Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1540/2020

Nr. 1540/2020 21. desember 2020

SAMÞYKKT
um meðhöndlun úrgangs í Húnaþingi vestra.

1. gr.

Gildissvið og markmið.

Samþykkt þessi gildir um meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. hirðu, söfnun og förgun úrgangs í sveitar­félaginu Húnaþingi vestra.

Um meðhöndlun úrgangs í Húnaþingi vestra fer samkvæmt ákvæðum samþykktar þessarar, lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglu­gerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs og öðrum reglugerðum settum með stoð í framan­­greindum lögum.

Húnaþing vestra sér um söfnun og aðra meðhöndlun heimilisúrgangs frá heimilum og sumar­húsum í sveitarfélaginu og sér til þess að rekin sé söfnunarstöð fyrir úrgang. Sveitarstjórn sér til þess, í samráði við heilbrigðisnefnd og framkvæmdaaðila, að íbúar fái fræðslu um flokkun og aðra með­ferð úrgangs, móttöku hans og förgun, t.d. með útgáfu leiðbeininga.

Markmið samþykktarinnar er:

  1. að lágmarka það úrgangsmagn sem fer til förgunar með því að auka endurvinnslu og endur­nýtingu úrgangs,
  2. að lágmarka kostnað samfélagsins við meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. förgun, og
  3. að kostnaður vegna úrgangs greiðist af þeim sem úrganginum veldur.

 

2. gr.

Fyrirkomulag sorphirðu.

Meðhöndlun úrgangs fer fram undir yfirstjórn sveitarstjórnar og er framkvæmd samþykktar þessarar háð eftirliti heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra. Sveitarstjórn er heimilt að fela öðrum framkvæmd tiltekinna þátta vegna meðhöndlunar úrgangs, þ.m.t. hirðu úrgangs, móttöku spilli­efna, brotajárns og landbúnaðarplasts. Þeir aðilar sem þetta annast skulu hafa starfsleyfi heil­brigðis­nefndar Norðurlands vestra eða Umhverfisstofnunar eftir því sem við á.

 

3. gr.

Íbúðarhúsnæði í þéttbýli og dreifbýli.

Sérhverjum eiganda eða umráðamanni húsnæðis (húsráðanda) í sveitarfélaginu er skylt að nota þær aðferðir og þau ílát við geymslu og meðferð úrgangs sem samþykkt þessi kveður á um. Söfnun úrgangs í sveitarfélaginu fer fram í samræmi við útgefið sorphirðudagatal. Við hvert íbúðarhúsnæði í þéttbýli og við hvert lögheimili í dreifbýli í sveitarfélaginu skal vera sorptunna fyrir almennan heimilisúrgang og sorptunna undir endurvinnanlegan úrgang.

Allan úrgang sem að mati húsráðenda þarf að losa örar en gert er ráð fyrir samkvæmt áætlun þar um, skal húsráðandi sjálfur koma á söfnunarstöð. Húsráðandi getur beðið um að ílátum sé fjölgað við heimili hans og greiðir þá aukagjald sem af því hlýst. Húsráðendur bera ábyrgð á þeim ílátum sem sveitarfélagið lætur þeim í té. Sorpílátum skal koma fyrir á aðgengilegum stað og þau fest tryggilega. Gæta ber þess að auðvelt sé fyrir starfsmenn sorphirðu að losa ílátin úr festingum. Hús­ráðendur skulu halda ílátum hreinum og í góðu ástandi, hreinsa snjó frá sorpílátum og halda greið­færri leið að þeim. Æskilegt er að miðað sé við að fjarlægð frá götu eða heimreið að sorptunnu við íbúðarhús sé eigi meiri en 15 metrar.

Í sorpílát fyrir almennan heimilisúrgang má aðeins setja þann úrgang sem fellur til við venjulegt heimilishald og í samræmi við leiðbeiningar um flokkun úrgangs. Óheimilt er að láta garðaúrgang, jarðvegsefni, brotajárn og annan grófan úrgang í sorpílátin. Jarðvegsefnum, þ.m.t. grjóti eða múr­broti, skal skilað á söfnunarstöð eða komið fyrir á sérmerktum losunarstöðum í samráði við rekstrar­stjóra Húnaþings vestra. Spilliefnum og hættulegum úrgangi skal skilað á söfnunarstöð sveitar­félagsins.

 

4. gr.

Sumarhús og frístundahús.

Eigendum sumarhúsa og frístundahúsa er skylt að nota þær aðferðir og þau ílát við meðferð úrgangs sem samþykkt þessi kveður á um. Í dreifbýli eru sorpkör fyrir almennan heimilisúrgang, en körin eru ætluð sumarhúsaeigendum og eigendum húsa þar sem ekki er föst ábúð og eru þau losuð samkvæmt sorphirðudagatali fyrir dreifbýli. Frágangur og umgengni við sorpgáma skal vera sam­kvæmt kröfum umhverfissviðs Húnaþings vestra og heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra. Öllum öðrum úrgangi en almennum heimilisúrgangi, s.s. timbri og járni, skal skila til söfnunarstöðvar.

 

5. gr.

Fyrirtæki, rekstraraðilar og stofnanir.

Eigendur og umráðamenn atvinnuhúsnæðis bera ábyrgð á því að með meðhöndlun úrgangs, sem hlýst af eða fylgir starfsemi þeirra, sé farið samkvæmt gildandi lögum, reglugerðum og kröfum sveitar­félagsins. Þeir bera allan kostnað sem af meðhöndlun úrgangsins hlýst. Frágangur og umgengni um ílát, svo og flutningur á úrgangi frá fyrirtækjum, skal vera í samræmi við fyrirmæli heilbrigðisfulltrúa. Eigendum og umráðamönnum atvinnuhúsnæðis er heimilt að semja við hvern þann sem hefur tilskilin leyfi og réttindi til flutnings á úrgangi til förgunarstaðar og skal sá aðili fara að kröfum sveitarfélagsins varðandi skráningu, vigtun og skil á upplýsingum. Staðsetning sorpíláta fyrir rekstrarúrgang skal vera í samræmi við ákvarðanir umhverfissviðs, ákvæði byggingar­reglugerðar og viðkomandi deiliskipulags.

 

6. gr.

Skyldur íbúa, húsráðenda, rekstraraðila og landeigenda.

Sérhverjum húsráðanda í sveitarfélaginu, hvort sem um er að ræða húsráðanda íbúðar-, frí­stunda- eða atvinnuhúsnæðis, er skylt að endurnota eða flokka og endurnýta úrgang eins og kostur er, hvort sem slíkum úrgangi er safnað við húsnæði skv. 3.-5. gr. eða skilað til söfnunarstöðvar.

Óheimilt er að skilja eftir eða geyma úrgang á víðavangi, götum, gangstéttum eða opnum svæðum í sveitarfélaginu. Sama á við um númerslausa bíla, vélar og önnur tæki. Úrgang má einungis meðhöndla í samræmi við gildandi lög, reglugerðir og kröfur sveitarfélagsins. Úrgangi sem skilað er, skal flokka og meðhöndla eftir þeim leiðbeiningum sem sveitarfélagið hefur sett.

 

7. gr.

Gjaldtaka.

Sveitarstjórn innheimtir gjald fyrir meðhöndlun úrgangs í samræmi við 1. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Gjald skal innheimta samkvæmt gjaldskrá sem sett er í sam­ræmi við 4. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og 5. mgr. 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Við ákvörðun gjaldsins skal miða við magn úrgangs, þ.e. stærð og fjölda sorphirðuíláta, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila. Sveitarfélagi er einnig heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig. Gjald fyrir móttöku úrgangs frá fyrirtækjum og stofnunum er innheimt samkvæmt magni úrgangsins. Gjald má aldrei vera hærra en nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starf­semi, svo og við veitta þjónustu og framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum, sbr. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.

Sveitarfélagið skal láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda og skal í gjaldskránni vísa til þessarar samþykktar.

 

8. gr.

Kvartanir og kærur.

Hafi húsráðandi kvörtun fram að færa vegna sorphirðu skal hann koma henni á framfæri við rekstrarstjóra Húnaþings vestra eða framkvæmdaraðila eða Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra. Stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þessarar samþykktar eru kæranlegar til úrskurðar­­nefndar umhverfis- og auðlindamála í samræmi við 1. mgr. 67. gr. laga nr. 55/2003 um með­höndlun úrgangs.

 

9. gr.

Valdsvið, þvingunarúrræði og viðurlög.

Um valdsvið og þvingunarúrræði fer samkvæmt XVII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sbr. XIII. kafla laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

Um viðurlög fer samkvæmt XIX. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sbr. XIII. kafla laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

Heimilt er að kæra stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt þessari samþykkt til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

 

10. gr.

Gildistaka.

Samþykkt þessi er sett samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, sbr. ákvæði 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 633/2012 um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu Húnaþingi vestra.

 

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 21. desember 2020.

 

F. h. r.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

Agnar Bragi Bragason.


B deild - Útgáfud.: 11. janúar 2021