Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 94/2018

Nr. 94/2018 25. júní 2018

LÖG
um breytingu á lögum um Íslandsstofu, nr. 38/2010, með síðari breytingum (rekstrarform o.fl.).

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

1. gr.

    2. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Rekstrarform og hlutverk Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar.

    Íslandsstofa er sjálfseignarstofnun sem rekin er á einkaréttarlegum grunni með sjálfstæðri fjárhags­­ábyrgð og starfar samkvæmt sérstakri skipulagsskrá.

    Íslandsstofa, sjálfseignarstofnun, er undanþegin tekjuskatti samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, og gilda ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, ekki um starfsemi hennar.

    Upplýsingalög, nr. 140/2012, gilda um starfsemi Íslandsstofu. Lögin veita þó ekki aðgang að upp­lýsingum í fórum Íslandsstofu sem varða málefni starfsmanna hennar eða fjárhags- eða viðskipta­­hagsmuni þeirra einkaaðila sem taka þátt í verkefnum hennar.

    Hlutverk Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, er:

  1. að vera samstarfsvettvangur atvinnulífs, hagsmunasamtaka, stofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir til þess að auka útflutningstekjur og hagvöxt,
  2. að veita alhliða þjónustu og ráðgjöf til allra útflutningsgreina í því skyni að greiða fyrir markaðssetningu og útflutningi á vöru og þjónustu,
  3. að laða erlenda ferðamenn til landsins með samræmdu kynningar- og markaðsstarfi,
  4. að laða erlenda fjárfestingu til landsins, upplýsa erlenda fjárfesta um kosti Íslands og vera stjórnvöldum til ráðgjafar um það,
  5. að styðja við kynningu á íslenskri menningu, vörum og þjónustu erlendis,
  6. að annast rekstur eigna sem henni kunna að vera lagðar til og samræmast hlutverki hennar samkvæmt lögum þessum,
  7. að vinna tillögur að langtímastefnumótun atvinnulífs, hagsmunasamtaka, stofnana og stjórn­­valda, sbr. a-lið, varðandi markaðssetningu og útflutning á íslenskum vörum, þjónustu og menningu, og
  8. að hrinda í framkvæmd langtímastefnumótun skv. g-lið.

2. gr.

    Á eftir 2. gr. laganna kemur ný grein, 2. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Útflutnings- og markaðsráð.

    Starfrækt skal útflutnings- og markaðsráð.

    Hlutverk ráðsins er að marka, samþykkja og fylgjast með framkvæmd á langtímastefnumótun stjórn­valda og atvinnulífs fyrir markaðssetningu og útflutning.

    Ráðið skal taka til umfjöllunar tillögur að verkefnum sem unnin eru í samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda og tryggja að slík verkefni falli að markaðri langtímastefnu.

    Ráðherra sem fer með utanríkismál skipar 31 fulltrúa í ráðið til fjögurra ára í senn og jafnmarga til vara. Tíu skulu skipaðir án tilnefningar en 21 samkvæmt tilnefningum eftirtalinna aðila:

  1. tíu samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins,
  2. þrír samkvæmt tilnefningu ráðherra sem fer með sjávarútvegs- og landbúnaðarmál,
  3. þrír samkvæmt tilnefningu ráðherra sem fer með ferðamál og málefni iðnaðar og nýsköp­unar,
  4. þrír samkvæmt tilnefningu ráðherra sem fer með mennta- og menningarmál,
  5. einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga,
  6. einn samkvæmt tilnefningu samstarfshóps markaðsstofa landshlutanna.

    Við tilnefningar skv. a-lið 4. mgr. skal höfð hliðsjón af stærð fyrirtækja við öflun útflutn­ings­tekna. Auk fulltrúa skv. 4. mgr. skulu eiga sæti í ráðinu ráðherra sem fer með utan­ríkis­mál og er hann jafnframt formaður ráðsins, ráðherra sem fer með sjávarútvegs- og land­bún­aðar­mál, ráðherra sem fer með ferðamál og málefni iðnaðar og nýsköpunar, ráðherra sem fer með mennta- og menningar­mál og ráðherra sem fer með umhverfis- og auðlindamál ásamt fulltrúum þingflokka utan ríkisstjórnar á hverjum tíma.

    Útflutnings- og markaðsráð getur skipað starfshópa úr ráðinu um afmörkuð verkefni og skal Íslandsstofa, sjálfseignarstofnun, vera þeim til ráðgjafar.

3. gr.

    3. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Stjórn Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar.

    Í stjórn Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, sitja sjö fulltrúar sem skipaðir eru á aðalfundi til þriggja ára í senn. Ráðherra sem fer með utanríkismál tilnefnir tvo stjórnarmenn, ráðherra sem fer með ferðamál og málefni iðnaðar og nýsköpunar einn og Samtök atvinnulífsins fjóra. Varamenn skulu tilnefndir með sama hætti. Stjórnin getur samþykkt skipun áheyrnarfulltrúa. Stjórnin skiptir með sér verkum.

    Stjórnin ber ábyrgð á undirbúningi tillögu að langtímastefnumótun skv. 3. gr. a og skal á grund­velli hennar vinna framkvæmdaáætlun til sama tíma og ákveða hvernig henni verði hrundið í fram­­kvæmd. Stjórnin skal reglulega leggja mat á framkvæmd stefnunnar og grípa til aðgerða ef tilefni er til.

    Stjórnin samþykkir árlega starfs- og fjárhagsáætlun Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, og hefur eftirlit með framkvæmd hennar. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra Íslandsstofu, sjálfs­eignar­­stofn­unar, og ákveður starfskjör hans og innra skipulag starfsemi Íslandsstofu, sjálfseignar­stofnunar, og með hvaða hætti hún leitar samráðs við einstakar atvinnugreinar og starfar með þeim.

    Stjórnin boðar til aðalfundar Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, sem halda skal fyrir 1. maí ár hvert. Rétt til setu á aðalfundi eiga stofnaðilar og þeir aðilar sem tilnefna fulltrúa í stjórn Íslands­stofu og fulltrúar í útflutnings- og markaðsráði. Stjórninni er heimilt að bjóða fleirum til setu á aðal­fundi. Á aðalfundi gerir stjórnin grein fyrir stefnumótun Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, fram­kvæmd langtímastefnu og störfum sínum að öðru leyti og birtir rekstraráætlanir og ársreikn­inga.

4. gr.

    Á eftir 3. gr. laganna kemur ný grein, 3. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Langtímastefnumótun.

    Stjórn Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, skal vinna tillögu að langtímastefnu stjórnvalda og atvinnulífs fyrir útflutning sem ætlað er að stuðla að auknum útflutningstekjum og hagvexti og leggja fyrir útflutnings- og markaðsráð til umfjöllunar og samþykktar. Skal hún mörkuð til fimm ára í senn.

    Markmiðið með langtímastefnunni er að mæla heildstætt fyrir um meginmarkmið þess markaðs­starfs sem Íslandsstofa, sjálfseignarstofnun, sinnir á erlendum mörkuðum. Skal stefnan m.a. fela í sér markmið og áherslur á einstökum markaðssvæðum og varðandi einstakar atvinnu­greinar. Hún skal fela í sér mælanleg árangursmarkmið.

    Við mótun langtímastefnunnar skal hafa samráð við útflutnings- og markaðsráð skv. 2. gr. a.

5. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:

    Framkvæmdastjóri Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, annast daglega stjórn hennar og ræður starfsfólk. Ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, gilda ekki um starfsfólk Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:

  1. 2. málsl. 5. tölul. fellur brott.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

    Gerður skal þjónustusamningur til fimm ára milli ríkisins og Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, um ráðstöfun fjárveitinga hennar sem ætlaðar eru til markaðsstarfs á erlendum mörkuðum og falla innan verksviðs Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, samkvæmt lögum þessum.

7. gr.

    6. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Skipulagsskrá.

    Í skipulagsskrá, sem stjórn setur og staðfestir, skal kveðið á um rekstur Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, þ.m.t. um starfsemi og skipulag hennar.

8. gr.

    Í stað ákvæða til bráðabirgða IIII í lögunum koma fjögur ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

  1. (I.)
     
        Stjórn Íslandsstofu starfar til bráðabirgða fram að stofnfundi 1. september 2018 þegar ný stjórn er skipuð í samræmi við ákvæði 3. gr. Stjórnin skal undirbúa stofnun Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, og boða til stofnfundar hennar. 

        Á stofnfundi Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, 1. september 2018, skulu eignir og skuld­­bindingar Íslandsstofu renna til hinnar nýju sjálfseignarstofnunar sem tekur við rétt­indum og skyldum Íslandsstofu. Þá er Íslandsstofu, sjálfseignarstofnun, heimilt að taka við eignum sem henni kunna að verða lagðar til og samræmast hlutverki hennar skv. 2. gr. og annast rekstur þeirra.

        Stofnaðilar Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar, skulu á stofnfundi 1. september 2018 taka ákvörðun um starfsemi og skipulag hennar í skipulagsskrá skv. 6. gr. Ný stjórn Íslandsstofu skal 1. desember 2018 leggja fram fyrstu tillögu að langtímastefnu stjórnvalda og atvinnulífs fyrir útflutning skv. 3. gr. a og skal sú stefna gilda til loka árs 2023.

  2. (II.) 

        Þjónustusamningur skv. 2. mgr. 5. gr. skal liggja fyrir eigi síðar en 1. september 2018.

  3. (III.) 

        Ráðherra skal gera úttekt innan þriggja ára á starfsemi Íslandsstofu og útflutnings- og markaðsráðs auk þess sem lagt skal mat á hvort markmið laganna hafi náð fram að ganga. Þjónustusamning skv. 5. gr. skal ekki endurgera fyrr en að lokinni slíkri úttekt.

  4. (IV.) 

        Ráðherra skal skipa starfshóp í samráði við forsætisráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra þar sem eiga m.a. sæti sérfræðingar þeirra ráðuneyta. Starfshópnum skal falið að undirbúa lagasetningu um nýtt félagaform sem taki til starfsemi stjórnvalda og atvinnulífs, líkt og í tilfelli Íslandsstofu. Tilgangur þeirrar lagasetningar er að skýra lagaumgjörð félagaforms stjórnvalda og atvinnulífs.

9. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um Íslandsstofu, sjálfseignarstofnun.

10. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. 3., 4., 5. og 7. gr. koma þó ekki til framkvæmda fyrr en 1. sept­ember 2018.

Gjört á Bessastöðum, 25. júní 2018.

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Guðlaugur Þór Þórðarson.


A deild - Útgáfud.: 29. júní 2018