Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 83/2020

Nr. 83/2020 9. júlí 2020

LÖG
um breytingu á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997 (mótframlagslán).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    Ráðherra er heimilt að semja við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins um framkvæmd mótframlagslána til sprota- og nýsköpunarfyrirtækja, gegn framlagi fjárfesta til viðkomandi fyrirtækja, sem veitt verða til rekstrarfjármögnunar á árinu 2020. Í slíkum samningi skal m.a. kveðið á um skilyrði, kjör, afgreiðslu og meðferð mótframlagslána.

    Ráðherra skipar nefnd sem skal taka ákvarðanir um hvort skilyrði fyrir veitingu mótframlagslána frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins séu uppfyllt og um veitingu þeirra, sbr. 1. mgr. Ákvæði 5. gr. um hlutverk, ákvarðanatöku og ábyrgð stjórnar Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins skulu því ekki gilda um þær ákvarðanir. Ráðherra sem fer með ríkisfjármál tilnefnir einn nefndarmann og stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins einn en einn skal skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmargir varamenn skulu tilnefndir á sama hátt. Ákvarðanir nefndarinnar eru endanlegar á stjórnsýslustigi.

 

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

Gjört á Bessastöðum, 9. júlí 2020.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.


A deild - Útgáfud.: 20. júlí 2020