Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 680/2021

Nr. 680/2021 26. maí 2021

SKIPULAGSSKRÁ
fyrir Sviðslistamiðstöð Íslands.

1. gr.

Heiti.

Sviðslistamiðstöð Íslands, skammstöfuð SLM, er sjálfseignarstofnun með sérstaka stjórn og starfar á grundvelli laga nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa skv. staðfestri skipulagsskrá. Heimili hennar og varnarþing er í Reykjavík.

 

2. gr.

Tilgangur.

Tilgangur Sviðslistamiðstöðvar er að vinna að eflingu sviðslista innanlands og utan, efla tengsl og skapa sóknarfæri fyrir íslenskt sviðslistafólk, félög og stofnanir sem starfa á atvinnugrundvelli, innanlands sem og á alþjóðlegum vettvangi. Tilgangi sínum hyggst miðstöðin ná m.a. með því að:

Veita sviðslistafólki margs konar stuðning í formi þjónustu, ráðgjafar og tengslamyndunar.
Styðja við og efla samstarf, kynningu og miðlun á sviði sviðslista innanlands og alþjóðlega.
Eiga frumkvæði að því að skapa tækifæri og efla og annast alþjóðlegt tengslanet heima fyrir og erlendis.
Skipuleggja fræðslu- og kynningarviðburði eftir því sem við á.
Eiga samráð og samstarf við stofnanir, félög og hátíðir um allt land til eflingar listgreininni og atvinnusköpun á því sviði.
Stuðla að eflingu innviða og þróunar á sviði sviðslista um allt land.
Veita faglega ráðgjöf á sviði sviðslista til ráðuneyta, utanríkisþjónustunnar og annarra eftir því sem við á.
Eiga samstarf við miðstöðvar, stofnanir og samtök á sviði menningar, lista og skapandi greina.
Eiga reglulegt samráð við stjórnvöld um starfsemi miðstöðvarinnar og málefni sviðslista sem undir hana heyra.

 

3. gr.

Stofnendur.

Stofnendur Sviðlistamiðstöðvar eru:

Bandalag sjálfstæðra leikhúsa (SL), kt. 490896-2449.
Danshöfundafélag Íslands (DFÍ), kt. 440216-0800.
Dansverkstæðið, kt. 560710-0700.
Félag íslenskra leikara (FÍL), kt. 530169-7319.
Félag íslenskra listdansara (FÍLD), kt. 700671-0119.
Félag leikmynda- og búningahöfunda (FLB), kt. 620694-2829.
Félag leikskálda og handritshöfunda (FLH), kt. 450276-0149.
Félag leikstjóra á Íslandi (FLÍ), kt. 561074-0549.
Félag tæknifólks í rafiðnaði (FTR), kt. 560493-3049.
Íslenska óperan, kt. 491080-0279.
Íslenski dansflokkurinn, kt. 570174-0619.
Leikfélag Akureyrar, kt. 431014-0330.
Leikfélag Reykjavíkur, kt. 420269-6849.
Ríkisútvarpið – RÚV, kt. 600307-0450.
Sviðslistasamband Íslands, kt. 671077-0599.
Tjarnarbíó, kt. 590810-1180.
Þjóðleikhúsið, kt. 710269-2709.

 

4. gr.

Stofnfé.

Stofnfé Sviðslistamiðstöðvar Íslands er kr. 1.285.000. Stofnfé er framlag mennta- og menn­ingar­mála­ráðuneytis til stofnenda sjálfseignarstofnunarinnar.

Sviðslistamiðstöðin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum og öðrum þeim eignum er hún kann að eignast síðar.

Engin sérréttindi í stofnuninni tilheyra stofnendum hennar.

 

5. gr.

Tekjur.

Tekjur miðstöðvarinnar skulu vera:

Framlög opinberra aðila.
Framlög einkaaðila.
Vaxtatekjur.
Styrkir, gjafir eða önnur framlög sem miðstöðinni kunna að berast.

 

6. gr.

Stjórn.

Stjórn Sviðslistamiðstöðvar er skipuð fimm einstaklingum og fimm varamönnum. Stjórnin skal kosin til þriggja ára í senn, utan fulltrúa Sviðslistasambands Íslands sem skal sitja í fjögur ár í senn. Gæta skal kynjajafnræðis við skipan stjórnar og skal formaður vera skipaður af mennta- og menn­ingarmálaráðuneyti.

Eftirtaldir skulu tilnefna hver, einn aðalmann og einn varamann, í stjórn:

Mennta- og menningarmálaráðuneyti
Sviðslistasamband Íslands
SL Bandalag sjálfstæðra leikhúsa
SAFAS Samráðsnefnd fagfélaga í sviðslistum
SAVÍST Samtök atvinnuveitenda í sviðslistum og tónlist

Tilnefningaraðilar skulu hafa með sér samráð, byggt á faglegum grunni, við val á stjórnar­mönnum. Gæta skal að jafnvægi milli greina, kynja og aldurs við val á stjórnarmönnum. Hver stjórnarmaður situr fyrir hönd allra hópa innan sviðslista og þarf að hafa góða og yfirgripsmikla þekkingu á fjölbreytileika sviðslista, vinna faglega og sýna hlutleysi.

Formaður stjórnar undirbýr og boðar stjórnarfundi í samráði við framkvæmdastjóra. Hver stjórnar­maður, auk framkvæmdastjóra, getur kallað eftir að haldinn verði stjórnarfundur. Stjórnar­fundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Halda skal fundar­gerða­bók um það sem gerist á stjórnarfundum.

Stjórn mótar miðstöðinni stefnu og hefur eftirlit með því að þeirri stefnu sé framfylgt. Stjórn stuðlar að vexti og viðgangi miðstöðvarinnar með því að iðka vandaða starfshætti og faglega verk­efnastjórn. Stjórn leitast við að ná samstöðu um ákvarðanir án atkvæðagreiðslu.

Stjórnin setur sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa hennar og skiptir sjálf með sér verkum hvað varðar ritara, varaformann og gjaldkera. Ekki er heimilt að skipa sama einstakling aðalmann í stjórn Sviðslistamiðstöðvar lengur en tvö samfelld starfstímabil. Undirskriftir meirihluta stjórnar skuldbinda stofnunina. Stjórn Sviðslistamiðstöðvar getur veitt prókúruumboð fyrir hönd hennar. Stjórnin fer með æðsta vald í málefnum sjálfseignarstofnunarinnar.

 

7. gr.

Framkvæmdastjóri.

Stjórn Sviðslistamiðstöðvar ræður framkvæmdastjóra í fullt starf til að annast daglegan rekstur og stjórn fjármála miðstöðvarinnar. Framkvæmdastjóri mótar starfsemi stofnunarinnar ásamt stjórn. Framkvæmdastjóri situr fundi stjórnar með málfrelsi og tillögurétt. Hann skal ennfremur sjá um að bókhald sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna miðstöðvarinnar sé með tryggi­legum hætti. Hann hefur heimild til að útvista verkefnum. Nánar skal kveðið á um starfskjör og starfstíma framkvæmdastjóra í ráðningarsamningi.

 

8. gr.

Fagráð.

Fagráð er skipað þremur fulltrúum og þremur til vara. Hlutverk þess er að koma að úthlutun ferða­styrkja sem og annarra styrkja sem stofnunin hefur til úthlutunar og er stjórn og framkvæmda­stjóra ráðgefandi um meiriháttar alþjóðleg samstarfsverkefni sem skapast á sviði sviðslista. Stjórnin skipar, fagráð til tveggja ára í senn skv. tilnefningu frá SAFAS, samráðsvettvangi fagfélaga í sviðs­listum. Fagráðið skal í heild sinni endurspegla sérþekkingu og fjölbreytileika sviðslista á Íslandi. Við skipan ráðsins skal gæta jafnvægis milli kynja og aldurs. Fulltrúum í fagráði ber að uppfylla hæfis­skilyrði stjórnsýslulaga. Stjórn Sviðslistamiðstöðvar ákveður þóknun fyrir nefndar­setu. Fram­kvæmda­stjóri situr fundi fagráðsins, er til ráðgjafar og undirbýr og leggur fyrir það erindi. Fulltrúar fagráðs eru bundnir trúnaði. Fagráðinu er heimilt að setja sér reglur og skal halda fundar­gerða­bók.

Gert er ráð fyrir að hver fulltrúi sitji í a.m.k. 2 ár í fagráði, að hámarki 4 ár.

 

9. gr.

Endurskoðun reikninga.

Stjórn Sviðslistamiðstöðarinnar skal velja einn eða fleiri löggilta endurskoðendur/skoðunar­menn til að endurskoða reikninga stofnunarinnar fyrir hvert starfsár. Endurskoðendur/skoðunarmenn má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna eða starfsmanna miðstöðvarinnar.

 

10. gr.

Reikningsárið.

Starfsár og reikningsár er frá 1. janúar til 31. desember og er fyrsta reikningstímabil frá stofnun sjálfseignarstofnunarinnar og til næstu áramóta.

 

11. gr.

Breyting skipulagsskrár, slit og sameining.

Til þess að breyta skipulagsskrá þessari, sameina stofnunina annarri sjálfseignarstofnun eða leggja hana niður, þarf samþykki allra stjórnarmanna miðstöðvarinnar á tveimur fundum stjórnar, sem haldnir skulu með minnst einnar viku millibili. Slíkt skal svo borið skriflega undir embætti sýslu­mannsins á Norðurlandi vestra. Komi til niðurlagningar stofnunarinnar skal hreinni eign hennar varið til markmiðanna sem greint er frá í 2. gr. hér að ofan eða skyldra markmiða.

 

12. gr.

Staðfesting sýslumanns.

Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Norðurlandi vestra á skipulagsskrá þessari.

 

Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með skv. lögum um sjóði og stofnanir, sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá nr. 19/1988.

 

F.h. sýslumannsins á Norðurlandi vestra, 26. maí 2021,

 

Björn Hrafnkelsson.

Auður Steingrímsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 9. júní 2021