Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1367/2019

Nr. 1367/2019 19. desember 2019

SAMÞYKKT
um breytingu á samþykkt um stjórn Sveitarfélagsins Voga, nr. 925/2013, með síðari breytingum.

1. gr.

1. mgr. 8. gr. samþykktarinnar orðast svo:

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga heldur reglulega fundi bæjarstjórnar alla jafna síðasta mið­viku­dag mánaðar, kl. 18.00. Fundarstaður er á bæjarskrifstofum nema annað sé tekið fram í fundar­boði.

2. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. samþykktarinnar:

a)    H-liður 2. mgr. orðast svo:

Telji forseti umræður dragast úr hófi fram getur hann lagt fram dagskrártillögu um að ræðu­tími hvers bæjarfulltrúa verði takmarkaður, umræðum verði lokið á tilteknum tíma eða að umræðum um mál verði lokið þá þegar. Hver bæjarfulltrúi getur og borið fram slíkar tillögur. Bæjarstjórn afgreiðir tillögur um takmörkun umræðna umræðulaust. Ekki má þó tak­marka umræðu um mál meira en svo að hún standi skemur en í tvær klukkustundir ef einhver bæjarfulltrúi kveður sér hljóðs.

b)    Við greinina bætist nýr liður, sem verður m-liður, og orðast svo:

Ritun fundargerða. Bæjarstjórn getur ráðið fundarritara utan bæjarstjórnar til að annast ritun fundargerða í gerðabók bæjarstjórnar eða falið starfsmanni ritun funda. Í fundargerð skal getið hvar og hvenær fundur er haldinn og hverjir sitji fundinn. Skrá skal þau dagskrármál sem tekin eru fyrir, heiti þeirra og skjalanúmer, og hvernig afgreiðslu þau hljóta, sbr. staflið c hér að ofan. Sé erindi ekki afgreitt samhljóða skal greina í fundargerð hvernig atkvæði hafa skipst. Erindi sem tekin eru fyrir á lokuðum fundum skal skrá sem trúnaðarmál.

Í lok fundar skal fundargerð lesin upp og skulu allir viðstaddir fundarmenn undirrita hana nema bæjarstjórn ákveði annað.

Bæjarstjórn getur ákveðið að fundargerðir verði skráðar rafrænt. Verði það gert skal bóka í gerðabók bæjarstjórnar númer fundar, hvar og hvenær fundurinn er haldinn og að fundargerð sé færð rafrænt. Þá skal færa í gerðabók fundarslit og greina blaðsíðutal fundargerða.

Viðstaddir bæjarfulltrúar, og eftir atvikum ritari, skulu rita nöfn sín við slit fundar í gerða­bókina. Í lok fundarins skal rafræn fundargerð prentuð út og hún undirrituð að viðstöddum bæjar­fulltrúum, og eftir atvikum ritara. Einnig skal forseti og a.m.k. einn fundarmanna setja upphafs­stafi sína undir hverja blaðsíðu fundargerða sem blaðsíðusettar skulu í áframhaldandi töluröð. Undirritaðar tölvuskráðar fundargerðir skulu reglulega bundnar inn til varanlegrar varð­veislu. Bæjarfulltrúi sem gera vill athugasemd við eitthvert atriði í fundargerð getur undirritað fundar­gerð­ina með fyrirvara um það atriði.

Bæjarstjórn getur ákveðið að umræður á bæjarstjórnarfundi verði hljóðritaðar eða teknar upp með öðrum hætti, þeim útvarpað gegnum ljósvakamiðla og/eða netmiðla. Verði það ákveðið skal bæjarstjórn setja um það nánari reglur. Um ritun fundargerða bæjarstjórnar vísast að öðru leyti til auglýsingar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna nr. 22/2013.

3. gr.

1. mgr. 37. gr. samþykktarinnar orðast svo:

Fundargerðir bæjarráðs, fræðslunefndar, frístunda- og menningarnefndar, umhverfisnefndar og skipulagsnefndar skulu lagðar fyrir bæjarstjórn til kynningar eða afgreiðslu og staðfestingar. Fundar­­gerðir annarra nefnda, ráða og stjórna skulu lagðar fyrir bæjarráð til kynningar eða afgreiðslu og staðfestingar.

4. gr.

B-liður 47. gr. samþykktarinnar orðast  svo:

  1. Almannavarnanefnd Suðurnesja. Einn aðalmann og einn til vara skv. 9. gr. laga um almanna­­varnir nr. 82/2008.
  2. Heilbrigðisnefnd Suðurnesja. Einn fulltrúa og einn til vara skv. ákvæðum 11. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.
  3. Brunavarnir Suðurnesja bs. Einn aðalmann og einn til vara skv. stofnsamningi.
  4. Fulltrúar á landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga. Tvo aðalmenn og tvo til vara, sbr. 4. og 5. gr. samþykktar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
  5. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum. Einn aðalmann og einn til vara skv. 6. gr. sam­þykktar S.S.S. frá 8. september 2018.
  6. Stjórn Kölku sorpeyðingarstöðvar sf. Einn aðalmann og einn til vara, sbr. 6. gr. samþykkta fyrir félagið eins og þeim var síðast breytt 27. ágúst 2018.
  7. Heklan – atvinnuþróunarfélag Suðurnesja. Tilnefna skal fulltrúa í stjórn í samræmi við gild­andi erindisbréf og samþykktir um stjórn Atvinnuþróunarfélags Suðurnesja.
  8. Reykjanes jarðvangur ses. Tilnefna skal fulltrúa í stjórn í samræmi við gildandi samþykktir Reykjanes jarðvangs ses.
  9. Öldungaráð. Skipa skal í öldungaráð á grundvelli 2. mgr. 38. gr. laga nr. 40/1991, um félags­þjónustu sveitarfélaga (með síðari breytingum), með hliðsjón af 8. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra (með síðari breytingum). Skipa skal þrjá fulltrúa og þrjá til vara eða sam­kvæmt sérstöku samkomulagi við önnur sveitarfélög vegna samstarfs um öldrunar­þjónustu.

5. gr.

6. mgr. 49. gr. samþykktarinnar orðast svo:

Bæjarritari er staðgengill bæjarstjóra.

6. gr.

52. gr. samþykktarinnar orðast svo:

Forstöðumenn stofnana sveitarfélagsins ráða starfsmenn sinna stofnana, bæði fastráðna og laus­ráðna, og veita þeim lausn frá störfum, nema vald til slíks sé með lögum fengið öðrum aðilum eða á annan veg mælt fyrir í reglugerðum um sérmál tiltekinna stofnana.

7. gr.

Samþykkt þessi sem bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga hefur sett skv. ákvæðum 9. og 18. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu 19. desember 2019.

F. h. r.

Guðni Geir Einarsson.

Stefanía Traustadóttir.


B deild - Útgáfud.: 10. janúar 2020