefndar fer samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002 og barnalögum nr. 76/2003. Nefndin skal móta stefnu sveitarfélagsins í barnaverndarmálum og taka ákvarðanir á verksviði sínu. Jafnframt hefur nefndin eftirlit með að samþykktum og stefnumörkun á verksviði hennar sé fylgt. Þá fer nefndin með önnur þau verkefni sem bæjarráð ákveður.
Félagsmálanefnd. Bæjarstjórn kýs fimm fulltrúa og jafnmarga til vara í félagsmálanefnd. Nefndin mótar stefnu sveitarfélagsins í velferðarþjónustu s.s. félags- og öldrunarmálum, málefnum fatlaðs fólks og í jafnréttismálum. Nefndin skal taka ákvarðanir og gera tillögur til bæjarráðs um málefni á verksviði sínu. Jafnframt hefur nefndin eftirlit með að samþykktum og stefnumörkun á verksviði nefndarinnar sé fylgt. Þá fer nefndin með önnur þau verkefni sem bæjarráð ákveður.
Fræðslunefnd. Bæjarstjórn kýs fimm fulltrúa og jafnmarga til vara í fræðslunefnd. Nefndin annast stefnumótun í fræðslu- og menntamálum. Nefndin skal vinna að samhæfingu skólastarfs í Fjarðabyggð. Nefndin skal taka ákvarðanir og gera tillögur til bæjarráðs um málefni á verksviði sínu. Jafnframt hefur nefndin eftirlit með að samþykktum og stefnumörkun á verksviði nefndarinnar sé fylgt. Þá fer nefndin með önnur þau verkefni sem bæjarráð ákveður.
Hafnarstjórn. Bæjarstjórn kýs fimm fulltrúa og jafnmarga til vara í hafnarstjórn samkvæmt lögum um hafnamál. Hlutverk og verkefni hafnarstjórnar eru lögbundin en jafnframt ákveðin í sérstakri samþykkt sem bæjarstjórn setur um störf hennar. Þá fer nefndin með önnur þau verkefni sem bæjarráð ákveður.
Íþrótta- og tómstundanefnd. Bæjarstjórn kýs fimm fulltrúa og jafnmarga til vara í íþrótta- og tómstundanefnd. Nefndin annast stefnumótun í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsmálum. Nefndin skal stuðla að virku íþrótta- og æskulýðsstarfi og virkja félagsauðinn í sveitarfélaginu. Nefndin skal taka ákvarðanir og gera tillögur til bæjarráðs um málefni á verksviði sínu. Jafnframt hefur nefndin eftirlit með að samþykktum og stefnumörkun á verksviði nefndarinnar sé fylgt. Þá fer nefndin með önnur þau verkefni sem bæjarráð ákveður.
Mannvirkja- og veitunefnd. Bæjarstjórn kýs fimm fulltrúa og jafnmarga til vara í mannvirkja- og veitunefnd. Nefndin skal móta stefnu sveitarfélagsins varðandi mannvirki, og umsjón þeirra, fasteignaumsýslu, framkvæmdir bæjarins, viðhaldsmál og veitur. Nefndin skal taka ákvarðanir og gera tillögur til bæjarráðs um málefni á verksviði sínu. Jafnframt hefur nefndin eftirlit með að samþykktum og stefnumörkun á verksviði hennar sé fylgt. Þá fer nefndin með önnur þau verkefni sem bæjarráð ákveður.
Stjórn menningarstofu og safnastofnunar. Bæjarstjórn kýs fimm fulltrúa og jafnmarga til vara í stjórn menningarstofu og safnastofnunar. Hlutverk hennar er m.a. mörkun stefnu í menningar- og safnamálum. Nefndinni ber að vinna að undirbúningi viðburða og hátíða í samvinnu við hagsmunaaðila. Jafnframt hefur nefndin eftirlit með að samþykktum og stefnumörkun á verksviði nefndarinnar sé fylgt og fer með önnur þau verkefni sem bæjarráð ákveður.
Umhverfis- og skipulagsnefnd. Bæjarstjórn kýs fimm fulltrúa og jafnmarga til vara í umhverfis- og skipulagsnefnd. Nefndin skal móta stefnu sveitarfélagsins varðandi náttúruvernd, landbúnaðarmál og umhverfismál, þ.m.t. meðferð úrgangs, skipulags- og byggingarmál og samgöngu- og umferðaröryggismál. Nefndin skal taka ákvarðanir og gera tillögur til bæjarráðs um málefni á verksviði sínu. Jafnframt hefur nefndin eftirlit með að samþykktum og stefnumörkun á verksviði hennar sé fylgt. Þá fer nefndin með önnur þau verkefni sem bæjarráð ákveður.
Kjörstjórnir. Bæjarstjórn kýs þrjá fulltrúa og jafnmarga til vara í yfirkjörstjórn, samkvæmt kosningalögum nr. 112/2021. Kjörstjórn kýs sér oddvita og ritara úr sínum hópi. Enn fremur kýs bæjarstjórn undirkjörstjórnir jafnmargar og kjördeildir eru sem skipaðar eru þremur aðalmönnum og þremur varamönnum. Kjörstjórnir fara með þau verkefni sem þeim eru falin samkvæmt kosningalögum. 

C.  Undirnefndir kosnar af höfuðnefndum og bæjarráði.
Fjallskilanefnd. Bæjarstjórn kýs fimm fulltrúa og jafn marga til vara í fjallskilanefnd að fenginni tilnefningu umhverfis- og skipulagsnefndar. Fjallskilanefnd er umhverfis- og skipulagsnefnd til ráðuneytis um fjallskil og afréttarmál. Hún skal fjalla um fjallskil og afréttarmál í umboði umhverfis- og skipulagsnefndar. Fundargerðir fjallskilanefndar skulu lagðar fyrir umhverfis- og skipulagsnefnd áður en þær fá fullnaðarafgreiðslu í bæjarstjórn.
Upplýsingaöryggisnefnd. Bæjarráð kýs fimm fulltrúa í upplýsingaöryggisnefnd. Upplýsingaöryggisnefnd er bæjarráði til ráðuneytis um persónuverndar- og upplýsingaöryggismál. Hún mótar stefnu í upplýsingaöryggi og persónuvernd og er ráðgefandi um þau mál. Bæjarráð gerir tillögu til bæjarstjórnar að erindisbréfi um hlutverk og verkefni upplýsingaöryggisnefndar. Fundargerðir upplýsinga­öryggisnefndar skulu lagðar fyrir bæjarráð.

D. Undirnefndir kosnar og eða skipaðar að tilnefningu samstarfsaðila og stofnana. Um er að ræða ráðgefandi fastanefndir sem skipaðar eru að hluta eða öllu leyti fulltrúum hagsmunaaðila vegna velferðarmála.
Ungmennaráð. Menntastofnanir ásamt íþrótta- og ungmennafélögum í sveitarfélaginu tilnefna níu fulltrúa í ungmennaráð og jafn marga til vara, sbr. 7. gr. samþykktar þess. Ungmennaráð skal starfa í samræmi við ákvæði 11. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007 og samþykkt um ungmennaráð Fjarða­byggðar. Hlutverk þess er m.a. að vera bæjarstjórn til ráðgjafar um málefni ungs fólks í sveitarfélaginu.
Öldungaráð. Bæjarstjórn kýs þrjá fulltrúa og jafn marga til vara að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Þrír fulltrúar og jafn margir til vara eru tilnefndir af félögum eldri borgara auk eins fulltrúa og annars til vara af heilsugæslu. Öldungaráð er félagsmálanefnd til ráðuneytis um framkvæmd þjónustu við aldraða og þróun öldrunarmála. Hún skal fjalla um heilsufar og félagslega velferð aldraðra, samhæfingu þjónustu og tryggja að aldraðir fái þá þjónustu sem þeir þarfnast. Félagsmálanefnd gerir tillögu til bæjarstjórnar að erindisbréfi um hlutverk og verkefni öldungaráðs. Fundargerðir öldungaráðs skulu lagðar fyrir félagsmálanefnd áður en þær fá fullnaðarafgreiðslu í bæjarstjórn.

II. Stjórnir og samstarfsnefndir.Hér er um að ræða stjórnir stofnana sveitarfélagsins með sjálfstæðan fjárhag sem hafa endanlegt ákvörðunarvald í málefnum sínum, þ.e.a.s. þurfa ekki staðfestingu bæjarstjórnar til að koma málum í framkvæmd. Jafnframt tilnefningar í samstarfsnefndir. Kjörtímabil þeirra er hið sama og bæjarstjórnar nema kveðið sé á um annað í lögum.
Almannavarnanefnd. Bæjarstjórn skipar fulltrúa í almannavarnanefnd á fyrsta eða öðrum fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar og er kjörtímabil hennar hið sama og bæjarstjórnar. Samkvæmt lögum um almannavarnir nr. 82/2008 felst hlutverk nefndarinnar í stefnumótun og skipulagningu starfs að almannavörnum í héraði. Nefndin vinnur að gerð hættumats og viðbragðsáætlana í samvinnu við ríkislögreglustjóra. Sýslumaður á sæti í almannavarnanefnd ásamt fulltrúum úr bæjarstjórn og þeim fulltrúum sem sinna verkefnum í þágu hins almenna borgara. Almannavarnanefnd kýs sér sjálf formann og varaformann.
Stjórn Náttúrustofu Austurlands. Bæjarráð skipar einn aðalfulltrúa og annan til vara í þriggja manna stjórn Náttúrustofu Austurlands. Þá velur bæjarráð stjórninni formann í samráði við byggðaráð Múlaþings. Náttúrustofan starfar samkvæmt ákvæðum laga og reglugerða um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.
Stjórn Tónlistarmiðstöðvar Austurlands.Bæjarstjórn skipar einn fulltrúa, og annan til vara, í stjórn Tónlistarmiðstöðvar Austurlands að fenginni tilnefningu stjórnar menningarstofu og safnastofnunar.
Stjórn Skólaskrifstofu Austurlands. Samkvæmt samningi um Skólaskrifstofu Austurlands skal bæjarstjóri sitja í stjórn skrifstofunnar. Staðgengill bæjarstjóra er varamaður hans í stjórn.
Stjórn Héraðsskjalasafns Austfirðinga. Bæjarstjórn skipar aðal- og varafulltrúa í stjórn Héraðsskjalasafns Austfirðinga samkvæmt stofnsamningi og eftir tilnefningu stjórnar menningarstofu og safnastofnunar.
Stjórn Sjóminjasafns Austurlands. Bæjarstjórn skipar tvo fulltrúa í stjórn Sjóminjasafns Austurlands samkvæmt stofnsamningi þess og eftir tilnefningu stjórnar menningarstofu og safnastofnunar.

III. Tilnefningar og kosningar. Kosnir fulltrúar á ársþing og ársfundi stofnana. Kjörtímabil þeirra er hið sama og bæjarstjórnar nema kveðið sé á um annað.

A. Kosnir af bæjarstjórn á fyrsta eða öðrum fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar eða í júní ár hvert vegna þeirra tilnefninga sem gilda skemur.
Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samkvæmt lögum um Samband íslenskra sveitarfélaga kýs bæjarstjórn aðal- og varafulltrúa á landsþing sambandsins.
Fulltrúaráð Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands. Bæjarstjórn kýs aðal- og varafulltrúa í fulltrúaráð Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands.

B.Tilnefningar staðfestar af bæjarstjórn að afloknum sveitarstjórnarkosningum eða ár hvert vegna þeirra tilnefninga sem gilda skemur.
Austurbrú. Bæjarstjórn skipar fulltrúa í fulltrúaráð Austurbrúar samkvæmt skipulagsskrá þess og eftir tilnefningu bæjarráðs.
Heilbrigðiseftirlit Austurlands. Bæjarstjórn skipar fulltrúa og varafulltrúa á aðalfund og aðra fulltrúafundi, samkvæmt samþykktum byggðasamlagsins og eftir tilnefningu bæjarráðs.

IV. Samkvæmt lögum skal bæjarstjórn kjósa í eftirtalin verkefni:
Fjallskilastjórar. Bæjarstjórn kýs fjallskilastjóra eftir tilnefningu fjallskilanefndar, samanber ákvæði fjallskilasamþykktar fyrir Múlasýslur.

V. Verkefnabundnar nefndir. Bæjarstjórn getur kosið nefndir til að fjalla um og undirbúa einstök mál, málaflokka eða verkefni. Umboð slíkra nefnda fellur sjálfkrafa niður við lok kjörtímabils bæjarstjórnar eða fyrr ef verki nefndar er lokið. Bæjarstjórn getur afturkallað umboð slíkra nefnda hvenær sem er. Einstaklingar sem taka sæti í nefndum samkvæmt þessari grein þurfa ekki að hafa náð aldri til að njóta kosningarréttar og þurfa ekki að eiga lögheimili í Fjarðabyggð.

 

2. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á viðaukum við samþykktina:

  1. Heiti viðauka 1.1. breytist og verður: Viðauki 1.1. Umhverfis- og skipulagsnefnd.
    Hvar sem „Eigna- skipulags- og umhverfisnefnd“ kemur fyrir í viðaukanum, sem og viðaukum 1.8 sem verður 1.9 og 1.9 sem verður 1.10, kemur í viðeigandi beygingarfalli: Umhverfis- og skipulagsnefnd.
  2. Stafliðir b, c og d. í 1. gr. viðauka 1.1. falla brott.
  3. Við bætist nýr viðauki, númer 1.2., og breytast númer annarra viðauka sem á eftir koma samkvæmt því, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

VIÐAUKI 1.2

Mannvirkja- og veitunefnd.

1. gr.

Mannvirkja- og veitunefnd afgreiðir án staðfestingar bæjarstjórnar og bæjarráðs eftirtalin verkefni samkvæmt heimild í 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og samþykkt um stjórn og fundarsköp Fjarðabyggðar:

  1.  Hvers kyns ákvarðanir varðandi starfsemi Hitaveitu Fjarðabyggðar að undanskildum þeim sem varða mannaráðningar, staðfestingu gjaldskrár, fjárhagsáætlun, ákvarðanir um breytingu veitusvæðis og ákvarðanir um nýframkvæmdir, sbr. ákvæði í gildandi innkaupareglum.
  2.  Hvers kyns ákvarðanir varðandi starfsemi Vatnsveitu Fjarðabyggðar að undanskildum þeim sem varða mannaráðningar, staðfestingu gjaldskrár, fjárhagsáætlun og ákvarðanir um nýframkvæmdir, sbr. ákvæði í gildandi innkaupareglum.
  3.  Hvers kyns ákvarðanir varðandi starfsemi Fráveitu Fjarðabyggðar að undanskildum þeim sem varða mannaráðningar, staðfestingu gjaldskrár, fjárhagsáætlun og ákvarðanir um nýframkvæmdir, sbr. ákvæði í gildandi innkaupareglum.

Mannvirkja- og veitunefnd getur ávallt vísað afgreiðslu mála samkvæmt 1. mgr. til bæjarráðs og er skylt að vísa þeim til bæjarráðs sé þess óskað af tveimur fulltrúum í nefndinni hið fæsta. Í slíkum tilfellum skal nefndin þó setja fram tillögu að afgreiðslu máls.

2. gr.

Óski aðili frekari rökstuðnings við afgreiðslu mannvirkja- og veitunefndar eða beri hann fram kvörtun skal honum leiðbeint um réttarstöðu sína, meðal annars um heimild til að óska eftir endurupptöku máls í bæjarráði, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga, eftir því sem við á. Telji bæjarráð að skilyrði um endurupptöku séu fyrir hendi skal mannvirkja- og veitunefnd taka málið upp að nýju.

 

  1. Hvar sem „Menningar- og nýsköpunarnefnd“ kemur fyrir í viðauka 1.5 sem verður 1.6, kemur í viðeigandi beygingarfalli: Stjórn menningarstofu og safnastofnunar.
  2. Hvar sem „Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd“ kemur fyrir í viðauka 1.10 sem verður 1.11 kemur: í viðeigandi beygingarfalli mannvirkja- og veitunefnd.

 

3. gr.

Samþykkt þessi, sem bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur sett skv. 9. og 18. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi.

 

Innviðaráðuneytinu, 26. júlí 2022.

 

F. h. r.

 

Ingilín Kristmannsdóttir.

Hildur Dungal.


B deild - Útgáfud.: 27. júlí 2022