Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 350/2021

Nr. 350/2021 17. mars 2021

REGLUR
um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

I. KAFLI

Almenn atriði.

1. gr.

Lagagrundvöllur fjárhagsaðstoðar.

Skylt er að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, sbr. og III. kafla reglna þessara.

Heimilt er að veita einstaklingum og fjölskyldum aðstoð vegna sérstakra aðstæðna, m.a. vegna heimilisstofnunar, náms eða óvæntra áfalla, sbr. IV. kafla reglna þessara.

Virða skal sjálfsákvörðunarrétt umsækjenda og þeir studdir til sjálfshjálpar, virkrar þátttöku og valdeflingar í mótun þjónustu sem að þeim snýr. Skal þess gætt að upplýsa umsækjendur um réttindi sín, en jafnframt þá ábyrgð sem á þeim hvílir gagnvart sjálfum sér og öðrum, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.

Félagsleg ráðgjöf skal standa umsækjanda til boða, sbr. V. kafla laga um félagsþjónustu sveitar­félaga nr. 40/1991 og 9. gr. reglna þessara. Skal þjónustan miða að valdeflingu og hvatningu til virkrar þátttöku í samfélaginu og taka mið af einstaklingsbundnum þörfum og aðstæðum hvers og eins.

Gefa skal sérstakan gaum að fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum barnafjölskyldna og meta sérstaklega þarfir barna vegna þátttöku þeirra í þroskavænlegu félagsstarfi, í samræmi við 30. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. og 10., 16. og 17. gr. reglna þessara.

Jafnan skal kanna til þrautar rétt umsækjanda til annarra greiðslna, þar með talið frá almanna­tryggingum, atvinnuleysistryggingum, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, svo og skal kanna rétt til aðstoðar samkvæmt lögum um námsstyrki.

 

2. gr.

Framfærsluskylda.

Hverjum manni er skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára, sbr. hjúskaparlög nr. 31/1993 og 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Fólk sem er í skráðri sambúð í þjóðskrá á sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón.

 

3. gr.

Mat á fjárþörf.

Við ákvörðun á fjárhagsaðstoð skal grunnfjárþörf til framfærslu lögð til grundvallar og frá henni dregnar heildartekjur. Heimilt er að lækka grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar í ákveðnum tilvikum, sbr. 11. gr. reglna þessara. Tekið skal tillit til sérstakra aðstæðna eftir því sem við á, sbr. reglur þessar og fjárhagsaðstoð veitt í samhengi við aðra þjónustu og stuðning sem umsækjandi fær frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

 

4 gr.

Réttur fylgir lögheimili.

Umsókn um fjárhagsaðstoð skal leggja fram í lögheimilissveitarfélagi. Skal umsækjandi dvelja á Íslandi á því tímabili sem hann fær fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Þurfi einstaklingur á skyndi­legri aðstoð að halda í dvalarsveitarfélagi vegna slyss, veikinda eða af öðrum brýnum orsök­um er skylt að veita tímabundna aðstoð. Skal haft samráð við lögheimilissveitarfélag umsækjanda og aðstoð metin og veitt í samræmi við reglur þess. Lögheimilissveitarfélag endurgreiðir dvalar­sveitarfélagi kostnaðinn að fullu, sbr. 14. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.

 

5. gr.

Form fjárhagsaðstoðar.

Fjárhagsaðstoð skal að jafnaði veitt sem styrkur. Fjárhagsaðstoð er einungis veitt sem lán óski umsækjandi þess eða könnun á aðstæðum leiðir í ljós að eðlilegt sé að gera kröfur um endurgreiðslur með tilliti til eigna og framtíðartekna, sbr. 24. gr. og 25. gr. reglna, þessara sbr. og 22. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Lán eru vaxtalaus.

 

6. gr.

Gildistími umsóknar um fjárhagsaðstoð til framfærslu.

Fjárhagsaðstoð til framfærslu skal greidd einn mánuð í senn og skulu ákvarðanir um aðstoð að jafnaði ekki ná yfir lengra tímabil. Móttaka umsóknar um fjárhagsaðstoð til framfærslu ákvarðar fyrir hvaða mánuð umsókn gildir.

Þegar umsækjandi fær jafnframt bætur frá Tryggingastofnun ríkisins eða greiðslur frá Fæðingar­orlofssjóði og ljóst er að aðstæður hans muni ekki breytast, er heimilt að samþykkja aðstoð í sex mánuði í senn.

 

7. gr.

Fjárhagsaðstoð aftur í tímann.

Fjárhagsaðstoð er aldrei skylt að veita lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn er lögð fram, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Rökstuddar ástæður þurfa að liggja að baki ef aðstoð er veitt aftur í tímann og verður skilyrðum reglna þessara fyrir fjárhags­aðstoð að vera fullnægt allt það tímabil sem sótt er um.

 

II. KAFLI

Umsókn um fjárhagsaðstoð.

8. gr.

Umsókn og fylgigögn.

Umsókn um fjárhagsaðstoð skal leggja fram með rafrænum hætti á vefsíðu Reykjavíkurborgar og undirrita með rafrænum skilríkjum. Umsókn getur einnig verið lögð fram á sérstöku eyðublaði hjá þjónustumiðstöð, undirrituðu af umsækjanda sem þá skal framvísa gildu persónuskilríki með mynd.

Í umsókn skulu koma fram upplýsingar um umsækjanda, þar með talið lögheimili, fjölskyldu­gerð, nafn maka og barna á framfæri, upplýsingar um skráningu í nám. Umsækjanda ber að leggja fram dvalarleyfi í þeim tilfellum sem það á við.

Umsókn skal fylgja yfirlit yfir eignir og tekjur vegna síðastliðins árs, yfirlit yfir allar tekjur og aðrar greiðslur til umsækjanda og maka hans þann mánuð sem umsókn er lögð fram og mánuðinn á undan, þar með taldar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, innlendum og erlendum lífeyris­sjóð­um, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bönkum, sparisjóðum, lánastofnunum eða öðrum aðilum auk mæðra- og feðralauna.

Þegar umsækjandi er atvinnulaus skal hann skrá sig hjá Vinnumálastofnun og leggja fram staðfestingu þess efnis ásamt staðfestingu á réttindastöðu sinni hjá Vinnumálastofnun og greiðslu bóta. Umsækjandi skal sýna fram á virka atvinnuleit á Íslandi. Hafi umsækjandi hvorki skráð sig hjá Vinnumálastofnun né sinnt virkni, án viðhlítandi skýringa, missir hann hlutfallslegan rétt til fjárhagsaðstoðar það tímabil, sbr. 11. gr. reglna þessara.

Hafi umsækjandi ekki fengið atvinnuleysisbætur vegna veikinda eða hann er ekki fær um að sinna atvinnu vegna veikinda skal hann framvísa læknisvottorði sem skal útgefið af heilsugæslu- eða sérfræðilækni umsækjanda. Í læknisvottorði skal koma fram mat læknis á óvinnufærni og áætlun um endurhæfingu, þegar við á. Læknisvottorð skal að jafnaði ekki vera eldra en fjögurra vikna þegar það er lagt fram og ekki til lengri tíma en þriggja mánaða nema annað komi fram í einstaklingsáætlun.

Erlendum ríkisborgurum ríkis innan EES ber að framvísa staðfestingu á lögheimilisskráningu. Réttur til fjárhagsaðstoðar getur myndast í fyrsta lagi þremur mánuðum eftir skráningu lögheimilis.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar getur, ef þörf krefur, aflað frekari upplýsinga um umsækjanda, m.a. hjá skattayfirvöldum, atvinnurekendum, Tryggingastofnun ríkisins, Vinnumálastofnun, Útlend­inga­stofnun, innlendum og erlendum lífeyrissjóðum. Skal það gert í samráði við umsækjanda.

Umsækjandi skal skila inn nauðsynlegum gögnum í síðasta lagi tveimur vikum eftir að umsókn hefur verið undirrituð. Að öðrum kosti skal umsókn synjað á grundvelli ófullnægjandi gagna. Heimilt er að synja umsókn um fjárhagsaðstoð ef umsækjandi neitar að veita upplýsingar um fjárhag sinn og/eða maka síns eða aðrar upplýsingar, sbr. 3. mgr. 8 gr. reglna þessara.

 

9. gr.

Félagsleg ráðgjöf og samráð.

Kanna skal sérstaklega aðstæður umsækjanda sem fengið hefur fjárhagsaðstoð lengur en þrjá mánuði. Samhliða skal veita félagslega ráðgjöf, sbr. V. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Gera skal einstaklingsáætlun þar sem hafa skal samvinnu og samráð að leiðarljósi, sbr. 8. gr. og 58. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

 

III. KAFLI

Réttur til fjárhagsaðstoðar – Útreikningur fjárhagsaðstoðar.

10. gr.

Grunnfjárhæðir.

Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings, 18 ára eða eldri, sem rekur eigið heimili getur numið allt að 212.694 kr. á mánuði.

Með rekstri eigin heimilis, sbr. ákvæði 1. mgr. er átt við þegar viðkomandi býr í eigin húsnæði eða leigir húsnæði og leggur fram þinglýstan húsaleigusamning.

Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til hjóna/sambúðarfólks getur numið allt að 340.320 kr. (212.694 x 1,6).

Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings sem býr með öðrum, leigir húsnæði án þinglýsts leigusamnings eða hefur ekki aðgang að húsnæði er 179.206 kr.

Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings sem býr hjá foreldrum er 106.346 kr. (212.694 : 2). Hafi einstaklingur, sem fellur undir framangreint forsjá barns, skal viðkomandi reiknuð grunn­fjárhæð sem nemur 179.206 kr. á mánuði.

Til viðbótar við grunnfjárhæð skal í hverjum mánuði greidd sérstök fjárhagsaðstoð fyrir hvert barn sem er með lögheimili og á framfæri foreldris sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum. Skal aðstoðin mæta kostnaði vegna dvalar barna í leikskóla í allt að átta tíma og dvalar barna á frístundaheimili, fimm daga í viku, auk greiðslu kostnaðar vegna skólamáltíða og síðdegis­hressingar. Um þjónustugreiðslur er að ræða sem greiðast til skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Sama gildir um daggæslu barns í heimahúsi eða á einkareknum leikskóla. Foreldri sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum fær sérstaka fjárhagsaðstoð fyrir hvert barn með lögheimili og á framfæri foreldris sem er í daggæslu í heimahúsi eða á einkareknum leikskóla. Miðað er við að aðstoðin nemi sömu upphæð og foreldrar greiða í náms- og fæðisgjald fyrir átta stundir á leikskólum Reykjavíkurborgar. Greitt er gegn framvísun greiðslukvittana.

Unglingar yngri en 18 ára eiga ekki rétt á fjárhagsaðstoð í eigin nafni.

Fjárhæðir verða endurskoðaðar af velferðarráði árlega í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar.

 

11. gr.

Lækkun grunnfjárhæðar.

Hafi umsækjandi hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa, skal greiða hálfa grunnfjárhæð til framfærslu, sbr. 10. gr. reglna þessara, í tvo mánuði nema veigamiklar ástæður sem koma fram í mati mæli gegn því.

Lækkun fjárhagsaðstoðar hefst þegar fyrir liggur staðfesting á því að umsækjandi hafi hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu. Sama gildir um umsækjanda sem sætir viðurlögum eða er á biðtíma samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Þá skal greiða hálfa grunnfjárhæð til framfærslu verði umsækjandi uppvís að því að stunda atvinnu án þess að upplýsa um tekjur.

Heimilt er að greiða hálfa grunnfjárhæð til umsækjanda sem ekki sinnir kröfu um staðfestingu á atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun, án viðhlítandi skýringa. Sama gildir um umsækjanda sem hætt hefur þátttöku í átaksverkefni, endurhæfingu eða námi og/eða stendur ekki við einstaklingsáætlun, nema veigamiklar ástæður sem fram koma við mat á aðstæðum umsækjanda mæli gegn því.

Þeir einstaklingar sem fá fjárhagsaðstoð til framfærslu á grundvelli læknisvottorðs um óvinnu­færni skulu í samvinnu við félagsráðgjafa gera einstaklingsáætlun sem miðar að því að umsækjandi nái vinnufærni að öllu leyti eða að hluta. Sinni einstaklingur ekki einstaklingsáætlun skal greiða hálfa grunnfjárhæð til framfærslu þann mánuð og mánuðinn á eftir nema veigamiklar ástæður sem fram koma við mat á aðstæðum umsækjanda mæli gegn því. Læknisvottorð skal útgefið af heilsu­gæslu- eða sérfræðilækni umsækjanda og ekki til lengri tíma en þriggja mánaða. Í læknisvottorði skal koma fram mat læknis á vinnufærni og áætlun um endurhæfingu þegar það á við. Læknisvottorð skal að jafnaði ekki vera eldra en fjögurra vikna þegar það er lagt fram.

Taka skal mið af félagslegum aðstæðum barna áður en ákvörðun er tekin um lækkun fjárhags­aðstoðar til einstaklinga sem eru með börn á framfæri.

Fjárhagsaðstoð veitt á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hendi þess sem aðstoðina fær er ætíð endurkræf, sbr. 23. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og 33. gr. reglna þessara.

 

12. gr.

Tekjur og eignir umsækjanda.

Með tekjum er átt við allar tekjur einstaklings/maka sem ekki eru sérstaklega til framfærslu barna, þ.e. atvinnutekjur, allar skattskyldar tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins, greiðslur úr lífeyris­sjóðum, atvinnuleysisbætur, leigutekjur o.fl.

Allar tekjur einstaklingsins/maka, í þeim mánuði sem sótt er um og mánuðinn á undan, aðrar en greiðslur vegna barna og húsnæðis-/vaxtabætur og/eða sérstakur húsnæðisstuðningur, koma til frá­dráttar við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar. Mæðra- og feðralaun reiknast umsækjanda til tekna. Eigi umsækjandi rétt á atvinnuleysisbótum, skal reikna atvinnuleysisbætur honum til tekna. Hið sama á við ef umsækjandi á rétt á greiðslum frá öðrum aðilum.

Heimilt er að veita undanþágu frá tekjum fyrri mánaðar vegna einstaklinga sem eru að ljúka endurhæfingu og hafa fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, fyrsta mánuðinn eftir að greiðslum lýkur.

Miða skal við heildartekjur áður en tekjuskattur hefur verið dreginn frá.

Við mat á fjárhagsaðstoð er gert ráð fyrir að kostnaður vegna barna greiðist af barnabótum, og meðlögum ef við á.

Húsnæðis- og vaxtabætur eru ekki taldar til tekna. Gert er ráð fyrir að húsnæðiskostnaði verði fyrst og fremst mætt með greiðslum vaxta- og/eða húsnæðisbóta, en einnig er gert ráð fyrir honum í grunnfjárhæð.

Eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlingur, eignir umfram íbúðarhúsnæði til eigin nota og eina bifreið, eða hafi hann nýlega selt eignir sínar, skal honum vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða, þó að tekjur hans séu lægri en grunnfjárhæð. Ef umsækjandi, maki hans eða sambýlis­aðili, á eignir sem nýst geta til framfærslu á hann ekki rétt á fjárhagsaðstoð.

 

13. gr.

Greiðslur meðlags.

Heimilt er að greiða áfallandi meðlagsgreiðslur einstaklings sem fær greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu. Greitt er beint til Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Fjárhagsaðstoð hækkar sem nemur einu meðlagi eins og það er á hverjum tíma með hverju barni. Átt er við meðlagsgreiðslur hverju sinni en ekki uppsafnaðar meðlagsskuldir. Liggi fyrir samkomulag við Innheimtustofnun sveitar­félaga um greiðslu meðlagsskuldar er heimilt að greiða áfallandi meðlagsgreiðslur. Skilyrði er að barn/börn umsækjanda séu með lögheimili á Íslandi.

 

14. gr.

Atvinnurekendur, sjálfstætt starfandi einstaklingar og fólk í hlutastörfum.

Atvinnurekendur og sjálfstætt starfandi einstaklingar sem hafa lægri tekjur en sem nemur grunn­fjárhæð, eiga rétt á fjárhagsaðstoð að því tilskildu að umsækjandi geti sýnt fram á að hafa stöðvað atvinnurekstur sinn og leitað réttar síns til atvinnuleysisbóta í samræmi við ákvæði laga um atvinnu­leysis­tryggingar, nr. 54/2006, sbr. og 4.-6. mgr. 1. gr. reglna þessara.

Sé umsækjandi í hlutastarfi með tekjur undir grunnfjárhæð skal gerð krafa um að viðkomandi skrái sig hjá Vinnumálastofnun og leiti að fullu starfi.

 

IV. KAFLI

Heimildir vegna sérstakra aðstæðna.

15. gr.

Framfærsla í námi á framhaldsskólastigi.

Framfærslu í námi á framhaldsskólastigi er heimilt að veita til einstaklinga frá 18 ára aldri sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla vegna mikilla og langvarandi félagslegra erfiðleika og eiga ekki rétt á framfærslu frá öðrum aðilum.

Aðstoðin miðast við fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt 10. gr. reglna þessara. Ætíð skal liggja fyrir mat á félagslegum aðstæðum. Alla jafna er um að ræða fullt nám á hverri önn eða til samræmis við fyrirliggjandi einstaklingsáætlun.

Einstaklingsáætlun skal liggja fyrir þar sem markmið með námi koma fram, hvernig skuli staðið að skilum varðandi skólasókn, námsframvindu og einkunnir sem og staðfesting á hlutfallslegri þátttöku í námi ef ekki er um fullt nám að ræða. Að jafnaði skal miða við 90% mætingu. Einkunnum skal skilað við lok hverrar annar. Skal námið vera liður í valdeflingu umsækjanda.

Ætíð er um tímabundna aðstoð að ræða. Ákvarðanir um framfærslu í námi skulu teknar fyrir hverja önn og er heimilt að halda námsaðstoð áfram með hliðsjón af námsframvindu.

Framlag til menntunar sem umsækjandi kann að fá, reiknast honum til tekna.

Gildistími umsóknar er þrír mánuðir frá samþykkisdegi.

 

16. gr.

Aðstoð til foreldra vegna barna á þeirra framfæri.

Heimilt er að veita sérstaka aðstoð til foreldra vegna barna á þeirra framfæri í eftirtöldum til­vikum.

 1. Heimilt er að veita sérstaka aðstoð til foreldra í þeim mánuði sem þeir fá greidda fjárhags­aðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum vegna skólabyrjunar þann 15. ágúst og sér­staka aðstoð vegna jólahalds þann 1. desember á ári hverju. Um er að ræða 17.071 kr. fyrir hvert barn í hvort skipti. Heimildin nær til þeirra foreldra sem fá greidda fjárhagsaðstoð til fram­færslu samkvæmt reglum þessum í ágúst og desember ár hvert.
 2. Í þeim tilvikum þar sem um er að ræða sérstök meðferðar- og/eða stuðningssjónarmið, fyrir­byggjandi starf á sviði barnaverndar eða á grundvelli einstaklingsáætlunar, er heimilt að veita foreldrum styrk vegna áfallandi greiðslna sem nema heildarkostnaði eða hluta hans vegna dag­gæslu barns í heimahúsum, leikskóla, skólamáltíða, frístundaheimilis, sumardvalar, skóla­gjalda og/eða þátttöku barns í þroskandi félags- og tómstundastarfi. Ætíð skal vera um tímabundna samþykkt að ræða, sem sætir endurskoðun á þriggja mánaða fresti.

Gildistími umsóknar er þrír mánuðir frá samþykkisdegi.

 

17. gr.

Námskostnaður barna í skóla fjarri heimabyggð.

Ef sérstök meðferðar- og/eða stuðningssjónarmið mæla með því, er heimilt að taka sérstakt tillit til námskostnaðar barna tekjulágra foreldra sem ekki geta sótt framhaldsskóla í Reykjavík. Við mat á fjárþörf skal taka mið af aðstæðum fjölskyldu, m.a. fjárhag hennar og fjarlægð skóla frá heimili. Skilyrði fyrir aðstoð er að sótt hafi verið um námsstyrk samkvæmt lögum um námsstyrki nr. 79/2003 og fjárþörf síðan metin að teknu tilliti til námsstyrksins.

Gildistími umsóknar er þrír mánuðir frá samþykkisdegi.

 

18. gr.

Styrkur vegna innritunarkostnaðar og kaupa á námsgögnum.

Umsækjandi sem fær samþykkta fjárhagsaðstoð til framfærslu vegna náms samkvæmt 15. gr. reglna þessara skal jafnframt eiga kost á að fá styrk vegna innritunarkostnaðar og kaupa á náms­gögnum.

Einnig er heimilt að veita tekjulágum foreldrum, sem hafa átt við langvarandi félagslega erfið­leika að etja, fjárstyrk vegna náms 16 og 17 ára barna þeirra vegna innritunarkostnaðar og kaupa á námsgögnum. Leitast ber við að kanna aðstæður beggja foreldra þegar mat er lagt á umsókn.

Hámarksfjárhæð vegna innritunarkostnaðar fyrir hverja önn er 20.000 kr. Hámarksfjárhæð vegna kaupa á námsgögnum fyrir hverja önn er 25.000 kr. Greitt er gegn framvísun sundurliðaðra greiðslukvittana.

Ákvarðanir um námskostnað skulu teknar fyrir hverja önn.

Gildistími umsóknar er þrír mánuðir frá samþykkisdegi.

 

19. gr.

Styrkur vegna húsbúnaðar.

Fjárhagsaðstoð til kaupa á húsbúnaði er heimil í eftirfarandi tilvikum:

 1. Til einstaklings sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum er eigna­laus og er að stofna heimili eftir a.m.k. tveggja ára dvöl á stofnun.
 2. Til ungs fólks á aldrinum 18–24 ára, sem er eignalaust, fær fjárhagsaðstoð til framfærslu sam­kvæmt reglum þessum, hefur átt í miklum félagslegum erfiðleikum og er að stofna heimili í fyrsta sinn.
 3. Þegar rýma þarf íbúð af heilbrigðisástæðum.
 4. Þegar um er að ræða einstaklinga/hjón/sambúðarfólk sem á í félagslegum erfiðleikum og þarf aðstoð vegna kaupa á nauðsynlegum heimilistækjum. Skilyrði er að viðkomandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum síðastliðna þrjá mánuði.
 5. Til einstaklings sem er eignalaus, er að stofna heimili í fyrsta sinn eða að nýju og hefur átt í miklum og langvarandi félagslegum erfiðleikum, auk þess að vera í eða hafa nýlokið endur­hæfingu.
 6. Til einstaklings sem er að stofna heimili, er með miklar og flóknar þjónustuþarfir og hefur verið heimilislaus.

Viðmiðunarmörk aðstoðar eru allt að 100.000 kr. Greitt er gegn framvísun sundurliðaðra greiðslu­kvittana.

Húsbúnaðarstyrkir greiðast einu sinni.

Gildistími umsóknar er þrír mánuðir frá samþykkisdegi.

 

20. gr.

Greiðsla sérfræðiaðstoðar.

 1. Heimilt er að veita fjárhagsaðstoð til greiðslu nauðsynlegra tannlækninga á Íslandi til einstak­linga sem fengið hafa fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum, samfleytt undanfarna 12 mánuði.
  Viðmiðunarmörk aðstoðar eru 80.000 kr. á ári.
  Kostnaðaráætlun tannlæknis skal fylgja með umsókn.
 2. Heimilt er að veita einstaklingum í eftirtöldum aðstæðum fjárhagsaðstoð til greiðslu viðtala hjá viðurkenndum meðferðaraðilum sem hafa starfsleyfi frá embætti landlæknis, s.s. félags­ráðgjöf­um, sálfræðingum, geðlæknum og áfengis- og vímuefnaráðgjöfum. Sérfræðiaðstoðin skal vera liður í umfangsmeiri félagslegri aðstoð og fyrirsjáanlegt að eigi sé hægt að veita þjónustuna innan þjónustumiðstöðvar eða á vegum heilbrigðisstofnana.
  1. Einstaklingum sem búa við mikla og langvarandi félagslega erfiðleika.
  2. Einstaklingum eða fjölskyldum sem hafa orðið fyrir alvarlegum áföllum, svo sem skyndi­legum ástvinamissi eða alvarlegu ofbeldi.

Að jafnaði skal veita aðstoð að hámarki fimm tíma í senn og að hámarki tíu tíma á 12 mánaða tímabili.

Gildistími umsóknar er þrír mánuðir frá samþykkisdegi.

 

21. gr.

Útfararstyrkir.

Heimilt er að veita aðstoð til greiðslu útfararkostnaðar þegar staðreynt hefur verið að dánarbúið getur ekki staðið undir útför hins látna. Viðmiðunarmörk eru 250.000 kr.

Eftirfarandi gögn þurfa að fylgja umsókn um útfararstyrk: Staðfest ljósrit af skattframtali hins látna, launaseðlar og greiðsluyfirlit frá tryggingum og lífeyrissjóðum, staðfesting frá stéttarfélagi um rétt til útfararstyrks, tilkynning sýslumanns um skiptalok á grundvelli eignaleysisyfirlýsingar, sbr. 25. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991 eða einkaskiptaleyfi útgefið af sýslumanni til erfingja skv. 31. gr., sbr. 28. gr. sömu laga.

Heimilt er að veita tekjulágum eftirlifandi maka lán eða styrk vegna útfararkostnaðar þegar dánarbúið getur ekki greitt fyrir útför hins látna og eignir eftirlifandi maka eru ekki aðrar en íbúðar­húsnæði sem umsækjandi býr í.

Heimilt er að veita tekjulágu foreldri eða foreldrum lán eða styrk vegna útfararkostnaðar barns þess þegar dánarbúið getur ekki greitt fyrir útför barns og eignir foreldra eru ekki aðrar en íbúðar­húsnæði sem umsækjandi býr í.

Samþykkt aðstoð greiðist gegn framvísun reiknings frá útfararstofu og annarra gagna um kostnað vegna útfarar.

Gildistími umsóknar er þrír mánuðir frá samþykkisdegi.

 

22. gr.

Áfallaaðstoð.

Heimilt er að veita tekjulágum einstaklingum eða fjölskyldum með tekjur undir grunnfjárhæð eða á mörkum hennar, fjárhagsaðstoð vegna skyndilegs missis búslóðar eða annars eignamissis sem orðið hefur vegna bruna eða náttúruhamfara. Aðstoðin kemur einungis til álita þegar tjónþoli hefur ekki haft heimilistryggingu eða aðra tryggingu sem bætir tjónið.

Heimilt er að veita fjárhagsaðstoð til þeirra sem haft hafa fjárhagsaðstoð til framfærslu sam­kvæmt reglum þessum til heildarþrifa á íbúð sem er orðin það heilsuspillandi að illmögulegt er að búa við þær aðstæður. Skilyrði er að lögð séu fram gögn frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar þar að lútandi.

Viðmiðunarmörk aðstoðar eru 100.000 kr.

Gildistími umsóknar er þrír mánuðir frá samþykkisdegi.

 

23. gr.

Ábyrgðaryfirlýsing vegna tryggingar húsaleigu.

Heimilt er að gefa út ábyrgðaryfirlýsingu til tryggingar húsaleigu að hámarki 600.000 kr., til þeirra sem fengið hafa fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum í mánuðinum sem sótt er um og í mánuðinum á undan.

Það sama gildir í þeim tilfellum sem umsækjandi hefur ekki fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum í mánuðinum sem sótt er um og í mánuðinum á undan, en hefur til langs tíma glímt við margháttaðan húsnæðisvanda og mikla félagslega erfiðleika.

Umsækjandi skal leggja fram staðfestingu á því að hann eigi ekki kost á láni frá bönkum eða lánastofnunum.

Skilyrði 2.-4. mgr. 25. gr. reglna þessara skulu vera uppfyllt sé veitt aðstoð samkvæmt þessu ákvæði.

Drög að húsaleigusamningi til a.m.k. þriggja mánaða skulu liggja fyrir áður en ábyrgðar­yfirlýsing er gefin út. Framvísa skal afriti af þinglýstum húsaleigusamningi þegar hann liggur fyrir.

Verði gengið að ábyrgðaryfirlýsingu samkvæmt reglum þessum skal greiða þá upphæð sem um ræðir samkvæmt umsókn beint til leigusala og krefja umsækjanda um greiðslu ábyrgðar. Heimilt er að breyta kröfu um endurgreiðslu umsækjanda í lán.

Aðstoð samkvæmt þessu ákvæði skal að hámarki veitt einu sinni á 12 mánaða tímabili.

 

24. gr.

Aðstoð vegna sérstakra erfiðleika.

Heimilt er að veita einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki lán eða styrk að hámarki 300.000 kr. vegna mikilla fjárhagslegra og félagslegra erfiðleika, að uppfylltum öllum neðangreindum skil­yrðum:

 1. Umsækjandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum undan­farna sex mánuði eða lengur.
 2. Staðfest sé að umsækjandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu banka, sparisjóða eða annarra lánastofnana.
 3. Fyrir liggi yfirlit starfsmanns velferðarsviðs eða umboðsmanns skuldara um fjárhagsstöðu umsækjanda og tillögur að úrbótum þegar við á.
 4. Fyrir liggi á hvern hátt lán eða styrkur muni styrkja félagslega stöðu umsækjanda til hins betra þegar til lengri tíma er litið.
 5. Fyrir liggi einstaklingsáætlun og/eða fjármálaráðgjöf þegar það á við.

Þegar um lán er að ræða skal greiðsluáætlun fylgja með umsókn.

Eigi er heimilt að veita styrk eða lán til greiðslu skulda við banka, sparisjóði og aðrar lána­stofnanir, s.s. greiðslukortafyrirtæki. Þá er hvorki heimilt að veita styrk eða lán til greiðslu skatta­skulda og sekta, né til greiðslu skulda við einkaaðila.

Gildistími umsóknar er þrír mánuðir frá samþykkisdegi.

 

25. gr.

Um fjárhagsaðstoð sem veitt er í formi láns.

Þegar fjárhagsaðstoð er veitt í formi láns skal uppfylla öll skilyrði 24. gr. reglna þessara.

Auk þess skulu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:

 1. Fyrir liggi mat á endurgreiðslugetu umsækjanda. Aðeins skal veita lán þegar ljóst er að umsækjandi muni geta staðið í skilum með afborganir af því.
 2. Umsækjandi veiti skriflegt samþykki fyrir reglulegri skuldfærslu fyrir afborgunum lánsins af reikningi sínum.
 3. Umsækjandi skal ekki hafa fengið afskrifað lán frá Reykjavíkurborg á síðustu 12 mánuðum.

Uppfylla skal ofangreind skilyrði þegar lán er veitt á grundvelli annarra ákvæða í reglum þessum.

Hámark láns sem hægt er að samþykkja er 300.000 kr. Í þeim tilfellum sem um er að ræða ábyrgðar­yfirlýsingu til tryggingar húsaleigu samkvæmt 23. gr. reglna þessara getur hámarks­fjárhæð þó numið 600.000 kr.

Gildistími umsóknar er þrír mánuðir frá samþykkisdegi.

Hámarkslánstími er sex ár.

Eigi er heimilt að veita lán ef umsækjandi er með lán frá Reykjavíkurborg fyrir.

 

26. gr.

Sérstök fjárhagsaðstoð í desember.

Veita skal þeim sem hafa fengið fulla fjárhagsaðstoð undangengna þrjá mánuði samfellt, sér­staka desemberuppbót sem nemur 25% af grunnfjárhæð.

Þeir sem hafa haft tekjur til framfærslu sem samsvara upphæð fjárhagsaðstoðar til framfærslu fyrir sama tímabil eiga einnig rétt á uppbótinni.

 

27. gr.

Sérstök aðstoð vegna stuðningsvinnu og/eða annarra sérstakra aðstæðna.

 1. Heimilt er að veita sérstaka aðstoð í málum þar sem verið er að veita markvissan stuðning. Aðstoðin miðar að því að viðhalda árangri sem náðst hefur með úrræðum og/eða stuðnings­vinnu. Skilyrði er að umsækjandi eigi í miklum félagslegum erfiðleikum og að einstaklings­áætlun hafi verið gerð.
 2. Heimilt er að veita styrk til foreldra vegna sérstakra þarfa barna enda sé það hluti af umfangs­mikilli stuðningsáætlun og til þess fallið að tryggja að árangur vinnu í máli viðkomandi glatist ekki. Skilyrði er að umsækjandi eigi í miklum félagslegum erfiðleikum.
 3. Heimilt er að veita sérstaka aðstoð til einstaklinga sem sýna fram á að þeir njóti augljóslega ekki fjárhagslegs ávinnings af því að búa með öðrum.

Gildistími umsóknar er þrír mánuðir frá samþykkisdegi.

 

V. KAFLI

Málsmeðferð sbr. ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og ákvæði XV. og
XVI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.

28. gr.

Könnun á aðstæðum.

Kanna skal aðstæður umsækjanda svo fljótt sem unnt er eftir að umsókn um fjárhagsaðstoð hefur borist. Sama á við ef upplýsingar um nauðsyn á aðstoð berast með öðrum hætti.

Taka skal ákvörðun í máli svo fljótt sem unnt er og sjá jafnframt til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin.

 

29. gr.

Samvinna við umsækjanda.

Öflun gagna og upplýsinga skal unnin í samvinnu við umsækjanda. Við meðferð umsóknar og ákvarðanatöku skal leitast við að hafa samvinnu og samráð við umsækjanda eftir því sem unnt er.

 

30. gr.

Varðveisla gagna, trúnaður og aðgangur að gögnum.

Málsgögn er varða persónulega hagi umsækjenda skulu varðveitt á öruggan hátt í samræmi við lög um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014, skjalavistunaráætlanir og reglur borgarinnar.

Starfsmenn eru bundnir þagnarskyldu um málefni umsækjanda er leynt eiga að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Starfsmönnum er óheimilt að rjúfa trúnað nema að fengnu samþykki viðkom­andi. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

Umsækjandi getur óskað eftir aðgangi að fyrirliggjandi gögnum er varða hann sjálfan. Við mat á því hvaða gögnum verður miðlað skal meðal annars litið til ákvæða persónuverndarlaga, upplýs­inga­laga auk annarra laga og reglna sem kunna að eiga við hverju sinni.

Vinnsla mála og varðveisla gagna byggist á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýs­inga, nr. 90/2018. Upplýsingar um vinnslu persónuupplýsinga má finna í persónuverndarstefnu Reykjavíkur­borgar sem aðgengileg er á vefsíðu borgarinnar.

 

31. gr.

Leiðbeiningar til umsækjanda.

Við afgreiðslu umsóknar skal starfsmaður bjóða umsækjanda félagslega og fjárhagslega ráðgjöf og veita upplýsingar og leiðbeiningar um réttindi sem hann kann að eiga annars staðar. Berist skrif­legt erindi sem ekki snertir starfssvið velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, skal starfsmaður í samráði við umsækjanda framsenda erindið á réttan stað svo fljótt sem auðið er.

 

32. gr.

Niðurstaða og rökstuðningur synjunar.

Kynna skal niðurstöðu umsóknar svo fljótt sem unnt er. Sé umsókn hafnað í heild eða að hluta skal umsækjandi fá svar þar sem ákvörðun er rökstudd með skýrum hætti með vísan til laga um félags­þjónustu sveitarfélaga og reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð.

 

33. gr.

Rangar eða villandi upplýsingar.

Fjárhagsaðstoð veitt á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hendi þess sem aðstoðina fær er endurkræf og getur velferðarsvið Reykjavíkurborgar endurkrafið viðkomandi um fjárhæðina sam­kvæmt almennum reglum kröfuréttar. Ef sannreynt er við vinnslu máls að upplýsingar sem umsækjandi hefur veitt eru rangar eða villandi stöðvast afgreiðsla umsóknarinnar.

 

34. gr.

Heimildir til ákvarðana samkvæmt reglum þessum.

Starfsmenn velferðarsviðs taka ákvarðanir samkvæmt reglum þessum í umboði velferðarráðs Reykjavíkurborgar.

Áfrýjunarnefnd velferðarráðs hefur heimild til að veita undanþágu frá reglum þessum ef sér­stakar málefnalegar ástæður liggja fyrir og umsækjandi fer fram á það með sérstakri beiðni og greinar­gerð frá þjónustumiðstöð liggur fyrir.

 

35. gr.

Kynning á ákvörðun um fjárhagsaðstoð.

Kynna skal niðurstöðu umsóknar með skriflegum hætti svo fljótt sem unnt er. Sé umsókn hafnað skal umsækjandi fá skriflegt svar þar sem vísað er með skýrum hætti til viðeigandi ákvæða reglna þessara og leiðbeint um heimild til að óska rökstuðnings fyrir synjun. Upplýsa skal umsækj­anda um rétt hans til að fara fram á að áfrýjunarnefnd velferðarráðs fjalli um umsóknina en slík beiðni skal berast áfrýjunarnefnd velferðarráðs innan fjögurra vikna frá því að umsækjanda barst vitneskja um ákvörðun.

Ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs skal kynnt umsækjanda og um leið skal honum kynntur réttur hans til málskots til úrskurðarnefndar velferðarmála.

 

36. gr.

Málskot til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Umsækjandi getur kært ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs til úrskurðarnefndar velferðar­mála. Skal það gert innan þriggja mánaða frá því umsækjanda var kunngerð ákvörðun áfrýjunar­nefndar velferðarráðs.

 

37. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem samþykktar voru á fundi borgarstjórnar 16. mars 2021 að fengnum tillögum velferðarráðs, byggja á 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, með síðari breyt­ingum. Reglur þessar taka gildi þann 1. apríl 2021 og við gildistöku þeirra falla úr gildi eldri reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg nr. 1026/2010 með síðari breytingum.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Þeir einstaklingar sem taka þátt í tilraunaverkefninu IPS (Individual Placement Support) eiga rétt á undanþágu frá ákvæði 1. mgr. 12. gr. hvað varðar frádrátt tekna við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar. Heimilt verður að veita undanþágu vegna atvinnutekna sem nema allt að 50.000 kr. á mánuði. Tilraunatímabilið mun standa til 31. desember 2021.

 

Borgarstjórinn í Reykjavík, 17. mars 2021.

 

Dagur B. Eggertsson.


B deild - Útgáfud.: 30. mars 2021